Ferill 108. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 544  —  108. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Guðmundar Árna Stefánssonar um störf hjá hinu opinbera.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hefur störfum hjá hinu opinbera, ríki og sveitarfélögum ellegar hlutafélögum sem þessir aðilar eiga 30% eða meira í, fjölgað eða fækkað frá árinu 1995?
     2.      Hversu mörg eru þessi störf til fjölgunar eða fækkunar frá árinu 1995, sundurliðað eftir árum?
     3.      Í hvaða atvinnugreinum og hjá hvaða aðilum hafa þessi störf helst verið?
     4.      Hversu mikið, á föstu verðlagi, hafa launaútgjöld aukist eða minnkað á þessu tímabili, sundurliðað eftir árum?


    Verulegir annmarkar eru á að hægt sé að veita nákvæm svör við þeim spurningum sem fram eru bornar í fyrirspurninni. Tölfræðiupplýsingar um greiningu starfa á vinnumarkaði voru áður unnar af launamiðum sem fylgdu skattframtölum einstaklinga en nokkur ár eru síðan tölfræðivinnsla úr þeim var aflögð. Ekki eru til nákvæmar upplýsingar um greiningu starfa á vinnumarkaði eftir atvinnugreinum. Tiltækar upplýsingar um skiptingu starfa eftir atvinnugreinum eru einkum vinnumarkaðskannanir Hagstofu Íslands og kannanir Þjóðhagsstofnunar á ástandi vinnumarkaðarins. Svör við fyrirspurninni eru byggð á upplýsingum frá fjármálaráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Þjóðhagsstofnun og Hagstofu Íslands.
    Forsætisráðuneytið mun beita sér fyrir því að unnar verði upplýsingar um greiningu starfa á vinnumarkaði úr þeim gögnum sem tiltæk eru.

Breytingar á starfsmannafjölda.
    Þjóðhagsstofnun telur að ársverkum hjá hinu opinbera hafi fjölgað um rúm 7% á tímabilinu 1995–2000. Sú niðurstaða byggist á hagrænni flokkun starfa, þar sem t.d. starfsemi á borð við póstþjónustu og orkuveitur teljast ekki til opinberrar starfsemi. Til samanburðar má nefna að fjölgun starfa á landinu í heild nemur 13% á sama tímabili, svo að ljóst er að almenn fjölgun starfa er hlutfallslega meiri en fjölgun starfa hjá hinu opinbera á tímabilinu 1995–2000.
    Samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofu Íslands hafa orðið breytingar á fjölda starfandi einstaklinga í atvinnugreinum þar sem hið opinbera er fyrirferðarmest og nemur fjölgun þar 2,7% á því tímabili sem spurt er um, 1995–2000. Þar með er talin opinber stjórnsýsla, fræðslustarfsemi og heilbrigðis- og félagsþjónusta, en sumir þeirra sem starfa í tveimur síðasttöldu flokkunum starfa ekki hjá hinu opinbera. Á hinn bóginn er að finna opinbera starfsmenn í öðrum flokkum en þessum. Því er ljóst að það er verulegum annmörkum háð að veita umbeðnar upplýsingar á grundvelli vinnumarkaðskannana Hagstofu Íslands.

Störf hjá ríkinu.
    Í tilefni af fyrirspurninni var tekin saman eftirfarandi tafla sem sýnir greiningu ársverka hjá ríkinu 1995–2000. Svarað er fyrir starfsmenn ríkisins sem fá greidd laun samkvæmt launavinnslukerfi ríkisins, sem vistað er hjá Ríkisbókhaldi. Í launavinnslukerfið vantar starfsmenn Sjúkrahúss Reykjavíkur (fyrst meðtaldir árið 2001, en ríkið yfirtók reksturinn 1999), starfsmenn sjúkrahúsa utan Reykjavíkur, starfsmenn sem starfa við heilsugæslu og málefni fatlaðra hjá tilraunasveitarfélögum, auk starfsmanna Byggðastofnunar, Lánasýslu ríkisins, Seðlabanka Íslands, Þjóðhagsstofnunar og nokkurra annarra stofnana. Störf samkvæmt töflunni eru skilgreind sem ársverk.

Tafla 1. Greining ársverka.
1995 1996 1997 1998 1999 2000
Starfsmenn ríkisins, alls 19.012 18.163 13.850 13.983 14.223 14.194
Breyting frá 1995 til 2000 -25,3%
Breyting frá fyrrra ári - 4,5% -23,7% 1,0% 1,7% -0,2%
Helstu breytingar:

- Flutningur grunnskóla til sveitarfélaga -3.528 *
- Pósti og síma breytt í hlutafélag -2.220 **
Samtals - 5.784

*    Meðalársverkafjöldi á mánuði á tímabilinu frá janúar til júlí 1996. Flutningur fór fram 1. ágúst 1996.
**    Meðalársverkafjöldi á mánuði árið 1996. Breyting tók gildi 1. janúar 1997.
Heimild: Fjármálaráðuneyti.

Störf hjá sveitarfélögum.
    Leitað var eftir upplýsingum um fjölda starfsmanna sveitarfélaganna hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Í svari sambandsins, sem byggist á upplýsingum frá sveitarfélögunum, kemur fram að stöðugildum hefur fjölgað um 6,4% frá ársbyrjun 1996 til ársbyrjunar 2000. Er þá reiknað með því að 3.216 kennarar hafi verið að störfum hjá sveitarfélögunum í ársbyrjun 1996 þótt þeir hafi ekki verið fluttir til sveitarfélaganna fyrr en að hausti þess árs. Sjúkrahús Reykjavíkur fluttist frá Reykjavíkurborg og sameinaðist Ríkisspítulum árið 1999. Hefðu þeir 1.468 starfsmenn sem þá fluttust til ríkisins áfram verið taldir til starfsmanna sveitarfélaga hefði það þýtt 17% fjölgun starfsmanna sveitarfélaganna á tímabilinu, að öðru óbreyttu.
    Í töflunni hér að neðan eru meðtaldir starfsmenn sem ekki teljast opinberir starfsmenn samkvæmt hagrænum skilgreiningum, svo sem starfsmenn veitufyrirtækja.

Tafla 2. Fjöldi stöðugilda hjá sveitarfélögum.
1. janúar 1996 1. janúar 2000
Starfsmenn sveitarfélaga alls 13.915* 14.812**
*     Hér eru taldir með 3.216 grunnskólakennarar
**     Hér eru ekki taldir með 1.468 starfsmenn hjá Sjúkrahúsi Reykjavíkur sem fluttust til ríkisins 1999.
Heimild: Samband íslenskra sveitarfélaga.

Störf hjá hlutafélögum í eigu ríkisins.
    Eftirfarandi er tafla sem sýnir fjölda starfsmanna hjá þeim hlutafélögum þar sem ríkið á 30% eða stærri eignarhluta á því tímabili sem spurt er um. Hér er eingöngu um að ræða hlutafélög með beinni eignaraðild ríkisins, en ekki hlutafélög sem önnur hlutafélög, sjóðir eða stofnanir í eigu ríkisins kunna að eiga. Eingöngu eru tilgreind hlutafélög sem höfðu 40 starfsmenn eða fleiri á launaskrá.

Tafla 3. Fjöldi stöðugilda hjá hlutafélögum með 30% eða stærri eignaraðild ríkisins.
1995 1996 1997 1998 1999 2000 2001
Íslandspóstur 1.045 1.356 1.301 1.150
Landssíminn 1.179 1.217 1.238 1.279
Landsbanki Íslands 956 956 909 896
Búnaðarbanki Íslands 545 574 617 676
Landsvirkjun 329 336 347 369 371 362 370
Íslenskir aðalverktakar 250 280 368 414 622 822 558
Steinullarverksmiðjan 44 44 44 44 44 44 44
Kísiliðjan 52 52 52 51 52 50 50
Skráningarstofan 23 26 32 37 41
Fríhöfn Keflavík 123 114
FBA 69
Sementsverksmiðjan 88 87 87 94 88 85 81
Íslenska járnblendifélagið 144 146 146 145 163 162 146
Áburðarverksmiðjan 105 98 93 87
Orkubú Vestfjarða 58 58 54 52 53 54 54
Samtals 1.070 1.101 1.214 5.076 5.528 5.803,2 5.458,2
Heimild: Fjármálaráðuneyti.

Störf hjá hlutafélögum í eigu sveitarfélaga.
    Engar upplýsingar eru tiltækar um fjölda starfsmanna hlutafélaga í eigu sveitarfélaganna.     
Fjöldi starfa.
    Tafla 1 sýnir þróun fjölda starfsmanna ríkisins og tafla 3 sýnir þróun fjölda starfsmanna hlutafélaga í eigu ríkisins, sbr. skýringar með hvorri töflu. Ekki eru tiltækar upplýsingar um þróun fjölda starfsmanna sveitarfélaga eða hlutafélaga í eigu þeirra frá ári til árs.
    Ekki eru heldur tiltækar upplýsingar um þróun starfsmannafjölda í einstökum greinum opinberrar þjónustu en starfsmönnum hefur fjölgað hjá sveitarfélögunum og fækkað hjá ríkinu, sbr. töflurnar hér að framan.

Breytingar á launaútgjöldum.
    Tafla 4 sýnir laun og launatengd gjöld í samneyslu fyrir árin 1995–2000 fyrir hið opinbera, ríki og sveitarfélög. Upplýsingar um launaútgjöld hlutafélaga eru ekki tiltækar.
    Samtals hefur launakostnaður hins opinbera í samneyslu aukist úr 58 milljörðum kr. árið 1995 í 100 milljarða kr. árið 2000. Það er aukning um 14,2% á föstu verðlagi.
    Launagjöld sveitarfélaga vegna samneyslu hafa hækkað úr 13,7 millj. kr. árið 1995 í 36,0 millj. kr. árið 2000 á verðlagi hvors árs, en samsvarandi hækkun fyrir ríkið er frá 41,8 millj. kr. í 60,1 millj. kr. Hlutdeild sveitarfélaga í launagjöldum í samneyslu var 36,0% árið 2000 en var 23,7% árið 1995. Sem áður segir vegur flutningur grunnskóla og sjúkrahússtarfsmanna þyngst í þessum breytingum. Bæði hjá ríki og sveitarfélögum vinna starfsmenn sem ekki eru taldir til opinberra starfsmanna.

Tafla 4. Laun og tengd gjöld í samneyslu, á verðlagi hvers árs.


Laun og tengd gjöld, millj. kr.


Breyting frá fyrra ári, %
Breyting á launum opinberra starfsmanna í launavísitölu, % Breyting á launum opinberra starfsmanna umfram breytingu á launavísitölu, %
Alls*
1995 58.045 . . .
1996 63.522 9,4 8,2 1,1
1997 69.610 9,6 4,8 4,6
1998 82.863 19,0 14,3 4,1
1999 áætlað 89.813 8,4 8,8 -0,4
2000 áætlað 99.912 11,2 8,1 2,9
1995–2000 12,9
Ríki
1995 41.838 . . .
1996 43.108 3,0 8,2 -4,8
1997 42.062 -2,4 4,8 -6,9
1998 51.478 22,4 15,0 6,4
1999 áætlað 54.500 5,9 8,8 -2,7
2000 áætlað 60.093 10,3 8,1 2,0
1995–2000 -6,3
Sveitarfélög
1995 13.765 . . .
1996 17.860 29,7 8,2 19,9
1997 24.861 39,2 4,8 32,8
1998 28.260 13,7 13,0 0,6
1999 áætlað 31.977 13,2 8,8 4,0
2000 áætlað 35.950 12,4 8,1 4,0
1995–2000 73,3
*    Almannatryggingar meðtaldar.
Byggt á gögnum Þjóðhagsstofnunar um laun í samneyslu og launavísitölu Hagstofu Íslands fyrir opinbera starfsmenn.