Ferill 123. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 356  —  123. mál.




Svar



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Rannveigar Guðmundsdóttur um heilsugæslulækna á höfuðborgarsvæðinu.

     1.      Hve margir heimilis- og heilsugæslulæknar eru starfandi samtals á höfuðborgarsvæðinu?
    Á höfuðborgarsvæðinu starfa alls 96 heimilis- og heilsugæslulæknar, þar af eru 16 sjálfstætt starfandi heimilislæknar.

     2.      Hve margir starfa við hverja heilsugæslustöð í Mosfellsbæ, á Seltjarnarnesi, í Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði?
    Eftirfarandi yfirlit sýnir fjölda starfandi heilsugæslulækna við hverja heilsugæslustöð á höfuðborgarsvæðinu. Að auki eru 16 sjálfstætt starfandi heimilislæknar í Reykjavík.

Reykjavík Kópavogur Garðabær Hafnarfjörður Seltjarnarnes Mosfellsbær
39 11 5,5 10,5 9 5

     3.      Hversu mörgum íbúum er hverjum lækni ætlað að sinna?
    Ekki eru fastar reglur um fjölda þeirra íbúa, sem hverjum lækni er ætlað að sinna en algeng viðmiðun er 1.500 til 1.750 manns. Samkvæmt úrskurði kjaranefndar er þessi fjöldi breytilegur eftir landshlutum og er hann minnstur í dreifbýli 1.000 manns. Þessi fjöldi er þó mun minni í sumum héruðum, allt niður í tæplega 500 manns. Úrskurður kjaranefndar gerir ráð fyrir að fjöldinn geti farið í allt að 2.400 manns, en áður voru dæmi þess að heilsugæslulæknar væru með allt að 3.000 manns á skrá hjá sér. Stærðir heilsugæslusvæða, íbúadreifing, aldursdreifing, aðgengi að annarri heilbrigðisþjónustu og fleiri þættir hafa afgerandi áhrif á þann fjölda íbúa sem hverjum lækni er ætlað að þjóna.

     4.      Hversu margar nýjar stöður heilsugæslulækna hafa verið heimilaðar af hálfu heilbrigðisráðuneytisins á árunum 2000 og 2001?
    Á fjárlögum ársins 2000 var rekstrarstaða heilbrigðisstofnana bætt verulega í kjölfar úttektar Ríkisendurskoðunar á stöðu stofnana. Það ár var rekstrarstaða heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu bætt um rúmar 280 millj. kr. utan verðlagshækkana í fjárlögum. Auk þess voru veittar 10 millj. kr. til Heilsugæslunnar í Reykjavík vegna aukinnar starfsemi í nýjum heilsugæslustöðvum við Efstaleiti og í Grafarvogi.
    Á fjárlögum ársins 2001 voru veittar heimildir fyrir þremur stöðugildum heilsugæslulækna í Grafarvogi, en heilsugæslustöðin í Grafarvogi mun bráðlega flytjast í nýtt og stærra húsnæði. Einnig var veitt heimild fyrir hálfu stöðugildi heilsugæslulæknis í heilsugæslustöð Hlíðasvæðis og tveimur stöðugildum heilsugæslulækna í Kópavogi.

     5.      Hve mörgum stöðum heilsugæslulækna var óskað eftir í fjárlagatillögum heilsugæslustöðvanna á umræddu svæði fyrir árin 2000, 2001 og 2002?
    Í fjárlagatillögum ársins 2000 var óskað eftir heimildum til að ráða í 12 stöður heilsugæslulækna, 11 stöður heilsugæslulækna í fjárlagatillögum ársins 2001 og í 15,5 stöður heilsugæslulækna í fjárlagatillögum ársins 2002.

     6.      Hvað áformar heilbrigðisráðuneytið að veita leyfi fyrir mörgum nýjum stöðum heilsugæslulækna á næsta ári?
    Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2002 er 37 millj. kr. framlag á óskiptum lið ráðuneytisins til að styrkja heilsugæsluna, auka þjónustu og stytta biðtíma, einkum á höfuðborgarsvæðinu. Þessi liður verður notaður til að styrkja stöðu heilsugæslunnar m.a. með því að fjölga heilsugæslulæknum en endanlegur fjöldi er ekki ákveðinn enda er ætlunin að styrkja fleiri þætti heilsugæslunnar.