Ferill 460. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 740  —  460. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um samvinnu við heimildaöflun og skráningu gagna um veiðimenningu Vestur-Norðurlanda.

Flm.: Einar Oddur Kristjánsson, Hjálmar Árnason, Guðmundur Hallvarðsson,


Gísli S. Einarsson, Svanfríður Jónasdóttir, Kjartan Ólafsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni, í samvinnu við landstjórnir Færeyja og Grænlands, að efna til samstarfs um heimildaöflun og skráningu gagna um veiðimenningu Vestur-Norðurlanda svo að þekking á þessari sameiginlegu arfleifð gleymist ekki.

Greinargerð.


    Veiði hefur ætíð skipað stóran sess á Vestur-Norðurlöndum og hefðir og lifnaðarhættir veiðimennsku einkenna löndin öll. Veiðimennska landanna er merki um þau nánu tengsl manns og náttúru sem þar ríkja og í löndunum hefur þróast veiðimenning sem sker sig á ýmsan hátt úr á alþjóðlegum vettvangi. Þessi menning snýr ekki eingöngu að þeim háttum, aðferðum og tækni sem einkennt hafa vestnorræna veiðimenn að störfum um aldir, heldur nær hún til mun víðtækari menningarlegri þátta eins og t.d. fjölbreytilegrar notkunar skinna og matargerðarlistar.
    Vegna örrar tækniþróunar hefur hefðbundin veiðimenning landanna tekið stökkbreytingum. Á Grænlandi hafa rifflar komið í stað spjóta, mótorbátar í stað kajaka og snjósleðar í stað hundasleða. Hættir gamla tímans eru víðast hvar að líða undir lok á Vestur-Norðurlöndum og hætta er á að hin hefðbundna menningararfleifð veiðimennsku gleymist með öllu ef ekkert er að gert.
    Það er mikilvægt að komandi kynslóðir kunni skil á þessari sérstæðu menningararfleifð og því þurfa að vera til skráðar heimildir um veiðimenningu landanna, bækur, ljósmyndir, heimildakvikmyndir o.fl. Í þessu samhengi hefur Vestnorræna ráðið átt frumkvæði að opnun vestnorrænnar sýningar um veiðimenningu í Þórshöfn sumarið 2002. Sýningin verður sett upp víða um lönd til að bera veiðimenningu landanna vitni. Þau gögn sem liggja að baki sýningunni gætu nýst vel í samstarfi um heimildaöflun og skráningu gagna um vestnorræna veiðimenningu.