Ferill 554. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 872  —  554. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um skipun rannsóknarnefndar skv. 39. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, til að rannsaka embættisfærslu samgönguráðherra og forsætisráðherra í málefnum Landssímans og einkavæðingarnefndar og meinta óeðlilega rekstrar- og viðskiptahætti stjórnenda fyrirtækisins.

Flm.: Össur Skarphéðinsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Bryndís Hlöðversdóttir,


Guðmundur Árni Stefánsson, Lúðvík Bergvinsson, Rannveig Guðmundsdóttir,
Jóhann Ársælsson, Guðrún Ögmundsdóttir, Einar Már Sigurðarson,
Sigríður Jóhannesdóttir, Kristján L. Möller, Ásta R. Jóhannesdóttir,
Margrét Frímannsdóttir, Svanfríður Jónasdóttir, Karl V. Matthíasson,
Þórunn Sveinbjarnardóttir, Gísli S. Einarsson.


    Alþingi ályktar að kjósa níu manna rannsóknarnefnd skv. 39. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Rannsóknarnefndin hafi það hlutverk að rannsaka fjárhagsleg málefni, viðskiptahætti og embættisgjörðir fulltrúa eigenda og stjórnenda Landssímans auk tengdra mála er varða sölu fyrirtækisins og hagsmuni almennings.
    Nefndin taki eftirfarandi þætti einkum til athugunar:
     1.      Tildrög starfslokasamnings fyrrverandi forstjóra Landssímans og ábyrgð ráðherra og stjórnar fyrirtækisins á þeim samningi. Sérstaklega skal rannsaka orsakir þess að fyrrverandi forstjóri fékk tugi milljóna króna greidda þrátt fyrir að ráðherra hafi lýst því yfir að orsök uppsagnarinnar hafi verið trúnaðarbrestur. Þá skal kanna í hverju trúnaðarbresturinn sem ráðherra vísar til fólst og hvort, og hversu mikið, hann hafi skaðað fyrirtækið. Upplýsa skal um öll kjör, hlunnindi og annað sem samningnum tengist. Upplýsa skal einnig um aðra starfslokasamninga sem í gildi eru við aðra fyrrverandi og núverandi stjórnendur fyrirtækisins.
     2.      Hvernig staðið var að ráðningu fyrrverandi forstjóra, hver tók ákvörðun um ráðningu hans og hverjar voru ástæður þess að forstjórinn var leystur frá störfum.
     3.      Hvort eðlilega hafi verið staðið að undirbúningi einkavæðingar fyrirtækisins af hálfu einkavæðingarnefndar og hvernig samskiptum einkavæðingarnefndar, einkum formanns nefndarinnar, forsætisráðherra og stjórnenda fyrirtækisins var háttað varðandi allan einkavæðingarferilinn. Sérstaklega skal kanna ástæður þess að formaður einkavæðingarnefndar sagði af sér störfum. Þá skal nefndin kanna áhrif þess að formaður nefndarinnar sat í stjórnum annarra fyrirtækja samhliða störfum sínum fyrir einkavæðingarnefnd.
     4.      Hvort hluthafar í fyrirtækinu hafi skaðast vegna söluferilsins, fjárhagsmálefna sem tengjast stjórnendum og trúnaðarbrests milli eigenda, einkavæðingarnefndar og stjórnenda fyrirtækisins og hvort ástæða sé til að ætla að þessir þættir hafi leitt til þess að ekki hefur tekist að selja fyrirtækið.
     5.      Meinta hagsmunaárekstra sem tengjast fjárfestingu Landssímans og persónulegri fjárfestingu fyrrverandi forstjóra. Jafnframt skal kanna hvort, og þá hvernig, stjórnendur fyrirtækisins hafi notfært sér aðstöðu sína í fyrirtækinu til persónulegs ávinnings. Sérstaklega skal kanna ummæli formanns einkavæðingarnefndar þess efnis að fyrrverandi forstjóri fyrirtækisins hafi rekið fyrirtækið eins og hlutabréfasjóð.
     6.      Hverjir tóku ákvörðun um áhættufjárfestingar Landssímans, eins og fjárfestingu í @IPbell þar sem fyrirtækið tapaði hundruðum milljóna króna ? Voru þessar fjárfestingar bornar undir stjórn fyrirtækisins og voru þær gerðar með vitund og vilja fulltrúa eigenda fyrirtækisins?
     7.      Sérstaklega skal kanna ummæli formanns einkavæðingarnefndar um að stjórnun fyrirtækisins hafi verið stórlega áfátt og hvort, og þá hvenær, hann hafi gert formanni ráðherranefndar um einkavæðingu uppskátt um þau viðhorf sín og á hverju þau byggðust. Í tengslum við það skal jafnframt kanna hvað olli því að meint vitneskja formanns einkavæðingarnefndar um brotalamir í stjórnun fyrirtækisins kom ekki fram í útboðslýsingu og hvort háttsemi formannsins hafi í því efni verið í samræmi við lög. Jafnframt skal kanna hvort sú háttsemi hans hafi bakað ríkinu skaðabótaskyldu.
     8.      Hvort yfirlýsing einkavæðingarnefndar frá 8. desember sl. um bindandi tilboð í Landssímann hafi átt við rök að styðjast eða hvort nefndin hafi gefið rangar upplýsingar um stöðu mála. Ef svo er skal nefndin kanna hvort röng upplýsingagjöf hafi skaðað aðila á markaði og hugsanlega valdið ríkinu skaðabótaábyrgð. Sömuleiðis skal þá kanna hvort yfirlýsingar nefndarinnar frá 26. nóvember og 8. desember sl., þar sem rætt er um bindandi tilboð í Landssímann, stangist á við lög.
     9.      Kaup Landssímans á þjónustu ráðgjafarfyrirtækis í eigu stjórnarformanns fyrirtækisins. Sérstaklega skal kanna til hvers þessi óeðlilegu hagsmunatengsl leiddu, hvort réttarreglur hafi verið brotnar og hver hlutur samgönguráðherra í þessari ákvarðanatöku hafi verið.
     10.      Bein og óbein afskipti forsætisráðherra af ákvörðunum er varða málefni Landssímans, svo sem af ráðningu og brottrekstri forstjóra og vali stjórnarformanns.
     11.      Hugsanlega skörun á verkefnum og ábyrgð stjórnar Landssímans og einkavæðingarnefndar.
    Nefndin skal einnig kanna aðra þætti þessara mála eftir því sem henni þykir ástæða til.
    Nefndin hefur rétt til að krefjast nauðsynlegra gagna um málið og fá skýrslur, munnlegar og skriflegar, frá embættismönnum, einstökum mönnum eða lögaðilum og ráða sér til aðstoðar sérfróða aðila sé þess þörf.
    Nefndinni er heimilt að láta rannsóknina eða einstaka þætti hennar fara fram fyrir opnum tjöldum.
    Nefndin skal hraða störfum sínum eins og kostur er og skila niðurstöðum til Alþingis eigi síðar en 1. október 2002.
    Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.

Greinargerð.


    Það er skoðun Samfylkingarinnar að mjög brýnt sé að skipa rannsóknarnefnd skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar til að rannsaka embættisfærslur samgönguráðherra og forsætisráðherra í málefnum Landssímans og einkavæðingarnefndar og meinta óeðlilega rekstrar- og viðskiptahætti stjórnenda fyrirtækisins. Í tengslum við það þarf að skoða allan söluferil einkavæðingarnefndar á Símanum, en fyrrverandi formaður nefndarinnar hefur sagt að stjórnun fyrirtækisins hafi verið stórlega áfátt.
    Ljóst er að málið allt og einstakir þættir þess hafa stórskaðað fyrirtækið og rýrt verðmæti þess og trúverðugleika. Eigendur fyrirtækisins, en 95% þess eru í eigu allra landsmanna og 5% í eigu þeirra sem keypt hafa hlutafé í því, eiga kröfu á því að allt verði gert til að endurheimta traust og trúverðugleika þess.
    Vandlega þarf að skoða aðkomu samgönguráðherra sem fulltrúa eigenda fyrirtækisins og forsætisráðherra, sem ábyrgð ber á einkavæðingarnefnd, auk þess að vera formaður ráðherranefndar um einkavæðingu. Þeir sem meginábyrgðina bera á því öngstræti sem fyrirtækið er komið í hafa allir starfað á ábyrgð þessara ráðherra.
    Brýnt er að skilgreina hvar ábyrgðin liggur í öllum þáttum málsins sem upp hafa komið og skilgreina þá meintu misbeitingu á valdi og hagsmunaárekstra sem skaðað hafa fyrirtækið og leitt til trúnaðarbrests milli þjóðarinnar og valdhafa. Sömuleiðis þarf að fara yfir hvernig eftirlitskerfið hefur brugðist og hvort og þá hvaða réttarreglur hafi verið brotnar, þannig að hægt sé að taka eðlilega á málinu í samræmi við lög og reglur.
    Það er megintilgangur þessarar tillögu að öll stjórnsýsla stjórnenda fyrirtækisins, einkavæðingarnefndar og valdhafa sem ábyrgð bera á málinu verði rannsökuð og brotin til mergjar. Það er eina leiðin til að endurreisa fyrirtækið og skapa á ný traust milli þess og þjóðarinnar. Það er forsenda fyrir þeim trúverðugleika sem fyrirtækið þarf að byggjast á til að rekstur þess geti gengið eðlilega.