Ferill 442. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 709  —  442. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um úttekt á gagnsemi raflýsingar á þjóðvegum milli þéttbýlisstaða.

Flm.: Kristján Pálsson, Guðmundur Hallvarðsson.



    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að láta fara fram óháða úttekt á gagnsemi raflýsingar á þjóðvegum milli þéttbýlisstaða.
    Úttektin nái yfir eftirfarandi atriði:
     a.      samanburð á óhappa- og slysatíðni fyrir og eftir lýsingu þjóðvega þar sem hún er,
     b.      áhrif á líðan og öryggiskennd vegfarenda fyrir og eftir lýsingu,
     c.      mat á fjárhagslegum ávinningi af lýsingu þessara þjóðvega miðað við breytingu á óhappatíðni,
     d.      áhrif lýsingar og breikkunar klifurreina yfir Hellisheiði á ferðatíðni Sunnlendinga og höfuðborgarbúa sem eiga sumarhús á Suðurlandi,
     e.      hvort lýsing og breikkun klifurreina yfir Hellisheiði hefði áhrif á byggðaþróun á Suðurlandi.

Greinargerð.


    Nokkuð hefur færst í vöxt hin síðari ár að setja upp raflýsingu við þjóðvegi milli þéttbýlisstaða. Fyrsta dæmið er þegar leiðin milli Mosfellssveitar og Reykjavíkur var raflýst og síðar leiðin frá Ísafirði til Hnífsdals og Bolungarvíkur og nú síðast frá Hafnarfirði til Reykjanesbæjar. Tillögur hafa verið uppi um lýsingu Suðurlandsvegar frá Reykjavík yfir Hellisheiði til Hveragerðis. Forsenda þess að lýsa þessar leiðir var í meginatriðum sú sama og raflýsing gatna í þéttbýli, þ.e. að auka öryggi vegfarenda. Fáir efast um þægindin og aukna öryggiskennd þeirra sem fara um upplýsta götu miðað við óupplýsta. Frá því að Reykjanesbraut var raflýst hafa verið gerðar kannanir á slysatíðni og reynt að sjá hvort dregið hafi úr óhöppum vegna lýsingarinnar eða öfugt.
    Erfitt getur reynst að fullyrða um hvað veldur sveiflum í slysatíðni á þjóðvegum landsins en sveiflur geta orðið miklar á milli ára. Samanburður yfir langan tíma á þó að geta gefið raunhæfa mynd af áhrifum aðgerða sem lúta að öryggismálum. Vegagerðin birti í september 2000 samantekt um tíðni slysa á Reykjanesbraut árin 1992–1998. Samantektin leiddi í ljós að óhöppum fækkaði á Reykjanesbraut um 55% á fyrstu tveim árum lýsingarinnar. Þar er borin saman óhappatíðni fimm árin fyrir lýsingu, þ.e. árin 1992–1996, og hins vegar tvö fyrstu árin eftir lýsingu, þ.e. árin 1997–1998. Í svörum við fyrirspurnum á Alþingi hefur einnig komið fram að óhöppum fækkaði á þessari leið sömu ár. Það ber svo við eftir að þessar upplýsingar voru gefnar að Vegagerðin fullyrðir að lýsing þjóðvega bæti ekki umferðaröryggi, sbr. orð Jóns Rögnvaldssonar aðstoðarvegamálastjóra í Morgunblaðinu 26. júlí 2001.
    Þessar yfirlýsingar Vegagerðarinnar eru ekki í takt við samantekt um fækkun óhappa á Reykjanesbraut sem fyrr er getið. Sú samantekt hefur af hálfu Vegagerðarinnar síðar verið leiðrétt að þeirra sögn vegna þess að gögn vantaði í fyrri skýrslu. Þeir sem hafa ekið Reykjanesbraut fyrir og eftir lýsingu þekkja vel þá breytingu til batnaðar sem varð við lýsinguna. Munurinn er eins og dagur og nótt. Flutningsmenn eru eindregnir stuðningsmenn lýsingar leiðarinnar milli Reykjavíkur og Hveragerðis og lögðu fram þingsályktun þess efnis á 126. löggjafarþingi. Hugmyndir um lýsingu þessarar leiðar hafa komið fram áður og áskorun frá um 5000 Sunnlendingum var kynnt á síðasta ári af Vinum Hellisheiðar. Lýsing milli fleiri þéttbýlisstaða gæti einnig reynst æskileg, t.d. frá Hveragerði til Þorlákshafnar og frá Hveragerði til Selfoss og jafnvel víðar. Það er óviðunandi að búa við villandi upplýsingar frá opinberum aðilum um áhrif svo mikilvægra framkvæmda. Flutningsmenn telja því nauðsynlegt að óháðir aðilar geri úttekt á gagnsemi lýsingar fyrir umferðaröryggi og líðan fólks í umferðinni og fleira eins og fram kemur í tillögunni.
    Lögregla og umferðarráð hafa allar upplýsingar um óhöpp og slysatíðni á vegum landsins. Þar má einnig finna ástæður slysa eins og hvort ljósastaurar hafi valdið meiðslum eða komið í veg fyrir útafakstur og forðað meiðslum. Tillagan gerir ráð fyrir því að tekin verði viðtöl við vegfarendur sem þekkja áhrif lýsingarinnar og hvernig líðan þeirra breyttist eftir lýsinguna við akstur t.d. um Reykjanesbraut og á leiðinni frá Ísafirði til Bolungarvíkur. Þar sem ágreiningur um áhrif lýsingar á öryggi í umferðinni á Hellisheiði er aðalástæða þessarar þingsályktunartillögu telja flutningsmenn nauðsynlegt að fá afstöðu þeirra sem aka þessa leið til vinnu sinnar eða í sumarhús á Suðurlandi. Rétt er að hafa í huga að ef lýsing Hellisheiðar yrði að veruleika er ljóst að breyta yrði veginum samhliða. Þar er höfð í huga breikkun klifurreina og breytingar á veginum þar sem hann þykir hættulegur. Það er álit flutningsmanna að bættar vegasamgöngur séu besta byggðaaðgerðin. Af þessum sökum er ekki óeðlilegt að álykta sem svo að bættar samgöngur um Hellisheiði ýti undir ferðir og flutning höfuðborgarbúa til Suðurlands og því teljum við nauðsynlegt að kanna það í viðtölum við eigendur sumarhúsa á Suðurlandi, en sumarhús þar eru nokkur þúsund.