Ferill 483. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 767  —  483. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um norrænt samstarf árið 2001.

1.    Inngangur.
    Miklar breytingar á norrænu samstarfi einkenndu starfsárið 2001. Sérstakur vinnuhópur á vegum forsætisnefndar Norðurlandaráðs, stefnumótunarhópurinn, vann tillögur um nýtt skipulag Norðurlandaráðs og voru þær samþykktar á 53. þingi ráðsins sem haldið var í Kaupmannahöfn dagana 29.–31. október. Í stystu máli sagt fólust breytingarnar í uppstokkun á nefndaskipulagi Norðurlandaráðs þar sem horfið var frá þremur svæðisnefndum og þess í stað tekið upp skipulag með fimm málefnanefndum auk forsætisnefndar.
    Forsaga breytinganna er að á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík árið 1995 var norrænu samstarfi beint að þremur meginsviðum: samvinnu innan Norðurlanda, samvinnu Norðurlanda og Evrópu (ESB/EES), og samvinnu Norðurlanda og nærsvæða þeirra. Stofnaðar voru þrjár stórar nefndir um þessi meginsvið, þ.e. Norðurlandanefnd, Evrópunefnd og nærsvæðanefnd. Forsætisnefnd Norðurlandaráðs var stækkuð og auk þess stofnuð sérstök eftirlitsnefnd. Ákveðið var að halda eitt árlegt þing að hausti í stað tveggja áður, auk þemaráðstefnu um afmörkuð mál sem snerta meginviðfangsefni norrænnar samvinnu. Enn fremur var samþykkt að formennska og embættistími miðaðist við almanaksár. Vaxandi áhersla var lögð á flokkahópa og hafa þeir hlotið aukið vægi í frumkvæði, undirbúningi og meðferð mála í ráðinu. Sjá flokkahóparnir t.d. um tilnefningar í nefndir þegar kosið er í þær á Norðurlandaráðsþingum. Nefndaskipulagið frá 1995 þótti reynast sérlega vel í sambandi við samstarf við grannsvæði Norðurlanda í Eystrasaltslöndunum og norðvesturhluta Rússlands en var síður árangursríkt varðandi Evrópusamstarfið. Megingagnrýnin á skipulagið frá 1995 var hins vegar að án málefnanefnda næðist ekki æskileg samræming við fagsvið Norrænu ráðherranefndarinnar eða nefndir hinna norrænu þjóðþinga og alþjóðastofnana.
    Árið 1999 setti Norræna ráðherranefndin á fót sérstaka nefnd vísra manna, hina svokölluðu aldamótanefnd, undir forustu Jóns Sigurðssonar, forstjóra Norræna fjárfestingarbankans og fyrrverandi ráðherra, til að fara ofan í saumana á skipulagi norræns samstarfs og framtíðarsýn þess. Skýrsla nefndarinnar, „Norðurlönd 2000 – Umleikin vindum veraldar“, var lögð fram í nóvember árið 2000 og tekin til umræðu á 52. þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík. Á grundvelli skýrslunnar unnu Norðurlandaráð og Norræna ráðherranefndin árið 2001 að mótun nýrrar stefnu um framtíðardagskrá og fyrirkomulag norræns samstarfs. Niðurstöðurnar voru birtar í sameiginlegri skýrslu þessara aðila, „Ný norræn dagskrá – svar við skýrslu aldamótanefndar“, sem lögð var fyrir 53. þing Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í lok október.
    Auk sameiginlegu skýrslunnar „Ný norræn dagskrá – svar við skýrslu aldamótanefndar“ lagði stefnumótunarhópurinn fram forsætisnefndartillögu um breytingar á vinnutilhögun Norðurlandaráðs sem samþykkt var á þinginu. Breytingarnar kváðu m.a. á um fyrrnefnda uppstokkun á nefndaskipulagi ráðsins (sjá nánar umfjöllun 3.1.1. Stefnumótunarhópurinn).

2.        Íslandsdeild Norðurlandaráðs.
2.1. Nefndaskipan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Í upphafi árs skipuðu Íslandsdeildina þau Ísólfur Gylfi Pálmason formaður, Sigríður Jóhannesdóttir varaformaður, Sigríður A. Þórðardóttir, Sighvatur Björgvinsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Hjálmar Jónsson og Steingrímur J. Sigfússon. Varamenn voru Árni Johnsen, Rannveig Guðmundsdóttir, Drífa Hjartardóttir, Hjálmar Árnason, Ásta R. Jóhannesdóttir, Ásta Möller og Þuríður Backman. Þegar Sighvatur Björgvinsson lét af þingmennsku 13. febrúar tók Rannveig Guðmundsdóttir sæti hans í Norðurlandaráði og varð Guðrún Ögmundsdóttir nýr varamaður. Hinn 1. október 2001 voru þingmennirnir endurkjörnir til setu í Norðurlandaráði, þó með þeirri breytingu að Drífa Hjartardóttir var kjörin aðalmaður í stað Hjálmars Jónssonar sem skömmu áður hvarf af þingi. Í laus varamannasæti Drífu Hjartardóttur og Árna Johnsen voru valin þau Kjartan Ólafsson og Katrín Fjeldsted. Á fyrsta fundi Íslandsdeildar hinn 8. október var Ísólfur Gylfi Pálmason endurkjörinn formaður og Sigríður Jóhannesdóttir varaformaður.
    Á 52. þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík 6.–8. nóvember 2000 var Sighvatur Björgvinsson kjörinn til setu í forsætisnefnd, Sigríður A. Þórðardóttir, Sigríður Jóhannesdóttir og Ísólfur Gylfi Pálmason í Norðurlandanefnd en Sigríður A. Þórðardóttir var jafnframt kjörin varaformaður nefndarinnar. Hjálmar Jónsson var kjörinn í nærsvæðanefnd og kjörnefnd, Arnbjörg Sveinsdóttir í Evrópunefnd og eftirlitsnefnd, og Steingrímur J. Sigfússon í Evrópunefnd. Þessi nefndaskipan hélst út starfsárið 2001 nema Rannveig Guðmundsdóttir tók sæti Sighvats Björgvinssonar í forsætisnefnd, Drífa Hjartardóttir tók við af Hjálmari Jónssyni í nærsvæðanefnd og Sigríður A. Þórðardóttir tók sæti Hjálmars í kjörnefnd.
    Auk nefndarsetu sátu meðlimir Íslandsdeildar í vinnuhópum á vegum Norðurlandaráðs, auk þess sem þeir sátu í stjórnum stofnana og ráða tilnefndir af Norðurlandaráði. Sigríður A. Þórðardóttir sat í stefnumótunarhópnum sem mótaði tillögur um framtíð norræns samstarfs og nýtt skipulag Norðurlandaráðs. Sighvatur Björgvinsson sat í vinnuhópi um friðargæslu og aðgerðir til að koma í veg fyrir átök en Rannveig Guðmundsdóttir tók síðar sæti hans. Steingrímur J. Sigfússon sat í vinnuhópi um byggðastefnu Evrópusambandsins á vegum Evrópunefndar og Arnbjörg Sveinsdóttir var í vinnuhópi um matvælaöryggi. Steingrímur J. Sigfússon gegndi stöðu áheyrnarfulltrúa Norðurlandaráðs hjá þingmannanefnd um norðurskautsmál og sat í stjórn Norræna ráðsins um málefni fatlaðra. Ísólfur Gylfi Pálmason átti sæti í eftirlitsnefnd Norræna fjárfestingarbankans og Rannveig Guðmundsdóttir í stjórn Norræna menningarsjóðsins.

2.2.    Starfsemi Íslandsdeildar Norðurlandaráðs
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs kom saman til fundar tíu sinnum á árinu. Að venju var þátttaka í fundum, þemaráðstefnu og þingi Norðurlandaráðs undirbúin en þar að auki voru fjöldamörg mál á dagskrá. Skipulagsbreytingarnar á Norðurlandaráði voru ofarlega á baugi og áhrif þeirra á starfsemi ráðsins annars vegar og Íslandsdeildina hins vegar. Var meðlimum Íslandsdeildar umhugað um að tryggja þátttöku í sem flestum af hinum nýju nefndum ráðsins. Málefni sjálfbærrar þróunar voru á dagskrá svo og gagnkvæm upplýsingaskipti meðlima Íslandsdeildar um stöðu mála í einstökum nefndum og vinnuhópum Norðurlandaráðs. Einnig hófst undirbúningur að þemaráðstefnu Norðurlandaráðs um lýðræði sem fram fer í Reykjavík dagana 14.–16. apríl 2002.
    Íslandsdeildin hélt tvo fundi með Siv Friðleifsdóttur, samstarfsráðherra Norðurlanda. Fyrri fundurinn var í lok febrúar til undirbúnings fyrir þemaráðstefnu Norðurlandaráðs um sjálfbæra þróun í Ósló 2.–3. apríl. Með ráðherra á fundinum voru Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri umhverfisráðuneytisins, og Snjólaug Ólafsdóttir, skrifstofustjóri Norðurlandaskrifstofu forsætisráðuneytisins. Kynntu þau sjálfbæra umhverfisstefnu og gerðu grein fyrir stefnu og aðgerðum Norrænu ráðherranefndarinnar í því sambandi. Síðari fundurinn fór fram í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í október í aðdraganda 53. þings Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í lok sama mánaðar. Á fundinum var skipst á skoðunum og upplýsingum um framtíð norrænnar samvinnu. Ráðherra skýrði frá áherslum ráðherranefndarinnar í norrænu samstarfi eins og þær koma fyrir í sameiginlegri skýrslu nefndarinnar og Norðurlandaráðs, „Ný norræn dagskrá – svar við skýrslu aldamótanefndar“. Þar tilgreinir ráðherranefndin fimm lykilsvið sem hafa sérstaka þýðingu fyrir þróunina á Norðurlöndum, en þau eru: tækniþróun, velferðarkerfi, innri markaður á Norðurlöndum, samstarf við nærsvæði, og umhverfismál og sjálfbær þróun. Þá greindi ráðherra frá helstu framkvæmdaáætlunum ráðherranefndarinnar. Íslandsdeild gerði ráðherra grein fyrir fyrirhuguðum skipulagsbreytingum Norðurlandaráðs og helstu áhrifum þeirra á starfsemi ráðsins. Einnig skýrði Íslandsdeild ráðherra frá helstu málum á fyrirhuguðu Norðurlandaráðsþingi og frá væntanlegri þemaráðstefnu Norðurlandaráðs um lýðræði.
    Íslandsdeild þáði boð Norðurlandaráðs um að senda þingmenn á ýmsar alþjóðaráðstefnur fyrir hönd ráðsins á starfsárinu 2001. Sóttu íslenskir þingmenn þær ráðstefnur sem meðlimir sérstakra sendinefnda Norðurlandaráðs. Á meðal þeirra ráðstefna sem þingmenn Íslandsdeildar sóttu má nefna Eystrasaltsþingið í Tallinn, Eystrasaltsráðstefnuna í Greifswald, ráðstefnu um loftslagsbreytingar í Brussel, 2. ráðstefnu um konur og lýðræði í Vilníus og Norræna daga í Berlín.
    Fréttamannastyrkir Norðurlandaráðs voru veittir á fundi Íslandsdeildar 25. júní 2001 en samanlagt var styrkupphæðin sem kom í hlut Íslendinga 90 þúsund danskar krónur. Eftir að umsóknarfrestur rann út höfðu einungis tvær umsóknir borist og var því brugðið á það ráð að framlengja umsóknarfrestinn og senda ítrekanir um hann til helstu fjölmiðla. Fimm umsóknir bárust til viðbótar. Eftirfarandi fréttamenn hlutu styrki: Sigríður Hagalín Björnsdóttir hlaut 26.000 dkr., Hjálmar Jónsson og Björn Ingi Hrafnsson 21.000 dkr. hvor, og Óðinn Jónsson og Haukur Holm 11.000 dkr. hvor.
    Í byrjun maí tók Stígur Stefánsson við starfi ritara Íslandsdeildar Norðurlandaráðs af Einari Farestveit. Belinda Theriault, forstöðumaður alþjóðasviðs, hafði þó yfirumsjón með rekstri Íslandsdeildar og sinnti málefnum forsætisnefndar.

3.        Starfsemi nefnda Norðurlandaráðs.
3.1.    Forsætisnefnd.
    Af hálfu Íslandsdeildar sat Sighvatur Björgvinsson í forsætisnefnd þar til hann lét af þingmennsku í febrúar en þá tók Rannveig Guðmundsdóttir sæti hans. Í upphafi árs 2001 tók Sven Erik Hovmand við embætti forseta Norðurlandaráðs af Sigríði A. Þórðardóttur. Gegndi Hovmand embættinu til loka nóvember þegar hann tók við ráðherradómi í nýrri danskri ríkisstjórn. Forsætisnefnd skipaði Outi Ojala starfandi forseta Norðurlandaráðs út árið eða þar til eiginlegt kjörtímabil hennar í embætti forseta hófst 1. janúar 2002.
    Forsætisnefnd er skipuð forseta og tólf fulltrúum sem kosnir eru af þingi Norðurlandaráðs. Allar landsdeildir Norðurlandanna og allir flokkahópar skulu eiga fulltrúa í forsætisnefnd. Hlutverk forsætisnefndar er að hafa yfirumsjón með öllum málum í sambandi við þing Norðurlandaráðs og milli þinga en hún hefur einnig með höndum erlend samskipti og utanríkis- og varnarmál, auk þess að fjalla um norrænu fjárlögin. Sérstakur vinnuhópur á vegum forsætisnefndar tók þá fjárlagavinnu sérstaklega að sér árið 2001, líkt og áður hafði verið gert. Forsætisnefnd fjallar einnig um þær tillögur sem til hennar er beint. Hún hefur vald til þess að samþykkja tillögur fyrir hönd þingsins í sérstökum tilvikum og taka til afgreiðslu ákveðin málefni sem ekki þykir fært að bíði næsta þings.
    Forsætisnefnd hélt sjö fundi á árinu en auk þess fóru fram sameiginlegir fundir forsætisnefndar og ýmissa aðila. Af helstu málum sem forsætisnefnd fjallaði um, fyrir utan hefðbundin störf, má nefna framtíð norrænnar samvinnu. Forsætisnefnd fjallaði um skýrslu aldamótanefndar „Norðurlönd 2000 – Umleikin vindum veraldar“, sem var lögð fram í nóvember árið 2000 og tekin til umræðu á 52. þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík. Í skýrslunni beindist sérstök athygli að skipulagi Norðurlandaráðs og þýðingu þess fyrir starfsemi og pólitíska forgangsröðun ráðsins. Á grundvelli skýrslu aldamótanefndarinnar ákváðu Norðurlandaráð og Norræna ráðherranefndin að móta nýja stefnu um framtíðardagskrá og fyrirkomulag norræns samstarfs árið 2001. Á síðasta fundi forsætisnefndar árið 2000 var ákveðið að koma á fót sérstökum vinnuhópi, stefnumótunarhópnum, til að vinna tillögur að nýju skipulagi Norðurlandaráðs ásamt greinargerð sem yrði framlag ráðsins til sameiginlegrar skýrslu Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar. Forsætisnefnd fundaði um framtíðarskipan Norðurlandaráðs með embættisnefnd ráðherranefndarinnar í lok janúar 2001 og skömmu síðar hóf stefnumótunarhópurinn störf. Umfjöllun um störf stefnumótunarhópsins er að finna í lið 3.1.1.
    Af öðrum málum forsætisnefndar má nefna friðargæslu og málefni hinnar norrænu víddar en sinn hvor vinnuhópurinn var skipaður til að fjalla um þau mál. Vinnuhópur um aðgerðir til að fyrirbyggja átök og stjórnun hættuástands (konfliktförebyggande och civil krishantering) var skipaður í nóvember 2000 til að fjalla um þingmannatillögu um skipan þessara mál í Evrópu. Sighvatur Björgvinsson sat í vinnuhópnum en síðar tók Rannveig Guðmundsdóttir sæti hans. Skýrsla hópsins var lögð fram á Norðurlandaráðsþingi. Í niðurstöðum skýrslunnar var lögð áhersla á að styrkja þyrfti norrænt samstarf hvað varðar sameiginleg verkefni, þjálfun og uppbyggingu sérþekkingar á sviði friðargæslu. Jafnframt var því beint til ríkisstjórna Norðurlanda að kanna möguleika á því að koma á samnorrænu hraðliði á sviði borgaralegrar friðargæslu.
    Vinnuhópur forsætisnefndar um hina norðlægu vídd vann einnig skýrslu sem lögð var fyrir Norðurlandaráðsþing. Hin norðlæga vídd var upphaflega stefna ESB sem tekur til Eystrasaltslandanna og norðvesturhluta Rússlands með það að markmiði að styðja með margþættum aðgerðum lýðræðisþróun, öryggi, stöðugleika og sjálfbæra þróun. Síðan hafa ýmsir samstarfsaðilar, svo sem þjóðríki og alþjóðastofnanir, komið að hinni norðlægu vídd og tekið þátt í aðgerðum tengdum markmiðum hennar. Í niðurstöðum skýrslunnar er m.a. lögð áhersla á að styrkja þingmannasamstarf við svæðið og að Norðurlönd hafi sérstöku hlutverki að gegna vegna sögulegra tengsla og landfræðilegrar nálægðar.

3.1.1.     Stefnumótunarhópurinn.
    Forsætisnefnd setti á laggirnar stefnumótunarhóp um framtíðarskipulag norræns samstarfs í árslok 2000. Stefnumótunarhópnum var falið að undirbúa umfjöllun forsætisnefndar um skipulag norræns samstarfs og leggja fyrir forsætisnefnd tillögur um væntanlegar breytingar á störfum Norðurlandaráðs, m.a. varðandi skipulag og tengsl við aðildarríkin. Markmið stefnumótunarhópsins var að móta nýtt skipulag Norðurlandaráðs sem væri í betra samræmi við skipulag Norrænu ráðherranefndarinnar og væri skiljanlegt utanaðkomandi aðilum, svo sem öðrum alþjóðlegum stofnunum. Jafnframt var lögð áhersla á að nýtt skipulag tryggði sveigjanleika og möguleika til að fjalla um þverfagleg efni og til að veita sérstökum málum flýtimeðferð.
    Sighvatur Björgvinsson sat í vinnuhópnum fyrir hönd flokkahóps jafnaðarmanna en þegar Sighvatur hætti þingmennsku í febrúar 2001 urðu nokkrar breytingar á skipan hópsins. Í kjölfar þeirra tók Sigríður A. Þórðardóttir sæti í hópnum sem fulltrúi flokkahóps hægrimanna.
    Í álitsgerð stefnumótunarhópsins með tillögum að breyttu nefndakerfi kemur m.a. fram að svæðisnefndirnar þrjár, Evrópunefnd, Norðurlandanefnd og nærsvæðanefnd, hafi gegnt mikilvægu hlutverki við að gera þrískiptingu norræns samstarfs sýnilega en hinar þrjár stoðir samstarfsins eru samvinna innan Norðurlanda, samvinna Norðurlanda og Evrópu (ESB/ESS) auk samvinnu Norðurlanda og nærsvæða. Hins vegar hafi skapast vandamál varðandi samstarf við nefndir þjóðþinganna og Norrænu ráðherranefndina. Markmið hins nýja nefndakerfis fimm málefnanefnda og forsætisnefndar er að tryggja betra samspil við Norrænu ráðherranefndina, þjóðþingin og alþjóðastofnanir, segir í álitsgerðinni. Þetta gerist með því að ljóst sé hvar einstök málefnasvið eru vistuð þannig að samskiptin við t.d. nefndir þjóðþinga verði gagnsærri. Þrátt fyrir að vikið sé frá svæðisbundnum nefndum er lögð áhersla á að svæðisbundnu stoðirnar verði áfram þáttur í starfi hinna nýju fagnefnda en þeim ber að fjalla um mál frá sjónarhóli Norðurlanda, Evrópu og nærsvæða.
    Í hinu nýja nefndakerfi annast forsætisnefnd víðtæk pólitísk og stjórnunarleg málefni, m.a. fjárhagsáætlun Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar. Aukin áhersla er lögð á utanríkis- og öryggismál í starfi forsætisnefndar, þar á meðal friðargæslu og málefni hinnar norðlægu víddar ESB. Þá sér forsætisnefnd um tengsl við svæðisbundnar og alþjóðlegar stofnanir og á í samstarfi við ESB/EES, ÖSE, Sþ o.s.frv.
    Menningar- og menntamálanefnd annast málefni sem varða menningu og listir á Norðurlöndum og á alþjóðavísu, fjölmenningarleg Norðurlönd, kvikmyndir og fjölmiðla, tungumál, íþróttir, óháð félagasamtök, menningu barna og unglinga, grunnmenntun, framhaldsmenntun, fullorðinsfræðslu, rannsóknir, menntun vísindamanna og fræðimannaskipti.
    Velferðarnefnd skal annast málefni sem varða velferðar- og tryggingamál, félagsþjónustu og heilbrigðismál, málefni fatlaðra, bygginga- og húsnæðismál, fjölskyldumál, börn og unglinga, fíkniefni og aðra misnotkun (áfengi o.s.frv.).
    Borgara- og neytendanefnd skal annast málefni sem varða lýðræði, mannréttindi, borgararéttindi, jafnrétti, neytendamál, hollustu matvæla, baráttu gegn glæpastarfsemi, löggjöf, innflytjendur, flóttafólk og baráttu gegn kynþáttafordómum.
    Umhverfis- og náttúruauðlindanefnd annast málefni sem varða umhverfismál, landbúnað og skógrækt, sjávarútveg, sjálfbæra þróun og orkumál.
    Efnahags- og viðskiptanefnd skal annast málefni sem varða efnahags- og framleiðsluskilyrði, atvinnulíf, innri markað Norðurlanda, frjálsa fólksflutninga, afnám landamærahindrana, viðskipti, byggðastefnu, atvinnumál og vinnumarkað, vinnuvernd, innra skipulag, samgöngur og upplýsingatækni.
    Tengsl Norðurlandaráðs við aðildarríkin voru mikið til umræðu í stefnumótunarhópnum og var sérstök áhersla lögð á að hinar nýju málefnanefndir Norðurlandaráðs ættu samstarf við hliðstæðar nefndir þjóðþinganna. Tengslin við ríkin byggjast á mörgum þáttum en stefnumótunarhópurinn nefndi eftirfarandi samverkandi þætti: samræmi á milli sérsviðs þingmanna í þjóðþingum og nefndarsetu þeirra í Norðurlandaráði; dagskrá Norðurlandaráðs endurspegli aðkallandi málefni í aðildarríkjunum og ESB; ríkisstjórnir geri þjóðþingunum grein fyrir því hvernig tilmælum Norðurlandaráðs er fylgt eftir; gagnkvæmt upplýsingastreymi á milli ritara landsdeilda og nefndaritara Norðurlandaráðs um störf ráðsins og störf þjóðþinganna.
    Stefnumótunarhópurinn fjallaði um hvort Norðurlandaráð skyldi halda eitt eða fleiri þing árlega. Niðurstaðan varð sú að Norðurlandaráð héldi eitt þing árlega en hægt væri að boða til aukaþings ef sérstök ástæða þætti til.
    Stefnumótunarhópurinn ræddi ekki um breytingar á flokkahópsfyrirkomulaginu sem komið var á 1995. Áður komu fulltrúar Norðurlandaráðs til funda fyrst og fremst sem fulltrúar sinna landsdeilda en eftir að flokkahópunum var komið á hafa fulltrúarnir í auknum mæli undirbúið sig fyrir fundi í Norðurlandaráði í flokkahópunum. Stefnumótunarhópurinn lýsti yfir ánægju með flokkahópsfyrirkomulagið og telur að aukið vægi flokkahópanna í frumkvæði, undirbúningi og meðferð mála hafi átt þátt í því að gera innra starf Norðurlandaráðs þróttmeira. Eftir sem áður munu flokkahóparnir sjá um tilnefningar við nefndakjör á Norðurlandaráðsþingum.

3.2.    Norðurlandanefnd.
    Ísland átti þrjá fulltrúa í Norðurlandanefnd á árinu 2001 en það voru Ísólfur Gylfi Pálmason, Sigríður Jóhannesdóttir og Sigríður A. Þórðardóttir sem jafnframt var annar tveggja varaformanna nefndarinnar. Nefndin hélt fimm fundi á árinu. Auk þess hittust vinnuhópur nefndarinnar og formenn nokkrum sinnum.
    Málefni Norðurlandanefndar eru fyrst og fremst norræn samstarfsmálefni, menning, menntun, félagsmál, jafnréttismál og réttindamál. Norðurlandanefnd gerði vinnuáætlun fyrir starfsárið 2001 og ákvað að sérstaklega yrði unnið að eftirfarandi málefnum: byggðastefna á Norðurlöndum, fjölmenning á Norðurlöndum, lífskjör, rannsóknir og tungumálastefna á Norðurlöndum.
    Varðandi byggðastefnu var m.a. fjallað um landamærahindranir á Norðurlöndum og aðgerðir til að auka hreyfanleika á milli landanna. Á sviði fjölmenningarsamfélagsins á Norðurlöndum komu fram tillögur um aðlögun útlendinga og baráttu gegn kynþáttahyggju. Að auki var fjallað um flóttamenn og aðstæður þeirra. Sérstakur vinnuhópur um kynþáttahatur og útlendingaandúð vann ítarleg nefndarálit um þessar tillögur. Undir þemanu lífskjör var tekið á ýmsum málum varðandi borgararéttindi og jafnrétti. Tillögur voru m.a. lagðar fram gegn verslun með konur og börn, um aðgerðir gegn nauðungarhjónaböndum og um áætlanir til verndunar vitna í réttarhöldum. Á rannsóknasviðinu var lögð fram tillaga um að gera Norðurlönd að einu rannsóknasvæði.

3.3.    Nærsvæðanefnd.
    Fulltrúi Íslands í nærsvæðanefndinni var Hjálmar Jónsson og síðar Drífa Hjartardóttir. Hélt nefndin sjö fundi á árinu 2001. Í vinnuáætlun sinni fyrir starfsárið ákvað nefndin sem fyrr að leggja megináherslu á grannsvæðasamstarf og umhverfismál.
    Hvað varðar grannsvæðin voru skilgreindir þrír þættir í starfi nefndarinnar: Lýðræði, umhverfi, heilbrigðismál og barátta gegn glæpastarfsemi í norðvesturhluta Rússlands; lýðræði, ungmennaskipti og barátta gegn glæpastarfsemi í Eystrasaltslöndunum; og áætlunin „Agenda 21“ um að minnka mengun á norðurheimskautssvæðinu.
    Í umhverfismálum eða málefnum sjálfbærrar þróunar var þemaráðstefna Norðurlandaráðs í apríl efst á baugi. Þemaráðstefnuna má rekja til tillögu Norrænu ráðherranefndarinnar um áætlun um sjálfbæra þróun á Norðurlöndum. Vann nærsvæðanefnd nefndarálit við tillöguna sem var afgreidd á 6. aukaþingi Norðurlandaráðs í Kungälv. Í orkumálum var rætt hvernig orkugeirinn kæmi inn í áætlunina um sjálfbæra þróun. Hugmyndir um framseljanlega kvóta á losun loftslagseyðandi efna á Eystrasaltssvæðinu voru ræddar og í nefndaráliti nærsvæðanefndar um tillögu ráðherranefndarinnar um áætlun um sjálfbæra þróun var þeim tilmælum beint til ráðherranefndarinnar og ríkisstjórna Norðurlanda að hrinda í framkvæmd verkefni um að prófa Kyoto-kerfið á Eystrasaltssvæðinu, m.a. með því að koma á sameiginlegum norrænum markaði með kvóta fyrir losun koldíoxíðs ( CO2) eigi síðar en 2005.

3.4.    Evrópunefnd.
    Fulltrúar Íslands í Evrópunefndinni voru Arnbjörg Sveinsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon. Hlutverk Evrópunefndar var að sinna samstarfi Norðurlanda og EES/ESB-ríkja og fjalla um stefnu norrænu ríkjanna í þeim málaflokki. Nefndin hefur einkum fjallað um atvinnumál, hagstjórnarmál, neytendamál og meðferð evrópskrar löggjafar á Norðurlöndum, auk þess að fjalla um starfsáætlanir formennskuríkja og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Nefndin hélt sex fundi 2001.
    Evrópunefndin fór í fræðslu- og fundaferð til Strassborgar í mars. Hélt nefndin fundi með varaforseta Mannréttindadómstóls Evrópu, Elisabet Palm, þar sem rætt var um Réttindaskrá ESB og þau mál sem lágu fyrir dómstólnum. Þá kynnti Evrópunefnd sér starfsemi Rannsóknarmiðstöðvar um Evrópumál (Centre for European Policy Studies) og ræddi stöðuna í samrunaþróun Evrópu eftir Nice-sáttmálann. Enn fremur voru haldnir fundir Evrópunefndar með þingmönnum Evrópuþingsins og loks með umboðsmanni ESB, Jacob Söderman. Á síðastnefnda fundinum var m.a. aðgangur almennings að skjölum ESB til umfjöllunar.
    Sumarfundur Evrópunefndar var haldinn í Dyflinni. Nefndin átti m.a. viðræður við Evrópunefnd írska þingsins og fulltrúa írsku ríkisstjórnarinnar um stefnu landsins í Evrópumálum. Einnig voru Iðnþróunarstofnun Írlands og Evrópustofnunin um lífs- og starfsskilyrði heimsóttar. Í viðræðum við forsvarsmenn þessara stofnana voru rædd vinnumarkaðs- og skattamál á Írlandi auk félagslegra afleiðinga sameiginlegs gjaldmiðils Evrópusambandslanda og áhrif stækkunar ESB á vinnumarkaði sambandsins.

3.5.    Eftirlitsnefnd.
    Arnbjörg Sveinsdóttir var fulltrúi Íslands í eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs árið 2001. Nefndin tók tvö málefni til sérstakrar skoðunar á starfsárinu. Í fyrsta lagi kannaði nefndin aðgang erlendra ríkisborgara frá ríkjum utan ESB/EES, sem eru búsettir á Norðurlöndum, að hinum ýmsu stofnunum, verkefnum og styrktarsjóðum á vegum Norðurlandaráðs. Niðurstaða athugunarinnar varð sú að umræddir erlendir ríkisborgarar hafa óskoraðan aðgang að starfsemi á vegum ráðsins ef undan er skilin Nordjobb-áætlunin um sumarvinnu fyrir ungt fólk. Seinna verkefni eftirlitsnefndar var úttekt á norrænum styrkjum til rannsókna sem veittir eru í gegnum fjárlög Norrænu ráðherranefndarinnar. Því verkefni verður lokið 2002.

4.    Verðlaun Norðurlandaráðs.
    Verðlaun Norðurlandaráðs eru þrenn: bókmenntaverðlaun, tónlistarverðlaun og náttúru- og umhverfisverðlaun. Bókmennta- og tónlistarverðlaunum Norðurlandaráðs var úthlutað í tengslum við þemaráðstefnu Norðurlandaráðs sem haldin var í Ósló í apríl. Umhverfisverðlaunin voru hins vegar afhent í tengslum við Norðurlandaráðsþingið í Kaupmannahöfn í lok október.
    Bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs hefur verið úthlutað á hverju ári frá 1962 og eru veitt fyrir bókmenntaverk á norrænu tungumáli. Markmið verðlaunanna er að auka áhuga á norrænum bókmenntum. Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2001 hlaut norska skáldið Jan Kjærstad fyrir skáldsögu sína Oppdageren.
    Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst veitt árið 1965. Fram til ársins 1988 voru þau einungis afhent annað hvert ár. Frá 1990 hafa þau hins vegar verið veitt á ári hverju, annað árið til tónskálda og hitt árið til tónlistarflytjenda. Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs árið 2001 komu í hlut danska trompetleikarans, hljómsveitarstjórans og tónskáldsins Palle Mikkelborg.
    Á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík árið 1995 voru samþykkt tilmæli um að Norðurlandaráð veitti árlega náttúru- og umhverfisverðlaun. Verðlaunin á að veita einstaklingi sem hefur sett mark sitt á náttúru- og umhverfisvernd á Norðurlöndum eða hópi fólks, samtökum, fjölmiðlum, fyrirtækjum eða stofnunum sem hafa í störfum sínum tekist að sýna náttúrunni aðdáunarverða tillitssemi. Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs árið 2001 voru afhent á þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn og hlaut Svíinn Mats Segenstram verðlaunin fyrir frumkvæði sitt að því að tengja umhverfismál þróunaraðstoð.
    Verðlaun Norðurlandaráðs nema 350 þúsund dönskum krónum.

5.    Þemaráðstefna Norðurlandaráðs um sjálfbæra þróun.
    
Þemaráðstefna Norðurlandaráðs 2001 fór fram í Ósló dagana 2.–3. apríl. Yfirskrift ráðstefnunnar var „Sjálfbær þróun – ný stefna fyrir Norðurlönd“. Aðdragandi ráðstefnunnar var sá að í janúar 2001 fékk Norðurlandaráð til afgreiðslu tillögu Norrænu ráðherranefndarinnar um norræna áætlun um sjálfbæra þróun á Norðurlöndum og grannsvæðum þeirra. Í áætluninni koma fram markmið og verkefni fyrir tímabilið 2001–2004 auk skilgreindra langtímamarkmiða allt fram til ársins 2020. Norðurlandaráð fjallaði um tillögu ráðherranefndarinnar og liður í þeirri umfjöllun var að efna til þemaráðstefnu um efni hennar. Tilgangur ráðstefnunnar var að þingmenn og ráðherrar gætu átt viðræður um áætlunina og þá framtíðarvinnu sem þarf til að fylgja henni eftir. Enn fremur var fjölda sérfræðinga og annarra gesta boðið til ráðstefnunnar til að ræða málefni sjálfbærrar þróunar.
    Norræna áætlunin um sjálfbæra þróun tekur til mála sem skipta má upp í þrjú svið. Í fyrsta lagi þverfagleg viðfangsefni eins og loftslagsbreytingar, líffræðilegan fjölbreytileika, hafið, efni og efnavörur, og matvælaöryggi. Í öðru lagi er lögð áhersla á geira eins og orkumál, samgöngur, landbúnað, atvinnulíf og framleiðsluvörur, fiskveiðar, veiðar á sjávarspendýrum og nýtingu skóga. Í þriðja lagi er um að ræða önnur áherslusvið eins og þróun þekkingargrunns, stjórntækja og hagkvæmrar nýtingar náttúruauðlinda.
    Á ráðstefnunni var þeirri spurningu velt upp hvort Norðurlönd væru í fararbroddi á sviði sjálfbærrar þróunar. Þátttakendur voru sammála um að Norðurlöndin væru um margt mjög framarlega í starfi sínu að sjálfbærri þróun en þó mætti betur gera. Ábyrgð á því að framfylgja áætluninni um sjálfbæra þróun liggur hjá ríkisstjórnum einstakra landa en einnig var bent á ábyrgð þingmanna við að fylgjast með framkvæmd hennar. Fram kom hugmynd um að koma á sjálfstæðu eftirlitskerfi til að meta framkvæmd áætlunarinnar.
    Loftslags- og orkumál voru í brennidepli á ráðstefnunni. Tillaga um bindandi samstarf um að minnka losun loftslagseyðandi efna hlaut mikinn stuðning, svo og það markmið áætlunarinnar að staðfesta Kyoto-sáttmálann. Rætt var um endurnýtanlega orkugjafa og áhersla var lögð á að endurbæta orkuver á nærsvæðunum. Enn fremur var lagt til að Norðurlöndin störfuðu saman að endurvinnslu og að samnorrænar reglur yrðu settar um meðhöndlun úrgangs.
    Umhverfisvá frá kjarnorkuverinu í Sellafield og flutningur á geislavirkum úrgangi um Barentshaf var einnig til umræðu. Margir ráðstefnugesta töldu rétt að Norðurlönd stæðu saman að því að hafa samband við hlutaðeigandi yfirvöld og krefjast úrbóta.
    Einnig var fjallað um fiskveiðar og nýtingu auðlinda hafsins. Var nokkuð tekist á í umræðum um nýtingu sjávarspendýra.

6.    Þriðji sameiginlegi fundur Norðurlandaráðs og Eystrasaltsþingsins.
    Norðurlandaráð og Eystrasaltsþingið héldu þriðja sameiginlega fund sinn dagana 31. maí og 1. júní. Fyrri fundirnir voru haldnir í Vilníus 1996 og í Helsinki 1999. Að þessu sinni fór fundurinn fram í Ríga.
    Fyrsta umræðuefni fundarins var stækkun ESB til austurs. Meðal framsögumanna í umræðunum var Indulis Berzins, utanríkisráðherra Lettlands. Hann gerði grein fyrir stöðunni í aðildarviðræðum Lettlands við ESB og sagði kapp lagt á að ljúka þeim á árinu 2002. Enn fremur gerði Berzins hlutverk Norðurlanda innan ESB að umræðuefni og lagði áherslu á hversu hjálplegir Svíar hefðu reynst er þeir fóru með formennsku ESB fyrri hluta árs 2001. Batt Berzins vonir við að formennska Dana á síðari árshelmingi 2002 mundi ekki síður reynast Eystrasaltsþjóðunum vel í aðildarviðræðunum við ESB.
    Annað umræðuefni fundarins var svæðisbundin samvinna. Meðal framsögumanna voru Aigars Kalvitis, efnahagsmálaráðherra Lettlands, og Mihkel Parnoja, efnahagsmálaráðherra Eistlands. Kalvitis ræddi um hagþróun Eystrasaltslandanna og skýrði frá því að þau væru eitt af þeim svæðum heims sem búið hefðu við hvað mestan hagvöxt undanfarin ár. Hann ræddi enn fremur nauðsyn smárra ríkja á því að eiga greiðan aðgang að erlendum mörkuðum, efnahagsástandið í Lettlandi og nauðsyn átaks í þekkingariðnaði og tölvuvæðingu. Parnoja gerði utanríkisverslun Eystrasaltsríkjanna að umræðuefni og ræddi viðskipti ríkjanna við Norðurlönd. Að auki skýrði hann frá aukinni norrænni fjárfestingu á Eystrasaltssvæðinu. Karl Johan Krokfors, yfirmaður Norðurlandaskrifstofu finnska utanríkisráðuneytisins, ræddi um gildi norrænnar samvinnu innan ESB þar sem Svíþjóð, Finnland og Danmörk samræmdu stefnu sína í auknum mæli. Hann taldi að hagsmunir Eystrasaltsríkjanna og Norðurlanda innan ESB færu saman og því væri grundvöllur fyrir samræmingu og samstarfi innan ESB eftir að Eystrasaltsríkin væru komin inn.
    Þriðja umræðuefni fundarins var þátttaka þingmanna í málefnum hinnar norðlægu víddar ESB. Kent Olsson, formaður vinnuhóps Norðurlandaráðs um norðlægu víddina, og Vytautas Landsbergis, varaformaður utanríkis- og öryggismálanefndar Eystrasaltsþingsins, höfðu framsögu. Olsson tíundaði helstu markmið hinnar norðlægu víddar, svo sem að ýta undir frelsi, lýðræði, öryggi, stöðugleika og sjálfbæra þróun. Hann ræddi helstu svið sem Norðurlandaráð leggur áherslu á innan norðlægu víddarinnar, svo sem kjarnorkuöryggi, umhverfis- og félagsmál, hagþróun, uppbyggingu innviða hagkerfis, baráttu gegn skipulagðri glæpastarfsemi þvert á landamæri og stuðning við lýðræðisþróun. Landsbergis ræddi stöðu Kaliningrad í sínu erindi.
    Umræður um drög að lokayfirlýsingu fundarins voru líflegar og stóð nokkur styr um orðalag þar sem áhersla var lögð á mikilvægi stækkunar ESB og NATO til að tryggja stöðugleika, frelsi, frið og velferð í Evrópu. Steingrímur J. Sigfússon tók m.a. til máls og sagðist ekki vera andsnúinn aðild Eystrasaltsríkjanna að ESB ef lýðræðislegur meiri hluti væri fyrir því hjá íbúum ríkjanna. Hins vegar teldi hann stækkun NATO slæma hugmynd og að hún mundi auka spennu á svæðinu. Rannveig Guðmundsdóttir sagði að meginmálið væri að fundurinn veitti Eystrasaltsríkjunum þann stuðning sem þau bæðu um. Í því sambandi ætti ekki að skipta máli að sumar Norðurlandaþjóðir stæðu utan ESB og aðrar utan NATO. Ef Eystrasaltsríkin bæðu um þetta orðalag í lokayfirlýsingu væri rétt að koma til móts við þá ósk. Lokayfirlýsingin var samþykkt óbreytt, en nokkrir þingmenn gerðu þó athugasemdir við að stækkun NATO væri sögð styrkja stöðugleika í Evrópu.

7.    6. aukaþing Norðurlandaráðs.
    Dagana 25.–26. júní sl. var 6. aukaþing Norðurlandaráðs haldið í Kungälv í Svíþjóð. Til aukaþingsins var boðað til að afgreiða tvær tillögur Norrænu ráðherranefndarinnar, annars vegar um norræna umhverfisáætlun og hins vegar um norræna áætlun um sjálfbæra þróun. Ástæða þess að ekki var beðið til þingsins í haust var sú að nauðsynlegt þótti að afgreiða tillögurnar fyrr þar sem þær taka til áætlana sem standa frá 2001–2004.
    Nærsvæðanefnd hafði fjallað um tillögurnar og skilað nefndaráliti með nokkrum athugasemdum í formi tilmæla til ríkisstjórna Norðurlanda og Norrænu ráðherranefndarinnar. Í umræðum á þinginu tók Sigríður A. Þórðardóttir til máls fyrir hönd fulltrúa íslensku ríkisstjórnarflokkanna í Íslandsdeild Norðurlandaráðs. Fór hún fram á sérstaka atkvæðagreiðslu um fyrstu grein tilmæla nærsvæðanefndar við tillögu um norræna áætlun um sjálfbæra þróun. Sú grein innihélt tilmæli um að beita sér fyrir því að Kyoto-bókunin yrði samþykkt á árinu og að hún tæki gildi fyrir 10 ára afmæli Ríó-fundar Sameinuðu þjóðanna árið 2002. Sagði Sigríður að ríkisstjórn Íslands styddi Kyoto-bókunina og það væri opinber stefna stjórnarinnar að samþykkja hana en þó fyrst þegar sérstaða Íslands hefði verið viðurkennd. Óraunhæft væri að ætla að stjórnvöld samþykktu Kyoto-bókunina í ár og því væri farið fram á sérstaka atkvæðagreiðslu. Jafnframt gat Sigríður þess að íslenskir stjórnarliðar mundu sitja hjá í atkvæðagreiðslunni. Að umræðunum loknum fór fram atkvæðagreiðsla um greinina með nafnakalli. Enginn greiddi atkvæði á móti en sex sátu hjá, þau Arnbjörg Sveinsdóttir, Hjálmar Jónsson, Ísólfur Gylfi Pálmason og Sigríður A. Þórðardóttir, auk færeyska þingmannsins, Jógvan við Keldu, og danska þingmannsins Kristian Thulesen Dahl. Aðrir meðlimir Norðurlandaráðs samþykktu greinina. Því næst voru tillögur að norrænni umhverfisáætlun og norrænni heildarstefnu um sjálfbæra þróun afgreiddar með tilmælum nærsvæðanefndar.

8.    53. þing Norðurlandaráðs.
    Dagana 29.–31. október var 53. þing Norðurlandaráðs haldið í Kaupmannahöfn og sótti fullskipuð Íslandsdeild þingið.
    Tveir málaflokkar voru sérstaklega í brennidepli á þinginu. Annars vegar framtíð norrænnar samvinnu en vinna við tillögu um nýtt skipulag Norðurlandaráðs yfirskyggði flest annað í starfi ráðsins á árinu. Hins vegar voru umræður um utanríkismál fyrirferðarmeiri en oftast áður vegna hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin 11. september og hernaðarins í Afganistan. Önnur þemu sem rædd voru á þinginu voru borgararéttindi, samstarf ríkisfjölmiðla, samstarf þvert á landamæri, norrænn vinnumarkaður, atvinnulíf á umbreytingartímum og sjálfbær þróun.
    Sameiginleg skýrsla Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar, „Ný norræn dagskrá – svar við skýrslu aldamótanefndar“ var lögð fram á þinginu en hún er svar við skýrslu aldamótanefndar „Norðurlönd 2000 – Umleikin vindum veraldar“ þar sem grunnur var lagður að endurmati á starfi Norðurlandaráðs. „Ný norræn dagskrá – svar við skýrslu aldamótanefndar“ fjallar bæði um innihald og skipulag norræns samstarfs og gerir grein fyrir umfangsmiklum breytingum á nefndakerfi ráðsins. Á þinginu var samþykkt að hverfa frá landfræðilegri skiptingu í þrjár nefndir, nærsvæðanefnd, Evrópunefnd og Norðurlandanefnd, og taka upp skipulag með fimm málefnanefndum auk forsætisnefndar. Nefndirnar í hinni nýju skipan eru menningar- og menntamálanefnd, velferðarnefnd, borgara- og neytendanefnd, umhverfis- og náttúruauðlindanefnd og efnahags- og viðskiptanefnd. Helstu rökin fyrir því að hverfa frá hinum þremur landfræðilegu nefndum sem starfað hafa frá 1995 eru þau að í hinu nýja skipulagi málefnanefnda sé leitað betri samræmingar við Norrænu ráðherranefndina en starfsemi hennar er skipt upp eftir málefnasviðum. Jafnframt er eitt af markmiðum þessara breytinga að auka samræmi á milli starfs Norðurlandaráðs og þjóðþinganna. Gert er ráð fyrir að formenn hinna nýju nefnda Norðurlandaráðs komi á beinu sambandi við hliðstæðar nefndir í þjóðþingunum og eigi með þeim samstarf (sjá nánari umfjöllun í lið 3.1.1. Stefnumótunarhópurinn).
    Sigríður A. Þórðardóttir sat fyrir hönd flokkahóps hægrimanna í stefnumótunarhópnum sem vann tillöguna um hið nýja skipulag. Ekki náðist samstaða í hópnum um lokatillögu um nýja nefndaskipan og gerði flokkahópur hægrimanna fyrirvara við tillögu meiri hluta stefnumótunarhópsins. Í umræðum um tillöguna á þinginu gerði Sigríður grein fyrir fyrirvara hægrimanna. Sagði Sigríður að í ljósi hnattvæðingar og þróunar alþjóðamála vildu hægrimenn setja á laggirnar sérstaka utanríkis- og öryggismálanefnd. Benti hún á að í starfi sínu beinir Norðurlandaráð sjónum sínum í auknum mæli út fyrir Norðurlöndin, sérstaklega til ESB og nágrannaríkjanna í austri. Rétt væri að stíga skrefið til fulls og koma á sérstakri utanríkis- og öryggismálanefnd í stað þess að hafa utanríkismálin undir forsætisnefnd. Steingrímur J. Sigfússon tók þátt í umræðunni um skipulagsbreytingarnar og kvaðst að mestu sáttur við tillöguna um nýja skipan. Þó væri hann hlynntur sérstakri utanríkis- og öryggismálanefnd og taldi að þó ekki hefði tekist að ná samstöðu um slíka nefnd nú, þá væri líklegt að hún yrði sett á laggirnar í náinni framtíð.
    Utanríkismálaumræða þingsins einkenndist af umræðu um stöðu alþjóðamála eftir upphaf hernaðar í Afganistan. Eftir greinargerðir utanríkis- og varnarmálaráðherra Norðurlanda tóku talsmenn flokkahópa Norðurlandaráðs til máls en af fjórum talsmönnum flokkahópanna í utanríkismálum voru tveir úr Íslandsdeildinni. Rannveig Guðmundsdóttir talaði fyrir hönd jafnaðarmanna og lagði áherslu á að víðtækt uppbyggingarstarf yrði að fylgja hernaði til að komast fyrir mein hryðjuverka. Styðja yrði félagslega og lýðræðislega þróun á þeim svæðum þar sem skipulögð hryðjuverkastarfsemi á sér rætur. Rannveig lagði enn fremur áherslu á að Evrópa yrði að beita sér meira í málefnum Miðausturlanda, einkum hvað varðar friðarumleitanir á milli Ísraela og Palestínumanna. Steingrímur J. Sigfússon var talsmaður vinstri sósíalista og benti á að ekki væri höggvið að rótum hryðjuverka með hernaði. Þótt hægt væri að uppræta öll heimsins hryðjuverkasamtök með einni stórri sprengjuherferð, væri jarðvegurinn sem hryðjuverkastarfsemin vex úr enn fyrir hendi. Einungis með því að koma á friði á átakasvæðum og minnka bilið á milli hinna ríku og fátæku ríkja heims væri hægt að stuðla að varanlegri lausn á þessum vanda.
     Í öðrum hluta utanríkismálaumræðunnar var lögð fram skýrsla um aðgerðir til að fyrirbyggja átök og stjórnun hættuástands sem unnin var af sérstökum vinnuhópi forsætisnefndar. Rannveig Guðmundsdóttir átti sæti í vinnuhópnum og hafði hún framsögu um skýrsluna. Í framsögunni kom m.a. fram að auka þyrfti norrænt samstarf hvað varðar sameiginleg verkefni, þjálfun og uppbyggingu sérþekkingar á sviði friðargæslu og jafnframt var því beint til ríkisstjórna Norðurlanda að kanna möguleika á því að koma á samnorrænu hraðliði á sviði borgaralegrar friðargæslu.
    Þriðji hluti utanríkismálaumræðunnar fjallaði um Evrópu og grannsvæði og lagði Siv Friðleifsdóttir, norrænn samstarfsráðherra, fram samstarfsáætlun ráðherranna um norðurskautsmál. Steingrímur J. Sigfússon tók til máls og fagnaði tillögunni sérstaklega. Steingrímur, sem undanfarin tvö ár hefur verið áheyrnarfulltrúi Norðurlandaráðs hjá þingmannanefnd um norðurskautsmál, sagði samstarf á svæðinu vera að þróast í rétta átt, þó Bandaríkin hafi verið treg til stofnanabundins samstarfs. Lagði hann áherslu á lykilhlutverk Norðurlandaráðs í uppbyggingu samstarfs á norðurskautssvæðinu.
    Í umræðum um borgararéttindi var m.a. fjallað um ályktunartillögur Norðurlandanefndar um kynþáttahatur og aðlögun nýrra borgara, og um lífsskilyrði flóttafólks. Sigríður Jóhannesdóttir kvaddi sér hljóðs og lýsti ástandi þessara mála á Íslandi. Sagði Sigríður m.a. að þó kynþáttahatur væri lítið á Íslandi þá væri mikilvægt að vera á varðbergi og berjast gegn því þegar og ef það birtist í sterkari mynd. Í þessum efnum gætu Íslendingar lært margt af öðrum Norðurlandaþjóðum sem hafa tekið við mun fleiri útlendingum og tekist á við margvísleg vandamál því samfara. Kvað Sigríður Íslendinga geta lært af því sem vel hefur tekist til annars staðar á Norðurlöndunum og kannski ekki síður af þeim mistökum sem gerð hafa verið.
    Samstarf þvert á landamæri var einnig til umræðu á þinginu. Undir því þema var m.a. tekin fyrir tillaga Norðurlandanefndar um ályktun um Norðurlönd sem eitt rannsóknasvæði. Sigríður A. Þórðardóttir mælti fyrir tillögunni og lagði áherslu á aukið samstarf á milli háskóla og annarra vísindastofnana um rannsóknir. Slíkt samstarf mundi ýta undir nýsköpun og hefði þannig áhrif á hagsæld í löndunum. Aukið samstarf Norðurlanda á rannsóknasviðinu mundi um leið styrkja þau norrænu rannsóknarverkefni sem sækja um styrki samkvæmt rammaáætlun ESB um vísindarannsóknir.
    Miðvikudaginn 31. október fóru fram kosningar í nefndir og kjör forseta Norðurlandaráðs. Forseti var kjörin finnski þingmaðurinn Outi Ojala og tók hún formlega við embætti 1. janúar 2002 en hún hafði verið starfandi forseti í þrjár vikur eftir að Sven Erik Hovmand fráfarandi forseti sagði af sér til að taka við ráðherradómi. Outi Ojala er fyrsti forseti í sögu Norðurlandaráðs sem kemur úr flokkahópi vinstri sósíalista. Eftir kosningar til hinna nýju nefnda Norðurlandaráðs er nefndaseta Íslandsdeildar sem hér segir: Rannveig Guðmundsdóttir heldur sæti sínu í forsætisnefnd. Í menningar- og menntamálanefnd sitja Sigríður Jóhannesdóttir og Ísólfur Gylfi Pálmason sem jafnframt er varaformaður nefndarinnar. Í efnahags- og viðskiptanefnd sitja Sigríður A. Þórðardóttir sem formaður og Steingrímur J. Sigfússon sem varaformaður. Arnbjörg Sveinsdóttir var kosin í borgara- og neytendanefnd en flutti sig um set yfir í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd í lok janúar 2002. Jafnframt heldur Arnbjörg sæti sínu í eftirlitsnefnd. Drífa Hjartardóttir situr í velferðarnefnd.
    Næsta þing Norðurlandaráðs, sem jafnframt er 50 ára afmælisþing, verður haldið í Helsingfors 29.–31. október 2002.

Alþingi, 5. febr. 2002.


Ísólfur Gylfi Pálmason,


form.


Sigríður A. Þórðardóttir.


Rannveig Guðmundsdóttir.



Arnbjörg Sveinsdóttir.


Sigríður Jóhannesdóttir.


Drífa Hjartardóttir.



Steingrímur J. Sigfússon.



Fylgiskjal.


Tilmæli, álit og ákvarðanir um innri málefni
samþykkt á 53. þingi Norðurlandaráðs.
(Kaupmannahöfn, 29.–31. október 2001.)


     1.      Tilmæli nr. 11/2001, um fjárlög fyrir norrænt samstarf fyrir árið 2002 (C 2; B 203/p).
     2.      Tilmæli nr. 12/2001, um greiningu á fjárlögum fyrir norrænt samstarf (B 204/p).
     3.      Tilmæli nr. 13/2001, um ný tímamörk fyrir endurskoðun reikninga Norræna menningarsjóðsins (C 5/kk).
     4.      Tilmæli nr. 14/2001, um fjárfestingarlán Norræna fjárfestingarbankans á sviði umhverfismála (A 1257/när).
     5.      Tilmæli nr. 15/2001, um samráð við Norrænu ráðherranefndina um aðgerðir og áætlanir (A 1270/kk).
     6.      Tilmæli nr. 16/2001, um nýja stefnumótun fyrir norrænt samstarf (B 208/p).
     7.      Tilmæli nr. 17/2001, um lífsskilyrði umsækjenda um pólitískt hæli á Norðurlöndum (A 1267/nord).
     8.      Tilmæli nr. 18/2001, um norræna ráðstefnu um lífsskilyrði umsækjenda um pólitískt hæli á Norðurlöndum (A 1267/nord).
     9.      Tilmæli nr. 19/2001, um baráttu gegn kynþáttahatri og andúð á útlendingum, og styrkingu aðlögunar (A 1268/nord).
     10.      Tilmæli nr. 20/2001, um verndun vitna og aðila að hegningarmálum gegn ofbeldi, hótunum og hefndarráðstöfunum (A 1232/nord og A 1246/nord).
     11.      Tilmæli nr. 21/2001, um verslun með konur og börn (A 1258/nord).
     12.      Tilmæli nr. 22/2001, um upplýsingaherferð gegn verslun með konur og börn (A 1258/ nord).
     13.      Tilmæli nr. 23/2001, um aðgerðir gegn þvingunarhjónaböndum (A 1221/nord).
     14.      Tilmæli nr. 24/2001, um örugga merkingu matvæla og vöruupplýsingar á Norðurlöndum (A 1260/euro).
     15.      Tilmæli nr. 25/2001, um viðbrögð við neyðarástandi á matvælasviðinu (A 1261/euro).
     16.      Tilmæli nr. 26/2001, um alþjóðleg viðbrögð við neyðarástandi á matvælasviðinu (A 1261/euro).
     17.      Tilmæli nr. 27/2001, um skyldukennslu í neytendamálum á grunnskólastigi (A 1262/ euro).
     18.      Tilmæli nr. 28/2001, um kennsluefni og norræna heimasíðu um neytendafræðslu (A 1262/euro).
     19.      Tilmæli nr. 29/2001, um alþjóðlega samninga um verslun og flutninga lifandi dýra (A 1263/euro).
     20.      Tilmæli nr. 30/2001, um aðgerðir til að fyrirbyggja átök og borgaralega friðargæslu (A 1234/p).
     21.      Tilmæli nr. 31/2001, um samstarf á milli utanríkisráðuneyta Norðurlanda (A 1253/p).
     22.      Tilmæli nr. 32/2001, um endurskoðaða norræna nærsvæðastefnu (B 202/när).
     23.      Tilmæli nr. 33/2001, um samstarfsáætlun í norðurskautsmálum (B 209/när).
     24.      Tilmæli nr. 34/2001, um norrænt rannsóknasvæði (A 1269/nord).
     25.      Tilmæli nr. 35/2001, um aukinn hreyfanleika yfir norræn landamæri (A 1236/nord).
     26.      Tilmæli nr. 36/2001, um þátttöku í Nordjobb (A 1243/nord).
     27.      Tilmæli nr. 37/2001, um norræna samstarfsáætlun í atvinnumálum 2002–2004 (B 205/ euro).
     28.      Tilmæli nr. 38/2001, um samþykkt norræns sáttmála um lítil framsækin fyrirtæki, frumkvöðla og sjálfstæða uppfinningamenn (A 1259/euro).
     29.      Tilmæli nr. 39/2001, um gildistöku norræns sáttmála um lítil framsækin fyrirtæki, frumkvöðla og sjálfstæða uppfinningamenn (A 1259/euro).
     30.      Tilmæli nr. 40/2001, um aðlögun að tilmælum OECD um alþjóðleg lánafyrirtæki og fyrirtæki á Norðurlöndum (A 1247/euro).
     31.      Tilmæli nr. 41/2001, um aðlögun reksturs norrænna stofnana að tilmælum OECD um alþjóðleg fyrirtæki (A 1247/euro).
     32.      Tilmæli nr. 42/2001, um eftirfylgni við greiningu á norrænu fjárlögunum (A 1231/p).
     33.      Tilmæli nr. 43/2001, um norrænt samstarf á sviði orkumála (B 207/när).
     34.      Tilmæli nr. 44/2001, um samstarfsáætlun á sviði byggingarmála 2002–2005 (B 206/ nord).
     35.      Tilmæli nr. 45/2001, um norræna stjórnsýslustefnu um rándýr (A 1250/när).
     36.      Umsögn nr. 1/2001, um aðgerðir í tilefni endurskoðunarskýrslu Norræna menningarsjóðsins fyrir árið 2000 (C 5/kk).
     37.      Ákvörðun nr. 1/2001, um vinnu Norðurlandaráðs með svör Norrænu ráðherranefndarinnar við tilmælum ráðsins, og formleg samskipti á milli nefnda Norðurlandaráðs og samsvarandi ráðherranefnda.
     38.      Ákvörðun 2/2001, um samþykkt á breytingum á starfsreglum Norðurlandaráðs.