Ferill 427. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 687  —  427. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á almennum hegningarlögum og lögum um refsiábyrgð lögaðila vegna mútugreiðslu til opinbers starfsmanns (hryðjuverk).

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


I. KAFLI
Breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940.
1. gr.

    Við 6. gr. laganna, sbr. lög nr. 44/2001, bætast tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
     13.      Fyrir háttsemi sem greinir í alþjóðasamningi um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar frá 15. desember 1997.
     14.      Fyrir háttsemi sem greinir í alþjóðasamningi um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi frá 9. desember 1999.


2. gr.

    Á eftir 100. gr. koma þrjár nýjar greinar, 100. gr. a – 100. gr. c, svohljóðandi:

    a. (100. gr. a.)
    Fyrir hryðjuverk skal refsa með allt að ævilöngu fangelsi hverjum sem í þeim tilgangi að valda almenningi verulegum ótta eða þvinga með ólögmætum hætti íslensk eða erlend stjórnvöld eða alþjóðastofnun til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert eða í því skyni að veikja eða skaða stjórnskipun eða stjórnmálalegar, efnahagslegar eða þjóðfélagslegar undirstöður ríkis eða alþjóðastofnunar fremur eitt eða fleiri af eftirtöldum brotum, þegar verknaðurinn í ljósi eðlis hans eða með hliðsjón af aðstæðum þegar og þar sem hann er framinn getur skaðað ríki eða alþjóðastofnun alvarlega:
     1.      manndráp skv. 211. gr.,
     2.      líkamsárás skv. 218. gr.,
     3.      frelsissviptingu skv. 226. gr.,
     4.      raskar umferðaröryggi skv. 1. mgr. 168. gr., truflar rekstur almennra samgöngutækja o.fl. skv. 1. mgr. 176. gr., eða veldur stórfelldum eignaspjöllum skv. 2. mgr. 257. gr. og þessi brot eru framin á þann hátt að mannslífum sé stefnt í hættu eða valdið miklu fjárhagslegu tjóni,
     5.      flugrán skv. 2. mgr. 183. gr. eða veitist að mönnum sem staddir eru í flughöfn ætlaðri alþjóðlegri flugumferð skv. 3. mgr. 183. gr.,
     6.      brennu skv. 2. mgr. 164. gr., veldur sprengingu, útbreiðslu skaðlegra lofttegunda, vatnsflóði, skipreika, járnbrautar-, bifreiðar- eða loftfarsslysi eða óförum annarra slíkra farar- eða flutningatækja skv. 1. mgr. 183. gr., veldur almennum skorti á drykkjarvatni eða setur skaðleg efni í vatnsból eða vatnsleiðslur skv. 1. mgr. 170. gr. eða lætur eitruð eða önnur hættuleg efni í muni sem ætlaðir eru til sölu eða almennrar notkunar skv. 1. mgr. 171. gr.
    Sömu refsingu skal sá sæta sem í sama tilgangi hótar að fremja þau brot sem talin eru í 1. mgr.

    b. (100. gr. b.)
    Hver sem beint eða óbeint styður mann, félag eða hóp, sem fremur eða hefur þann tilgang að fremja hryðjuverk skv. 100. gr. a, með því að leggja fram fé eða veita annan fjárhagslegan stuðning, útvega eða safna saman fjármagni eða með öðrum hætti að gera fjármagn aðgengilegt skal sæta fangelsi í allt að 10 ár.

    c. (100. gr. c.)
    Hver sem með liðsinni í orði eða verki, fortölum, hvatningum eða á annan hátt styður refsiverða starfsemi eða sameiginlegt markmið félags eða hóps, sem framið hefur eitt eða fleiri brot gegn 100. gr. a eða 100. gr. b, og starfsemin eða markmiðin fela í sér að eitt eða fleiri slík brot séu framin, skal sæta fangelsi allt að 6 árum.

II. KAFLI
Breyting á lögum um refsiábyrgð lögaðila vegna mútugreiðslu
til opinbers starfsmanns, nr. 144 22. desember 1998.

3. gr.

    Á eftir 1. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi:
    Nú er í starfsemi lögaðila framið brot gegn 100. gr. a – 100. gr. c almennra hegningarlaga og er þá heimilt að gera lögaðilanum fésekt.

4. gr.


    Heiti laganna verður: Lög um refsiábyrgð lögaðila vegna mútugreiðslna og hryðjuverka.

III. KAFLI
Gildistaka.
5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I.    Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í refsiréttarnefnd að tilhlutan og í samvinnu við dómsmálaráðuneytið. Markmið frumvarpsins er að gera nauðsynlegar breytingar á lögum til þess að íslenska ríkið uppfylli skuldbindingar samkvæmt þremur alþjóðasamþykktum á vegum Sameinuðu þjóðanna gegn hryðjuverkum. Þetta eru alþjóðasamningur um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar frá 15. desember 1997, alþjóðasamningur um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi frá 9. desember 1999 og ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1373 frá 28. september 2001. Lagt er til að breytt verði ákvæðum almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, og laga um refsiábyrgð lögaðila vegna mútugreiðslu til opinbers starfsmanns, nr. 144/1998.
    Jafnframt því sem þetta frumvarp er flutt er borin fram af utanríkisráðherra tillaga til þingsályktunar um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að fullgilda framangreinda tvo alþjóðasamninga.
    Hryðjuverkin sem voru framin í Bandaríkjunum 11. september 2001 hafa kallað á hörð viðbrögð ríkja heims og hvatt þau til að leita allra tiltækra leiða til þess að vernda öryggi borgara og efla varnir gegn hryðjuverkum. Hryðjuverk og hryðjuverkastarfsemi eru orðin ein mesta vá sem steðjar að heimsfriði. Hryðjuverkin í Bandaríkjunum vöktu ríki enn á ný til vitundar um þessa miklu ógn og það gífurlega manntjón og eignatjón sem hryðjuverk geta valdið. Einnig hafa þær aðferðir sem hryðjuverkamenn beita vakið sérstakan ugg þar sem þeir hika ekki við að tortíma sjálfum sér til þess að ná fram markmiðum sínum. Af því leiðir að hefðbundin sjónarmið um varnaðaráhrif þess að leggja þungar refsingar við hryðjuverkum gagnvart þeim sem fremja þau eiga ekki við með sama hætti og áður. Einnig veldur áhyggjum að skipulögð starfsemi hryðjuverkahópa teygir sig til margra ríkja í senn, heimshorna á milli og mikið fjármagn virðist streyma til hennar. Þrátt fyrir að ýmsar alþjóðlegar samþykktir hafi verið gerðar og löggjöf breytt til að sporna við hryðjuverkum endurskoða nú flest ríki, einkum á Vesturlöndum, löggjöf sína í því skyni að setja þar markvissari úrræði í baráttunni gegn hryðjuverkum, ekki aðeins gagnvart gerendum sjálfum heldur einnig þeim sem leggja hryðjuverkastarfsemi lið, t.d. með fjármögnun hennar. Er því talin rík þörf á að setja refsilöggjöf, sem kveður skýrt á um að fjármögnun hryðjuverkastarfsemi sé sjálfstæður refsiverður verknaður, og reglur um skyldur fjármálastofnana þegar grunur leikur á fjármögnun hryðjuverkastarfsemi. Einnig hefur verið talin ástæða til þess að endurskoða löggjöf um rannsóknarheimildir lögreglu og alþjóðlega lögreglusamvinnu, reglur um framsal og alþjóðlega réttaraðstoð svo og útlendingalöggjöf til að fjölga úrræðum í baráttunni gegn hryðjuverkum, þó með þeim fyrirvara að ekki verði farið á svig við gildandi reglur um mannréttindi.
    Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru sambærilegar við endurskoðun laga sem nú á sér stað annars staðar á Norðurlöndum. Sú endurskoðun felur í sér nauðsynlegar lagabreytingar til þess að unnt verði að fullgilda fyrrgreinda tvo alþjóðasamninga Sameinuðu þjóðanna gegn hryðjuverkum og koma í framkvæmd ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr.1373 (2001) sem fjallar aðallega um leiðir til þess að sporna við fjármögnun hryðjuverkastarfsemi.
    Frumvarp þetta sækir fyrirmynd sína að mestu leyti til lagafrumvarps danska dómsmálaráðuneytisins um sama efni. Tillögur þessa frumvarps fela í sér að verknaðurinn hryðjuverk verði skilgreindur í refsilögum og þau talin til alvarlegustu afbrota auk þess sem fjárhagslegur stuðningur við hryðjuverkastarfsemi verði gerður sjálfstætt refsivert brot. Þá er lagt til að lögfest verði heimild til að refsa lögaðila fyrir slík brot sem framin eru í starfsemi þeirra. Þess má geta að í danska lagafrumvarpinu um sama efni eru ráðgerðar, auk fyrrgreindra atriða, margvíslegar breytingar á lögum um meðferð opinberra mála. Með þeim er stefnt að auknum heimildum lögreglunnar til ýmissa rannsóknaraðgerða, t.d. leynilegs eftirlits með mönnum, aðgangs að upplýsingum um tölvusamskipti, leitar á mönnum og í húsum o.fl. Slíkar breytingar eru ekki lagðar til í lagafrumvarpi þessu en þær verða skoðaðar nánar í tengslum við heildarendurskoðun á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991. Hafa ber í huga að þær heimildir sem þegar eru til staðar á þessu sviði hér á landi eru að sumu leyti rýmri en í danskri löggjöf og því alls óvíst að nauðsynlegt sé að breyta þeim að þessu leyti til að veita lögreglu aukið svigrúm til rannsóknaraðgerða.
    Verði frumvarpið að lögum leysir það einnig af hólmi að hluta til auglýsingu nr. 867 frá 14. nóvember 2001, um ráðstafanir til að framfylgja ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1373 (2001) um aðgerðir til að hindra fjármögnun hryðjuverka o.fl. Var auglýsingin birt á grundvelli laga nr. 5/1969, um framkvæmd fyrirmæla öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, sem gerir kleift að koma slíkum ályktunum í framkvæmd með skjótum hætti. Frumvarp til laga til þess að koma í framkvæmd ákvæðum ályktunarinnar sem varða skyldur fjármálastofnana er nú í undirbúningi hjá viðskiptaráðuneytinu, auk annarra breytinga sem ráðgerðar eru á löggjöf um peningaþvætti og skyldur fjármálastofnana.
    Þess má geta að Norðmenn fóru þá leið að koma ákvæðum ályktunar nr. 1373 (2001) og alþjóðasamningi Sameinuðu þjóðanna um varnir gegn fjármögnun hryðjuverkastarfsemi í framkvæmd með sérstakri tilskipun frá 2. október 2001. Unnið er að nánari undirbúningi laga í Noregi til að fullgilda samninginn um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverka.

II.    Alþjóðleg samvinna gegn hryðjuverkum og aðild Íslands að alþjóðasamningum á því sviði.
    Margvísleg alþjóðleg samvinna til þess að sporna við hryðjuverkum hefur farið fram á undanförnum áratugum og hafa ýmsir alþjóðlegir samningar verið gerðir á því sviði. Hafa þeir bæði verið almenns eðlis, t.d. um skilgreiningu tiltekinna hryðjuverkaaðferða og sértækir, þ.e. til verndar ákveðnum sviðum eða starfsemi þar sem reynslan sýnir að sérstök hætta er á hryðjuverkum. Hér á eftir verður lýst stuttlega tveimur meginsviðum alþjóðasamstarfs þar sem gerðir hafa verið alþjóðlegir samningar og aðrar samþykktir varðandi hryðjuverkastarfsemi og jafnframt lýst þátttöku íslenska ríkisins í slíku samstarfi. Íslenska ríkið er þegar aðili að langflestum þessum samþykktum og hafa ýmsar lagabreytingar verið gerðar til þess að uppfylla skuldbindingar sem þar er kveðið á um.

1.     Alþjóðleg samvinna á vegum Sameinuðu þjóðanna.
    Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hafa verið gerðir nokkrir grundvallarsamningar til þess að berjast gegn hryðjuverkum. Sérstök áhersla hefur verið lögð á að vernda öryggi flugsamgangna sem stafar sérstök hætta af hryðjuverkum eins og mörg dæmi sanna, nú síðast atburðirnir í Bandaríkjunum. Hér á eftir verða samningarnir taldir upp, en jafnframt verður lýst hvernig aðild Íslands að þeim er háttað og birtingu þeirra í C-deild Stjórnartíðinda.
     1.      Samningur varðandi lögbrot og aðra verknaði í loftförum frá 14. september 1963 (Tokyo samningurinn)/Convention on Offences and Certain Other Acts Committed on Board Aircraft. Aðild Íslands er frá 16. mars 1970, sbr. auglýsingu í C-deild nr. 11/1970.
     2.      Samningur um að koma í veg fyrir ólöglega töku loftfara frá 16. desember 1970 (Haag-samningurinn)/Convention for the Suppression of Unlawful Seizure of Aircraft. Aðild Íslands er frá 29. júní 1973, sbr. auglýsingu í C-deild nr. 12/1973.
     3.      Samningur um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi flugsamgangna frá 23. september 1971 (Montreal-samningurinn)/Convention for the Suppression of Unlawful Acts against the Safety of Civil Aviation. Aðild Íslands er frá 29. júní 1973, sbr. auglýsingu í C-deild nr. 13/1973.
     4.      Samningur um verndarráðstafanir og refsingar vegna glæpa gegn einstaklingum er njóta alþjóðlegrar verndar, þar á meðal sendierindrekum, frá 14. desember 1973/Convention on the Prevention and Punishment of Crimes against Internationally Protected Persons, including Diplomatic Agents. Aðild Íslands er frá 2. ágúst 1977, sbr. auglýsingu í C-deild nr. 15/1977.
     5.      Alþjóðasamningur um varnir gegn töku gísla frá 17. desember 1979/International Convention against the Taking of Hostages. Aðild Íslands er frá 6. júlí 1981, sbr. auglýsingu í C-deild nr. 17/1981 og nr. 3/1983.
     6.      Alþjóðasamningur um gæslu kjarnorkuefna frá 3. mars 1980/Convention on the Physical Protection of Nuclear Material. Íslenska ríkið er ekki aðili að þessum samningi.
     7.      Bókun til að koma í veg fyrir ofbeldisverk á flugvöllum fyrir almenna alþjóðlega flugumferð frá 24. febrúar 1988/Protocol for the Suppression of Unlawful Acts of Violence at Airports Serving International Civil Aviation. Bókunin er viðauki við Montreal-samninginn um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi flugsamgangna. Aðild Íslands er frá 9. maí 1990, sbr. auglýsingu í C-deild nr. 9/1990.
     8.      Samningur um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi skipa í siglingum á sjó frá 10. mars 1988/Convention for the Suppression of Unlawful Acts against the Safety of Maritime Navigation. Íslenska ríkið er ekki aðili að þessum samningi.
     9.      Samningur um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi botnfastra mannvirkja á landgrunninu frá 10. mars 1988/Protocol for the Suppression of Unlawful Acts against the Safety of Fixed Platforms located on the Continental Shelf. Íslenska ríkið er ekki aðili að þessum samningi.
     10.      Samningur um merkingar á plastsprengiefni til auðkenningar á því frá 1. mars 1991/ Convention on the Marking of Plastic Explosives for the Purpose of Detection. Íslenska ríkið er ekki aðili að þessum samningi.
     11.      Alþjóðasamningur um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar frá 15. desember 1997/International Convention for the Suppression of Terrorist Bombings. Samningurinn var undirritaður af Íslands hálfu 28. september 1998. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar þannig að fullgilda megi samninginn og er hann birtur í íslenskri þýðingu sem fylgiskjal I með því.
     12.      Alþjóðasamningur um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverka frá 9. desember 1999/International Convention for the Suppression of the Financing of Terrorism. Samningurinn var undirritaður af Íslands hálfu 1. október 2001. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar þannig að fullgilda megi samninginn og er hann birtur í íslenskri þýðingu sem fylgiskjal II með því.
    Samkvæmt tillögu til þingsályktunar um fullgildingu alþjóðasamnings um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar og alþjóðasamnings um að koma í veg fyrir hryðjuverkastarfsemi, sem utanríkisráðherra hefur lagt fyrir Alþingi, er gert ráð fyrir að framangreindir samningar sem Ísland er ekki aðili að verði fullgiltir af Íslands hálfu vorið 2002. Dómsmálaráðherra mun leggja fram frumvörp til lagabreytinga til að skapa skilyrði fyrir fullgildingu umræddra samninga, eftir því sem þörf er á.
    Í kjölfar hryðjuverkanna sem framin voru í Bandaríkjunum 11. september 2001 var öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kallað saman. Með ályktun öryggisráðsins nr. 1368 (2001) voru hryðjuverkin í Bandaríkjunum fordæmd og aðildarríki að Sameinuðu þjóðunum hvött til þess að vinna sameiginlega að því að leita uppi þá sem stóðu á bak við þau. Einnig voru ríki hvött til þess að fullgilda þegar alla fyrirliggjandi alþjóðasamninga gegn hryðjuverkum sem þau væru ekki þegar aðilar að.
    28. september 2001 samþykkti öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ályktun nr. 1373 (2001) um aðgerðir gegn hryðjuverkum sem áður er getið. Ályktunin er samþykkt á grundvelli VII. kafla stofnskrár Sameinuðu þjóðanna sem heimilar ráðinu að taka ákvarðanir vegna sérstakrar nauðsynjar til að tryggja frið þegar heimsfriði er talið stefnt í hættu. Ályktunin er þjóðréttarlega skuldbindandi fyrir íslenska ríkið með sama hætti og alþjóðasamningur sem hefur verið fullgiltur af þess hálfu. Í henni eru margvíslegar skyldur lagðar á ríki að grípa til aðgerða til að uppræta hryðjuverkastarfsemi. Verður aðgerðum þessum og efni ályktunarinnar að öðru leyti nánar lýst í III. kafla.
    Hryðjuverk hafa undanfarin ár oftsinnis komið til umræðu á vettvangi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og hefur það samþykkt ályktanir sem beinast sérstaklega að hryðjuverkastarfsemi í skjóli talibanastjórnarinnar í Afganistan. 15. október 1999 samþykkti öryggisráðið ályktun nr. 1267 (1999) um aðgerðir gegn liðsmönnum stjórnar talibana í Afganistan og 19. desember 2000 var samþykkt ályktun nr. 1333 (2000) um aðgerðir gegn talibönum í Afganistan og hryðjuverkasveitum sem hafa aðsetur í Afganistan. Er í ályktununum m.a. kveðið á um skyldu ríkja til að stöðva eða koma í veg fyrir hvers konar fjármagnsflutning til einstaklinga, félaga eða stofnana sem tilgreindar eru í ályktuninni. Íslenska ríkið kom ályktunum þessum í framkvæmd með auglýsingu nr. 776 frá 15. október 2001, sbr. 3. gr. laga nr. 5/1969, um framkvæmd fyrirmæla öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Skv. 1. gr. laganna heimilar Alþingi ríkisstjórninni að gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar kunna að vera til þess að framfylgja ákvörðunum sem öryggisráð Sameinuðu þjóðanna tekur skv. 41. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. 39. gr. sáttmálans, og Íslandi kann að vera skylt að hlíta vegna aðildar sinnar að Sameinuðu þjóðunum. Á sama grundvelli var sem áður segir birt sérstök auglýsing, nr. 867/2001, til þess að koma í framkvæmd með skjótum hætti ályktun öryggisráðsins nr. 1373 (2001) en verði frumvarp þetta að lögum leysa þau af hólmi þá þætti auglýsingarinnar sem varða refsiákvæði vegna fjármögnunar hryðjuverkastarfsemi.

2.     Evrópusamvinna gegn hryðjuverkum og um gagnkvæma réttaraðstoð.
    Evrópuríki hafa komið á margvíslegri samvinnu til þess að berjast gegn hryðjuverkum, fyrst á vettvangi Evrópuráðsins en á síðari árum einnig á vettvangi Evrópusambandsins. Hér verður lýst helstu samþykktum sem gerðar hafa verið gegn hryðjuverkum svo og samningum um gagnkvæma réttaraðstoð og viðurkenningu og fullnustu refsidóma, en slíkir samningar hafa mikla þýðingu við rannsókn hryðjuverkabrota og fullnustu refsidóma vegna slíkra brota. Jafnframt verður lýst aðild íslenska ríkisins að þeim samningum sem hafa verið gerðir á þessu sviði:
     1.      Evrópusamningur um alþjóðlegt gildi refsidóma frá 28. maí 1970/European Convention on the International Validity of Criminal Judgments. Fullgiltur 6. ágúst 1993, sbr. auglýsingu í C-deild nr. 22/1993.
     2.      Evrópusamningur um varnir gegn hryðjuverkum frá 27. janúar 1977/European Convention on the Suppression of Terrorism. Fullgiltur 11. júlí 1980, sbr. auglýsingu í C-deild nr. 14/1980.
     3.      Evrópusamningur um framsal sakamanna frá 13. desember 1957/European Convention on Extradition. Fullgiltur 20. júní 1984, sbr. auglýsingu í C-deild nr. 8/1984.
     4.      Evrópusamningur um gagnkvæma aðstoð í sakamálum frá 20. apríl 1959/European Convention on Mutual Assistance in Criminal Matters. Fullgiltur 20. júní 1984, sbr. auglýsingu í C-deild nr. 9/1984.
     5.      Evrópusamningur um flutning málsmeðferðar í refsimálum frá 1972/European Convention on the Transfer of Proceedings in Criminal Matters. Íslenska ríkið er ekki aðili að þessum samningi.
     6.      Samningur um þvætti, leit, hald og upptöku ávinnings af afbrotum frá 8. nóvember 1990/Convention on Laundering, Search, Seizure and Confiscation of the Proceeds from Crime. Fullgiltur 21. október 1997, sbr. auglýsingu í C-deild nr. 19/1997.
    Í kjölfar atburðanna í Bandaríkjunum 11. september 2001 gaf ráðherranefnd Evrópuráðsins út yfirlýsingu 12. september 2001 þar sem hryðjuverkin voru fordæmd og aðildarríki Evrópuráðsins hvött til þess að grípa sameiginlega til aðgerða til að uppræta hryðjuverk og hryðjuverkastarfsemi. Á fundi ráðherranefndarinnar 8. nóvember 2001 var samþykkt yfirlýsing um alþjóðlegar aðgerðir gegn hryðjuverkum, með sérstakri áherslu á aðgerðir til að uppræta fjármögnun hryðjuverka.
    Á fundi ráðherraráðs Evrópusambandsins 20. september 2001 var rætt um hryðjuverkin í Bandaríkjunum, hvernig ætti að bregðast við því ástandi sem skapast hefði vegna þeirra og hvernig mætti efla verulega þátttöku sambandsins í alþjóðlegri baráttu gegn hryðjuverkum með því að veita þessu málefni forgang. Var þar lögð fram tillaga framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að rammaákvörðun um baráttu gegn hryðjuverkum. Á fundi ráðs Evrópusambandsins 6. desember 2001 náðist samkomulag um rammaákvörðunina.
    Einn mikilvægasti hluti þessarar ákvörðunar er að þar er hugtakið hryðjuverk skilgreint með ítarlegri hætti en í fyrri alþjóðasamþykktum og lögð áhersla á að þungar refsingar verði lagðar við hryðjuverkum og stuðningi við hryðjuverkastarfsemi auk þess sem kveðið er á um refsiábyrgð lögaðila í því sambandi. Í tengslum við aðgerðir Evrópusambandsins gegn hryðjuverkum lagði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins einnig fram tillögu að rammaákvörðun, 20. september 2001, um evrópska handtökutilskipun (European Arrest Order). Með ákvörðuninni er stefnt að verulegum breytingum á framsalsreglum aðildarríkja ESB sem ætlað er að leysa af hólmi gildandi samninga á þessu sviði. Með samþykkt ákvörðunar um evrópsku handtökutilskipunina er m.a. stefnt að því að afnema margvísleg formskilyrði um framsal og fella úr gildi takmarkanir ríkja á að framselja eigin ríkisborgara.
    Á fundi leiðtogaráðs Evrópusambandsins sem haldinn var 21. september 2001 voru hryðjuverkin fordæmd auk þess sem samþykkt var sérstök aðgerðaáætlun gegn hryðjuverkum og stuðningi lýst við fyrrgreindar tillögur framkvæmdastjórnarinnar að rammaákvörðun um baráttu gegn hryðjuverkum.
    
III.     Efni samþykktanna þriggja sem tillögur til lagabreytinga varða.
    Hér á eftir verður lýst í stórum dráttum efnisatriðum samþykktanna þriggja sem frumvarp þetta fjallar um með því að reifa ákvæði þeirra. Sérstök áhersla verður lögð á að lýsa efni nokkurra kjarnaákvæða samninganna og þeirra ákvæða sem leiða til lagabreytinga sem nánar er fjallað um í IV. kafla. Einnig verður lýst eftir því sem við á samsvörun þessara ákvæða við aðra alþjóðasamninga sem íslenska ríkið er þegar aðili að. Loks verður lýst í stuttu máli tillögu að rammaákvörðun ESB gegn hryðjuverkum en fyrirmynd að skilgreiningu hryðjuverka í frumvarpinu er sótt til hennar.

1.     Alþjóðasamningur um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar.
    Alþjóðasamningur um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar var samþykktur af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 15. desember 1997 og lagður fram til undirritunar 12. janúar 1998. Samningurinn var undirritaður af hálfu Íslands 28. september 1998. Eftir að samningurinn var gerður var lokið við gerð annars samnings á vegum Sameinuðu þjóðanna, alþjóðasamnings um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi frá 9. desember 1999.
    Markmið samningsins um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar er að efla alþjóðlega samvinnu um varnir gegn hryðjuverkasprengingum. Samningurinn stefnir að því að refsiviðurlögum verði komið yfir þá sem fremja hryðjuverk með sprengingum eða öðrum lífshættulegum aðferðum, t.d. útbreiðslu eiturefna eða smitandi sjúkdóma, geislavirkni og öðrum áþekkum aðferðum. Með því að gerast aðilar að samningnum skuldbinda ríki sig til þess að fallast á ákveðnar skilgreiningar sem kveða á um að hryðjuverk sem framin eru með sprengingum eða öðrum lífshættulegum aðferðum séu refsiverður verknaður sem teljist til alvarlegustu brota samkvæmt refsilöggjöf þeirra. Að auki eru í samningnum reglur um refsilögsögu, framsal og alþjóðlega réttaraðstoð til þess að greiða fyrir því að unnt sé að koma fram refsingu gagnvart brotamönnum án tillits til þess hvar brotið er framið eða þjóðernis eða dvalarstaðar brotamanns.
    Alþjóðasamningur um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar er birtur sem fylgiskjal I með frumvarpi þessu, í íslenskri þýðingu. Verður nú nánar lýst helstu efnisatriðum samningsins.
    Í 1. gr. samningsins, sem er eitt kjarnaákvæða hans, eru skilgreiningar hugtaka sem notuð eru í ákvæðum samningsins til afmörkunar á refsiábyrgð sem aðildarríkjum er skylt að setja í landslög varðandi hryðjuverk, einkum varðandi þá staði eða starfsemi sem hryðjuverk beinast að og þær aðferðir sem hryðjuverkamenn nota til að valda tjóni. Í 1. mgr. greinarinnar er þannig skilgreind „aðstaða á vegum ríkis eða stjórnvalda“ en þar er átt við hverja þá aðstöðu eða samgöngutæki, sem til frambúðar eða til bráðabirgða er nýtt eða notuð af fulltrúum ríkis, embættismönnum ríkisstjórnar, handhöfum löggjafarvalds eða dómsvalds, embættismönnum eða starfsmönnum ríkis, opinbers stjórnvalds eða aðila, eða af starfsmönnum eða embættismönnum milliríkjastofnunar í tengslum við opinbert starf þeirra. Í 2. mgr. er skilgreint hugtakið „almenningsmannvirki“ en með því er átt við öll mannvirki í eigu opinberra aðila eða einkaaðila sem veita eða dreifa þjónustu í þágu almennings, svo sem vatnsveitur, skolplagnir, orkuleiðslur, eldsneytisleiðslur eða samgöngumannvirki. Í 3. mgr. eru skilgreindar aðferðir hryðjuverkamanna sem aðildarríkjum er skylt að leggja refsingu við. Eru hugtökin „sprengja eða önnur lífshættuleg aðferð“ skilgreind í þessu skyni sem vopn eða aðferð, sem ætluð er eða til þess er fallin að valda mönnum bana, alvarlegu líkamstjóni eða verulegu eignatjóni með sprengingu eða íkveikju, eða aðferð, sem ætlað er eða er til þess fallin að valda bana, alvarlegu líkamstjóni eða verulegu eignatjóni með því að leysa frá sér eða dreifa lífrænum efnum eða eitri eða áþekkum efnum, eða geislavirkni eða geislavirkum efnum.
    Í 4. mgr. er skilgreind merking hugtaksins „her ríkis“ en með því er átt við her ríkis sem skipulagður er, þjálfaður og útbúinn samkvæmt landslögum þess í því skyni fyrst og fremst að halda uppi landvörnum og öryggi og menn sem eru hernum til stuðnings og lúta formlegu skipunarvaldi hans og stjórn og starfa á ábyrgð hans. Loks kveða 5. og 6. mgr. á um skilgreiningu hugtakanna „almenningsstaðir“ og „almenningssamgöngukerfi“. Með almenningsstöðum er átt við þá hluta byggingar, landsvæðis, vegar, vatnaleiðar eða annars staðar sem aðgengilegur er eða opinn almenningi, hvort sem það er alltaf, reglulega eða stundum, og falla þar undir staðir þar sem stunduð er verslun, atvinnurekstur eða menningarstarfsemi, sögustaðir, staðir til menntunar- eða trúariðkunar, opinberir stjórnarstaðir, skemmti- og frítímastaðir og áþekkir staðir sem aðgengilegir eru eða opnir fyrir almenning. Með almenningssamgöngukerfi er átt við alla aðstöðu, samgöngutæki og búnað, hvort sem er í opinberri eigu eða í einkaeign, sem notuð er til flutninga á fólki eða vörum og er almenningi til afnota.
    Annað helsta kjarnaákvæði samningsins er 2. gr. hans þar sem fram kemur ítarleg skilgreining á þeirri háttsemi sem telst afbrot í skilningi samningsins. Skv. 1. mgr. fremur sá afbrot í skilningi samningsins sem með ólögmætum hætti og af ásetningi fer með sprengju eða með annarri lífshættulegri aðferð inn á, inn í eða gegn almenningsstað, aðstöðu á vegum ríkis eða stjórnvalda, almenningssamgöngukerfi eða almenningsmannvirki, kemur sprengju þar fyrir, gerir hana virka eða sprengir hana í þeim ásetningi að valda bana eða alvarlegu líkamstjóni, eða að valda umfangsmikilli eyðileggingu á staðnum, aðstöðunni eða kerfinu, og eyðileggingin veldur eða er líkleg til að valda miklu efnahagslegu tjóni. Í 2. mgr. er kveðið á um að tilraun til brots skv. 1. mgr. skuli einnig vera refsiverð. Í 3. mgr. er síðan kveðið á um að hlutdeild í afbroti skv. 1. mgr. skuli vera refsiverð svo og skipulagning og stjórn á framkvæmd þess. Loks er tiltekið í c-lið 3. mgr. að það skuli einnig talið afbrot í skilningi samningsins að eiga með einhverjum öðrum hætti þátt í því að hópur manna sem starfar að sameiginlegu markmiði fremji eitt eða fleiri afbrot sem fjallað er um í 1. eða 2. mgr., enda sé það gert af ásetningi og annaðhvort í því skyni að veita afbrotastarfsemi hópsins eða hinu glæpsamlega markmiði hans framgang, eða gert í vitneskju um þann ásetning hópsins að fremja slík brot.
    Skoða verður skilgreiningar á refsiverðri háttsemi samkvæmt samningnum í samhengi við 4. gr. samningsins þar sem lýst er skyldum aðildarríkja til að gera afbrot sem fjallað er um í 2. gr. hans refsiverð samkvæmt landslögum sínum og leggja viðeigandi refsingu við þeim, þannig að tillit sé tekið til alvarleika þeirra. Einnig verður að skoða ákvæði 2. gr. samningsins í ljósi 5. gr. sem kveður á um að hvert aðildarríki skuli gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar kunna að vera, þar á meðal með lagasetningu þar sem við á, til að tryggja að afbrot er falla undir samninginn sérstaklega ef þeim er ætlað eða þau eru við það miðuð að leiða til ógnarástands meðal almennings, hópa eða einstaklinga, séu aldrei talin réttlætanleg vegna sjónarmiða sem byggjast á stjórnmálalegum, heimspekilegum, hugmyndafræðilegum, kynþáttalegum, þjóðernislegum, trúarlegum eða öðrum svipuðum grunni og að fyrir þau sé refsað í samræmi við alvarleika þeirra.
    Í 3. gr. samningsins er gengið út frá því að hann gildi ekki um afbrot sem framið er innan eins ríkis ef meintur brotamaður og þeir sem fyrir brotinu verða eru ríkisborgarar þess, hinn meinti brotamaður er á yfirráðasvæði þess, og ekki er grundvöllur skv. 1. eða 2. mgr. 6. gr. fyrir því að neitt annað ríki beiti lögsögu í málinu.
    Fjallað er um refsilögsögu í 6. gr. samningsins. Skv. 1. mgr. skal hvert aðildarríki gera þær ráðstafanir sem kunna að vera nauðsynlegar til þess að hafa refsilögsögu vegna afbrota sem fjallað er um í 2. gr. þegar brotið er framið á yfirráðasvæði þess, brotið er framið um borð í skipi er siglir undir fána þess, eða í loftfari sem skráð er samkvæmt lögum þess þegar það er framið svo og þegar brotið er framið af ríkisborgara þess. Skv. 2. mgr. 6. gr. getur aðildarríki einnig aflað sér refsilögsögu vegna slíks afbrots þegar brotið er framið gegn ríkisborgara þess, brotið beinist gegn aðstöðu á vegum ríkis eða stjórnvalda ríkisins erlendis, þar með töldu sendiráði þess eða ræðisskrifstofu, eða brotið er framið af ríkisfangslausum manni sem að jafnaði dvelur á yfirráðasvæði ríkisins, eða brotið er framið í viðleitni til að neyða viðkomandi ríki til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert eða brotið er framið um borð í loftfari sem rekið er á vegum þess ríkis. Í framangreindum tilvikum er um að ræða heimild fyrir aðildarríki að samningnum til að hafa lögsögu en ekki fortakslausa skyldu. Í 4. mgr. 6. gr. er kveðið á um skyldu aðildarríkis til að gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar kunna að vera til að hafa lögsögu um brot skv. 2. gr. þegar meintur brotamaður er staddur á yfirráðasvæði þess og það framselur hann ekki neinu því aðildarríki sem lögsögu hefur skv. 1. eða 2. mgr. 6. gr.
    Í 7.–10. gr. samningsins svo og 14. gr. eru ákvæði um rannsókn sakamáls vegna afbrota sem talin eru í samningnum, um framsal vegna slíkra brota og um alþjóðlega réttaraðstoð. Er hér um að ræða sambærileg ákvæði og eru í 6., 8., 10. og 11. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um varnir gegn töku gísla frá 17. desember 1979 svo og 6.–10. gr. samnings um verndarráðstafanir og refsingar vegna glæpa gegn einstaklingum er njóta alþjóðlegrar verndar, þar á meðal sendierindrekum, frá 14. desember 1973, en íslenska ríkið er aðili að báðum þessum samningum.
    Í 13. gr. samningsins er kveðið á um heimild til að flytja mann sem er í gæslu eða afplánar refsingu á yfirráðasvæði eins aðildarríkis til annars aðildarríkis, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, ef þörf er á nærveru hans þar til vitnisburðar, persónugreiningar eða annarrar aðstoðar við að afla gagna til rannsóknar eða saksóknar vegna brota sem samningur þessi tekur til. Er hér um að ræða sambærilegt ákvæði og í Evrópusamningi frá 20. apríl 1959 um gagnkvæma aðstoð í sakamálum.
    Framangreind ákvæði um framsal og réttaraðstoð í samningnum um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar ber að skoða í ljós 11. gr. hans sem fjallar m.a. um stjórnmálaafbrot. Samkvæmt þessu ákvæði samningsins má aðildarríki ekki telja neitt það brot sem fjallað er um í 2. gr. sem stjórnmálaafbrot, afbrot tengt stjórnmálaafbroti eða brot framið af stjórnmálalegum hvötum. Aðildarríki mega því ekki hafna beiðni um framsal eða gagnkvæma réttaraðstoð á grundvelli slíks brots á þeirri forsendu einni að hún varði stjórnmálaafbrot, afbrot tengt stjórnmálaafbroti eða brot framið af stjórnmálalegum hvötum. Bann þetta er fortakslaust og veitir aðildarríki ekki svigrúm til þess að meta hvort brot af þessu tagi geti talist stjórnmálaafbrot, eins og hefð er fyrir að unnt sé að gera fyrirvara um í alþjóðlegri samvinnu um framsal brotamanna.
    Þrátt fyrir fortakslausa framsalsskyldu skv. 11. gr. er aðildarríki þó kleift á grundvelli 12. gr. að synja um framsal eða gagnkvæma réttaraðstoð þótt um ræði brot skv. 2. gr. ef það hefur ástæðu til að ætla að beiðnin sé lögð fram til þess að sækja megi viðkomandi mann til saka eða refsa honum vegna kynþáttar hans, trúar, þjóðernis, þjóðernisuppruna eða stjórnmálaskoðana, eða ef það stefndi af einhverri þessari ástæðu stöðu viðkomandi í hættu að fallast á beiðnina.
    Í 15. gr. samningsins eru ákvæði um skyldu ríkja til að eiga samvinnu við önnur ríki til að koma í veg fyrir afbrot sem skilgreind eru í 2. gr. Sambærileg ákvæði má finna í samningum Sameinuðu þjóðanna um varnir gegn töku gísla og um verndarráðstafanir og refsingar vegna glæpa gegn einstaklingum er njóta alþjóðlegrar verndar, þar á meðal sendierindrekum.
    Í 16.–18. gr. samningsins eru ýmis ákvæði varðandi innbyrðis samskipti aðildarríkja þannig að það samrýmist grundvallarreglum um fullveldi ríkja og rétt til að ráða sínum innri málefnum.
    Í 19. gr. samningsins er ákvæði þess efnis að samningurinn skuli engin áhrif hafa á önnur réttindi, skuldbindingar og skyldur ríkja og manna að þjóðarétti, svo sem markmið og meginreglur stofnsamnings Sameinuðu þjóðanna eða alþjóðleg mannúðarlög.
    Loks eru ákvæði almenns eðlis í 20.–24. gr. samningsins um úrlausn ágreiningsmála varðandi túlkun samningsins, undirritun og staðfestingu hans og gildistöku.

2.     Alþjóðasamningur um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi.
    Alþjóðasamningur um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi var samþykktur af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 9. desember 1999 og lagður fram til undirritunar 10. janúar 2000. Samningurinn var undirritaður af Íslands hálfu 1. október 2001.
    Markmið samningsins er að efla alþjóðlega samvinnu um varnir gegn hryðjuverkum og fjölga úrræðum til þess að unnt verði að koma fram refsiviðurlögum gagnvart þeim sem fjármagna hryðjuverkastarfsemi. Með aðild að samningnum gangast ríki undir skuldbindingar um að fallast á ákveðnar skilgreiningar varðandi tilflutning og öflun fjármuna í þeirri vitneskju að þá skuli nota til hryðjuverkastarfsemi, og að slík háttsemi skuli teljist afbrot sem þungar refsingar verði lagðar við bæði gagnvart einstaklingum og lögaðilum. Að auki leggur samningurinn þær skyldur á aðildarríki að skilgreina rúmt hlutdeild í fjármögnun hryðjuverkastarfsemi. Loks eru í samningnum ákvæði um refsilögsögu, framsal og alþjóðlega réttaraðstoð sem stefna m.a. að því að unnt verði að koma fram refsiábyrgð án tillits til þess hvar brot er framið eða til þess hvar brotamaður dvelst.
    Alþjóðasamningur um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi er birtur sem fylgiskjal II með frumvarpi þessu, í íslenskri þýðingu. Verður nú nánar lýst helstu efnisatriðum samningsins.
    Í 1. gr. samningsins eru skilgreiningar hugtaka sem notuð eru í samningnum til þess að afmarka refsiábyrgð samkvæmt honum. Í 1. mgr. er hugtakið „fjármunir“ skilgreint, en með því er átt við eignir, hverjar sem er, áþreifanlegar eða óáþreifanlegar fasteignir eða lausafé, hvernig sem þeirra hefur verið aflað, og skjöl í hvaða formi sem er, þar með talið í rafrænu eða stafrænu formi, sem sýna fram á eignarrétt að þeim eða rétt til þeirra, svo sem yfirdráttarheimildir, ferðatékka, bankatékka, peningaávísanir, hlutabréf, verðbréf, skuldabréf, skuldaviðurkenningar og bankaábyrgðir. Í 2. mgr. er skilgreind „aðstaða á vegum ríkis eða stjórnvalda“ en með því er átt við hverja þá aðstöðu eða samgöngutæki sem til frambúðar eða til bráðabirgða er nýtt eða notuð af fulltrúum ríkis, embættismönnum ríkisstjórnar, handhöfum löggjafarvalds eða dómsvalds, embættismönnum eða starfsmönnum ríkis, opinbers stjórnvalds eða aðila, eða af starfsmönnum eða embættismönnum milliríkjastofnunar í tengslum við opinbert starf þeirra. Er hér um að ræða samhljóða skilgreiningu við ákvæði 1. mgr. 1. gr. samningsins um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar. Loks er skilgreint hugtakið „ávinningur“ í 3. mgr. 1. gr., en með því er átt við fjármuni sem renna frá eða er aflað beint eða óbeint með broti sem fjallað er um í 2. gr. samningsins.
    Kjarnaákvæði samningsins er í 2. gr. hans þar sem skilgreind er sú háttsemi sem aðildarríkjum er skylt að gera refsiverða en það er hvers konar fjárhagslegur stuðningur við hryðjuverkastarfsemi. Skv. 1. mgr. 2. gr. fremur sá maður afbrot í skilningi samningsins sem með einhverjum hætti, beint eða óbeint, en með ólöglegum hætti og af ásetningi, útvegar eða safnar fjármunum í því skyni að þeir verði notaðir, eða í þeirri vitneskju að þeir verði notaðir, að einhverju leyti eða öllu til að vinna:
     a.      Verk sem felur í sér afbrot samkvæmt efni einhvers þeirra þjóðréttarsamninga sem tilgreindir eru í viðauka við samninginn og eins og þar er skilgreint, eða
     b.      eitthvert annað verk sem ætlað er að valda almennum borgara, eða öðrum manni sem ekki tekur þátt í vopnaviðskiptum í ófriði, bana eða alvarlegu líkamstjóni, ef tilgangur verksins samkvæmt eðli þess eða samhengi er að ógna almenningi eða þvinga ríkisstjórn eða alþjóðastofnun til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert.
    Skilgreining refsiábyrgðar skv. 1. mgr. 2. gr. er tvíþætt. Annars vegar er vísað til fjárhagslegs stuðnings við háttsemi sem skilgreind er í fyrri samningum Sameinuðu þjóðanna og taldir eru í viðauka við samninginn, en þessum samningum var lýst er í kafla II.1, en hins vegar er í b-lið sett fram almenn skilgreining á hryðjuverki. Skv. a-lið 2. mgr. greinarinnar getur ríki sem ekki er aðili að þjóðréttarsamningi sem tilgreindur er í viðaukanum lýst því yfir að við framkvæmd samnings þessa gagnvart sér skuli litið svo á að sá þjóðréttarsamningur sé ekki tilgreindur í viðauka þeim sem fjallað er um í a-lið 1. mgr. Yfirlýsingin skal falla úr gildi um leið og þjóðréttarsamningurinn öðlast gildi gagnvart því aðildarríki.
    Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. er það ekki skilyrði refsiábyrgðar skv. 1. mgr. að fjármunir hafi í raun verið notaðir til að fremja afbrot sem fjallað er um í a- eða b-lið ákvæðisins. Er ásetningurinn eða vitneskjan um að nota eigi fjármunina í þessu skyni því nægileg.
    Í 4. mgr. 2. gr. er kveðið á um skyldu aðildarríkja til þess að gera refsiverða tilraun til þess að fremja brot skv. 1. mgr.
    Í 5. mgr. 2. gr. er lýst reglum um hlutdeild í brotum skv. 1. mgr. Samkvæmt ákvæðinu skal það einnig teljast afbrot að eiga hlutdeild í broti skv. 1. eða 4. mgr. svo og að skipuleggja slíkt brot eða stjórna framkvæmd þess, sbr. a- og b-lið 5. mgr. Skv. c-lið telst það einnig vera brot skv. 1. og 4. mgr. greinarinnar að stuðla að því að hópur manna er starfa í þágu sameiginlegs markmiðs fremji eitt eða fleiri slík brot. Það skilyrði er sett að það sé gert með ásetningi og annaðhvort í því skyni að veita afbrotastarfsemi hópsins eða hinu glæpsamlega markmiði hans framgang, enda feli starfsemin eða markmiðið í sér að framið sé afbrot skv. 1. mgr. þessarar greinar, eða í vitneskju um þann ásetning hópsins að fremja afbrot skv. 1. mgr.
    Ákvæði 2. gr. um skilgreiningu afbrots samkvæmt samningnum ber að skoða með hliðsjón af 4. gr. samningsins sem kveður á um að hvert aðildarríki skuli gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að gera afbrot sem fjallað er um í 2. gr. refsiverð samkvæmt landslögum sínum og leggja viðeigandi refsingu við þeim brotum þar sem tillit er tekið til alvarleika þeirra. Einnig verður að skoða 2. gr. í ljósi 5. gr. samningsins varðandi ábyrgð lögaðila. Er þar kveðið á um að hvert aðildarríki skuli í samræmi við meginreglur landslaga gera nauðsynlegar ráðstafanir til að unnt sé að gera lögaðila á yfirráðasvæði þess eða stofnsettan samkvæmt lögum þess ábyrgan ef maður, sem stjórnar eða stýrir lögaðilanum, hefur í þeim starfa sínum framið brot sem tilgreint er í 2. gr. Ábyrgðin getur verið á sviði refsiréttar, skaðabótaréttar eða stjórnsýsluréttar. Er tekið fram í 2. tölul. 5. gr. að slíkri ábyrgð skuli lögaðili sæta án þess að hún hafi áhrif á refsiábyrgð þeirra manna sem brotin fremja. Skv. 3. mgr. 5. gr. skal hvert aðildarríki sérstaklega sjá til þess að lögaðilar, sem gerðir eru ábyrgir í samræmi við ákvæði þessarar greinar, séu beittir raunhæfum viðurlögum á sviði refsiréttar, skaðabótaréttar eða stjórnsýsluréttar í samræmi við tilefni þeirra sem fela í sér varnað, þar með töldum fjárhagslegum viðurlögum. Loks verður að skoða 2. gr. í ljósi 6. gr. samningsins sem kveður á um skyldur aðildarríkis til að tryggja að afbrot sem falla undir samninginn séu aldrei talin réttlætanleg vegna sjónarmiða byggðum á stjórnmálalegum, heimspekilegum, hugmyndafræðilegum, kynþáttalegum, þjóðernislegum, trúarlegum eða öðrum svipuðum grunni.
    Samkvæmt 3. gr. samningsins gildir hann ekki um afbrot sem framið er innan eins ríkis ef meintur brotamaður er ríkisborgari þess, er staddur á yfirráðasvæði þess, og ekki er grundvöllur skv. 1. eða 2. mgr. 7. gr. fyrir því að neitt annað ríki beiti lögsögu í málinu.
    Ákvæði um refsilögsögu eru í 7. gr. samningsins. Aðildarríki ber skylda skv. 1. mgr. til að gera ráðstafanir svo unnt sé að hafa refsilögsögu vegna brota sem fjallað er um í 2. gr. þegar brotið er framið á yfirráðasvæði þess eða um borð í skipi sem siglir undir fána þess eða í loftfari sem skráð er samkvæmt lögum þess þegar það er framið eða það er framið af ríkisborgara þess. Skv. 2. mgr. getur aðildarríki einnig haft lögsögu um slíkt brot í eftirfarandi tilvikum: Brotið er tilgreint í a- eða b-lið 1. mgr. 2. gr. á yfirráðasvæði aðildarríkis eða gegn ríkisborgara þess, eða leiddi til þess að slíkt brot var framið; brotið er tilgreint í a- eða b-lið 1. mgr. 2. gr. og beinist gegn aðstöðu á vegum ríkisvalds eða ríkisstjórnar þess ríkis erlendis, þar með töldum sendiráðum þess eða ræðisskrifstofum; brotið er tilgreint í a- eða b-lið 1. mgr. 2. gr. og framið í því skyni að leitast við að neyða viðkomandi aðildarríki til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert; brotið er framið af ríkisfangslausum manni sem að jafnaði dvelur á yfirráðasvæði þess ríkis; brotið er framið um borð í loftfari á vegum þess ríkis. Skoða verður 1. og 2. mgr. 7. gr. með hliðsjón af 4. mgr. greinarinnar sem leggur skyldu á aðildarríki að gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar kunna að vera til að hafa lögsögu vegna afbrots sem fjallað er um í 2. gr. þegar meintur brotamaður er staddur á yfirráðasvæði þess og það framselur hann ekki neinu því aðildarríki sem hefur lögsögu skv. 1. eða 2. mgr. Ef fleiri en eitt aðildarríki hafa lögsögu um slíkt brot skulu þau leitast við að samræma gerðir sínar með viðeigandi hætti, sérstaklega hvað snertir skilyrði saksóknar og hvernig gagnkvæm réttaraðstoð skuli veitt, sbr. ákvæði 5. mgr. 7. gr. Loks er kveðið á um það í 6. mgr. 7. gr. að með fyrirvara um gildi almennra reglna þjóðaréttar útiloki samningurinn ekki að aðildarríki beiti þeirri lögsögu í refsimálum sem það hefur öðlast samkvæmt eigin landslögum.
    Í 8. gr. samningsins er fjallað um ráðstafanir sem aðildarríkjum ber að grípa til svo að unnt verði að finna, greina og kyrrsetja eða haldleggja fjármuni sem notaðir eru eða varið skal til að fremja brot þau sem fjallað er um í 2. gr. svo og ávinning af slíkum brotum, með tilliti til þess að fjármunir kunni síðar að verða gerðir upptækir. Í 2. mgr. er kveðið á um að ríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að gera upptæka slíka fjármuni svo og ávinning af slíkum brotum. Skv. 4. mgr. greinarinnar skal aðildarríki einnig athuga að koma á þeirri skipan að fjármunir sem aflast hafa með upptöku renni til þeirra sem hafa orðið fyrir brotum tilgreindum í a- eða b-lið 1. mgr. 2. gr.
    Í 9.–12. gr. og 17. gr. samningsins eru ýmis ákvæði sem varða rannsókn mála, framsal og alþjóðlega réttaraðstoð. Er hér um að ræða sambærileg ákvæði og í 7.–10. gr. og 14. gr. samningsins um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar sem lýst var í umfjöllun um þann samning í kafla III.1 hér að framan þar sem einnig er vísað til ákvæða samnings Sameinuðu þjóðanna um varnir gegn töku gísla svo og samnings um verndarráðstafanir og refsingar vegna glæpa gegn einstaklingum er njóta alþjóðlegrar verndar, þar á meðal sendierindrekum. Sú sérregla kemur þó fram í 2. mgr. 12. gr. að aðildarríki mega ekki hafna beiðni um gagnkvæma réttararaðstoð á grundvelli bankaleyndar.
    Einnig eru í 16. gr. samningsins heimildir til þess að flytja mann sem er í gæslu eða afplánar refsingu á yfirráðasvæði eins aðildarríkis til annars aðildarríkis ef óskað er nærveru hans þar til persónugreiningar, vitnisburðar eða annarrar aðstoðar við að leiða í ljós málsatvik við rannsókn eða saksókn varðandi afbrot sem fjallað er um í 2. gr., ef hann gefur til þess upplýst samþykki sitt af fúsum og frjálsum vilja og viðeigandi yfirvöld í báðum aðildarríkjum samþykkja það. Sambærilegt ákvæði er í 13. gr. samningsins um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar og 11. gr. Evrópusamnings um gagnkvæma aðstoð í sakamálum.
    Ákvæði samningsins um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverka um framsal og réttaraðstoð ber að skoða með hliðsjón af 13. og 14. gr. Skv. 13. gr. samningsins skal ekki litið á neitt brot sem fjallað er um í 2. gr. sem skattabrot. Aðildarríki mega því ekki hafna beiðni um framsal eða gagnkvæma réttaraðstoð á þeirri forsendu einni að hún varði skattabrot. Eins segir í 14. gr. samningsins að ekki skuli litið á neitt það brot sem fjallað er um í 2. gr. sem stjórnmálaafbrot, afbrot tengt stjórnmálaafbroti eða brot framið af stjórnmálalegum hvötum. Aðildarríki mega því ekki hafna beiðni um framsal eða gagnkvæma réttaraðstoð á grundvelli slíks brots á þeirri forsendu einni að hún varði stjórnmálaafbrot, afbrot tengt stjórnmálaafbroti eða brot framið af stjórnmálalegum hvötum.
    Þrátt fyrir framangreind ákvæði er aðildarríki þó kleift á grundvelli 15. gr. samningsins að synja um framsal eða gagnkvæma réttaraðstoð þótt um ræði brot skv. 2. gr. ef það hefur ástæðu til að ætla að beiðnin sé lögð fram til þess að sækja megi viðkomandi mann til saka eða refsa honum vegna kynþáttar hans, trúar, þjóðernis, þjóðernisuppruna eða stjórnmálaskoðana, eða ef það af einhverri þessari ástæðu stefndi stöðu viðkomandi í hættu að fallast á beiðnina.
    Í 18. gr. eru ákvæði um skyldu ríkja til að eiga samvinnu við önnur ríki um að koma í veg fyrir afbrot sem skilgreind eru í 2. gr. Sambærileg ákvæði má finna í samningum Sameinuðu þjóðanna um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar, varnir gegn töku gísla og um verndarráðstafanir og refsingar vegna glæpa gegn einstaklingum er njóta alþjóðlegrar verndar, þar á meðal sendierindrekum. Þó gengur þetta ákvæði lengra að því leyti að skv. b-lið 1. mgr. skal ríki beita ráðstöfunum þar sem þess er krafist af fjármálastofnunum og starfsgreinum þar sem fengist er við fjármálaviðskipti að beitt sé árangursríkustu aðferðum sem völ er á til að greina deili á reglulegum og tilfallandi viðskiptamönnum þeirra og viðskiptamönnum sem fá reikninga opnaða í sína þágu. Einnig að sérstök athygli sé veitt óvenjulegum eða grunsamlegum viðskiptum og að tilkynnt sé um viðskipti sem grunur leikur á að eigi rætur að rekja til brotastarfsemi. Í þessu skyni skulu aðildarríki taka til athugunar að taka upp reglur sem banna að reikningar séu opnaðir ef umráðamenn þeirra eða eigendur eru óþekktir eða ekki er unnt að greina hverjir þeir eru, og gera ráðstafanir til að tryggja að slíkar stofnanir sannreyni deili á raunverulegum eigendum. Eins skulu ríki krefjast þess af fjármálastofnunum, til að finna megi deili á lögaðilum, að þær geri þegar nauðsyn krefur ráðstafanir til að sannreyna að viðskiptaaðili sé til að lögum og hvert rekstrarform hans er, með því að afla, annaðhvort úr opinberum skrám eða frá viðskiptaaðilanum eða hvort tveggja, sönnunar fyrir stofnun þar sem fram kemur nafn aðilans, rekstrarform og heimilisfang, hverjir stjórnendur hans eru, og með hvaða hætti hann geti stofnað til skuldbindinga. Auk þess ber ríkjum að leggja þá skyldu á fjármálastofnanir að tilkynna þegar í stað til viðeigandi yfirvalda um öll flókin, óvenjuleg og stór viðskipti og óvenjuleg viðskiptamynstur, sem ekki er greinilegt að hafi efnahagslegan eða augljóslega löglegan tilgang og loks ber að gera fjármálastofnunum skylt að halda til haga öllum nauðsynlegum gögnum um viðskipti, innlend jafnt sem erlend, í að minnsta kosti fimm ár.
    Í 19., 20. og 22. gr. samningsins eru ýmis ákvæði varðandi innbyrðis samskipti aðildarríkja þannig að það samrýmist grundvallarreglum um fullveldi ríkja og rétt til að ráða sínum innri málefnum.
    Í 21. gr. samningsins er ákvæði þess efnis að hann skuli engin áhrif hafa á önnur réttindi, skuldbindingar og skyldur ríkja og manna að þjóðarétti, svo sem markmið og meginreglur stofnsamnings Sameinuðu þjóðanna eða alþjóðleg mannúðarlög.
    Loks eru ákvæði almenns eðlis í 24.–28. gr. samningsins um úrlausn ágreiningsmála varðandi túlkun samningsins, undirritun og staðfestingu hans svo og gildistöku.

3.    Ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1373 (2001).
    Hinn 28. september 2001 samþykkti öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ályktun nr. 1373 (2001) um baráttu gegn fjármögnun hryðjuverkastarfsemi, sautján dögum eftir hryðjuverkaárásirnar í Bandaríkjunum 11. september. Svo sem áður er getið er ályktunin gerð á grundvelli VII. kafla sáttmála Sameinuðu þjóðanna og er þjóðréttarlega skuldbindandi gagnvart íslenska ríkinu með sama hætti og þjóðréttarsamningur sem hefur verið fullgiltur. Með vísan til laga nr. 5/1969, um framkvæmd fyrirmæla öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, ákvað ríkisstjórnin á fundi sínum 9. nóvember 2001 að koma ályktuninni í framkvæmd, sbr. auglýsingu nr. 867/2001.
    Markmið ályktunar nr. 1373 (2001) er sambærilegt við markmið samningsins um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverka en gengur þó að sumu leyti lengra. Verði frumvarp þetta að lögum leysir það af hólmi fyrrgreinda auglýsingu nr. 867/2001 nema að því leyti sem snýr að tilkynningarskyldu fjármálastofnana ef grunur er um viðskipti sem fela í sér fjármögnun til hryðjuverkasamtaka. Verður frumvarp til þess að innleiða þann þátt í íslenska löggjöf lagt fram af viðskiptaráðherra þar sem m.a. er gert ráð fyrir að lagðar verði til ýmsar breytingar á gildandi löggjöf um aðgerðir gegn peningaþvætti og tilkynningarskyldu fjármálastofnana. Með þessum lagabreytingum verður jafnframt að því stefnt að leysa af hólmi ákvæði fyrrgreindrar auglýsingar.
    Ályktun nr. 1373 (2001) er birt í íslenskri þýðingu sem fylgiskjal III með frumvarpinu.
    Í 1. og 2. gr. ályktunarinnar eru talin atriði sem ríkjum er skylt að koma í framkvæmd en í 3. gr. hennar eru ákvæði sem ekki eru jafnafdráttarlaust bindandi en lúta frekar að atriðum sem ríki eru hvött til að stefna að í baráttunni gegn hryðjuverkum. Í 4. og 5. gr. eru almenn ákvæði um alþjóðlega samvinnu gegn hryðjuverkum og fordæmingu þeirra. Í 6.–9. gr. eru ákvæði sem varða m.a. skyldur ríkja til að koma ályktuninni í framkvæmd.
    Í 1. gr. ályktunarinnar eru lagðar skyldur á ríki sem varða bæði refsinæmi þess að fjármagna hryðjuverkastarfsemi og aðgerðir til þess að stöðva flutning fjármuna til hryðjuverkahópa. Þannig segir í a-lið að ríki skuli grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir og banna fjármögnun hryðjuverka. Skv. b-lið er ríkjum skylt að lýsa það refsiverðan verknað að útvega eða safna fjármunum með einhverjum hætti, beint eða óbeint, en með ásetningi eða vitneskju um að þeir verði notaðir til að vinna hryðjuverk. Skv. c-lið skulu ríki stöðva tafarlaust flutning fjármuna eða annarra verðmæta til manna sem fremja eða reyna að fremja hryðjuverk eða eiga þátt í eða styðja slíka verknaði. Einnig skal stöðva slíkan fjármagnsflutning frá einstaklingum eða lögaðilum sem eru beint eða óbeint undir stjórn þeirra einstaklinga og lögaðila sem starfa í umboði eða undir stjórn manna sem fremja eða reyna að fremja hryðjuverk, þ.m.t. flutning fjármuna sem renna frá eignum sem eru að hluta til eða að öllu leyti í eigu þeirra manna eða lögaðila sem tengjast þeim. Loks ber ríkjum skv. d-lið 1. gr. að banna ríkisborgurum sínum svo og öllum einstaklingum og lögaðilum sem dvelja á yfirráðasvæði þeirra að stofna sjóði, sjá um eignaumsýslu eða veita annars konar beina eða óbeina þjónustu í tengslum við fjármuni og annars konar verðmæti í þágu þeirra sem hafa framið eða reynt að fremja hryðjuverk, hlutdeildarmanna í slíkum brotum eða manna sem með öðrum hætti hafa stuðlað að slíkum brotum.
    Í 2. gr. ályktunarinnar er kveðið á um það í a-lið að ríki skuli forðast að styðja við einstaklinga sem tengjast hryðjuverkastarfsemi, þar með talið að sporna við því að hryðjuverkamenn komi saman og koma í veg fyrir aðgang hryðjuverkamanna að vopnum. Skv. b-lið 2. gr. skulu ríki grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir að hryðjuverkastarfsemi breiðist út, m.a. með því að vara önnur ríki við með því að skiptast á upplýsingum. Loks ber ríkjum skv. c-lið að neita þeim um hæli sem fjármagna, skipuleggja eða fremja hryðjuverk og skv. d-lið ber að hindra að þeir sem fjármagna, skipuleggja eða fremja hryðjuverk noti yfirráðasvæði þeirra í þessum tilgangi gegn öðrum ríkjum eða ríkisborgurum þeirra. Skv. e-lið 2. gr. skulu ríki koma refsiviðurlögum yfir þá sem fjármagna, skipuleggja eða undirbúa hryðjuverk, í f-lið er kveðið á um gagnkvæma aðstoð ríkja við rannsókn refsimála varðandi hryðjuverk. Loks skulu ríki skv. g-lið koma í veg fyrir ferðir hryðjuverkamanna milli ríkja með því að koma á virku landamæraeftirliti sem byggist á ítarlegri könnun persónuskilríkja og ferðaskilríkja til að koma í veg fyrir notkun falsaðra skjala.
    Í 3. gr. ályktunarinnar eru tilmæli sem varða einkum upplýsingaskipti milli ríkja um grunaða hryðjuverkamenn og hryðjuverkastarfsemi. Eru ríki þar hvött til þess í a-lið að finna leiðir til að hraða og einfalda upplýsingaskipti einkum varðandi hryðjuverkamenn og hryðjuverkastarfsemi, fölsuð ferðaskilríki, ólöglega vopnaverslun, flutning sprengiefna og notkun hryðjuverkahópa á fjarskiptatækni svo og um ógn sem kann að stafa af gereyðingarvopnum í umráðum hryðjuverkamanna. Í b-lið 3. gr. eru ríki hvött til þess að skiptast á upplýsingum í samræmi við alþjóðlegar reglur og landslög og vinna saman á sviði stjórnsýslu og réttarvörslu að vörnum gegn hryðjuverkum, í c-lið er fjallað um tvíhliða eða marghliða samninga sem ríki eru hvött til að gera til að fyrirbyggja eða stöðva hryðjuverkaárásir, í d-lið er fjallað um nauðsyn þess að ríki gerist aðilar að alþjóðasamningum gegn hryðjuverkum, þ.m.t. samningnum um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverka. Í e-lið eru ríki hvött til að koma í framkvæmd ályktunum 1269 (1999) og 1368 (2001), í f-lið er kveðið á um að grípa skuli til viðeigandi ráðstafana samkvæmt gildandi ákvæðum lands- og alþjóðalaga, þ.m.t. þjóðréttarreglna um mannréttindi, áður en mönnum er veitt hæli sem flóttamenn, til þess að ganga úr skugga um að þeir sem sækja um hæli hafi ekki skipulagt, greitt fyrir eða tekið þátt í hryðjuverki. Loks eru ríki hvött til þess í g-lið að tryggja, í samræmi við alþjóðalög, að þeir sem fremja, skipuleggja eða greiða fyrir hryðjuverkum misnoti ekki stöðu sína sem flóttamenn og að vísun til stjórnmálalegra ástæðna sé ekki viðurkennd sem forsenda fyrir því að hafna beiðnum um framsal meintra hryðjuverkamanna.
    Í 4. gr. ályktunarinnar er lögð áhersla á að ríki samræmi aðgerðir sínar og efli alþjóðlega samvinnu til að uppræta þau nánu tengsl sem eru á milli alþjóðlegrar hryðjuverkastarfsemi og fjölþjóðlegrar skipulagðrar glæpastarfsemi, ólöglegra fíkniefna, peningaþvættis, ólöglegrar vopnasölu og ólöglegs flutnings kjarnaefna, kemískra, lífrænna efna og annarra lífshættulegra efna.
    Í 5. gr. ályktunarinnar er því lýst að öll hryðjuverk séu andstæð tilgangi og meginreglum Sameinuðu þjóðanna og það sama eigi við um fjármögnun, skipulagningu og hvatningu til hryðjuverka.
    Í 6.–9. gr. ályktunarinnar er síðan nánar lýst aðgerðum sem aðildarríkjum ber að grípa til svo að koma megi henni í framkvæmd. Þar segir m.a. að innan 90 daga frá samþykkt hennar beri ríkjum að greina nefnd öryggisráðsins frá því til hvaða aðgerða þau hafi gripið í því skyni.

4.     Ákvæði um skilgreiningar hryðjuverka í rammaákvörðun ESB.
    Í lok þessarar umfjöllunar um alþjóðlega samninga varðandi hryðjuverk sem íslenska ríkið stefnir að fullgildingu á er rétt að greina í stórum dráttum frá því starfi sem unnið hefur verið á vettvangi Evrópusambandsins til þess að samræma aðgerðir aðildarríkja um varnir gegn hryðjuverkum.
    Á fundi ráðherraráðs Evrópusambandsins 20. september 2001 lagði framkvæmdastjórn sambandsins fram tillögu að rammaákvörðun um baráttu gegn hryðjuverkum eins áður hefur verið lýst og náðist samkomulag um hana á fundi ráðsins 6. desember 2001. Einn mikilvægasti hluti þessarar ákvörðunar er að þar er hugtakið hryðjuverk skilgreint með ítarlegri hætti en í fyrri alþjóðasamþykktum og lögð áhersla á að þungar refsingar verði lagðar við hryðjuverkum og stuðningi við hryðjuverkastarfsemi. Þótt íslenska ríkið verði ekki skuldbundið til þess að koma rammaákvörðun Evrópusambandsins á þessu sviði í framkvæmd þykir eðlilegt og til samræmingar að notast við sömu skilgreiningu og flest Evrópuríkja.
    Af þeirri ástæðu eru tillögur frumvarpsins um skilgreiningu hryðjuverka reistar á sama grunni og stefnt er að með rammaákvörðun Evrópusambandsins. Auk skilgreininga um hvaða verknaði beri að telja til hryðjuverka birtast í rammaákvörðuninni skilgreiningar á brotum sem tengjast hryðjuverkastarfsemi og felast í stjórnun og skipulagningu hryðjuverka eða þátttöku í hryðjuverkahópum, stuðningi við hryðjuverkastarfsemi, þ.m.t. fjármögnun hennar og þvætti á ágóða af hryðjuverkabrotum eða tengdri brotastarfsemi. Með rammaákvörðuninni er stefnt að samræmdum reglum um viðurlög við hryðjuverkabrotum, og atriði sem verði til refsiþyngingar og refsilækkunar í því sambandi. Þar er einnig fjallað um refsiábyrgð lögaðila vegna stuðnings við eða þátttöku í hryðjuverkastarfsemi svo og um samræmingu viðurlaga sem lögaðilum verði gerð vegna slíkra brota.

IV.     Ákvæði íslenskrar löggjafar um hryðjuverk og hryðjuverkastarfsemi.
    Eins og áður hefur komið fram er íslenska ríkið aðili að fjölmörgum alþjóðlegum samningum um hryðjuverk og samningum um alþjóðlega réttaraðstoð. Á undanförnum áratugum hefur löggjöfin því tekið ýmsum breytingum til þess að laga hana að skuldbindingum þessara samninga. Hér á eftir verður lýst helstu lagaákvæðum sem gilda um þetta efni. Verður umfjölluninni skipt niður eftir helstu sviðum sem koma til álita við skoðun á efni fyrrgreindra alþjóðasamninga sem stefnt er að fullgildingu á og lýst var í III. kafla að framan. Hér er því einkum um að ræða gildandi refsiákvæði um hryðjuverk og skilgreiningar á hryðjuverkum, í öðru lagi refsiákvæði um stuðning við hryðjuverkastarfsemi, þar á meðal fjárhagslegan stuðning, í þriðja lagi refsiábyrgð lögaðila á þessu sviði, í fjórða lagi ákvæði laga um refsilögsögu íslenska ríkisins varðandi hryðjuverk, í fimmta lagi lagaákvæði um framsal sakamanna sem grunaðir eru um hryðjuverk eða stuðning við hryðjuverkastarfsemi og loks í sjötta lagi um aðra gagnkvæma réttaraðstoð varðandi rannsókn hryðjuverkabrota.

1.     Gildandi refsiákvæði um hryðjuverkabrot og hryðjuverkastarfsemi.
    Í íslenskum refsilögum er hugtaksins hryðjuverks hvergi getið sem sjálfstæðs refsiverðs verknaðar og ekki er þar að finna sérstaka skilgreiningu á hryðjuverkum eða hryðjuverkastarfsemi. Ekki hefur verið samþykkt í alþjóðasamningi ein tæmandi skilgreining á hryðjuverkum eða hryðjuverkastarfsemi að frátalinni fyrrgreindri rammaákvörðun ESB. Í 1. gr. Evrópusamningsins um varnir gegn hryðjuverkum frá 1977 eru talin upp brot sem aðildarríkjum er óheimilt að telja til stjórnmálaafbrota þannig að það geti girt fyrir framsal manna sem þau fremja þar sem þau teljist til hryðjuverka. Í upptalningu 1. gr. samningsins er bæði vísað til brota samkvæmt sérstökum samningum sem fjalla um vernd flugsamgangna og flugöryggis en einnig ákveðinna alvarlegra brota, svo sem gegn lífi og limum manna er njóta alþjóðlegrar verndar, þar á meðal sendierindreka, brota sem fela í sér mannrán, töku gísla eða alvarlega frelsisskerðingu og brota þar sem notaðar eru sprengjur. Í b-lið 1. mgr. 2. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi kemur fram almenn lýsing á hryðjuverkum. Er þar átt við verk sem ætlað er að valda almennum borgara, eða öðrum manni sem ekki tekur þátt í vopnaviðskiptum í ófriði, bana eða alvarlegu líkamstjóni, ef tilgangur verksins samkvæmt eðli þess eða samhengi er að ógna almenningi eða þvinga ríkisstjórn eða alþjóðastofnun til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert. Með vísan til þessa má skilgreina hryðjuverk sem safn tiltekinna brota, einkum sprengingar eða aðrar lífshættulegar aðgerðir sem ætlað er að valda manntjóni eða eignatjóni, flugrán eða aðrar árásir gegn öryggi samgangna og gíslataka þegar slík brot eru framin í ákveðnu markmiði eða undir merkjum ákveðinna hugmynda til að knýja fram aðgerðir eða aðgerðarleysi og beinast gegn stjórnvöldum tiltekins ríkis eða ríkja eða alþjóðastofnunum. Eru brot af þessu tagi venjulega talin til alvarlegustu brota samkvæmt almennum refsilögum ríkja án tillits til þess hvort þau eru skilgreind þar sem hryðjuverk.
    Eina tilvikið þar sem orðið hryðjuverk birtist í almennum hegningarlögum er í 6. tölul. 6. gr. laganna sem kveður á um rýmkaða refsilögsögu íslenska ríkisins þegar um ræðir háttsemi sem greinir í 1. gr. Evrópusamningsins um varnir gegn hryðjuverkum. Verður reglum um slíka refsilögsögu nánar lýst í kafla IV.4 hér á eftir.
    Vegna aðildar Íslands að ýmsum samningum um hryðjuverk sem gerðir hafa verið á vegum Sameinuðu þjóðanna og beinast að ákveðnum sviðum, svo sem flugsamgöngum, hafa þó verið gerðar margvíslegar breytingar á ákvæðum almennu hegningarlaganna. Þótt hryðjuverk eða hryðjuverkastarfsemi séu ekki orðuð þar sérstaklega ná refsiákvæði laganna um almannahættubrot, almenn ákvæði um manndráp og líkamsmeiðingar svo og ákvæði um brot gegn frjálsræði manna tvímælalaust yfir hryðjuverkabrot.
    Vegna aðildar íslenska ríkisins að fyrri alþjóðasamningum um hryðjuverk hafa verið gerðar breytingar á ákvæðum XVIII. kafla almennu hegningarlaganna sem fjallar um brot sem hafa í för með sér almannahættu. Almenna brennuákvæðið í 164. gr. gildir eðli máls samkvæmt um hryðjuverk sem felast í því að valda eldsvoða. Eitt helsta ákvæðið sem gildir um verknaði sem teljast til hryðjuverka, svo sem hryðjuverkasprengingar, er 165. gr. laganna. Í 1. mgr. ákvæðisins segir að sá skuli sæta fangelsi sem bakar öðrum tjón á lífi, líkama eða eignum, með því að valda sprengingu, útbreiðslu skaðlegra lofttegunda, vatnsflóði, skipreika, járnbrautar-, bifreiðar- eða loftfarsslysi eða óförum annarra slíkra farar- eða flutningatækja. Ákvæðið sem staðið hefur óbreytt frá setningu almennu hegningarlaganna 1940 er eitt fárra ákvæða laganna þar sem ekki er getið um tímalengd fangelsisvistar. Af því leiðir að 34. gr. laganna gildir um hámark þess tíma sem unnt er að dæma mann til fangelsisvistar eða 16 ár. Tveimur síðari málsgreinum 165. gr. var bætt við greinina með lögum nr. 41/1973 sem voru sett í tilefni af aðild íslenska ríkisins að þremur alþjóðasamningum um hryðjuverk um borð í loftförum eða í tengslum við flugsamgöngur. Þetta eru Tókýósamningurinn frá 1963, Haag-samningurinn frá 1970 og Montreal-samningurinn frá 1971, en þessir samningar eru taldir eru í kafla II.1 að framan. Skv. 2. mgr. 165. gr. varðar það fangelsi ekki skemur en 2 ár ef maður sem er í loftfari beitir ofbeldi eða hótun um ofbeldi eða annarri ólögmætri aðferð til að ná valdi á stjórn loftfars eða grípur á annan hátt ólöglega inn í stjórn þess og flug. Skv. 3. mgr. 165. gr. varðar það sömu refsingu að veitast með ofbeldi eða hótun um ofbeldi að mönnum sem staddir eru í flughöfn ætlaðri alþjóðlegri flugumferð, enda valdi verknaður eða sé til þess fallinn að valda almannahættu. Í 166. gr. er síðan lögð þyngri refsing við verknuðum skv. 165. og 166. gr. eða 4 ára lágmarksfangelsisrefsing ef verknaður er framinn í þeim tilgangi að koma af stað uppreisn, fjöldaránum eða annarri slíkri röskun á þjóðskipulagi eða allsherjarreglu.
    Ýmis önnur ákvæði XVIII. kafla almennu hegningarlaganna eru til þess fallin að ná yfir hryðjuverkastarfsemi af öðrum meiði. Má þar helst nefna 168. gr. sem leggur allt að 6 ára fangelsisrefsingu við því að raska öryggi ýmissa samgöngutækja eða umferðaröryggi á alfaraleiðum. Skv. 170. gr. varðar það allt að 12 ára fangelsi að valda almennum skorti á drykkjarvatni eða setja skaðleg efni í vatnsból eða vatnsleiðslur. Í 171. gr. er lögð allt að 10 ára fangelsisrefsing við því að láta eitruð eða önnur hættuleg efni í muni sem ætlaðir eru til sölu eða almennrar notkunar þannig að heilbrigði manna sé hætta búin af venjulegri notkun þeirra. Eins varðar það allt að 6 ára fangelsi að hafa á boðstólum eða útbreiða neysluvörur sem vegna skemmda eða af öðrum ástæðum eru hættulegar heilbrigði manna. Loks kveður 175. gr. laganna á um það að hver sem veldur hættu á því að næmur sjúkdómur komi upp eða berist út meðal manna, með því að brjóta gegn lagafyrirmælum um varnir gegn næmum sjúkdómum eða varúðarreglum yfirvalda sem þar að lúta, skuli sæta fangelsi allt að 3 árum. Refsingin getur þó orðið fangelsi allt að 6 árum ef um sjúkdóma er að ræða sem hið opinbera hefur gert sérstakar ráðstafanir til að hefta eða afstýra. Getur síðastnefnda ákvæðið ekki síst komið til skoðunar í ljósi nýlegra atburða í Bandaríkjunum sem eiga sér tæplega hliðstæðu, þ.e. skipuleg útbreiðsla á bakteríum sem valda lífshættulegum sjúkdómum á við miltisbrand, en þeim hefur verið dreift í sendibréfum með póstflutningum og hafa valdið dauðsföllum.
    Að frátöldum fyrrgreindum brotum sem hafa í för með sér almannahættu verður að hafa í huga að þyngri refsing getur legið við hryðjuverkum ef þau leiða til dauða eða líkamstjóns samkvæmt almennum ákvæðum XXIII. kafla laganna um manndráp og líkamsmeiðingar. Varðar manndráp af ásetningi fangelsi ekki skemur en 5 ár eða ævilangt skv. 211. gr. laganna og þungar refsingar liggja við ásetningsbrotum sem valda stórfelldu líkams- eða heilsutjóni. Í ákvæðum XXIV. kafla er fjallað um brot gegn frjálsræði manna og félli t.d. gíslataka undir 226. gr. laganna um frelsissviptingu manna, sem talin er til alvarlegustu brota. Loks má nefna ýmis ákvæði XXVI. kafla almennu hegningarlaganna um auðgunarbrot sem gætu komið til álita í tengslum við hryðjuverkastarfsemi, t.d. stórfellt þjófnaðarbrot skv. 2. mgr. 244. gr. eða rán skv. 252. gr. laganna.

2.     Refsiákvæði um fjármögnun hryðjuverkastarfsemi.
    Ákvæði 22. gr. almennra hegningarlaga gilda að sjálfsögðu um hlutdeild í brotum sem teljast hryðjuverk og lýst var í kafla IV.1. hér á undan. Þannig skal hver sá maður sem með liðsinni í orði eða verki, fortölum, hvatningum eða á annan hátt á þátt í því að brot samkvæmt lögunum er framið, sæta þeirri refsingu sem við brotinu er lögð. En refsiábyrgð skv. 22. gr. fyrir hlutdeild í broti eru sett ákveðin mörk, þegar kemur að ýmsum stuðningsaðgerðum sem tengjast ekki beinlínis ákveðnu broti, t.d. ákveðinni sprengingu eða flugráni eða afmörkuðum verknaði eða verknuðum. Er þannig tæplega hægt að túlka 22. gr. svo rúmt að sá sem veitir fjárhagslega aðstoð til ákveðinnar starfsemi eða félagasamtaka sem standa fyrir einu eða fleiri aðgreindum hryðjuverkum, teljist hlutdeildarmaður í broti, t.d. tiltekinni hryðjuverkaárás, nema sýnt verði fram á bein tengsl á milli fjárframlagsins og þess að hryðjuverkið var framið og vitneskju hans þar um. Getur sönnun um slíkt reynst örðug.
    Fjármögnun hryðjuverkastarfsemi er ekki sjálfstætt refsivert brot samkvæmt almennum hegningarlögum. Hafi fjármagns verið aflað með löglegum hætti og það látið renna til hryðjuverkastarfsemi er því aðeins hægt að koma fram refsiábyrgð eftir ákvæðum þeirra laga ef skilyrðum 22. gr. um hlutdeild er fullnægt. Samkvæmt gildandi löggjöf yrði ekki unnt að að koma fram refsiábyrgð gagnvart lögaðila sem veitir slíkan fjárhagsstuðning. Þó ber að hafa í huga að með auglýsingu nr. 867/2001 um ráðstafanir til að framfylgja ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1373 (2001) um aðgerðir til að hindra fjármögnun hryðjuverka o.fl. er lagt bann við fjármögnun hryðjuverkastarfsemi með þeim hætti sem kveðið er á um í ályktuninni og beinist slíkt bann bæði að einstaklingum og lögaðilum, sbr. 1. og 2. mgr. auglýsingarinnar. Einnig er lagt bann við því í 3. mgr. að einstaklingar og lögaðilar stofni sjóð, sjái um eignaumsýslu eða veiti annars konar beina eða óbeina þjónustu í tengslum við fjármuni í þágu þeirra sem brjóta gegn banni við fjármögnun hryðjuverka. Loks kveður auglýsingin á um skyldu einstaklings eða lögaðila sem hefur heimild til að veita almenningi fjármálaþjónustu, sbr. 1. gr. laga nr. 80/1993, um aðgerðir gegn peningaþvætti, ásamt síðari breytingum, til þess að tilkynna grun um viðskipti samkvæmt ákvæðum 1.–3. mgr. auglýsingarinnar. Í auglýsingunni er kveðið á um að hver sá sem brýtur gegn fyrirmælum hennar skuli sæta viðurlögum skv. 2. gr. laga nr. 5/1969, um framkvæmd fyrirmæla öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, nema þyngri viðurlög liggi við samkvæmt öðrum lögum. Í refsiákvæði laganna eru sektir eða fangelsi allt að 2 árum lagt við brotum á lögunum. Þótt segja megi að fjármögnun hryðjuverks teljist refsivert brot eftir íslenskum lögum eftir birtingu auglýsingarinnar, er nauðsynlegt að lögfesta skýrari ákvæði um þetta í refsilöggjöfinni sem leysa þá af hólmi fyrrgreinda auglýsingu. Einnig ber að hafa í huga að refsingar samkvæmt lögum nr. 5/1969 taka ekki mið af alvarleika þessara brota.
    Skýr refsiákvæði eru í lögum ef fjármunir sem aflað hefur verið ólöglega, t.d. ávinningur af fíkniefnasölu eða ólöglegri vopnaverslun, eru látnir renna til hryðjuverkastarfsemi. Í þeim tilvikum er um peningaþvætti er ræða sem er sjálfstætt refsivert brot skv. 264. gr. almennu hegningarlaganna en þar er lögð allt að 2 ára fangelsisrefsing við því að taka við eða afla sér eða öðrum ávinnings af broti samkvæmt lögunum. Sömu refsingu varðar að geyma eða flytja slíkan ávinning eða aðstoða við afhendingu hans. Var ákvæði þessu bætt við hegningarlögin með lögum nr. 10/1992 í tengslum við aðild íslenska ríkisins að samningi Evrópuráðsins um þvætti, leit, hald og upptöku ávinnings af afbrotum frá 1990 og samningi Sameinuðu þjóðanna frá 1988 gegn ólöglegri verslun með fíkniefni. Í lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti, nr. 80/1993, eru margvíslegar skyldur lagðar á herðar fjármálastofnana svo og einstaklinga og lögaðila sem hafa heimild til að veita almenningi fjármálaþjónustu til þess að vera á verði gagnvart grunsemdum um peningaþvætti og hafa sérstakt eftirlit með því, auk þess sem þeim er skylt að tilkynna til ríkislögreglustjóra um grunsamleg viðskipti.
    Samkvæmt framangreindu er ljóst að á grundvelli gildandi lagaákvæða er unnt að grípa til aðgerða til að hindra fjármögnun hryðjuverkastarfsemi ef hún tengist grunsemdum um peningaþvætti.

3.     Refsiábyrgð lögaðila í tengslum við hryðjuverkastarfsemi.
    Refsiábyrgð lögaðila er undantekning frá hefðbundinni persónulegri refsiábyrgð og verður aðeins beitt þegar sérstök lagaheimild stendur til þess. Með lögum nr. 140/1998 var nýjum kafla bætt við almennu hegningarlögin, kafla II.A með greinum nr. 19 a – 19 c sem fjalla um tilhögun refsiábyrgðar lögaðila. Ákvæðin eru ekki sjálfstæð refsiheimild um tiltekin brot lögaðila heldur mæla þau fyrir um hvernig refsingu verði hagað. Þannig segir í 19. gr. a að lögaðila verði gerð fésekt þegar lög mæla svo fyrir og er nánar fjallað um skilyrði slíkrar refsiábyrgðar, hverjir geti sætt slíkri ábyrgð og hvaða viðurlög komi til greina í 19. gr. b og c.
    Heimildir til þess að lögaðila verði gerð refsing vegna tiltekinna brota má finna á nokkrum stöðum í sérrefsilöggjöfinni. Má nefna sem dæmi ákvæði laga nr. 144/1998, um refsiábyrgð lögaðila vegna mútugreiðslu til opinbers starfsmanns. Eins má nefna 2. mgr. 14. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti, nr. 80/1993.
    Eins og rakið er að framan er það ekki sjálfstætt refsivert brot samkvæmt almennum hegningarlögum að fjármagna hryðjuverkastarfsemi, eins og áskilið er í 2. gr. samningsins um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi. Er því ljóst að ekki er fyrir hendi heimild í almennu hegningarlögunum sem mælir fyrir um refsiábyrgð lögaðila í tilvikum þar sem fjármögnun hryðjuverkastarfsemi á sér stað í starfsemi lögaðila, t.d. banka eða annarra fjármálastofnana.
    Með auglýsingu nr. 867/2001 er sem áður sagði lagt bann við fjármögnun hryðjuverkastarfsemi, og gildir það bæði gagnvart einstaklingum og lögaðilum. Brot á fyrirmælum þessum varðar sektum eða fangelsi allt að 2 árum, sbr. 2. gr. laga nr. 5/1969. Þótt lögaðilum sé eftir birtingu auglýsingarinnar bannað að fjármagna hryðjuverk að viðlögðum fyrrgreindum viðurlögum er nauðsynlegt að setja skýrari ákvæði um þetta í refsilöggjöfina sem leysa þá af hólmi fyrrgreinda auglýsingu.

4.     Refsilögsaga íslenska ríkisins í tengslum við hryðjuverkabrot.
    Reglur um refsilögsögu íslenska ríkisins eru í 4.–7. gr. almennra hegningarlaga. Byggt er á þeirri meginreglu að refsað skuli eftir íslenskum hegningarlögum fyrir brot sem framin eru á íslensku yfirráðasvæði, en einnig að refsa megi íslenskum ríkisborgurum fyrir verknaði sem þeir fremja erlendis, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
    Í 6. gr. laganna eru sérreglur um rýmkaða refsilögsögu íslenska ríkisins fyrir ákveðin brot, jafnvel þótt þau séu framin utan yfirráðasvæðis ríkisins án tillits til hver að því er valdur. Mál skv. 4. tölul., svo og 6., 7. og 9. tölul. 6. gr. skal þó aðeins höfða eftir fyrirskipun dómsmálaráðherra.
    Í 4.–7. tölul. eru ákvæði um slíka rýmkaða refsilögsögu sem var bætt við greinina vegna aðildar Íslands að fjórum alþjóðasamningum gegn ákveðnum tegundum hryðjuverka. Í 4. tölul. 6. gr. er þannig fjallað um brot samkvæmt ákvæðum Haag-samningsins frá 1971 um að koma í veg fyrir ólöglega töku loftfara, sbr. lög nr. 16/1990, í 5. tölul. er fjallað um háttsemi sem greinir í samningi frá 1973 um varnarráðstafanir og refsingar vegna glæpa gegn einstaklingum er njóta alþjóðlegrar verndar, þar á meðal sendierindrekum, sbr. lög nr. 24/1976, í 6. tölul. er fjallað um háttsemi sem greinir í Evrópusamningi frá 1977 um varnir gegn hryðjuverkum, sbr. lög nr. 52/1980, og loks er í 7. tölul. fjallað um háttsemi sem greinir í alþjóðasamningi frá 1979 um varnir gegn töku gísla, sbr. lög nr. 69/1981.
    Samkvæmt ofangreindu er ljóst að íslenska ríkið hefur víðtæka refsilögsögu í tilvikum þar sem háttsemi fellur undir einhvern ofangreindra samninga. Á það m.a. við um háttsemi sem fellur undir Evrópusamninginn um varnir gegn hryðjuverkum. Í þeim samningi er, auk tilvísana til annarra samninga til verndar flugöryggi, getið sérstaklega um brot þar sem notaðar eru sprengjur af ýmsum tegundum til þess að stofna mönnum í hættu eða valda tjóni. Í samningnum er þó ekki fjallað um aðrar lífshættulegar aðferðir, sem kveðið er á um í 1. og 2. gr. samningsins um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar, sem felast í því að losa eiturefni og önnur hættuleg efni til að valda tjóni. Loks eru engin ákvæði um víðtæka refsilögsögu þegar um ræðir brot sem felast í fjármögnun hryðjuverka, enda er slík háttsemi sem áður segir ekki sjálfstætt refsivert brot samkvæmt gildandi löggjöf.

5.     Framsal í tengslum við hryðjuverkabrot.
    Helstu lagareglur um framsal sakamanna eru í lögum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, nr. 13/1984, en sérreglur um framsal sakamanna til Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar eru í lögum nr. 7/1962. Lögin um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum veita heimildir til að framselja mann til erlends ríkis þar sem hann er grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað. Skv. 2. gr. laganna er óheimilt að framselja íslenska ríkisborgara og í 3. gr. laganna er sú meginregla að framsal á manni er aðeins heimilt ef verknaður getur varðað fangelsi í meira en 1 ár samkvæmt íslenskum lögum. Sérreglur varðandi íslenska ríkisborgara eru í lögum um framsal sakamanna til annarra Norðurlanda, en slíkt framsal er heimilt að uppfylltum skilyrðum um að íslenskur ríkisborgari hafi verið búsettur í viðkomandi ríki sem óskar framsals síðustu tvö ár áður en brot er framið og að þyngri refsing en 4 ára fangelsi liggi við brotinu.
    Samkvæmt gildandi lögum eru brot sem almennt teljast til hryðjuverka álitin alvarleg afbrot samkvæmt almennum hegningarlögum og því leikur ekki vafi á að fullnægt sé því skilyrði til framsals sem kveður á um lágmarkstímalengd refsingar í tilvikum þar sem maður er grunaður um afbrot og óskað er framsals á honum. Hins vegar eru ýmsar heimildir í lögunum til þess að synjað verði um framsal vegna ástæðna sem lýst er í 4.–7. gr. laganna. Í 1. mgr. 5. gr. er þannig kveðið á um að framsal vegna stjórnmálaafbrota sé óheimilt en jafnframt segir í 2. mgr. að ef verknaðurinn er jafnframt brot á lagaákvæðum sem ekki eru stjórnmálalegs eðlis er framsal heimilt ef verknaðurinn telst að litlu leyti stjórnmálaafbrot.
    Í 1. gr. Evrópusamnings um varnir gegn pyndingum frá 1977 er kveðið á um að ekki skuli telja brot sem þar eru talin stjórnmálaafbrot. Sama á við brot framin í tengslum við stjórnmálaafbrot og brot framin af stjórnmálalegum hvötum. Þegar Ísland gerðist aðili að samningnum þótti varhugavert að útiloka með öllu rétt íslenska ríkisins til þess að synja um framsal með vísan til þess að um stjórnmálaafbrot væri að ræða. Var því gerður fyrirvari við 1. gr. samningsins, en það var jafnframt í samræmi við afstöðu annarra Norðurlanda um þetta atriði. Þó var tekið fram í greinargerð með frumvarpi, sem varð að breytingarlögum nr. 52/1980 á almennu hegningarlögunum vegna aðildar Íslands að samningnum, að fyrirvari af þessu tagi takmarkaði á engan hátt gildi samningsins til að varna hryðjuverkjum, enda væru ákvæði hans þannig að þau ríki sem synjuðu um framsal væru skuldbundin til að saksækja sjálf í slíkum tilvikum.
    Með lögum nr. 15/2000, um breyting á ýmsum lögum vegna þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu, var nýrri málsgrein bætt við 5. gr. laganna um framsal sakamanna og er þar kveðið á um að með samningi við önnur ríki megi ákveða að tiltekin brot skuli ekki talin stjórnmálaafbrot. Skv. 11. gr. samningsins um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar skuldbinda aðildarríki sig til þess að líta ekki á neitt það brot sem fjallað er um í 2. gr. samningsins sem stjórnmálaafbrot. Sambærilegt ákvæði er í 14. gr. samningsins um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi hvað varðar brot sem skilgreind eru í 2. gr. þess samnings. Með fullgildingu samningsins stendur 5. gr. laganna því ekki í vegi fyrir fyrir framsali vegna stjórnmálaafbrota.
    Hafa ber í huga að skv. 6. gr. laganna um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum er óheimilt að framselja mann ef veruleg hætta er á að hann eftir framsal vegna kynþáttar, þjóðernis, trúar, stjórnmálaskoðana eða að öðru leyti vegna stjórnmálaástæðna verði að sæta ofríki eða ofsóknum sem beinist gegn lífi hans eða frelsi eða er að öðru leyti alvarlegs eðlis. Eru sambærilegar heimildir til að neita framsali í fyrrgreindum samningum, eins og rakið er í köflum III.1 og III.2.

6.     Alþjóðleg samvinna um rannsókn hryðjuverkabrota og gagnkvæm réttaraðstoð.
    Í umfjöllun um Evrópusamvinnu gegn hryðjuverkum í kafla II.2 voru taldir ýmsir samningar sem íslenska ríkið er aðili að og varða bæði framsalsmálefni svo og gagnkvæma aðstoð í sakamálum og fullnustu erlendra refsiákvarðana. Hafa ýmsar lagabreytingar verið gerðar til þess að koma á þeirri samvinnu sem þessir samningar kveða á um. Má þar einkum nefna IV. kafla laganna um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Skv. 1. mgr. 22. gr. laganna er þannig unnt að beita ákvæðum laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, til að afla sönnunargagna til notkunar í refsimáli í öðru ríki, með samsvarandi hætti og í sambærilegum málum sem rekin eru hér á landi. Þannig verður beitt ákvæðum laga um meðferð opinberra mála um leit, haldlagningu og aðrar rannsóknaraðgerðir lögreglu að beiðni lögregluyfirvalda annarra ríkja, ef grunur leikur á að maður staddur hér á landi hafi framið hryðjuverk erlendis. Ljóst er að slíkur verknaður er refsiverður samkvæmt íslenskum refsilögum og auk þess er heimilt í flestum tilvikum að höfða opinbert mál gegn honum hér á landi í ljósi víðtækrar refsilögsögu 6. gr. almennra hegningarlaga sem áður hefur verið lýst. Skv. 3. mgr. 22. gr. laganna er óheimilt að verða við beiðni um öflun sönnunargagna ef verknaðurinn sem hún er tilkomin vegna er ekki refsiverður samkvæmt íslenskum lögum.
    Þar sem fjármögnun hryðjuverka er ekki sjálfstætt refsivert brot hér samkvæmt gildandi löggjöf yrði því ekki unnt að grípa til rannsóknaraðgerða samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála í þágu rannsóknar máls í öðru ríki sem beinist að fjármögnun hryðjuverka. Slíkt yrði þó kleift ef rannsókn beindist að hlutdeild í hryðjuverkabroti en slík háttsemi er refsiverð samkvæmt íslenskum lögum. Eftir birtingu auglýsingar nr. 867/2001 um ráðstafanir til að framfylgja ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna er bannað að fjármagna hryðjuverkastarfsemi að viðlagðri refsingu skv. 2. gr. laga nr. 5/1969 og því er hugsanlegt að byggja megi rannsóknaraðgerðir lögreglu á slíkri refsiheimild. Nauðsynlegt er þó að setja skýrari lagaheimildir um þessi brot, eins og frumvarpið stefnir að, en með því er m.a. tryggður lagagrundvöllur til að unnt sé að veita öðru ríki réttaraðstoð á þessu sviði.
    Samkvæmt 23. gr. laganna um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum er heimilt að ákveða vegna meðferðar refsimáls í öðru ríki að maður sem hér á landi er fangelsaður eða sviptur frelsi samkvæmt dómi vegna refsiverðs verknaðar skuli sendur til annars ríkis til yfirheyrslu sem vitni eða til samprófunar. Samkvæmt þessu er íslenskum stjórnvöldum unnt að veita aðstoð að þessu leyti þegar um ræðir rannsókn erlends ríkis á hryðjuverkabrotum.
    Samkvæmt almennum ákvæðum 2. gr. laga um alþjóðlega samvinnu um fullnustu refsidóma, nr. 56/1993, yrði heimilt að framfylgja hér á landi ákvörðunum erlendra dómstóla varðandi eignaupptöku á fjármunum sem nota á til að fjármagna hryðjuverkastarfsemi og að grípa til nauðsynlegra undirbúningsaðgerða í því skyni, svo sem haldlagningar eða kyrrsetningar á fjármunum sem nánar er kveðið á um í lögum nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála.

V.     Helstu breytingar sem stefnt er að með frumvarpinu.
    Í frumvarpinu er stefnt að því að gera nauðsynlegar breytingar á refsilöggjöfinni til þess að unnt verði að fullgilda fyrrgreinda alþjóðasamninga um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar og fjármögnun hryðjuverka. Í því skyni eru lagðar til breytingar á ákvæðum almennra hegningarlaga, nr. 144/1998, og laga nr. 144/1998, um refsiábyrgð lögaðila vegna mútugreiðslu til opinbers starfsmanns. Þær breytingar sem talin er þörf á að gera má draga saman í fimm eftirfarandi atriði:
    Í fyrsta lagi lúta tillögur frumvarpsins að því að skilgreina verknaðinn hryðjuverk í almennum hegningarlögum með skýrari hætti en í gildandi lögum og að þau verði talin til alvarlegustu afbrota.
    Í öðru lagi er lagt til að fjármögnun hryðjuverkastarfsemi verði skilgreind sem sjálfstæður refsiverður verknaður samkvæmt almennum hegningarlögum.
    Í þriðja lagi er lagt til að skýrar reglur verði settar um refsiábyrgð þess sem með liðsinni í orði eða verki, fortölum, hvatningum eða á annan hátt styður refsiverða starfsemi eða markmið félags eða hóps sem fremur eða hefur þann tilgang að fremja hryðjuverk.
    Í fjórða lagi er lagt til að unnt verði að leggja refsiábyrgð á lögaðila vegna fjármögnunar hryðjuverkastarfsemi.
    Í fimmta lagi er refsilögsaga íslenska ríkisins rýmkuð þannig að unnt verði að refsa fyrir háttsemi sem greinir í samningunum tveimur án tillits til þess hvar brot var framið og án tillits til þess hver að því er valdur.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í 6. gr. almennra hegningarlaga eru heimildir til að sækja mann til saka eftir íslenskum hegningarlögum fyrir tiltekin brot enda þótt þau séu framin utan íslenska ríkisins og án tillits til þess hver er að þeim valdur. Hér er lögð til viðbót við það ákvæði þannig að það taki einnig til brota sem falla undir alþjóðasamning um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar og alþjóðasamning um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi. Með þessu er tryggt að íslensk lög fullnægi áskilnaði í 6. gr. fyrrnefnda samningsins og í 7. gr. þess síðarnefnda. Hliðstæðar breytingar á almennum hegningarlögum hafa áður verið gerðar í tilefni af fullgildingu alþjóðasamninga á sviði refsiréttar sem leggja skyldur á aðildarríki að rýmka refsilögsögu sína vegna brota sem þar eru talin.

Um 2. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að þremur nýjum greinum verði bætt við lögin þar sem hryðjuverk verði skilgreind og sérstaklega mælt fyrir um refsinæmi þeirra, bæði gagnvart þeim sem fremja slík brot og gagnvart þeim sem á einhvern hátt styðja slíka starfsemi. Ákvæðin eru í samræmi alþjóðlega stefnumörkun um aðgerðir á þessu sviði í kjölfar atburðanna í Bandaríkjunum 11. september 2001 og miða að því að tryggja að íslensk lög fullnægi skuldbindingum samkvæmt alþjóðasamþykktum sem gerðar hafa verið á vegum Sameinuðu þjóðanna gegn hryðjuverkum og nánar er fjallað um hér að framan í kafla III. 1-3 í almennum athugasemdum með frumvarpinu. Þessum ákvæðum er einnig ætlað að tryggja að reglur um refsivernd hér á landi gegn hryðjuverkum verði í samræmi við reglur í nágrannalöndum um þetta efni. Með hliðsjón af því er jafnframt tekið mið af rammaákvörðun Evrópusambandsins um baráttu gegn hryðjuverkum sem samkomulag náðist um á fundi ráðherraráðsins 6. desember 2001. Lagt er til að umræddum ákvæðum verði bætt við lögin næst á eftir 100. gr. þeirra í XI. kafla um brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess.
     Um a-lið.
    Í greininni er lagt til að sett verði ákvæði sem mælir sérstaklega fyrir um refsinæmi hryðjuverka. Með hryðjuverkum er átt við tiltekin alvarleg brot sem framin eru í ákveðnum tilgangi. Með þessu er lögð sérstök áhersla á alvarleika hryðjuverka og er gert ráð fyrir að brot sem framin eru sem hryðjuverk varði þyngri refsingu en þegar þau brot sem talin eru í greininni eru framin í öðru skyni. Í greininni er lagt til að refsimörk verði allt að ævilöngu fangelsi. Í þeim greinum almennra hegningarlaga sem ákvæðið tekur til liggur tímabundið fangelsi við þeim brotum að frátalinni 211. gr. laganna um manndráp af ásetningi en slíkt brot getur einnig varðað allt að ævilöngu fangelsi. Þótt hámark refsinga sé það sama er allt að einu gert ráð fyrir að það hafi áhrif til þyngingar á refsingu að manndráp sé framið sem hryðjuverk.
    Með hryðjuverki í skilningi ákvæðisins er átt við nánar tilgreind brot sem framin eru í þeim tilgangi að valda verulegum ótta hjá almenningi eða til að þvinga með ólögmætum hætti íslensk eða erlend stjórnvöld eða alþjóðastofnun til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert eða til að veikja eða skaða stjórnskipun eða stjórnmálalegar, efnahagslegar eða þjóðfélagslegar undirstöður ríkis eða alþjóðastofnunar. Einnig er áskilið að verknaðurinn í ljósi eðlis hans eða með hliðsjón af aðstæðum þegar og þar sem hann er framinn geti valdið ríki eða alþjóðastofnun alvarlegum skaða. Þessi skilgreining á hryðjuverki tekur mið af 1. gr. rammaákvörðunar Evrópusambandsins um baráttu gegn hryðjuverkum og b-lið 1. mgr. 2. gr. alþjóðasamnings um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi.
    Í ákvæðinu er refsinæmi verknaðar ekki bundið við að brot beinist gegn íslenskum stjórnvöldum heldur nær refsiverndin einnig til erlendra stjórnvalda og alþjóðastofnana. Sama á við þegar tilgangur brots er að valda verulegum ótta hjá almenningi og því er verknaður refsiverður samkvæmt ákvæðinu ef brot beinist að almenningi í öðru ríki. Þetta tekur mið af alþjóðlegu eðli hryðjuverka og mikilvægi þess að þjóðir heims sýni ríka samstöðu í baráttunni gegn slíkri brotastarfsemi, enda miklir sameiginlegir hagsmunir í húfi.
    Með stjórnvöldum í skilningi ákvæðisins er átt við stjórnvöld af hvaða tagi sem er og tekur það því bæði til æðstu stjórnvalda ríkisins sem og lægra settra stjórnvalda, auk staðbundinna stjórnvalda.
    Samkvæmt ákvæðinu er verknaður refsiverður án tillits til þess hvort hann er framinn með það fyrir augum að ná fram einhverjum ákveðnum markmiðum af stjórnmálalegum toga. Þannig er brot refsivert þótt það miði að því einu að koma á upplausn og almennum óróa.
    Í 2. mgr. er lagt til að það varði sömu refsingu að hóta að fremja þau brot sem talin eru í 1. mgr. ef það er gert í þeim hryðjuverkatilgangi sem þar er nánar lýst.
     Um b-lið.
    Hér er mælt fyrir um refsinæmi þess að fjármagna hryðjuverkastarfsemi. Ákvæðið tekur mið af 1.–3. mgr. 2. gr. alþjóðasamnings um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi og 1. gr. ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1373 (2001).
    Samkvæmt ákvæðinu varðar allt að 10 ára fangelsi að styðja beint eða óbeint mann, félag eða hóp sem fremur eða hefur þann tilgang að fremja hryðjuverk með því að leggja fram fé eða veita annan fjárhagslegan stuðning, útvega eða safna saman fjármagni eða með öðrum hætti að gera fjármagn aðgengilegt.
    Verknaður er refsiverður eftir ákvæðinu ef fjármagn er látið renna til samtaka sem hafa þann tilgang að fremja hryðjuverk. Í því sambandi breytir engu þótt hryðjuverk sé ekki eini tilgangur viðkomandi samtaka og þau hafi að einhverju leyti með höndum starfsemi sem í sjálfu sér telst lögmæt. Í þessu sambandi má nefna að sum hryðjuverkasamtök starfa einnig á sviði menningar-, mannréttinda- og mannúðarmála. Væri verknaður allt að einu refsiverður þótt fjármagn væri látið af hendi í því skyni að það verði notað í þágu slíkrar starfsemi.
    Samkvæmt ákvæðinu er verknaður refsinæmur án tillits til þess hvort hryðjuverk eru fjármögnuð beint eða óbeint. Þannig væri refsivert ef einhver léti fé af hendi rakna til einhvers vitandi vits að sá sem safnar fjármunum mun láta þá renna áfram til hryðjuverkastarfsemi. Verknaður er refsiverður án tillits til þess hvernig fjármögnun fer fram. Þannig gæti hún falist í því að brotamaður leggur sjálfur fram eigið fé, aflar þess frá öðrum eða gerir fé aðgengilegt með því að veita það að láni. Þá er refsinæmi verknaðar ekki bundið við fjármögnun með því að gera peninga aðgengilega og því væri fjárhagslegur stuðningur af öðru tagi einnig refsiverður, svo sem að láta í té eða afla einhverrar þjónustu endurgjaldslaust. Í sumum tilvikum getur þó reynt á markatilvik milli þess hvort slík háttsemi fellur undir þessa grein eða það ákvæði sem lagt er til að komi í 100. gr. c og rætt verður hér á eftir.
    Gert er ráð fyrir að refsiábyrgð á grundvelli hlutdeildar, sbr. 22. gr. almennra hegningarlaga, í broti gegn 100. gr. a laganna verði beitt ef fyrir liggur ásetningur til að taka þátt í tilteknu hryðjuverki með fjármögnun þess. Ef á hinn bóginn er ekki hægt að sýna fram á að ásetningur hafi staðið til fjármögnunar ákveðins hryðjuverks yrði refsað fyrir fjármögnun samkvæmt þessu ákvæði laganna.
     Um c-lið.
    Í ákvæðinu er að finna sérstaka reglu um refsinæmi þess að styðja á einhvern hátt við hryðjuverkastarfsemi. Það miðar að því að tryggja að ákvæði refsilaga fullnægi áskilnaði í c-lið 5. mgr. 2. gr. alþjóðasamnings um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi og áskilnaði c-liðar 3. mgr. 2. gr. samnings um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar. Samkvæmt þessum ákvæðum, sem eru efnislega samhljóða, telst það brot í skilningi samninganna ef aðstoð er veitt í því skyni að stuðla að framgangi afbrotastarfsemi hóps manna, sem starfar að því sameiginlega markmiði að fremja hryðjuverk, eða í vitneskju um þann ásetning hópsins að fremja hryðjuverk. Samkvæmt þessum ákvæðum er ekki gerð sú krafa að hlutdeild beinist að ákveðnu broti og því er ekki vafalaust að fullt samræmi sé að þessu leyti milli íslenskra laga um refsiábyrgð vegna hlutdeildar og umræddra alþjóðasamninga.
    Í tilefni af fullgildingu umræddra alþjóðasamninga þykir ekki tilefni til að gera breytingar á þeim almennu reglum sem gilda um hlutdeild, sbr. 22. gr. almennra hegningarlaga, enda er í sjálfu sér varhugavert að rýmka þau ákvæði á þann veg að þau geti tekið til athafna þegar ekki er fyrir hendi ásetningur til hlutdeildar í ákveðnu broti. Hér ber þó að gæta þess að athafnir af slíku tagi geta falið í sér sjálfstætt brot, sbr. 121. gr. almennra hegningarlaga sem mælir fyrir um refsinæmi þess að hvetja menn opinberlega til refsiverðra verka eða fallast opinberlega og greinilega á landráð eða brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess. Í stað þess að breyta þessum almennu ákvæðum refsilaga er lagt til að lögfest verði sérregla sem taki til fjarlægari stuðningsaðgerða við hryðjuverk. Slík undantekning frá almennum reglum helgast af brýnni þörf til að skapa ríka refsivernd gegn þessum alvarlegu glæpum, auk þess sem búa verður svo um hnútana að hafið sé yfir vafa að Ísland fullnægi þeim þjóðréttarlegu skuldbindingum sem fyrirhugað er að gangast undir á þessu sviði.
    Í því ákvæði sem hér er lagt til að bætt verði við lögin segir að fangelsi allt að 6 árum skuli sá sæta sem með liðsinni í orði eða verki, fortölum, hvatningu eða á annan hátt styður refsiverða starfsemi eða sameiginlegt markmið félags eða hóps, sem framið hefur eitt eða fleiri brot gegn 100. gr. a eða 100. gr. b, og starfsemin eða markmiðin fela í sér að eitt eða fleiri slík brot séu framin. Í dæmaskyni um athafnir sem gætu fallið undir ákvæðið má nefna sérfræðiráðgjöf við hryðjuverkasamtök án þess þó að sú ráðgjöf varði tiltekin hryðjuverk.
    Samkvæmt ákvæðinu er áskilið að verknaður feli í sér stuðning af einhverju tagi. Af því leiðir að utan efnis þess fellur það eitt að sýna sjónarmiðum eða stefnumálum samtaka sem tengjast hryðjuverkum skilning eða samúð.
    Með sama hætti og á við um 100. gr. b er gert ráð fyrir að refsiábyrgð á grundvelli hlutdeildar, sbr. 22. gr. almennra hegningarlaga, í broti gegn 100. gr. a laganna verði beitt ef fyrir liggur ásetningur að taka þátt í tilteknu hryðjuverki. Ef ekki er unnt að sýna fram á að ásetningur hafi staðið til ákveðins hryðjuverks yrði hins vegar refsað fyrir stuðning samkvæmt þessu ákvæði.

Um 3. gr.

    Í frumvarpinu er lagt til að breytingar verði gerðar á lögum um refsiábyrgð lögaðila vegna mútugreiðslu til opinbers starfsmanns, nr. 144/1998, þannig að hryðjuverk og stuðningur við hryðjuverkastarfsemi verði meðal þeirra brota sem unnt er að draga lögaðila til refsiábyrgðar fyrir ef slík brot eru framin í starfsemi hans. Með þessu verður fullnægt skuldbindingum skv. 5. gr. alþjóðasamnings um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi sem gerir ráð fyrir að unnt sé að draga lögaðila til ábyrgðar vegna þeirra brota sem falla undir samninginn.
    Samkvæmt 19. gr. a almennra hegningarlaga, svo sem lögunum var breytt með lögum nr. 140/1998, er unnt að beita lögaðila sektum þegar lög hafa að geyma slíka heimild. Til að íslensk lög fullnægi áskilnaði umrædds alþjóðasamnings verður því að mæla sérstaklega fyrir um slíka refsiábyrgð í lögum en það er unnt að gera á tvo vegu. Annars vegar er hægt að lögfesta almenna heimild til að refsa lögaðilum sem ekki er þá bundin við hryðjuverk, en slík ábyrgð hefur á undanförnum árum verið lögfest í nágrannalöndum. Hér má nefna að refsiábyrgð af því tagi var lögfest í 3. kafla a norsku hegningarlaganna með lögum frá 1991. Einnig var með lögum frá árinu 2001 mælt fyrir um slíka ábyrgð í 306. gr. dönsku hegningarlaganna. Hins vegar er unnt að lögfesta heimild í sérlögum til að refsa lögaðilum vegna þeirra brota sem falla undir það ákvæði sem gert er ráð fyrir að komi í 100. gr. a – 100. gr. c í almennu hegningarlögunum. Slík leið hefur áður verið farin til að laga refsilög að alþjóðasamningum, sbr. lög um refsiábyrgð lögaðila vegna mútugreiðslu til opinbers starfsmanns, nr. 144/1998.
    Hefur sá kostur verið valinn hér að setja tillögur að reglum um refsiábyrgð lögaðila í tengslum við hryðjuverkastarfsemi inn í sérlög með sama hætti og gert var í tengslum við aðild að alþjóðasamningi um baráttu gegn mútugreiðslum. Stefnt er að því að kanna nánar lagabreytingar sambærilegar þeim sem gerðar hafa verið í Noregi og Danmörku varðandi almenna heimild í hegningarlögum til að refsa lögaðilum en slíkar breytingar þykja ekki tímabærar að svo stöddu.

Um 4. gr.


    Í greininni er lagt til að heiti laga um refsiábyrgð lögaðila vegna mútugreiðslu til opinbers starfsmanns breytist í samræmi við það að fleiri brotum er bætt við lögin sem unnt er að draga lögaðila til refsiábyrgðar fyrir og gefi til kynna hvaða brota þau ná til með almennri tilvísun til mútugreiðslna og hryðjuverka.

Um 5. gr.

    Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi, enda er gert ráð fyrir að þeir alþjóðasamningar sem laga á lögin að verði fullgiltir í kjölfar þingsályktunar þar að lútandi.



Fylgiskjal I.


Alþjóðasamningur um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar.


     Aðildarríki samnings þessa,
     hafa í huga tilgang og meginreglur sáttmála Sameinuðu þjóðanna um að varðveita heimsfrið og öryggi og stuðla að velvild, vináttu og samvinnu meðal ríkja,
     hafa miklar áhyggjur af vaxandi hryðjuverkastarfsemi í heiminum í hverri mynd sem hún birtist,
     minnast yfirlýsingar í tilefni hálfrar aldar afmælis Sameinuðu þjóðanna hinn 24. október 1995,
     minnast einnig yfirlýsingar um ráðstafanir til að útrýma alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi er fylgdi ályktun allsherjarþingsins nr. 49/60 frá 9. desember 1994 þar sem því er meðal annars lýst yfir að „aðildarríki Sameinuðu þjóðanna ítreka með alvöruþunga eindregna fordæmingu sína á öllum aðgerðum, aðferðum og atferli hryðjuverkamanna sem glæpsamlegu og óréttlætanlegu, hvar sem þau eru framin og af hverjum sem þau eru framin, þar á meðal aðgerðum, aðferðum og atferli sem stefna í hættu vinsamlegum samskiptum ríkja og þjóða og ógna friðhelgi og öryggi ríkja“,
     veita því athygli að í yfirlýsingunni eru aðildarríki einnig hvött til að „endurskoða án tafar umfang gildandi þjóðréttarreglna um varnir gegn hryðjuverkum, baráttu gegn þeim og útrýmingu þeirra, í hverri mynd sem þau birtast, í því skyni að tryggja að fyrir hendi sé lagalegur heildarrammi sem tekur til allra þátta málsins“,
     minnast einnig ályktunar allsherjarþingsins nr. 51/210 frá 17. desember 1996 og yfirlýsingar til viðbótar yfirlýsingunni frá 1994 um ráðstafanir til að útrýma alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi sem fylgir ályktuninni,
     veita því einnig athygli að árásir hryðjuverkamanna með sprengiefnum eða öðrum lífshættulegum aðferðum hafa orðið algengari,
     veita því enn fremur athygli að ekki er brugðist við þessum árásum á fullnægjandi hátt með núgildandi fjölhliða réttarreglum,
     eru sannfærð um að brýna nauðsyn beri til að auka samvinnu ríkja á milli við að móta og taka upp árangursríkar og hentugar ráðstafanir til að koma í veg fyrir slík hryðjuverk, sækja hryðjuverkamenn til saka og koma fram refsingu gagnvart þeim,
     telja að það sé öllu hinu alþjóðlega samfélagi mikið áhyggjuefni að slík verk skuli vera framin,
     veita því athygli að starfsemi herja ríkja lýtur reglum þjóðaréttar utan ramma þessa samnings og að þótt tilteknar aðgerðir falli ekki undir samning þennan leiðir ekki af því að aðgerðir, sem annars eru ólögmætar, séu umliðnar eða gerðar lögmætar, eða að ekki geti komið til saksóknar samkvæmt öðrum lögum,
     og hafa orðið ásátt um eftirfarandi:

1. gr.

    Í samningi þessum merkir:
    1. „Aðstaða á vegum ríkis eða stjórnvalda“ hverja þá aðstöðu eða samgöngutæki sem til frambúðar eða til bráðabirgða er nýtt eða notað af fulltrúum ríkis, embættismönnum ríkisstjórnar, handhöfum löggjafarvalds eða dómsvalds, embættismönnum eða starfsmönnum ríkis, opinbers stjórnvalds eða aðila, eða af starfsmönnum eða embættismönnum milliríkjastofnunar í tengslum við opinbert starf þeirra.
    2. „Almenningsmannvirki“ öll mannvirki í eigu opinberra aðila eða einkaaðila sem veita eða dreifa þjónustu í þágu almennings, svo sem vatnsveitur, skolplagnir, orkuleiðslur, eldsneytisleiðslur eða samgöngumannvirki.
    3. „Sprengja eða önnur lífshættuleg aðferð“:
     (a)      vopn eða aðferð sem ætlað er eða til þess er fallin að valda bana, alvarlegu líkamstjóni eða verulegu eignatjóni með sprengingu eða íkveikju; eða
     (b)      vopn eða aðferð sem ætlað er eða til þess er fallin að valda bana, alvarlegu líkamstjóni eða verulegu eignatjóni með því að leysa frá sér eða dreifa eiturefnum, lífrænum efnum eða eitri eða áþekkum efnum, eða geislavirkni eða geislavirkum efnum, eða blanda þessum efnum saman.
    4. „Her ríkis“ her ríkis sem skipulagður er, þjálfaður og útbúinn samkvæmt landslögum þess í því skyni fyrst og fremst að halda uppi landvörnum og öryggi, og menn sem eru hernum til stuðnings og lúta formlegu skipunarvaldi hans og stjórn og starfa á ábyrgð hans.
    5. „Almenningsstaðir“ þá hluta byggingar, landsvæðis, vegar, vatnaleiðar eða annars staðar sem aðgengilegir eru eða opnir almenningi, hvort sem það er alltaf, reglulega eða af og til, og falla þar undir staðir þar sem stunduð er verslun, atvinnurekstur eða menningarstarfsemi, sögustaðir, staðir til menntunar- eða trúariðkunar, opinberir stjórnarstaðir, skemmti- og frítímastaðir og áþekkir staðir sem aðgengilegir eru eða opnir almenningi.
    6. „Almenningssamgöngukerfi“ alla aðstöðu, samgöngutæki og búnað, hvort sem er í opinberri eigu eða í einkaeign, sem notuð eru til flutninga á fólki eða vörum og eru almenningi til afnota.

2. gr.

    1. Sá fremur afbrot í skilningi samnings þessa sem með ólögmætum hætti og af ásetningi fer með sprengju eða með annarri lífshættulegri aðferð inn á, inn í eða gegn almenningsstað, aðstöðu á vegum ríkis eða stjórnvalda, almenningssamgöngukerfi eða almenningsmannvirki, kemur henni þar fyrir, gerir hana virka eða sprengir hana:
     (a)      í þeim ásetningi að valda bana eða alvarlegu líkamstjóni; eða
     (b)      í þeim ásetningi að valda umfangsmikilli eyðileggingu á viðkomandi stað, aðstöðu eða kerfi, og eyðileggingin veldur eða er líkleg til að valda miklu efnahagslegu tjóni.
    2. Sá fremur einnig afbrot sem gerir tilraun til að fremja afbrot sem fjallað er um í 1. mgr.
    3. Sá fremur einnig afbrot sem:
     (a)      á hlutdeild í afbroti sem fjallað er um í 1. eða 2. mgr.; eða
     (b)      skipuleggur afbrot sem fjallað er um í 1. eða 2. mgr. eða stjórnar framkvæmd þess; eða
     (c)      stuðlar með einhverjum öðrum hætti að því að hópur manna, sem starfar að sameiginlegu markmiði, fremur eitt eða fleiri afbrot sem fjallað er um í 1. eða 2. mgr., enda sé það gert af ásetningi og annaðhvort í því skyni að veita afbrotastarfsemi hópsins eða hinu glæpsamlega markmiði hans framgang, eða gert með vitneskju um þann ásetning hópsins að fremja slík afbrot.

3. gr.

    Samningur þessi gildir ekki um afbrot sem framið er innan eins ríkis ef meintur brotamaður og þeir sem fyrir afbrotinu verða eru ríkisborgarar þess ríkis, hinn meinti brotamaður er á yfirráðasvæði þess og ekki er grundvöllur skv. 1. eða 2. mgr. 6. gr. samnings þessa fyrir því að neitt annað ríki beiti lögsögu í málinu, en þó skulu ákvæði 10.–15. gr. gilda í slíkum tilvikum eftir því sem við á.

4. gr.

    Hvert aðildarríki skal gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar kunna að vera til að:
     (a)      gera þau afbrot sem fjallað er um í 2. gr. samnings þessa refsiverð samkvæmt landslögum sínum;
     (b)      leggja viðeigandi refsingu við þeim afbrotum þannig að tillit sé tekið til alvarleika þeirra.

5. gr.

    Hvert aðildarríki skal gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar kunna að vera, þar á meðal með lagasetningu þar sem við á, til að tryggja að afbrot er falla undir samning þennan, sérstaklega ef þeim er ætlað eða þau eru við það miðuð að leiða til ógnarástands meðal almennings, hópa eða einstaklinga, séu aldrei talin réttlætanleg vegna sjónarmiða af stjórnmálalegum, heimspekilegum, hugmyndafræðilegum, kynþáttalegum, þjóðernislegum, trúarlegum eða öðrum svipuðum toga, og að fyrir þau sé refsað í samræmi við alvarleika þeirra.

6. gr.

    1. Hvert aðildarríki skal gera þær ráðstafanir sem kunna að vera nauðsynlegar til að afla sér lögsögu vegna afbrota sem fjallað er um í 2. gr. þegar:
     (a)      afbrotið er framið á yfirráðasvæði þess; eða
     (b)      afbrotið er framið um borð í skipi er siglir undir fána þess eða í loftfari sem skráð er samkvæmt lögum þess þegar það er framið; eða
     (c)      afbrotið er framið af ríkisborgara þess.
    2. Aðildarríki getur einnig aflað sér lögsögu vegna slíks afbrots þegar:
     (a)      afbrotið er framið gegn ríkisborgara þess; eða
     (b)      afbrotið beinist gegn aðstöðu á vegum ríkis eða stjórnvalda þess ríkis erlendis, þar með töldu sendiráði þess eða ræðisskrifstofu; eða
     (c)      afbrotið er framið af ríkisfangslausum manni sem að jafnaði dvelst á yfirráðasvæði þess ríkis; eða
     (d)      afbrotið er framið í viðleitni til að neyða það ríki til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert; eða
     (e)      afbrotið er framið um borð í loftfari sem rekið er á vegum þess ríkis.
    3. Hvert aðildarríki skal, þegar það fullgildir, staðfestir eða samþykkir samning þennan eða gerist aðili að honum, tilkynna aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna hverrar lögsögu það hefur aflað sér að eigin landslögum í samræmi við 2. mgr. Verði einhver breyting þar á skal aðildarríkið þegar tilkynna það aðalframkvæmdastjóranum.
    4. Hvert aðildarríki skal á sama hátt gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar kunna að vera til að afla sér lögsögu vegna afbrota sem fjallað er um í 2. gr. þegar meintur brotamaður er staddur á yfirráðasvæði þess og það framselur hann ekki neinu því aðildarríki sem aflað hefur sér lögsögu skv. 1. eða 2. mgr.
    5. Samningur þessi kemur ekki í veg fyrir að aðildarríki beiti hverri þeirri refsilögsögu sem það hefur öðlast samkvæmt eigin landslögum.

7. gr.

    1. Er aðildarríki hafa borist upplýsingar um að maður, sem framið hefur afbrot sem fjallað er um í 2. gr. eða talinn er hafa gert það, kunni að vera staddur á yfirráðasvæði þess skal það gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar kunna að vera samkvæmt landslögum þess til að rannsaka þau atvik sem þar greinir.
    2. Ef brotamaður eða meintur brotamaður er staddur á yfirráðasvæði aðildarríkis skal það, er það hefur gengið úr skugga um að aðstæður réttlæti það, gera viðeigandi ráðstafanir samkvæmt landslögum sínum til að tryggja nærveru hans með tilliti til saksóknar eða framsals.
    3. Hver sá sem ráðstafanir skv. 2. mgr. eru gerðar gagnvart á rétt á:
     (a)      að hafa tafarlaust samband við næsta viðeigandi fulltrúa þess ríkis þar sem hann á ríkisborgararétt eða þess ríkis sem á annan hátt er bært til að gæta réttinda hans, eða, sé hann ríkisfangslaus, þess ríkis sem yfirráðasvæði hefur þar sem hann dvelst að jafnaði;
     (b)      að fá vitjun fulltrúa þess ríkis;
     (c)      að vera skýrt frá réttindum sínum skv. a- og b-liðum.
    4. Með réttindi þau sem tilgreind eru í 3. mgr. skal farið í samræmi við lög og reglur í því ríki sem hefur yfirráðasvæði þar sem brotamaður eða meintur brotamaður er staddur, þó með þeim fyrirvara að þau lög og reglur nái að fullu þeim tilgangi sem réttindum þeim, sem kveðið er á um í 3. mgr., er ætlað að ná.
    5. Ákvæði 3. og 4. mgr. skulu í engu skerða rétt aðildarríkis sem krafist getur lögsögu skv. c-lið 1. mgr. eða c-lið 2. mgr. 6. gr. til að bjóða alþjóðanefnd Rauða krossins að hafa samband við hinn meinta brotamann og vitja hans.
    6. Þegar aðildarríki hefur tekið mann í gæslu samkvæmt þessari grein skal það þegar, beint eða fyrir milligöngu aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, tilkynna þeim aðildarríkjum sem aflað hafa sér lögsögu skv. 1. eða 2. mgr. 6. gr., og, ef það telur rétt að gera svo, öðrum aðildarríkjum sem láta sig það varða, um að maðurinn sé í gæslu og um þau atvik sem réttlæta gæslu hans. Ríkið sem annast þá rannsókn sem ráðgerð er í 1. mgr. skal þegar skýra þeim aðildarríkjum frá niðurstöðum sínum og taka fram hvort það hyggist beita lögsögu sinni.

8. gr.

    1. Í málum sem 6. gr. gildir um er því aðildarríki sem hefur yfirráðasvæði þar sem meintur brotamaður er staddur skylt, undantekningarlaust og hvort sem afbrotið var framið á yfirráðasvæði þess eða ekki, að leggja málið án ástæðulausrar tafar fyrir viðeigandi yfirvöld sín til saksóknar með þeim hætti sem kveðið er á um í lögum þess, nema hann sé framseldur. Þau yfirvöld skulu taka ákvörðun sína á sama hátt og í öðrum alvarlegum brotamálum samkvæmt lögum þess ríkis.
    2. Heimili landslög aðildarríkis því aðeins að framselja eða láta á annan hátt af hendi eigin ríkisborgara með því skilyrði að hann verði sendur til baka til þess ríkis til að afplána refsingu sem honum var ákvörðuð eftir þau réttarhöld eða þá málsmeðferð sem framsals eða afhendingar hans var óskað út af, og bæði það ríki og ríkið sem framsals óskar fallast á það skilyrði og aðra skilmála sem þau kunna telja við eiga, nægir slíkt skilyrt framsal eða afhending til að uppfylla skyldu þá sem kveðið er á um í 1. mgr.

9. gr.

    1. Litið skal svo á að afbrot sem fjallað er um í 2. gr. séu meðal framsalsbrota í öllum framsalssamningum sem í gildi eru milli aðildarríkja áður en samningur þessi öðlast gildi. Aðildarríki skuldbinda sig til að telja þau afbrot meðal framsalsbrota í öllum framsalssamningum sem síðar kunna að verða gerðir milli þeirra.
    2. Þegar aðildarríki, sem gerir framsalssamning að skilyrði fyrir framsali, tekur við framsalsbeiðni frá öðru aðildarríki sem það hefur ekki framsalssamning við getur það aðildarríki sem við beiðninni tekur að eigin ákvörðun litið svo á að samningur þessi sé lagalegur grunnur framsals varðandi afbrot þau sem fjallað er um í 2. gr. Framsal skal háð þeim skilyrðum öðrum sem kveðið er á um í lögum þess ríkis sem beiðninni er beint til.
    3. Aðildarríki sem gera ekki framsalssamning að skilyrði fyrir framsali skulu viðurkenna þau afbrot sem fjallað er um í 2. gr. sem framsalsbrot sín á milli, með þeim skilyrðum sem kveðið er á um í lögum þess ríkis sem framsalsbeiðni er beint til.
    4. Ef nauðsynlegt er skal hvað framsal milli aðildarríkja snertir farið með afbrot þau sem fjallað er um í 2. gr. eins og þau hefðu ekki einungis verið framin þar sem þau áttu sér stað, heldur einnig á yfirráðasvæði ríkja sem aflað hafa sér lögsögu skv. 1. og 2. mgr. 6. gr.
    5. Litið skal svo á að ákvæði allra framsalssamninga og tilhögunarreglna um framsal milli aðildarríkja hvað varðar afbrot sem fjallað er um í 2. gr. hafi sætt breytingum þeirra á milli að því leyti sem þau samræmast ekki samningi þessum.

10. gr.

    1. Hvað snertir afbrot þau sem fjallað er um í 2. gr. skulu aðildarríki veita hvert öðru sem mesta aðstoð í tengslum við rannsókn, saksókn og framsal, þar á meðal aðstoð við að afla sönnunargagna í vörslu þeirra sem nauðsynleg eru til reksturs máls.
    2. Aðildarríki skulu framkvæma skuldbindingar sínar skv. 1. mgr. í samræmi við þjóðréttarsamninga eða aðra tilhögun varðandi gagnkvæma réttaraðstoð sem fyrir hendi kann að vera milli þeirra. Sé ekki slíkum samningum eða tilhögun fyrir að fara skulu aðildarríki veita hvert öðru aðstoð í samræmi við landslög sín.

11. gr.

    Hvað snertir framsal eða gagnkvæma réttaraðstoð skal ekki litið á neitt það afbrot sem fjallað er um í 2. gr. sem stjórnmálaafbrot, afbrot tengt stjórnmálaafbroti eða afbrot framið af stjórnmálalegum hvötum. Ekki má því hafna beiðni um framsal eða gagnkvæma réttaraðstoð vegna slíks afbrots á þeirri forsendu einni að hún varði stjórnmálaafbrot, afbrot tengt stjórnmálaafbroti eða afbrot framið af stjórnmálalegum hvötum.

12. gr.


    Ekkert í samningi þessum skal túlkað þannig að það leggi á framsalsskyldu eða skyldu til að veita gagnkvæma réttaraðstoð ef það aðildarríki, sem beiðni um framsal vegna afbrota sem fjallað er um í 2. gr. eða um gagnkvæma réttaraðstoð vegna slíkra afbrota er beint til, hefur ástæðu til að ætla að beiðnin sé lögð fram til þess að sækja megi viðkomandi til saka eða refsa honum vegna kynþáttar hans, trúar, þjóðernis, þjóðernisuppruna eða stjórnmálaskoðana, eða að það mundi af einhverri þessara ástæðna stefna stöðu viðkomandi í hættu að fallast á beiðnina.

13. gr.

    1. Mann sem er í gæslu eða afplánar refsingu á yfirráðasvæði eins aðildarríkis má flytja til annars aðildarríkis ef óskað er nærveru hans þar til vitnisburðar, persónugreiningar eða annarrar aðstoðar við að afla sönnunargagna til rannsóknar eða saksóknar vegna afbrota sem samningur þessi tekur til, ef eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:
     (a)      viðkomandi gefur til þess upplýst samþykki sitt af fúsum og frjálsum vilja; og
     (b)      viðeigandi yfirvöld í báðum ríkjum samþykkja það, með þeim skilyrðum sem þau telja rétt að setja.
    2. Hvað þessa grein snertir:
     (a)      ber því ríki sem maðurinn er fluttur til réttur og skylda til að hafa hann í gæslu nema aðildarríkið sem hann var fluttur frá óski annars eða heimili það;
     (b)      skal það ríki sem maðurinn er fluttur til án tafar uppfylla þá skyldu sína að endursenda hann í gæslu þess ríkis sem hann var fluttur frá, eins og viðeigandi yfirvöld í báðum ríkjunum hafa samið um fyrir fram eða komið sér saman um á annan hátt;
     (c)      skal það ríki sem viðkomandi er fluttur til ekki krefjast þess að það ríki sem hann var fluttur frá höfði framsalsmál til að fá hann endursendan;
     (d)      skal sá tími sem hinn flutti er í gæslu í því ríki sem hann er fluttur til koma til frádráttar afplánun refsingar í því ríki sem hann var fluttur frá.
    3. Hvert sem ríkisfang þess er sem flytja skal má ekki sækja hann til saka, setja hann í gæslu eða takmarka frelsi hans á nokkurn hátt á yfirráðasvæði þess ríkis sem hann er fluttur til, vegna verknaðar eða refsidóms frá því áður en hann fór frá yfirráðasvæði þess ríkis sem hann var fluttur frá, nema það aðildarríki samþykki sem hann skal fluttur frá samkvæmt þessari grein.

14. gr.


    Hverjum þeim, sem tekinn er í gæslu, aðrar ráðstafanir gerðar gagnvart eða málsmeðferð beinist að samkvæmt samningi þessum, skal tryggð réttlát meðferð, þar með talið að njóta allra þeirra réttinda og verndar sem kveðið er á um í landslögum þess aðildarríkis er hefur yfirráðasvæði þar sem viðkomandi er staddur og í viðeigandi reglum þjóðaréttar, þar með talið alþjóðlegum mannréttindalögum.

15. gr.

    Aðildarríki skulu eiga með sér samvinnu við að koma í veg fyrir afbrot þau sem fjallað er um í 2. gr., einkum:
     (a)      með því að gera allar raunhæfar ráðstafanir, þar með talin aðlögun á landslögum sínum ef nauðsynlegt er, til að koma í veg fyrir og bregðast við því að undirbúningur fari fram á yfirráðasvæði þeirra til að fremja slík afbrot innan þess eða utan, þar á meðal með því að banna á yfirráðasvæði þeirra ólöglegar athafnir manna, hópa og samtaka sem hvetja til afbrota sem fjallað er um í 2. gr., eiga frumkvæði að þeim eða skipuleggja þau, fjármagna þau vitandi vits eða taka þátt í að fremja þau;
     (b)      með því að skiptast á nákvæmum og sannreyndum upplýsingum í samræmi við landslög sín og samræma ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og á öðrum sviðum eftir því sem við á til að koma í veg fyrir afbrot sem fjallað er um í 2. gr.;
     (c)      eftir því sem við á með rannsóknum og þróun aðferða til að greina sprengiefni og önnur skaðleg efni sem valdið geta bana eða líkamstjóni, samráði um þróun staðla til að sérkenna sprengiefni svo að unnt sé að greina uppruna þeirra við rannsókn þar sem sprengingar hafa orðið, skiptum á upplýsingum um fyrirbyggjandi aðgerðir, og með samvinnu og miðlun á tækni, búnaði og tilheyrandi efnum.

16. gr.

    Aðildarríki þar sem meintur brotamaður er saksóttur skal, í samræmi við landslög sín eða viðeigandi málsmeðferðarreglur, skýra aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna frá endanlegri niðurstöðu málsins, en hann skal senda öðrum aðildarríkjum þær upplýsingar.

17. gr.

    Aðildarríki skulu uppfylla skuldbindingar sínar samkvæmt samningi þessum þannig að það samræmist grundvallarreglum um jafnrétti fullvalda ríkja og friðhelgi yfirráðasvæða þeirra og grundvallarreglunni um bann við afskiptum af innanríkismálum annarra ríkja.

18. gr.

    Ekkert í samningi þessum veitir aðildarríki rétt til að fara með lögsögu á yfirráðasvæði annars aðildarríkis eða sinna þar verkefnum er landslög þess ríkis fela yfirvöldum þess einum.

19. gr.

    1. Samningur þessi skal engin áhrif hafa á önnur réttindi, skuldbindingar og skyldur ríkja og einstaklinga að þjóðarétti, einkum samkvæmt markmiðum og meginreglum sáttmála Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegra mannúðarlaga.
    2. Aðgerðir herja í hernaði, eins og þau hugtök eru skilin í alþjóðlegum mannúðarlögum, falla ekki undir samning þennan að því leyti sem alþjóðleg mannúðarlög gilda um þær, og samningur þessi gildir ekki um aðgerðir hers ríkis sem falla undir opinber skyldustörf, að því leyti sem aðrar reglur þjóðaréttar gilda um þær.

20. gr.

    1. Deila milli tveggja eða fleiri aðildarríkja um túlkun eða beitingu samnings þessa, sem ekki er unnt að leysa með samkomulagi innan hæfilegs tíma, skal lögð í gerð að ósk annars eða eins þeirra. Geti þau ekki innan sex mánaða frá því að gerðar er óskað komið sér saman um hvernig henni skuli hagað getur hvert viðkomandi ríki vísað deilunni til Alþjóðadómstólsins með beiðni samkvæmt samþykktum hans.
    2. Hvert ríki getur við undirritun samnings þessa, eða þegar það fullgildir, staðfestir eða samþykkir samninginn eða gerist aðili að honum, lýst því yfir að það telji sig ekki bundið af 1. mgr. Önnur aðildarríki skulu ekki bundin af 1. mgr. gagnvart aðildarríki sem gert hefur slíkan fyrirvara.
    3. Ríki sem gert hefur fyrirvara skv. 2. mgr. getur hvenær sem er afturkallað hann með tilkynningu til aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.

21. gr.

    1. Samningur þessi skal liggja frammi til undirritunar af hálfu allra ríkja frá 12. janúar 1998 til 31. desember 1999 í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York.
    2. Samningur þessi er háður fullgildingu, staðfestingu eða samþykki. Skjöl um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki skulu afhent aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til vörslu.
    3. Samningur þessi er opinn öllum ríkjum til aðildar. Aðildarskjöl skulu afhent aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til vörslu.

22. gr.

    1. Samningur þessi skal öðlast gildi á þrítugasta degi eftir að tuttugasta og annað skjalið um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild er afhent aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til vörslu.
    2. Að því er varðar hvert ríki sem fullgildir, staðfestir eða samþykkir samning þennan eða gerist aðili að honum eftir að tuttugasta og annað skjalið um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild er afhent til vörslu skal samningur þessi öðlast gildi á þrítugasta degi eftir að það afhendir skjal sitt um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild til vörslu.

23. gr.

    1. Hvert aðildarríki getur sagt upp samningi þessum með skriflegri tilkynningu til aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.
    2. Uppsögn skal öðlast gildi einu ári eftir þann dag er aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna veitir tilkynningunni viðtöku.

24. gr.

    Frumriti samnings þessa, í jafngildum textum á arabísku, ensku, frönsku, kínversku, rússnesku og spænsku, skal koma í vörslu hjá aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna og skal hann senda öllum ríkjum staðfest afrit þess.

    ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa undirrituð, sem til þess hafa fullt umboð ríkisstjórna sinna, undirritað samning þennan sem lagður var fram til undirritunar í New York 12. janúar 1998.



Fylgiskjal II.

Alþjóðasamningur um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi.



Inngangur.


    Aðildarríki samnings þessa,
     hafa í huga tilgang og meginreglur sáttmála Sameinuðu þjóðanna um að varðveita heimsfrið og öryggi og stuðla að velvild, vináttu og samvinnu meðal ríkja,
     hafa miklar áhyggjur af vaxandi hryðjuverkastarfsemi í heiminum í hverri mynd sem hún birtist,
     minnast yfirlýsingar í tilefni hálfrar aldar afmælis Sameinuðu þjóðanna í ályktun allsherjarþingsins nr. 50/6 frá 24. október 1995,
     minnast einnig allra viðeigandi ályktana allsherjarþingsins um þetta málefni, þar á meðal ályktunar nr. 49/60 frá 9. desember 1994 og viðauka við hana með yfirlýsingu um ráðstafanir til að útrýma alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi þar sem aðildarríki Sameinuðu þjóðanna ítrekuðu með alvöruþunga eindregna fordæmingu sína á öllum aðgerðum, aðferðum og atferli hryðjuverkamanna sem glæpsamlegu og óréttlætanlegu, hvar sem þau væru framin og af hverjum sem þau væru framin, þar á meðal aðgerðum, aðferðum og atferli sem stefna í hættu vinsamlegum samskiptum ríkja og þjóða og ógna friðhelgi og öryggi ríkja,
     vekja athygli á að í yfirlýsingunni um ráðstafanir til að útrýma alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi voru ríki einnig hvött til að endurskoða án tafar umfang gildandi þjóðréttarreglna um varnir gegn hryðjuverkum, baráttu gegn þeim og útrýmingu þeirra, í hverri mynd sem þau birtast, í því skyni að tryggja að fyrir hendi sé lagalegur heildarrammi sem tekur til allra þátta málsins,
     minnast ályktunar allsherjarþingsins nr. 51/210 frá 17. desember 1996, f-liðar 3. mgr., þar sem þingið skoraði á öll ríki að gera ráðstafanir til að koma með viðeigandi innanlandsaðgerðum í veg fyrir og sporna við því að fjármagn renni til hryðjuverkamanna og hryðjuverkasamtaka, hvort sem slík fjármögnun er bein eða óbein um hendur stofnana sem einnig hafa eða kveðast hafa mannúðleg, félagsleg eða menningarleg markmið, eða stofnana sem einnig stunda ólöglega starfsemi, svo sem vopnasmygl, eiturlyfjaverslun eða fjárkúgun, þar á meðal misnotkun á fólki til fjármögnunar hryðjuverkastarfsemi, og sérstaklega taka til athugunar, þar sem við á, að setja reglur til að koma í veg fyrir og sporna við tilflutningi á fjármagni sem grunur leikur á að sé ætlað til hryðjuverka án þess að skerða að neinu leyti frelsi til lögmætra fjármagnsflutninga, og að auka skipti á upplýsingum varðandi flutning slíks fjármagns milli landa,
     minnast einnig ályktunar allsherjarþingsins nr. 52/165 frá 15. desember 1997 þar sem þingið skoraði á ríki að taka til sérstakrar athugunar framkvæmd þeirra ráðstafana sem kveðið er á um í a- til f-liðum 3. mgr. ályktunar sinnar nr. 51/210 frá 17. desember 1996,
     minnist enn fremur ályktunar allsherjarþingsins nr. 53/108 frá 8. desember 1998 þar sem þingið fól sérnefndinni sem stofnuð var með ályktun allsherjarþingsins nr. 51/210 frá 17. desember 1996 að semja drög að alþjóðasamningi um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi til viðbótar tengdum alþjóðlegum gerningum sem þegar eru fyrir hendi,
     telja að fjármögnun hryðjuverkastarfsemi sé hinu alþjóðlega samfélagi í heild sinni mikið áhyggjuefni,
     vekja athygli á að það fjármagn, sem hryðjuverkamenn geta útvegað sér, ræður því hve oft hryðjuverk eru framin og hversu alvarleg þau eru,
     vekja einnig athygli á að núgildandi fjölhliða lagalegir gerningar beinast ekki að slíkri fjármögnun með beinum hætti,
    eru sannfærð um að brýna nauðsyn beri til að auka samvinnu milli ríkja við að móta og taka upp árangursríkar ráðstafanir til að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi og til að bregðast við henni með því að sækja þá sem að henni vinna til saka og koma fram refsingu gagnvart þeim,
     og hafa orðið ásátt um eftirfarandi:

1. gr.

    Í samningi þessum merkir:
    1.     „Fjármunir“ eignir, hverjar sem er, áþreifanlegar eða óáþreifanlegar, fasteignir eða lausafé, hvernig sem þeirra hefur verið aflað, og lagaleg skjöl í hvaða formi sem er, þar með talið í rafrænu eða stafrænu formi, sem sýna fram á eignarrétt yfir þeim eða rétt til þeirra, svo sem yfirdráttarheimildir, ferðatékka, bankatékka, peningaávísanir, hlutabréf, verðbréf, skuldabréf, skuldaviðurkenningar og bankaábyrgðir.
    2.     „Aðstaða á vegum ríkis eða stjórnvalda“ hverja þá aðstöðu eða samgöngutæki sem til frambúðar eða til bráðabirgða er nýtt eða notað af fulltrúum ríkis, embættismönnum ríkisstjórnar, handhöfum löggjafarvalds eða dómsvalds, embættismönnum eða starfsmönnum ríkis, opinbers stjórnvalds eða aðila, eða af starfsmönnum eða embættismönnum milliríkjastofnunar í tengslum við opinbert starf þeirra.
    3.     „Ávinningur“ fjármuni sem renna frá eða er aflað, beint eða óbeint, með afbroti eins og fjallað er um í 2. gr.

2. gr.

    1.     Sá maður fremur afbrot í skilningi samnings þessa sem með einhverjum hætti, beint eða óbeint, en með ólögmætum hætti og af ásetningi, útvegar eða safnar fjármunum í því skyni að þeir verði notaðir, eða í vitneskju um að þeir skuli notaðir, að einhverju leyti eða öllu til að vinna:
    (a)     verk sem felur í sér afbrot samkvæmt efni einhvers þeirra þjóðréttarsamninga sem tilgreindir eru í viðaukanum og eins og þar er skilgreint; eða
    (b)     eitthvert annað verk sem ætlað er að valda almennum borgara, eða öðrum manni sem ekki tekur þátt í vopnaviðskiptum í ófriði, bana eða alvarlegu líkamstjóni, ef tilgangur verksins samkvæmt eðli þess eða samhengi er að ógna almenningi eða þvinga ríkisstjórn eða alþjóðastofnun til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert.
    2.     (a) Aðildarríki sem ekki er aðili að þjóðréttarsamningi sem tilgreindur er í viðaukanum getur, þegar það afhendir skjal sitt um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild, lýst því yfir að við beitingu samnings þessa að því er það varðar skuli litið svo á að sá þjóðréttarsamningur sé ekki tilgreindur í viðauka þeim sem fjallað er um í a-lið 1. mgr. Yfirlýsingin skal falla úr gildi um leið og þjóðréttarsamningurinn öðlast gildi að því er viðkomandi aðildarríki varðar, en það skal tilkynna vörsluaðila um gildistökuna.
    (b)     Þegar aðildarríki hættir að vera aðili að þjóðréttarsamningi sem tilgreindur er í viðaukanum getur það gefið yfirlýsingu eins og kveðið er á um í þessari grein hvað þann samning varðar.
    3.     Ekki er nauðsynlegt til að háttsemi skv. 1. mgr. teljist afbrot að fjármunirnir hafi í raun verið notaðir til að fremja afbrot sem fjallað er um í a- eða b-lið 1. mgr.
    4.     Sá fremur einnig afbrot sem gerir tilraun til að fremja afbrot sem fjallað er um í 1. mgr. þessarar greinar.
    5.     Sá fremur einnig afbrot sem:
    (a)     á hlutdeild í afbroti sem fjallað er um í 1. eða 4. mgr. þessarar greinar;
    (b)     skipuleggur afbrot sem fjallað er um í 1. eða 4. mgr. þessarar greinar eða stjórnar framkvæmd þess;
    (c)     stuðlar að því að hópur manna, sem starfar að sameiginlegu markmiði, fremur eitt eða fleiri afbrot sem fjallað er um í 1. eða 4. mgr. þessarar greinar. Skilyrði er að það sé gert af ásetningi og annaðhvort:
          (i)      í því skyni að veita afbrotastarfsemi hópsins eða hinu glæpsamlega markmiði hans framgang, enda feli starfsemin eða markmiðið í sér að framið sé afbrot sem fjallað er um í 1. mgr. þessarar greinar; eða
          (ii)      með vitneskju um þann ásetning hópsins að fremja afbrot sem fjallað er um 1. mgr. þessarar greinar.

3. gr.

    Samningur þessi gildir ekki um afbrot sem framið er innan eins ríkis ef meintur brotamaður er ríkisborgari þess, er staddur á yfirráðasvæði þess og ekki er grundvöllur skv. 1. eða 2. mgr. 7. gr. fyrir því að neitt annað ríki beiti lögsögu í málinu, en þó skulu ákvæði 12.–18. gr. gilda í slíkum tilvikum eftir því sem við á.

4. gr.

    Hvert aðildarríki skal gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar kunna að vera til að:
    (a)     gera þau afbrot sem fjallað er um í 2. gr. refsiverð samkvæmt landslögum sínum;
    (b)     leggja viðeigandi refsingu við þeim afbrotum þannig að tillit sé tekið til alvarleika þeirra.

5. gr.

    1.     Hvert aðildarríki skal í samræmi við meginreglur landslaga sinna gera nauðsynlegar ráðstafanir til að unnt sé að gera lögaðila á yfirráðasvæði þess eða stofnsettan samkvæmt lögum þess ábyrgan ef maður sem stjórnar eða stýrir lögaðilanum hefur í þeim starfa sínum framið afbrot sem fjallað er um í 2. gr. Ábyrgðin getur verið á sviði refsiréttar, skaðabótaréttar eða stjórnsýsluréttar.
    2.     Slíkri ábyrgð skal sæta án þess að hún hafi áhrif á refsiábyrgð þeirra einstaklinga sem afbrotin fremja.
    3.     Hvert aðildarríki skal sérstaklega sjá til þess að lögaðilar, sem gerðir eru ábyrgir í samræmi við 1. mgr., séu beittir virkum viðurlögum á sviði refsiréttar, skaðabótaréttar eða stjórnsýsluréttar sem séu í samræmi við tilefni þeirra og feli í sér varnað. Slík viðurlög geta m.a. verið fjárhagsleg.

6. gr.

    Hvert aðildarríki skal gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar kunna að vera, þar á meðal með lagasetningu þar sem við á, til að tryggja að afbrot er falla undir samning þennan séu aldrei talin réttlætanleg vegna sjónarmiða af stjórnmálalegum, heimspekilegum, hugmyndafræðilegum, kynþáttalegum, þjóðernislegum, trúarlegum eða öðrum svipuðum toga.

7. gr.

    1.     Hvert aðildarríki skal gera þær ráðstafanir sem kunna að vera nauðsynlegar til að afla sér lögsögu vegna afbrota sem fjallað er um í 2. gr. þegar:
    (a)     afbrotið er framið á yfirráðasvæði þess;
    (b)     afbrotið er framið um borð í skipi er siglir undir fána þess eða í loftfari sem skráð er samkvæmt lögum þess þegar það er framið;
    (c)     afbrotið er framið af ríkisborgara þess.
    2.     Aðildarríki getur einnig aflað lögsögu vegna slíks afbrots þegar:
    (a)     afbrotið miðaði að því að fremja afbrot sem tilgreint er í a- eða b-lið 1. mgr. 2. gr. á yfirráðasvæði þess eða gegn ríkisborgara þess, eða leiddi til þess að slíkt afbrot var framið;
    (b)     afbrotið miðaði að því að fremja afbrot sem tilgreint er í a- eða b-lið 1. mgr. 2. gr. gegn aðstöðu á vegum ríkis eða stjórnvalda þess ríkis erlendis, þar með töldum sendiráðum þess eða ræðisskrifstofum, eða leiddi til þess að slíkt afbrot var framið;
    (c)     afbrotið miðaði að því að fremja afbrot sem tilgreint er í a- eða b-lið 1. mgr. 2. gr. í viðleitni til að neyða það ríki til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert, eða leiddi til þess að slíkt afbrot var framið;
    (d)     afbrotið er framið af ríkisfangslausum manni sem að jafnaði dvelst á yfirráðasvæði þess ríkis;
    (e)     afbrotið er framið um borð í loftfari sem rekið er á vegum þess ríkis.
    3.     Hvert aðildarríki skal, þegar það fullgildir, staðfestir eða samþykkir samning þennan eða gerist aðili að honum, tilkynna aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna hverrar lögsögu það hefur aflað sér í samræmi við 2. mgr. Verði einhver breyting þar á skal aðildarríkið þegar tilkynna það aðalframkvæmdastjóranum.
    4.     Hvert aðildarríki skal á sama hátt gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar kunna að vera til að afla sér lögsögu vegna afbrota sem fjallað er um í 2. gr. þegar meintur brotamaður er staddur á yfirráðasvæði þess og það framselur hann ekki neinu því aðildarríki sem aflað hefur sér lögsögu skv. 1. eða 2. mgr.
    5.     Ef fleiri en eitt aðildarríki telja til lögsögu vegna afbrota sem fjallað er um í 2. gr. skulu þau leitast við að samræma gerðir sínar á viðeigandi hátt, einkum hvað snertir skilyrði saksóknar og hvernig gagnkvæm réttaraðstoð skuli veitt.
    6.     Með fyrirvara um gildi almennra reglna þjóðaréttar útilokar samningur þessi ekki að aðildarríki beiti hverri þeirri refsilögsögu sem það hefur öðlast samkvæmt eigin landslögum.

8. gr.

    1.     Hvert aðildarríki skal gera viðeigandi ráðstafanir í samræmi við meginreglur landslaga sinna til að finna, greina og kyrrsetja eða leggja hald á fjármuni sem notaðir eru eða varið skal til að fremja afbrot þau sem fjallað er um í 2. gr., svo og ávinning af slíkum afbrotum, með tilliti til hugsanlegrar upptöku síðar.
    2.     Hvert aðildarríki skal gera viðeigandi ráðstafanir í samræmi við meginreglur landslaga sinna til að gera upptæka fjármuni sem notaðir eru eða varið skal til að fremja afbrot þau sem fjallað er um í 2. gr., svo og ávinning af slíkum afbrotum.
    3.     Hvert aðildarríki sem í hlut á getur tekið til athugunar gerð samninga um að skipta á milli sín og annarra aðildarríkja, með reglubundnum hætti eða í einstökum tilvikum, fjármunum sem aflast hafa með upptöku samkvæmt þessari grein.
    4.     Hvert aðildarríki skal taka til athugunar að koma á skipan til að nota fjármagn, sem aflast hefur með upptöku samkvæmt þessari grein, til að greiða bætur til þeirra sem orðið hafa fyrir afbrotum sem tilgreind eru í a- eða b-lið 1. mgr. 2. gr., eða til fjölskyldna þeirra.
    5.     Ákvæði þessarar greinar skulu framkvæmd þannig að þau skerði ekki réttindi þriðja manns í góðri trú.

9. gr.

    1.     Er aðildarríki hafa borist upplýsingar um að maður, sem framið hefur afbrot sem fjallað er um í 2. gr. eða talinn er hafa gert það, kunni að vera staddur á yfirráðasvæði þess skal það gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar kunna að vera samkvæmt landslögum þess til að rannsaka þau atvik sem þar greinir.
    2.     Ef brotamaður eða meintur brotamaður er staddur á yfirráðasvæði aðildarríkis skal það, er það hefur gengið úr skugga um að aðstæður réttlæti það, gera viðeigandi ráðstafanir samkvæmt landslögum sínum til að tryggja nærveru hans með tilliti til saksóknar eða framsals.
    3.     Hver sá sem ráðstafanir skv. 2. mgr. eru gerðar gagnvart á rétt á:
    (a)     að hafa tafarlaust samband við næsta viðeigandi fulltrúa þess ríkis þar sem hann á ríkisborgararétt eða þess ríkis sem á annan hátt er bært til að gæta réttinda hans, eða, sé hann ríkisfangslaus, þess ríkis sem hefur yfirráðasvæði þar sem hann dvelst að jafnaði;
    (b)      að fá vitjun fulltrúa þess ríkis;
    (c)      að vera skýrt frá réttindum sínum skv. a- og b-liðum.
    4.     Með réttindi þau sem tilgreind eru í 3. mgr. skal farið í samræmi við lög og reglur í því ríki sem hefur yfirráðasvæði þar sem brotamaður eða meintur brotamaður er staddur, þó með þeim fyrirvara að þau lög og reglur geri kleift að ná að fullu þeim tilgangi sem réttindum þeim, sem kveðið er á um í 3. mgr., er ætlað að ná.
    5.     Ákvæði 3. og 4. mgr. skulu í engu skerða rétt aðildarríkis sem krafist getur lögsögu skv. b-lið 1. mgr. eða b-lið 2. mgr. 7. gr. til að bjóða alþjóðanefnd Rauða krossins að hafa samband við hinn meinta brotamann og vitja hans.
    6.     Þegar aðildarríki hefur tekið mann í gæslu samkvæmt þessari grein skal það þegar, beint eða fyrir milligöngu aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, tilkynna þeim aðildarríkjum sem aflað hafa sér lögsögu skv. 1. eða 2. mgr. 7. gr. og, ef það telur rétt að gera svo, öðrum aðildarríkjum sem láta sig það varða, um að maðurinn sé í gæslu og um þau atvik sem réttlæta gæslu hans. Ríkið sem annast þá rannsókn sem ráðgerð er í 1. mgr. skal þegar skýra þeim aðildarríkjum frá niðurstöðum sínum og taka fram hvort það hyggist beita lögsögu sinni.

10. gr.

    1.     Í málum sem 7. gr. gildir um er því aðildarríki sem hefur yfirráðasvæði þar sem meintur brotamaður er staddur skylt, undantekningarlaust og hvort sem afbrotið var framið á yfirráðasvæði þess eða ekki, að leggja málið án ástæðulausrar tafar fyrir viðeigandi yfirvöld sín til saksóknar með þeim hætti sem kveðið er á um í lögum þess, nema hann sé framseldur. Þau yfirvöld skulu taka ákvörðun sína á sama hátt og í öðrum alvarlegum brotamálum samkvæmt lögum þess ríkis.
    2.     Heimili landslög aðildarríkis því aðeins að framselja eða láta á annan hátt af hendi eigin ríkisborgara með því skilyrði að hann verði sendur til baka til þess ríkis til að afplána refsingu sem honum var ákvörðuð eftir þau réttarhöld eða þá málsmeðferð sem framsals eða afhendingar hans var óskað út af, og bæði það ríki og ríkið sem framsals óskar fallast á það skilyrði og aðra skilmála sem þau kunna telja við eiga, nægir slíkt skilyrt framsal eða afhending til að uppfylla skyldu þá sem kveðið er á um í 1. mgr.

11. gr.

    1.     Litið skal svo á að afbrot sem fjallað er um í 2. gr. séu meðal framsalsbrota í öllum framsalssamningum sem í gildi eru milli aðildarríkja áður en samningur þessi öðlast gildi. Aðildarríki skuldbinda sig til að telja þau afbrot meðal framsalsbrota í öllum framsalssamningum sem síðar kunna að verða gerðir milli þeirra.
    2.     Þegar aðildarríki, sem gerir framsalssamning að skilyrði fyrir framsali, tekur við framsalsbeiðni frá öðru aðildarríki sem það hefur ekki framsalssamning við getur það aðildarríki sem við beiðninni tekur að eigin ákvörðun litið svo á að samningur þessi sé lagalegur grunnur framsals varðandi afbrot þau sem fjallað er um í 2. gr. Framsal skal háð þeim skilyrðum öðrum sem kveðið er á um í lögum þess ríkis sem beiðninni er beint til.
    3.     Aðildarríki sem gera ekki framsalssamning að skilyrði fyrir framsali skulu viðurkenna þau afbrot sem fjallað er um í 2. gr. sem framsalsbrot sín á milli, með þeim skilyrðum sem kveðið er á um í lögum þess ríkis sem framsalsbeiðni er beint til.
    4.     Ef nauðsynlegt er skal hvað framsal milli aðildarríkja snertir farið með afbrot þau sem fjallað er um í 2. gr. eins og þau hefðu ekki einungis verið framin þar sem þau áttu sér stað, heldur einnig á yfirráðasvæði ríkja sem aflað hafa sér lögsögu skv. 1. og 2. mgr. 7. gr.
    5.     Litið skal svo á að ákvæði allra framsalssamninga og tilhögunarreglna um framsal milli aðildarríkja hvað varðar afbrot sem fjallað er um í 2. gr. hafi sætt breytingum þeirra á milli að því leyti sem þau samræmast ekki samningi þessum.

12. gr.

    1.     Hvað snertir afbrot þau sem fjallað er um í 2. gr. skulu aðildarríki veita hvert öðru sem mesta aðstoð í tengslum við rannsókn, saksókn og framsal, þar á meðal aðstoð við að afla sönnunargagna í vörslu þeirra sem nauðsynleg eru til reksturs máls.
    2.     Aðildarríki mega ekki hafna beiðni um gagnkvæma réttaraðstoð á grundvelli bankaleyndar.
    3.     Aðildarríki sem leggur fram beiðni má ekki framsenda eða nota upplýsingar eða sönnunargögn sem látin eru í té af því aðildarríki sem beiðni er beint til við aðra rannsókn eða saksókn eða við önnur málaferli en tilgreint er í beiðninni, nema það aðildarríki sem henni er beint til hafi samþykkt það fyrir fram.
    4.     Hvert aðildarríki getur tekið til athugunar að koma á tilhögun til að deila með öðrum ríkjum upplýsingum eða sönnunargögnum sem þörf er á til að koma fram ábyrgð að refsirétti, skaðabótarétti eða stjórnsýslurétti skv. 5. gr.
    5.     Aðildarríki skulu framkvæma skuldbindingar sínar skv. 1. og 2. mgr. í samræmi við þjóðréttarsamninga eða aðra tilhögun varðandi gagnkvæma réttaraðstoð eða upplýsingaskipti sem fyrir hendi kann að vera milli þeirra. Sé ekki slíkum samningum eða tilhögun fyrir að fara skulu aðildarríki veita hvert öðru aðstoð í samræmi við landslög sín.

13. gr.

    Hvað snertir framsal eða gagnkvæma réttaraðstoð skal ekki litið á neitt það afbrot sem fjallað er um í 2. gr. sem skattabrot. Aðildarríki mega því ekki hafna beiðni um framsal eða gagnkvæma réttaraðstoð á þeirri forsendu einni að hún varði skattabrot.

14. gr.

    Hvað snertir framsal eða gagnkvæma réttaraðstoð skal ekki litið á neitt það afbrot sem fjallað er um í 2. gr. sem stjórnmálaafbrot, afbrot tengt stjórnmálaafbroti eða afbrot framið af stjórnmálalegum hvötum. Ekki má því hafna beiðni um framsal eða gagnkvæma réttaraðstoð vegna slíks afbrots á þeirri forsendu einni að hún varði stjórnmálaafbrot, afbrot tengt stjórnmálaafbroti eða afbrot framið af stjórnmálalegum hvötum.

15. gr.

    Ekkert í samningi þessum skal túlkað þannig að það leggi á framsalsskyldu eða skyldu til að veita gagnkvæma réttaraðstoð ef það aðildarríki, sem beiðni um framsal vegna afbrota sem fjallað er um í 2. gr. eða um gagnkvæma réttaraðstoð vegna slíkra afbrota er beint til, hefur ástæðu til að ætla að beiðnin sé lögð fram til þess að sækja megi viðkomandi mann til saka eða refsa honum vegna kynþáttar hans, trúar, þjóðernis, þjóðernisuppruna eða stjórnmálaskoðana, eða að það mundi af einhverri þessara ástæðna stefna stöðu viðkomandi í hættu að fallast á beiðnina.

16. gr.

    1.     Mann sem er í gæslu eða afplánar refsingu á yfirráðasvæði eins aðildarríkis má flytja til annars aðildarríkis ef óskað er nærveru hans þar til persónugreiningar, vitnisburðar eða annarrar aðstoðar við að afla sönnunargagna til rannsóknar eða saksóknar vegna afbrota sem fjallað er um í 2. gr., ef eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:
    (a)     viðkomandi gefur til þess upplýst samþykki sitt af fúsum og frjálsum vilja;
    (b)     viðeigandi yfirvöld í báðum ríkjum samþykkja það, með þeim skilyrðum sem þau telja rétt að setja.
    2.     Hvað þessa grein snertir:
    (a)     ber því ríki sem maðurinn er fluttur til réttur og skylda til að hafa hann í gæslu nema aðildarríkið sem hann var fluttur frá óski annars eða heimili það;
    (b)     skal það ríki sem maðurinn er fluttur til án tafar uppfylla þá skyldu sína að endursenda hann í gæslu þess ríkis sem hann var fluttur frá, eins og viðeigandi yfirvöld í báðum ríkjunum hafa samið um fyrir fram eða komið sér saman um á annan hátt;
    (c)     skal það ríki sem viðkomandi er fluttur til ekki krefjast þess að það ríki sem hann var fluttur frá höfði framsalsmál til að fá hann endursendan;
    (d)     skal sá tími sem hinn flutti er í gæslu í því ríki sem hann er fluttur til koma til frádráttar afplánun refsingar í því ríki sem hann var fluttur frá.
    3.     Hvert sem ríkisfang þess er sem flytja skal má ekki sækja hann til saka, setja hann í gæslu eða takmarka frelsi hans á nokkurn hátt á yfirráðasvæði þess ríkis sem hann er fluttur til, vegna verknaðar eða refsidóms frá því áður en hann fór frá yfirráðasvæði þess ríkis sem hann var fluttur frá, nema það aðildarríki samþykki sem hann skal fluttur frá samkvæmt þessari grein.

17. gr.

    Hverjum þeim, sem tekinn er í gæslu, aðrar ráðstafanir gerðar gagnvart eða málsmeðferð beinist að samkvæmt samningi þessum, skal tryggð réttlát meðferð, þar með talið að njóta allra þeirra réttinda og verndar sem kveðið er á um í landslögum þess aðildarríkis er hefur yfirráðasvæði þar sem viðkomandi er staddur og í viðeigandi reglum þjóðaréttar, þar með talið alþjóðlegum mannréttindalögum.

18. gr.

    1.     Aðildarríki skulu eiga með sér samvinnu við að koma í veg fyrir afbrot þau sem fjallað er um í 2. gr. með því að gera allar raunhæfar ráðstafanir, þar með talin aðlögun á landslögum sínum ef nauðsynlegt er, til að koma í veg fyrir og bregðast við því að undirbúningur fari fram á yfirráðasvæði þeirra til að fremja slík afbrot innan þess eða utan, þar á meðal:
    (a)     ráðstafanir til að banna á yfirráðasvæði sínu ólöglegar athafnir manna og samtaka sem vitað er að hvetja til afbrota sem fjallað er um í 2. gr., eiga frumkvæði að þeim, skipuleggja þau eða fremja;
    (b)     ráðstafanir þar sem þess er krafist af fjármálastofnunum og starfsgreinum þar sem fengist er við fjármálaviðskipti að beitt sé árangursríkustu aðferðum sem völ er á til að greina deili á reglulegum og tilfallandi viðskiptamönnum þeirra, svo og viðskiptamönnum sem fá reikninga opnaða í sína þágu, að sérstök athygli sé veitt óvenjulegum eða grunsamlegum viðskiptum og að tilkynnt sé um viðskipti sem grunur leikur á að eigi rætur að rekja til glæpastarfsemi. Í þessu skyni skulu aðildarríki taka til athugunar:
          (i)      að setja reglur sem banna að reikningar séu opnaðir ef umráðamenn þeirra eða eigendur eru óþekktir eða ekki er unnt að greina hverjir þeir eru, og gera ráðstafanir til að tryggja að slíkar stofnanir sannreyni deili á raunverulegum eigendum;
          (ii)      að krefjast þess af fjármálastofnunum, til að finna megi deili á lögaðilum, að þær geri þegar nauðsyn krefur ráðstafanir til að sannreyna að viðskiptaaðili sé til að lögum og hvert rekstrarform hans er með því að afla, annaðhvort úr opinberum skrám eða frá viðskiptaaðilanum eða hvort tveggja, sönnunar fyrir stofnun aðilans þar sem fram koma upplýsingar um nafn hans, rekstrarform og heimilisfang, hverjir stjórnendur hans eru og með hvaða hætti hann geti stofnað til skuldbindinga;
          (iii)      að setja reglur sem leggja þá skyldu á fjármálastofnanir að tilkynna þegar í stað til viðeigandi yfirvalda um öll flókin, óvenjuleg og viðamikil viðskipti og óvenjuleg viðskiptamynstur sem ekki virðast hafa neinn efnahagslegan eða augljóslega löglegan tilgang, án þess að þær þurfi að óttast refsiréttarlega eða skaðabótaréttarlega ábyrgð vegna brots gegn þagnarskyldu ef tilkynnt er um grunsemdirnar í góðri trú;
          (iv)      að krefjast þess af fjármálastofnunum að þær haldi til haga öllum nauðsynlegum gögnum um viðskipti, innlend jafnt sem erlend, í að minnsta kosti fimm ár.
    2.     Aðildarríki skulu enn fremur eiga samvinnu sín á milli til að fyrirbyggja afbrot sem fjallað er um í 2. gr. með því að taka til athugunar:
    (a)     ráðstafanir til að hafa eftirlit með stofnunum sem annast fjármagnsflutninga, til dæmis með starfsleyfum;
    (b)     raunhæfar ráðstafanir til að uppgötva og fylgjast með efnislegum flutningi reiðufjár og handhafaviðskiptabréfa milli landa, þar sem strangar öryggisreglur eru viðhafðar til að tryggja réttmæta notkun upplýsinga og án þess að frelsi til fjármagnsflutninga sé á nokkurn hátt skert.
    3.     Aðildarríki skulu enn fremur eiga með sér samvinnu við að koma í veg fyrir afbrot sem fjallað er um í 2. gr. með því að skiptast á nákvæmum og sannreyndum upplýsingum í samræmi við landslög sín og samræma ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og á öðrum sviðum eftir því sem við á, svo sem með því að:
    (a)     koma á og halda við samskiptaleiðum milli viðeigandi stofnana sinna og embætta til að greiða fyrir öruggum og skjótum upplýsingaskiptum um öll atriði varðandi þau afbrot sem fjallað er um í 2. gr.;
    (b)     eiga samstarf sín á milli við athuganir á afbrotum sem fjallað er um í 2. gr. hvað snertir:
          (i)      deili á mönnum sem rökstuddur grunur leikur á að eigi aðild að slíkum afbrotum, hvar þeir eru og hvað þeir fást við;
          (ii)      tilflutning á fjármunum sem tengist framkvæmd slíkra afbrota.
    4.     Aðildarríki geta skipst á upplýsingum fyrir milligöngu Alþjóðasamtaka sakamálalögreglu (Interpol).

19. gr.

    Aðildarríki þar sem meintur brotamaður er saksóttur skal, í samræmi við landslög sín eða viðeigandi málsmeðferðarreglur, skýra aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna frá endanlegri niðurstöðu málsins, en hann skal senda öðrum aðildarríkjum þær upplýsingar.

20. gr.

    Aðildarríki skulu uppfylla skuldbindingar sínar samkvæmt samningi þessum þannig að það samræmist grundvallarreglum um jafnrétti fullvalda ríkja og friðhelgi yfirráðasvæða þeirra og grundvallarreglunni um bann við afskiptum af innanríkismálum annarra ríkja.

21. gr.

    Samningur þessi skal engin áhrif hafa á önnur réttindi, skuldbindingar og skyldur ríkja og einstaklinga að þjóðarétti, einkum samkvæmt markmiðum sáttmála Sameinuðu þjóðanna, alþjóðlegra mannúðarlaga og annarra alþjóðasamninga sem við eiga.

22. gr.

    Ekkert í samningi þessum veitir aðildarríki rétt til að fara með lögsögu á yfirráðasvæði annars aðildarríkis eða sinna þar verkefnum er landslög þess ríkis fela yfirvöldum þess einum.

23. gr.

    1.     Viðaukanum má breyta með því að bæta við viðeigandi þjóðréttarsamningum sem:
    (a)     eru opnir öllum ríkjum til aðildar;
    (b)     hafa öðlast gildi;
    (c)     að minnsta kosti tuttugu og tvö aðildarríki að samningi þessum hafa fullgilt, staðfest, samþykkt eða gerst aðilar að.
    2.     Er samningur þessi hefur öðlast gildi getur hvaða aðildarríki sem er lagt slíka breytingu til. Skrifleg tillaga um breytingu skal send vörsluaðila. Vörsluaðili skal tilkynna öllum aðildarríkjum um tillögur sem fullnægja kröfum 1. mgr. og leita álits þeirra á því hvort samþykkja beri tillöguna.
    3.     Breytingartillaga skal skoðast samþykkt nema þriðjungur aðildarríkja mótmæli henni með skriflegri tilkynningu eigi síðar en 180 dögum eftir að henni hefur verið dreift.
    4.     Samþykkt breyting á viðaukanum skal öðlast gildi 30 dögum eftir að tuttugasta og annað skjalið um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki hennar er afhent til vörslu, að því er varðar öll ríki sem afhent hafa slíkt skjal til vörslu. Að því er varðar hvert aðildarríki sem fullgildir, staðfestir eða samþykkir breytinguna eftir að tuttugasta og annað skjalið er afhent til vörslu skal hún öðlast gildi á þrítugasta degi eftir að það afhendir skjal sitt um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki til vörslu.

24. gr.

    1.     Deila milli tveggja eða fleiri aðildarríkja um túlkun eða beitingu samnings þessa, sem ekki er unnt að leysa með samkomulagi innan hæfilegs tíma, skal lögð í gerð að ósk annars eða eins þeirra. Geti þau ekki innan sex mánaða frá því að gerðar er óskað komið sér saman um hvernig henni skuli hagað getur hvert viðkomandi ríki vísað deilunni til Alþjóðadómstólsins með beiðni samkvæmt samþykktum hans.
    2.     Hvert ríki getur við undirritun samnings þessa, eða þegar það fullgildir, staðfestir eða samþykkir samninginn eða gerist aðili að honum, lýst því yfir að það telji sig ekki bundið af 1. mgr. Önnur aðildarríki skulu ekki bundin af 1. mgr. gagnvart aðildarríki sem gert hefur slíkan fyrirvara.
    3.     Ríki sem gert hefur fyrirvara skv. 2. mgr. getur hvenær sem er afturkallað hann með tilkynningu til aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.

25. gr.

    1.     Samningur þessi skal liggja frammi til undirritunar af hálfu allra ríkja frá 10. janúar 2000 til 31. desember 2001 í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York.
    2.     Samningur þessi er háður fullgildingu, staðfestingu eða samþykki. Skjöl um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki skulu afhent aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til vörslu.
    3.     Samningur þessi er opinn öllum ríkjum til aðildar. Aðildarskjöl skulu afhent aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til vörslu.

26. gr.

    1.     Samningur þessi skal öðlast gildi á þrítugasta degi eftir að tuttugasta og annað skjalið um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild er afhent aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til vörslu.
    2.     Að því er varðar hvert ríki sem fullgildir, staðfestir eða samþykkir samning þennan eða gerist aðili að honum eftir að tuttugasta og annað skjalið um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild er afhent til vörslu skal samningur þessi öðlast gildi á þrítugasta degi eftir að það afhendir skjal sitt um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild til vörslu.

27. gr.

    1.     Hvert aðildarríki getur sagt upp samningi þessum með skriflegri tilkynningu til aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.
    2.     Uppsögn skal öðlast gildi einu ári eftir þann dag er aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna veitir tilkynningunni viðtöku.

28. gr.

    Frumriti samnings þessa, í jafngildum textum á arabísku, ensku, frönsku, kínversku, rússnesku og spænsku, skal koma í vörslu hjá aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna og skal hann senda öllum ríkjum staðfest afrit þess.

    ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa undirrituð, sem til þess hafa fullt umboð ríkisstjórna sinna, undirritað samning þennan sem lagður var fram til undirritunar í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York 10. janúar 2000.

Viðauki.

    1.     Samningur um að koma í veg fyrir ólöglega töku loftfara, gerður í Haag 16. desember 1970.
    2.     Samningur um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi flugsamgangna, gerður í Montreal 23. september 1971.
    3.     Samningur um varnarráðstafanir og refsingar vegna glæpa gegn einstaklingum er njóta alþjóðlegrar verndar, þar á meðal sendierindrekum, samþykktur af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 14. desember 1973.
    4.     Alþjóðasamningur um varnir gegn töku gísla, samþykktur af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 17. desember 1979.
    5.     Samningur um gæslu kjarnorkuefna, samþykktur í Vínarborg 3. mars 1980.
    6.     Bókun við samning um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi flugsamgangna, um að koma í veg fyrir ofbeldisverk á flugvöllum fyrir almenna alþjóðlega flugumferð, gerð í Montreal 24. febrúar 1988.
    7.     Samningur um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi í siglingum á sjó, gerður í Róm 10. mars 1988.
    8.     Bókun um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi botnfastra mannvirkja á landgrunninu, gerð í Róm 10. mars 1988.
    9.     Alþjóðasamningur um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar, samþykktur af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 15. desember 1997.



Fylgiskjal III.


Ályktun nr. 1373 (2001).
Samþykkt á 4385. fundi öryggisráðsins 28. september 2001.

    Öryggisráðið
    ítrekar
ályktanir sínar nr. 1269 (1999) frá 19. október 1999 og 1368 (2001) frá 12. september 2001,
    ítrekar jafnframt skýlausa fordæmingu sína á hryðjuverkaárásum sem áttu sér stað í New York, Washington, D.C., og Pennsylvaníu hinn 11. september 2001 og lýsir yfir þeim ásetningi sínum að koma í veg fyrir öll slík verk,
    ítrekar enn fremur að slík verk ógna alþjóðlegum friði og öryggi eins og öll alþjóðleg hryðjuverk,
     ítrekar órjúfanlegan rétt ríkis til sjálfsvarnar, eitt sér eða með öðrum ríkjum, sem viðurkenndur er í sáttmála Sameinuðu þjóðanna og ítrekaður var í ályktun öryggisráðsins nr. 1368 (2001),
    ítrekar nauðsyn þess að berjast með öllum ráðum, á grundvelli stofnskrár Sameinuðu þjóðanna, gegn þeirri ógn sem alþjóðlegum friði og öryggi stafar af hryðjuverkum,
    lýsir þungum áhyggjum sínum af þeirri aukningu sem orðið hefur í ýmsum heimshlutum á hryðjuverkum sem framin eru af hvötum sem rekja má til skorts á umburðarlyndi og ofstæki,
    heitir á ríki að starfa saman og grípa til brýnna ráðstafana til þess að koma í veg fyrir og kveða niður hryðjuverkastarfsemi með aukinni samvinnu og fullri framkvæmd viðeigandi samninga um málefni er varða hryðjuverk,
    viðurkennir þörf ríkja til þess að bæta upp alþjóðlegt samstarf með því að grípa til viðbótarráðstafana til þess að koma í veg fyrir og kveða niður á yfirráðasvæðum sínum, eftir löglegum leiðum, fjármögnun og undirbúning hvers kyns hryðjuverka,
    ítrekar þá grundvallarreglu sem sett var af allsherjarþinginu í yfirlýsingu sinni frá október 1970 (ályktun 2625 (XXV)) og ítrekuð var af öryggisráðinu í ályktun öryggisráðsins nr. 1189 (1998) frá 13. ágúst 1998, þ.e. að ríki skuli ekki skipuleggja, hvetja til, styðja eða taka þátt í hryðjuverkum í öðrum ríkjum eða láta óátalda skipulega starfsemi innan yfirráðasvæða sinna sem miðar að því að fremja slík verk,
    með vísan til umboðs síns samkvæmt VII. kafla sáttmála Sameinuðu þjóðanna,
    1.     kveður svo á að öll ríki skuli:
                  (a)      koma í veg fyrir og banna fjármögnun hryðjuverka;
                  (b)      gera refsiverða með lögum alla vísvitandi útvegun eða söfnun fjár, með hvaða hætti sem er, beint eða óbeint, af hálfu ríkisborgara þeirra eða á yfirráðasvæðum þeirra sem fer fram í þeim tilgangi, eða með vitneskju um þann tilgang, að féð verði notað til þess að fremja hryðjuverk;
                  (c)      stöðva tafarlaust flutning allra fjármuna og annarra eigna eða fjármögnunarleiðir manna sem fremja, eða leitast við að fremja, hryðjuverk eða taka þátt í eða stuðla að hryðjuverkum; lögaðila sem eru beint eða óbeint í eigu eða undir yfirráðum slíkra manna; og manna og lögaðila sem starfa fyrir hönd eða að fyrirmælum slíkra manna og lögaðila, þ.m.t. fjármuni sem leiddir eru af eða aflað er með eignum sem eru beint eða óbeint í eigu eða undir yfirráðum slíkra manna og manna eða lögaðila sem þeim tengjast;
                  (d)      banna ríkisborgurum sínum eða mönnum og lögaðilum innan yfirráðasvæða sinna að láta í té fjármuni, eignir eða fjármögnunarleiðir, eða fjármálaþjónustu eða aðra tengda þjónustu, með beinum eða óbeinum hætti, í þágu manna sem fremja eða leitast við að fremja eða greiða fyrir eða taka þátt í hryðjuverkum, eða lögaðila sem eru beint eða óbeint í eigu eða undir yfirráðum slíkra manna, og manna og lögaðila sem starfa fyrir hönd eða að fyrirmælum slíkra manna;
    2.      kveður enn fremur svo á að öll ríki skuli:
                  (a)      forðast að veita nokkurs konar stuðning, virkan eða óvirkan, til lögaðila eða manna sem viðriðnir eru hryðjuverk, þ.m.t. með því að banna liðssöfnun hryðjuverkasamtaka og taka fyrir framboð vopna til hryðjuverkamanna;
                  (b)      gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir að hryðjuverk séu framin, þ.m.t. með því að veita tímanlega viðvörun til annarra ríkja með upplýsingaskiptum;
                  (c)      neita um hæli öllum þeim sem fjármagna, skipuleggja, styðja eða fremja hryðjuverk, eða sem veita slíkt hæli;
                  (d)      koma í veg fyrir að þeir sem fjármagna, skipuleggja, styðja eða fremja hryðjuverk noti yfirráðasvæði þeirra til slíks gegn öðrum ríkjum eða ríkisborgurum þeirra;
                  (e)      tryggja að hver sá sem tekur þátt í að fjármagna, skipuleggja, undirbúa eða fremja hryðjuverk, eða styður hryðjuverk, verði dreginn fyrir dóm og tryggja ennfremur að auk hvers kyns annarra úrræða verði slík hryðjuverk skilgreind sem alvarlegir glæpir samkvæmt landslögum og reglum og refsing ákvörðuð með hliðsjón af því hversu alvarlegir glæpir hryðjuverk eru;
                  (f)      veita hvert öðru fyllstu aðstoð í tengslum við rannsóknir brota eða saksókn í tengslum við fjármögnun eða stuðning við hryðjuverk, þ.m.t. aðstoð við að afla sönnunargagna sem þau búa yfir og nauðsynleg eru til saksóknar;
                  (g)      koma í veg fyrir flutninga hryðjuverkamanna eða samtaka með virku landamæraeftirliti og eftirliti með útgáfu persónuskilríkja og ferðaskilríkja, svo og með aðgerðum til þess að koma í veg fyrir peningafölsun, skjalafals eða sviksamlega notkun persónuskilríkja og ferðaskilríkja;
    3.      beinir tilmælum til allra ríkja um að:
                  (a)      finna leiðir til þess að auka og hraða skiptum á hagnýtum upplýsingum, einkum varðandi aðgerðir og hreyfingar hryðjuverkamanna og hryðjuverkasamtaka, falsaðra ferðaskilríkja, ólöglegra viðskipta með vopn, sprengiefni eða viðkvæm efni; notkun fjarskiptatækni af hálfu hryðjuverkasamtaka; og þá ógn sem stafar af því að hryðjuverkahópar komist yfir gereyðingarvopn;
                  (b)      skiptast á upplýsingum í samræmi við alþjóðlegar reglur og landslög og eiga með sér samstarf um stjórnsýslu- og dómsmál í því skyni að koma í veg fyrir að framin séu hryðjuverk;
                  (c)      starfa saman, einkum á grundvelli tvíhliða og marghliða samninga og samkomulaga, í því skyni að fyrirbyggja og stöðva hryðjuverkaárásir og grípa til aðgerða gegn þeim sem fremja slík verk;
                  (d)      gerast, svo fljótt sem auðið er, aðilar að viðeigandi alþjóðasamningum og bókunum sem varða hryðjuverk, þ.m.t. alþjóðasamningnum um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverka frá 9. desember 1999;
                  (e)      auka samstarf og framkvæma að fullu viðeigandi alþjóðasamninga og bókanir sem varða hryðjuverk og ályktanir Öryggisráðsins nr. 1269 (1999) og 1368 (2001);
                  (f)      grípa til viðeigandi ráðstafana samkvæmt gildandi ákvæðum lands- og alþjóðalaga, þ.m.t. þjóðréttarreglna um mannréttindi, áður en mönnum er veitt hæli sem flóttamenn, til þess að ganga úr skugga um að þeir sem sækja um hæli hafi ekki skipulagt, stuðlað að eða tekið þátt í hryðjuverki;
                  (g)      tryggja, í samræmi við alþjóðalög, að þeir sem fremja, skipuleggja eða stuðla að hryðjuverkum misnoti ekki stöðu sína sem flóttamenn og að vísun til stjórnmálalegra ástæðna sé ekki viðurkennd sem forsenda fyrir því að hafna beiðnum um framsal meintra hryðjuverkamanna;
    4.      veitir því athygli og hefur af því áhyggjur að náið samband er á milli alþjóðlegrar hryðjuverkastarfsemi og fjölþjóðlegrar skipulegrar glæpastarfsemi, ólöglegra fíkniefna, peningaþvættis, ólöglegrar vopnasölu og ólöglegra flutninga kjarnaefna, kemiskra efna, lífrænna efna og annarra lífshættulegra efna og leggur áherslu, í þessu sambandi, á nauðsyn þess að samræma aðgerðir í einstökum löndum, svæðum og heimshlutum og á alþjóðavísu í því skyni að efla alþjóðleg viðbrögð við þessu alvarlega viðfangsefni og ógnun við öryggi heimsins;
    5.      lýsir yfir að verk, aðferðir og gerðir hryðjuverkamanna gangi gegn tilgangi og meginreglum Sameinuðu þjóðanna og að vísvitandi fjármögnun, skipulagning og hvatning til hryðjuverka stríði einnig gegn tilgangi og meginreglum Sameinuðu þjóðanna;
    6.      ákveður, í samræmi við 28. reglu bráðabirgðastarfsreglna sinna, að stofna nefnd öryggisráðsins þar sem sæti eiga allir meðlimir ráðsins, til þess að fylgjast með framkvæmd ályktunar þessarar, með aðstoð sérfræðinga á viðeigandi sviðum, og beinir því til allra ríkja að skila skýrslu til nefndarinnar, eigi síðar en 90 dögum frá þeim degi sem ályktun þessi er samþykkt og síðar samkvæmt áætlun sem nefndin mun gera tillögu um, varðandi aðgerðir sem þau hafa gripið til í því skyni að framkvæma ályktun þessa;
    7.      felur nefndinni að skilgreina verkefni sín, skila inn vinnuáætlun innan 30 daga frá samþykkt ályktunar þessarar og íhuga stuðninginn sem hún muni þarfnast, í samráði við aðalframkvæmdastjóra;
    8.      lýsir yfir þeim ásetningi sínum að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja fulla framkvæmd þessarar ályktunar í samræmi við skyldur sínar samkvæmt sáttmálanum;
    9.      hefur ákveðið að hafa málið áfram til meðferðar.



Fylgiskjal IV.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á almennum hegningarlögum og lögum um refsiábyrgð lögaðila vegna mútugreiðslu til opinbers starfsmanns.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til lagabreytingar vegna aðildar íslenska ríkisins að tveimur alþjóðasamningum um hryðjuverk. Hér er einkum um að ræða breytingu til þess að unnt verði að koma refsiviðurlögum yfir þá sem fremja hryðjuverk án tillits til þess hvar þau eru framin, svo og þá sem taka þátt í eða fjármagna alþjóðlega hryðjuverkastarfsemi. Ekki er ástæða til að ætla að frumvarpið hafi í för með sér aukin útgjöld ríkissjóðs verði það óbreytt að lögum, enda allar líkur á að slík mál verði afar fátíð hér á landi.