Ferill 556. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 874  —  556. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins fyrir árið 2001.

1.    Inngangur.
    Evrópuráðsþingið er þingræðislegur vettvangur 43 aðildarríkja Evrópuráðsins og gegnir veigamiklu hlutverki í starfsemi þess, enda hugmyndabanki stofnunarinnar. Á þinginu sitja 602 fulltrúar sem skiptast til helminga, í aðalmenn og varamenn. Ólíkt ráðherranefndinni þar sem hvert ríki hefur eitt atkvæði fer fjöldi fulltrúa á þinginu eftir stærð þjóðar. Þingið starfar í tíu málefnanefndum. Þá sitja formenn landsdeilda í stjórnarnefnd og í sameiginlegri nefnd með ráðherranefndinni, auk þess sem tuttugu þingmenn sitja í forsætisnefnd þingsins. Loks starfa á þinginu fimm flokkahópar. Þingið kemur saman fjórum sinnum á ári, í lok janúar, apríl, júní og september. Mikilvægi þingsins felst einkum í því að:
          eiga frumkvæði að aðgerðum og beina tillögum til ráðherranefndarinnar,
          hafa eftirlit með efndum fjölþjóðlegra skuldbindinga og þrýsta á um skjótar aðgerðir og
          vera samráðsvettvangur þingmanna aðildarríkjanna og efla þannig tengsl þjóðþinga.
    Hlutverk Evrópuráðsins er að standa vörð um mannréttindi og lýðræði og stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum í öllum aðildarríkjum. Til þess beitir ráðið sér fyrir samningu og samþykkt bindandi fjölþjóðasáttmála. Ályktanir Evrópuráðsins og fjölþjóðasáttmálar sem þar eru samþykktir hafa haft víðtæk áhrif í álfunni allri. Fjölmargir sáttmálar ráðsins á ýmsum sviðum þjóðlífsins eru mikilvægar mælistikur fyrir þjóðir sem eru að koma á lýðræði og réttarríki, en mælistikur Evrópuráðsins gilda einnig fyrir aðrar fjölþjóðastofnanir og -samtök. Þar ber að sjálfsögðu hæst mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.
    Á þingfundum eru skýrslur málefnanefnda ræddar og ályktað á grundvelli þeirra. Ályktunum, tilmælum eða áliti er því næst vísað til ráðherranefndarinnar sem fjallar um þær og framkvæmir til samræmis við þær ef þurfa þykir, annaðhvort með beinum aðgerðum eða lagasetningu í þjóðþingum. Evrópuráðsþingið á því oft frumkvæði að samningu fjölþjóðlegra sáttmála sem eru lagalega bindandi fyrir aðildarríkin. Þá er Evrópuráðsþingið umræðuvettvangur fyrir stjórnmál, efnahagsmál, félagsmál, mannréttindamál, umhverfismál, menningar- og menntamál, og eina samevrópska fjölþjóðastofnunin þar sem þingmenn Vestur-, Mið- og Austur-Evrópu starfa saman á jafnréttisgrundvelli. Þingfundir þar sem menn starfa saman, bera saman bækur sínar og skiptast á hugmyndum eru því mikilvægir, ekki síst fyrir nýfrjáls ríki Mið- og Austur-Evrópu. Reynslan hefur sýnt að þjóðir sem hafa skýr markmið í störfum sínum innan þingsins og kappkosta við að ná þeim geta haft áhrif langt umfram stærð og pólitískt bolmagn. Sú staðreynd varpar skýru ljósi á mikilvægi, og ekki síður möguleika, Evrópuráðsþingsins fyrir íslenska hagsmuni.

2.    Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins.
    Aðalmenn Íslandsdeildarinnar á árinu voru Lára Margrét Ragnarsdóttir formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ólafur Örn Haraldsson varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, og Margrét Frímannsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Varamenn voru Tómas Ingi Olrich, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Kristinn H. Gunnarsson, þingflokki Framsóknarflokks, og Bryndís Hlöðversdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Hinn 3. október tók Kristján L. Möller, þingflokki Samfylkingarinnar, sæti Bryndísar Hlöðversdóttur sem varamaður Margrétar Frímannsdóttur.
    Ritari Íslandsdeildarinnar var Andri Lúthersson.

3. Helstu málefni Evrópuráðsþingsins árið 2001.
    Um þessar mundir gegnir Evrópuráðið m.a. því veigamikla hlutverki að styðja lýðræðis- og efnahagsuppbyggingu í nýfrjálsum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, meðal annars með efnahags-, laga- og tækniaðstoð og kosningaeftirliti. Aðildarríkjum ráðsins hefur fjölgað ört og eru þau nú fjörutíu og þrjú talsins, auk þess sem fjöldi ríkja hefur sótt um aðild. Pólitískt vægi ráðsins hefur því aukist verulega undanfarin ár.
    Átökin í Tsjetsjeníu bar hátt á dagskrá Evrópuráðsþingsins árið 2001, líkt og árið áður, og á fyrsta þingfundi Evrópuráðsþingsins í janúar var efnt til sérstakrar umræðu um stöðu rússnesku sendinefndarinnar vegna stríðsins í Tsjetsjeníu. Var ákveðið að veita rússnesku sendinefndinni aftur atkvæðisrétt sinn á þinginu þrátt fyrir að ástand mála í Tsjetsjeníu væri langt frá því að vera ásættanlegt en Evrópuráðsþingið taldi að samvinna við rússnesku Dúmuna væri farsælust til að ná fram því markmiði þingsins að bæta stöðuna í héraðinu. Af lýðræðis- og réttarfarsmálum má nefna að staðan í Júgóslavíu, Úkraínu og Hvíta-Rússlandi var ofarlega á baugi á þinginu og samkundan hvatti ráðherraráð Evrópuráðsins til að nýta allar færar leiðir til að leysa úr þeim vanda sem skapast hefði í þessum ríkjum á undanförnum árum. Auk umræðunnar um átökin og ástand mála í Tsjetsjeníu kom hinn pólitíski órói sem einkenndi suðurhluta Balkanskaga mjög til umræðu á þinginu á árinu. Vopnuð átök albanskra skæruliðaafla í fyrrum Júgóslavíulýðveldinu Makedóníu og í suðurhluta Serbíu stefndu, framan af árinu, í voða þeim stöðugleika sem náðst hafði á svæðinu á undanförnum missirum. Í ályktunum sínum beitti Evrópuráðsþingið sér fyrir skjótri úrlausn mála og samningaviðræðum stríðandi aðila, auk þess sem það lagði mikla áherslu á að úrbætur yrðu gerðar á stöðu albanska minni hlutans í Makedóníu, m.a. með breytingum á stjórnarskrá landsins. Átökin fyrir botni Miðjarðarhafs hörðnuðu mjög verulega á seinni hluta ársins og var fjallað um þau sérstaklega á þinginu og ofbeldisverk öfgafullra afla meðal Ísraela og Palestínumanna harðlega fordæmd.
    Evrópubúar fóru ekki varhluta af afleiðingum hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin í septembermánuði. Efnt var til utandagskrárumræðu á Evrópuráðsþinginu um afleiðingar hryðjuverkanna á evrópskt samfélag og í ályktun þingsins og umræðum þingmanna var áhersla lögð á að hinni nýju ógn hryðjuverka þyrftu að fylgja breytt viðbrögð. Þingheimur sammæltist um að rík nauðsyn væri á því að þjóðir Evrópu tækju sig saman til að ráða niðurlögum alþjóðlegrar hryðjuverkastarfsemi en jafnframt að ráðast yrði að rótum vandans með auknum skilningi á félagslegum, efnahagslegum og trúarlegum forsendum hans. Aðildarríki Evrópuráðsins voru jafnframt hvött til þess að undirrita þá samninga sem taka til hryðjuverkastarfsemi og þegar væru til svo sem alþjóðlegan sáttmála um bann við fjármögnun hryðjuverkastarfsemi.
    Hér á eftir fara ítarlegri upplýsingar um starfsemi Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins árið 2001.

4.    Þingfundur Evrópuráðsþingsins 2001.
a. Fyrsti hluti þingsins.
    Dagana 22.–26. apríl var fyrsti hluti þingfundar Evrópuráðsþingsins haldinn í Strassborg. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Lára Margrét Ragnarsdóttir formaður, Ólafur Örn Haraldsson varaformaður og Margrét Frímannsdóttir, auk ritara. Aðildarríkjum Evrópuráðsins fjölgaði um tvö 25. janúar þegar fáni Armeníu og Aserbaídjsan var dreginn að húni fyrir utan Evrópuráðshöllina í Strassborg. Ríkin urðu þar með 42. og 43. aðildarríki stofnunarinnar. Meðal þess sem tekið var til umræðu á þinginu voru skuldbindingar Lettlands á vettvangi Evrópuráðsins. Í ályktun Evrópuráðsþingsins var gerð grein fyrir því að miklar framfarir hefðu orðið hvað varðar lýðræði og félagslegan samruna en jafnframt lýst yfir nokkrum áhyggjum af því hve mikill fjöldi íbúa í landinu væru án ríkisfangs. Í ályktuninni kom fram að umfangsmiklar athuganir eftirlitsnefndar Evrópuráðsþingsins hefðu leitt í ljós að framfarir í landinu væru það miklar að rétt væri að hætta formlegu eftirlitsferli nefndarinnar. Var ályktunin samþykkt.
    Málefni Júgóslavíu voru á meðal þess sem hæst bar á fundinum. Í ályktun stjórnmálanefndar var því fagnað að stjórnarandstöðuöflin í Serbíu hefðu unnið afgerandi sigur í þingkosningunum og stuðningi lýst yfir við lýðræðisöflin í landinu. Jafnframt var minnt á að uppbyggingarstarfið sem fram yrði að fara í landinu á næstunni væri gríðarlegt að umfangi og að alþjóðasamfélaginu bæri að sýna lýðræðisþróuninni í landinu stuðning sinn í verki. Þá var áréttað að stjórnvöld í Júgóslavíu yrðu að sýna Alþjóðastríðsglæpadómstólnum í Haag fulla samvinnu. Jafnframt voru vopnaðar árásir Albana á fólk af serbnesku bergi brotið í Kosovo-héraði fordæmdar harðlega í ályktuninni. Var mælst til þess við ráðherranefndina að hún beitti sér fyrir fjárhagslegum og tæknilegum stuðningi við uppbyggingu lýðræðisstofnana og þróun mannréttindalöggjafar og óháðra dómstóla í Júgóslavíu.
    Málefni evrunnar, hins sameiginlega gjaldmiðils tólf ríkja Myntbandalags Evrópu, voru tekin til umfjöllunar á þinginu á vegum efnahagsnefndar og var sjónum beint að þróun gengis evrunnar frá því að gjaldmiðlinum var hleypt af stokkunum. Þá var rætt um stöðu mála í Úkraínu og lýst yfir áhyggjum af ofbeldisverkum og hótunum í garð fjölmiðlafólks og þá sérstaklega vegna morðsins á úkraínska blaðamanninum Heorhiy Gongadze á síðasta ári. Í ályktun þingsins var rannsókn máls Gongadze sögð vera mikilvægur prófsteinn á tjáningarfrelsið í landinu og virkni lýðræðislegra stofnana. Voru úkraínsk stjórnvöld hvött til þess að hrinda í framkvæmd umfangsmiklum úrbótum á starfsumhverfi fjölmiðla. Þá mæltist Evrópuráðsþingið til þess við ráðherranefndina að hún hvetti stjórnvöld í Úkraínu til að hrinda úrbótum í framkvæmd hið fyrsta auk þess sem mælst var til þess að ráðherranefndin aðstoðaði Úkraínu við lýðræðisuppbyggingu í landinu.
    Málefni Tsjetsjeníu voru tekin til umræðu og voru rússnesk stjórnvöld gagnrýnd fyrir að hafa ekki tekið nægilegt tillit til ályktana Evrópuráðsþingsins hvað varðar hernaðaraðgerðir rússneska hersins í héraðinu. Voru fyrri ályktanir ítrekaðar og rússnesk stjórnvöld eindregið hvött til að virða mannréttindi og alþjóðleg lög um vernd óbreyttra borgara á stríðstímum. Kjörbréf rússnesku sendinefndarinnar við Evrópuráðsþingið var tekið fyrir í tengslum við umræðuna um stöðu mála í Tsjetsjeníu og ályktaði þingið í þá veru að þrátt fyrir að staðan í Tsjetsjeníu væri afar alvarleg og litlar umbætur hefðu orðið í héraðinu þrátt fyrir tilmæli Evrópuráðsins þá ætti sendinefndin skilið að fá annað tækifæri til að sýna og sanna vilja sinn til að hafa áhrif á stjórnvöld í þá veru að bæta úr ástandi mannréttindamála í héraðinu. Ályktunin var samþykkt og tók rússneska sendinefndin því sæti sitt á þinginu að nýju eftir nokkurra missira hlé.
    Að venju var kosið að nýju til embætta þingsins og málefnanefnda þess á fundinum og lét þar með Lára Margrét Ragnarsdóttir af embætti varaforseta þingsins. Lára Margrét var kjörinn formaður félags-, heilbrigðis- og fjölskyldumálanefndar Evrópuráðsþingsins.
    Fundinn ávörpuðu eftirtaldir: Vaira Vike Freiberga, forseti Lettlands; Walter Schwimmer, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins; Adrian Nastase, forsætisráðherra Rúmeníu; Wim Duisenberg, bankastjóri Seðlabanka Evrópu; Tarja Halonen, forseti Finnlands; Robert Kocharian, forseti Armeníu; Heydar Aliev, forseti Aserbaídsjan; og Indulis Berzins, utanríkisráðherra Lettlands og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins.
    Ólafur Örn Haraldsson tók til máls í sameiginlegri umræðu um kosningaeftirlit á vegum Evrópuráðsins og í máli sínu vék hann að nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum í Kosovo-héraði og hrósaði íbúum héraðsins fyrir þátttöku sína. Lagði hann áherslu á að kosningarnar hefðu verið stórt skref í þekkingar- og þróunarferli því sem færi fram meðal íbúa héraðsins, sem áratugum saman hefðu sætt kúgun stjórnvalda í Belgrad. Fagnaði hann því hve kosningarnar fóru friðsamlega fram og sagði að úrslit þeirra styrktu það starf sem alþjóðasamfélagið hefði tekist á hendur í héraðinu. Því næst vék hann máli sínu að úrslitum þingkosninganna í Aserbaídsjan og gagnrýndi framkvæmd þeirra í ljósi umsagna eftirlitsaðila kosninganna, m.a. Evrópuráðsins og Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE). Sagði hann að fordæma bæri framkomu stjórnvalda í garð stjórnarandstöðunnar í aðdraganda kosninganna auk þess sem kosningarnar sjálfar uppfylltu alls ekki alþjóðlega staðla.
    Lára Margrét Ragnarsdóttir tók til máls í umræðu þingsins um átökin í Tsjetsjeníu og sagðist harma hversu lítið hefði áunnist í því að koma mannréttindamálum til betri vegar. Í ræðu sinni hvatti hún rússnesk stjórnvöld til að leita tafarlaust allra leiða til að finna varanlega lausn mála í héraðinu. Lagði hún áherslu á að úrbóta væri sérstaklega þörf við eftirlitsstöðvar rússneska hersins þar sem almennir borgarar hefðu sætt misþyrmingum. Sagði Lára Margrét slíkt algerlega óásættanlegt. Þá vék hún tali sínu að hjálparstarfi í héraðinu sem hafði legið að mestu leyti niðri vegna ótryggs öryggisástands. Sagði hún að rússnesk stjórnvöld yrðu að gera allt sem í þeirra valdi stæði til að tryggja aðgang hjálparstofnana til íbúa Tsjetsjeníu. Þá ítrekaði hún að áform Evrópuráðsþingsins um að setja á stofn sérstakan vinnuhóp um málefni Tsjetsjeníu mættu ekki verða til þess að koma á vantrausti milli þingsins og fulltrúa rússnesku sendinefndarinnar. Þvert á móti bæri að skilja stofnun vinnuhópsins sem traustsyfirlýsingu við sendinefndina.

b. Annar hluti þingsins.
    Dagana 23.–27. apríl var annar hluti þingfundar Evrópuráðsþingsins haldinn í Strassborg. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Lára Margrét Ragnarsdóttir formaður, Ólafur Örn Haraldsson varaformaður og Margrét Frímannsdóttir, auk ritara. Meðal þess sem tekið var fyrir á þingfundinum var ástand mála í Kosovo-héraði tæpum tveimur árum eftir að átökum Júgóslavíu og Atlantshafsbandalagsins lauk. Evrópuráðsþingið lýsti yfir fullum stuðningi við varanlega pólitíska lausn á málefnum héraðsins og fordæmdi jafnframt þau ofbeldisverk sem höfðu verið unnin af fulltrúum öfgahópa þjóðernishópanna sem héraðið byggja. Í málflutningi þingmanna var lýst yfir miklum áhyggjum af því að viðvarandi skærur og átök í Kosovo-héraði kynnu að breiðast út til grannríkisins Makedóníu þar sem fjölmennur minnihlutahópur fólks af albönskum ættum býr í norðvesturhluta landsins. Lýsti þingið jafnframt yfir þungum áhyggjum af langtímaáhrifum átakanna á stöðu barna og unglinga í Kosovo, ekki síst í ljósi þess að menntun þeirra hefur verið þröngur stakkur skorinn allt frá lokum átakanna. Þá var ályktað í þá veru að málefni flóttamanna sem flúið hefðu héraðið í átökunum og eftir þau yrðu leidd til lykta hið fyrsta en mörgum þeirra hefur ekki verið auðið að snúa aftur til heimkynna sinna vegna viðvarandi átaka og þjóðernishaturs. Mæltist þingið til þess að ráðherranefndin beitti sér fyrir auknum pólitískum og fjárhagslegum stuðningi við skrifstofu Evrópuráðsins í Pristina, höfuðstað Kosovo-héraðs. Þá mæltist þingið til þess að ráðherranefndin styddi með öllum ráðum stríðsglæpadómstól Sameinuðu þjóðanna í Haag og beitti sér fyrir því að endurbætur færu fram á kosningalöggjöf héraðsins.
    Af öðrum málefnum sem tekin voru til umræðu á þinginu má nefna umræður um nauðsyn alþjóðlegrar samstöðu um Kyoto-bókunina. Í umræðum var afstaða Bandaríkjastjórnar til bókunarinnar harðlega gagnrýnd og í ályktun þingsins, sem var samþykkt samhljóða af þingheimi, var sagt að Bandaríkin vægju að Kyoto-áætluninni og bæru ábyrgð á því að fæla önnur ríki frá því að takast á hendur þær pólitísku skuldbindingar sem í bókuninni fælust. Var Bandaríkjastjórn hvött til að endurskoða afstöðu sína hið allra fyrsta og voru stjórnvöld aðildarríkja Evrópuráðsins enn fremur hvött til að þrýsta á Bandaríkjastjórn um að gangast við skuldbindingum sínum hvað Kyoto-bókunina varðar.
    Málefni Úkraínu hafa ítrekað verið tekin til umfjöllunar á Evrópuráðsþinginu og á fundinum í apríl var þar engin breyting á. Í tilmælum vegna skuldbindinga Úkraínu á vettvangi Evrópuráðsins sem samþykkt voru á fundinum kom fram að þingið teldi að forseta landsins, ríkisstjórn hans og úkraínska þinginu hefði ekki tekist að standa við skuldbindingar Úkraínu sem aðildarríkis Evrópuráðsins. Var farið þess á leit að ríkisstjórn landsins og landsdeild úkraínska þingsins á Evrópuráðsþinginu beitti sér fyrir skjótum úrbótum á sviði mannréttinda, endurbótum á löggjöf, sérstaklega með tilliti til glæpamála, og úrbótum á starfssviði ríkissaksóknara Úkraínu. Fordæmdi þingið sérstaklega aðför stjórnvalda að fjölmiðlafrelsi í landinu. Þá var mælst til þess að ráðherranefnd Evrópuráðsins fylgdist afar grannt með þróun mála í Úkraínu. Ef úrbætur hefðu ekki orðið fyrir þriðja þingfund Evrópuráðsþingsins í júní þá skyldi landinu verða vikið úr Evrópuráðinu skv. 8. gr. Evrópuráðssáttmálans. Loks má geta þess að ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs var tekið til umræðu á þingfundinum. Í ályktun þingsins voru aðgerðir öfgafullra afla meðal Ísraela og Palestínumanna fordæmdar og hvatt til þess að stríðandi fylkingar settust að samningaborði og að forustumenn Ísraelsstjórnar og Palestínumanna sýndu fulla ábyrgð í friðarumleitunum sínum. Var Ísraelsstjórn sérstaklega hvött til að losa um takmarkanir á ferðafrelsi Palestínumanna og að sama skapi var heimastjórn Palestínu hvött til að stemmu stigu við hryðjuverkum harðlínuafla og fordæma slíkar aðgerðir.
    Fundinn ávörpuðu eftirtaldir: Stojan Andov, forseti þings fyrrum Júgóslavíulýðveldisins Makedóníu; Alvaro Gil-Robles, erindreki Evrópuráðsins á sviði mannréttindamála; Mircea Geoana, utanríkisráðherra Rúmeníu og formaður ráðherraráðs Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE); og Indulis Berzins, utanríkisráðherra Lettlands og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins.
    Ólafur Örn Haraldsson tók til máls í umræðum um stöðu mála í Kosovo-héraði og grannríkjum þess og lýsti yfir miklum áhyggjum af ófriðvænlegu ástandi í héraðinu. Sagði hann að alþjóðasamfélagið hefði vaknað upp við vondan draum er hópar skæruliða ollu því að átök tóku að magnast í norðvesturhluta Makedóníu fyrr á árinu. Í því tilliti yrði að árétta að einn lykillinn að farsælli lausn mála væri að fulltrúar stjórnvalda í Júgóslavíu, Makedóníu og ábyrgir stjórnmálamenn í Kosovo-héraði hæfu viðræður þar eð stöðugleiki í Kosovo-héraði væri afar mikilvæg forsenda friðar í grannríkjunum. Lagði hann áherslu á að íbúar Makedóníu, hvort sem þeir væru af albönsku eða slavnesku bergi brotnir, yrðu að svara því hvort þeir væru reiðubúnir til að búa í sátt með grönnum sínum. Þá tók hann undir með öðrum ræðumönnum er hann lagði áherslu á að hlúa bæri að menntun ungmenna í Kosovo-héraði. Bæri einnig að líta til þess að til lengri tíma litið gætu áhrif menntunarskorts verið einn orsakavaldur að viðvarandi spennu á svæðinu.
    Lára Margrét Ragnarsdóttir tók til máls í umræðu um verndun erfðamengis mannsins og sagði að rannsóknaráætlanir um kortlagningu erfðamengis mannsins væru eitt stærsta framþróunarskref í nútímalæknavísindum. Varaði hún þó við hugsanlegum neikvæðum afleiðingum slíkra rannsókna og hvatti til þess að hugað yrði gaumgæfilega að öryggisþáttum svo komið yrði í veg fyrir að óprúttnir aðilar högnuðust á niðurstöðum rannsókna. Sagði Lára Margrét það vera algert frumskilyrði að örugglega yrði staðið að geymslu upplýsinga er vörðuðu erfðamengi mannsins og að eingöngu viðurkenndir vísindamenn sem störfuðu að rannsóknaráætluninni hefðu aðgang að þeim. Slíkar aðgerðir væru til þess fallnar að vernda grundvallarmannréttindi.
    Lára Margrét tók einnig til máls í umræðunni um þróun mála við Tsjernóbýl-kjarnorkuverið og sagði í ræðu sinni að greinilegt væri að lítið hefði þokast í framfaraátt á þeim átta árum sem liðin væru frá því að hún lagði fram skýrslu félags-, heilbrigðis- og fjölskyldumálanefndar þingsins um heilsufarsvandann sem fylgdi Tsjérnóbýl-slysinu. Sagði hún jafnframt að svo virtist sem kjarnorka væri eina færa leiðin hvað varðar orkuveitu í Úkraínu og í ljósi þessa yrði að tryggja að örugglega yrði staðið að byggingu og rekstri kjarnorkuvera í landinu. Lára Margrét sagði einnig einkar mikilvægt að Úkraínumönnum yrði veitt nokkur aðstoð við að tryggja öryggi reksturs kjarnorkuvera sinna en varaði jafnframt við því að þarlend stjórnvöld yrðu of háð erlendu fjármagni.
    Á þinginu tók Lára Margrét Ragnarsdóttir sæti flokkahóps hægrimanna í vinnuhópi Evrópuráðsþingsins um málefni Tsjetsjeníu. Vinnuhópurinn er skipaður fulltrúum allra flokkahópa innan Evrópuráðsþingsins og þingmönnum úr Dúmunni, neðri deild rússneska þingsins.

c. Þriðji hluti þingsins.
    Dagana 25.–29. júní var þriðji hluti þingfundar Evrópuráðsþingsins haldinn í Strassborg. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Lára Margrét Ragnarsdóttir formaður, Ólafur Örn Haraldsson varaformaður og Margrét Frímannsdóttir, auk ritara. Á fundinum var m.a. mikil umræða um ástand mála í fyrrum Júgóslavíulýðveldinu Makedóníu þar sem stjórnarher og skæruliðasveitir skipaðar mönnum úr albanska minni hlutanum höfðu eldað saman grátt silfur á undangengnum vikum með þeim afleiðingum að tugir manna, þar á meðal saklausir borgarar, höfðu fallið í valinn. Í ályktun sinni fordæmdi Evrópuráðsþingið aðgerðir öfgafullra afla meðal albanska minni hlutans í landinu og hvatti til þess að þeir aðilar sem stæðu að baki skæruliðahernaði létu vopn sín tafarlaust af hendi þar eð átökin gerðu Albönum í landinu erfiðara fyrir í baráttu sinni fyrir auknum lýðréttindum. Þá var ályktað í þá veru að hefndarárásir stjórnarhersins á byggðir Albana væru óásættanlegar og var jafnframt hvatt til þess að fulltrúar stríðandi aðila sættust á vopnahlé með því markmiði að setja saman þjóðstjórn með fulltrúum allra þjóðernishópa er landið byggja. Þá var ítrekað að stjórnvöldum í Makedóníu bæri, hið allra fyrsta, að tryggja bætta aðstöðu Albana í landinu.
    Þá var tekin fyrir skýrsla jafnréttisnefndar þingsins, sem Margrét Frímannsdóttir á sæti í, um heimilisþrældóm eða það sem nefndin nefnir nútímaþrældóm og birst hafi með ýmsum hætti í álfunni undanfarin ár og áratugi. Er þar átt við einstaklinga, oftlega flóttafólk frá ríkjum Afríku, Suðaustur-Evrópu eða Austurlöndum nær og fjær, sem gert er að starfa á heimilum efnaðs fólks án greiðslu. Samkvæmt rannsóknum viðgangist slík starfsemi í auknum mæli í stærri borgum álfunnar og ekki síst á heimilum stjórnarerindreka og embættismanna fjölþjóðastofnana. Ályktað var í þá veru að aðildarríki Evrópuráðsins ættu að skilgreina heimilisþrældóm sem glæp og að í slíkum tilfellum, sem skilgreindust sem einkamál tjónvalda, yrðu stjórnarerindrekar á erlendri grund sviptir friðhelgi.
    Þá var tekin til umræðu skýrsla laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins um afnám dauðadóms í áheyrnaraðildarríkjum Evrópuráðsins. Mæltist þingið til þess að ráðherraráðið hæfi þegar í stað viðræður við stjórnvöld í Bandaríkjunum og Japan um úrbætur með það fyrir augum að í náinni framtíð verði dauðadómar afnumdir í báðum ríkjum. Þá mæltist þingið til þess að ráðherraráðið veitti aðeins þeim ríkjum áheyrnaraðild sem tækju í gildi tímabundið bann við fullnustu dauðadóma eða hefðu þegar afnumið dauðarefsingar. Skuldbindingar Tyrklands á vettvangi Evrópuráðsins voru teknar til umræðu á þingfundinum og fagnaði þingið þeim framförum sem orðið hefðu á undanförnum missirum hvað varðar m.a. stjórnarskrárbreytingar, bættar starfsaðferðir lögregluyfirvalda og aukin mannréttindi. Hins vegar var ályktað í þá veru að enn væri fjölmörgum endurbótum á stjórnkerfi landsins ólokið, þ.m.t. stjórnarskrárbreytingum sem gerðu ráð fyrir þingræðislegri stjórn á öryggisráði landsins, vernd lýðréttinda, svo sem tjáningarfrelsis, afnámi dauðarefsingar og að fullt félagafrelsi yrði tryggt, svo nokkuð sé nefnt. Mæltist Evrópuráðsþingið til þess við ráðherraráðið að það legði meiri áherslu á að aðstoða Tyrklandsstjórn við úrbætur sem enn hafa ekki komið til framkvæmda í landinu.
    Ernst Walch, utanríkisráðherra Liechtenstein og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins, svaraði fyrirspurnum þingmanna. Lagði Lára Margrét Ragnarsdóttir, formaður Íslandsdeildar og formaður félags-, heilbrigðis- og fjölskyldumálanefndar þingsins, spurningu fyrir Walch er varðaði Evrópusáttmálann um félagslegt öryggi. Aðeins átján aðildarríki Evrópuráðsins hafa staðfest sáttmálann og óskaði Lára Margrét eftir svörum við því hvers vegna svo fá ríki hefðu staðfest sáttmálann og hvað ráðherranefndin hygðist gera til að auka fjöldann. Ernst Walch svaraði því til að Evrópusáttmálinn um félagslegt öryggi væri einn af hornsteinum Evrópuráðsins og að nokkur fjöldi ríkja Mið- og Austur-Evrópu hygðist undirrita sáttmálann og staðfesta hann á næstu missirum. Þrátt fyrir það ættu fjölmörg aðildarríki í Vestur-Evrópu enn eftir að undirrita og staðfesta sáttmálann og vonaðist ráðherrann til að úr því yrði bætt hið fyrsta.
    Fundinn ávörpuðu eftirtaldir: Nicola Fontaine, forseti Evrópuþingsins; Wolfgang Thierse, forseti þýska sambandsþingsins; Jean Lemierre, forseti bankaráðs Fjárfestingarbanka Evrópu (EBRD); Kari Nars, stjórnarformaður Þróunarbanka Evrópuráðsins (CEB); Borut Pahor, forseti slóvenska þingsins; Ruud Lubbers, sérlegur fulltrúi Sameinuðu þjóðanna í málefnum flóttamanna; Vladimir Voronin, forseti Moldóvu; Ernst Walch, utanríkisráðherra Liechtenstein og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins; og Walter Schwimmer, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins.
    Lára Margrét Ragnarsdóttir tók þátt í umræðum um stöðu mála í fyrrum Júgóslavíulýðveldinu Makedóníu og sagði í ræðu sinni að það væri hryggilegt að átök hefðu brotist út þar eð miklar vonir hefðu verið bundnar við að átök undangenginna ára á Balkanskaga næðu ekki að hrófla við friðnum í landinu. Sagði hún að stjórnvöld í landinu yrðu að gera sér grein fyrir nauðsyn þess að bæta úr stöðu albanska minni hlutans og fagnaði þess vegna myndun þjóðstjórnar með fulltrúum allra þjóðarbrotanna í landinu. Þá fordæmdi Lára Margrét eindregið uppgang harðlínuafla úr röðum Serba og sagðist vona að stjórnvöld tækju á árásum á óbreytta borgara af albönskum ættum af fullum þunga. Jafnframt sagði hún að harðlínuöfl meðal albanska minni hlutans gerðu lítið annað en að eyðileggja réttmætan málstað Albana í landinu með vopnaskaki sínu og lagði áherslu á að forðast bæri að skipta landinu upp í tvo stjórnskipunarlega hluta eftir þjóðerni. Sambandsríki sem mótað væri á þeim forsendum setti afar hættulegt fordæmi og drægi úr líkum á varanlegum friði í landinu.
    Ólafur Örn Haraldsson sagði í innleggi sínu í umræðum um stöðu mála í Makedóníu að alþjóðasamfélagið yrði að gera sér grein fyrir því að þrátt fyrir að það hefði látið mikið fé af hendi rakna til að treysta frið í landinu virtist margt benda til þess að sá friður kynni að vera úti. Sagði hann að þetta væri hryggileg þróun og jafnframt hættuleg þar eð mikil hætta væri á því að ófriður í Makedóníu breiddist út til grannsvæða. Ólafur Örn sagði að félagslegur kostnaður slíkra átaka yrði mikill, ekki síst í ljósi þess að samfélagsgerðin öll mundi riðlast á skömmum tíma. Tók hann til þess að allt þar til nýverið hefði almennt verið álitið að Makedónía væri blessunarlega laus við þau innbyrðis átök sem leikið hefðu nágrannaríkin grátt. Þá sagði hann það vera skyldu alþjóðasamfélagsins að fylgjast náið með málum í Makedóníu og hvetja til friðsamlegrar lausnar. Taldi hann átökin nú vera pólitísks eðlis og þess vegna mundu hernaðarleg viðbrögð aðeins frysta vandann í stað þess að leysa hann.
    Þess má geta að fyrir fund fastanefndar var lögð tillaga að ályktun, að frumkvæði Láru Margrétar Ragnarsdóttur, um hjúkrunarmeðferð þeirra sem orðið hafa fyrir mænuskaða. Tillagan, sem var undirrituð af á sjötta tug þingmanna, var samþykkt á fundi fastanefndarinnar og verður tekin fyrir á vettvangi félags-, heilbrigðis- og fjölskyldumálanefndar Evrópuráðsþingsins á næsta ári.

d. Fjórði hluti þingsins.
    Dagana 24.–28. september var fjórði hluti þingfundar Evrópuráðsþingsins haldinn í Strassborg. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Lára Margrét Ragnarsdóttir formaður, Ólafur Örn Haraldsson varaformaður og Margrét Frímannsdóttir, auk Andra Lútherssonar ritara. Þingfundurinn í Strassborg var að þessu sinni haldinn í skugga hryðjuverkanna í New York og Washington D.C. í Bandaríkjunum og settu þessir atburðir sitt mark á fundinn. Ákveðið hafði verið, nokkrum dögum fyrir þingfundinn, að taka umræðu um hryðjuverk á málefnadagskrá fundarins en henni hafði þó ekki verið fundinn staður og stund áður en þingfundur hófst. Ákveðið var, að frumkvæði bresku sendinefndarinnar og formanna allra flokkahópa, á þingfundi mánudaginn 24. september að umræðunni skyldi fundin stund þriðjudaginn 25. september og var það samþykkt einróma. Við þetta riðlaðist áður auglýst dagskrá nokkuð og var ein afleiðing þessa að afgreiðslu nokkurra skýrslna og tilmæla sem taka átti fyrir samkvæmt fyrri dagskrá var frestað til fundar stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins sem halda átti 8. nóvember, eða þá til næsta þingfundar, í janúarlok 2002. Terry Davis, formaður stjórnmálanefndar Evrópuráðsþingsins, var höfundur skýrslunnar um ógnina sem lýðræðisríkjum stafar af hryðjuverkum og kynnti hana á fundi stjórnmálanefndarinnar. Í ályktunardrögunum var megináherslan lögð á það að hinni nýju ógn hryðjuverka þyrftu að fylgja ný viðbrögð þar eð hætturnar sem stafa af einbeittum hryðjuverkahópum þekki engin landamæri. Nauðsyn væri því á alþjóðlegum viðbrögðum og ætti eitt markmiða alþjóðasamfélagsins að vera að ráðast að rótum vandans með auknum skilningi á félagslegum, efnahagslegum og trúarlegum forsendum hans. Í ályktunardrögunum var hvatt til þess að komið yrði á alþjóðlegum sáttmála um leiðir til að berjast gegn hryðjuverkastarfsemi þar sem alþjóðleg hryðjuverkastarfsemi yrði jafnframt skýrt skilgreind og kveðið yrði á um tilteknar skuldbindingar ríkja til að koma í veg fyrir hryðjuverk. Aðildarríki Evrópuráðsins voru jafnframt hvött til þess að undirrita þá samninga sem taka til hryðjuverkastarfsemi og þegar væru til svo sem alþjóðlegan sáttmála um bann við fjármögnun hryðjuverkastarfsemi. Á tíunda tug þingmanna Evrópuráðsþingsins skráðu sig á mælendaskrá í umræðum um ógnina sem lýðræðisríkjum stafar af hryðjuverkastarfsemi og komst aðeins hluti þeirra að. Allir sem tóku til máls fordæmdu hryðjuverkin harðlega og hvöttu til þess að Evrópuráðið sem og aðrar fjölþjóðlegar stofnanir settu baráttuna gegn hryðjuverkum á oddinn á komandi missirum. Þá urðu nokkrar umræður um Rómarsáttmálann sem kveður á um stofnun alþjóðlega glæpadómstólsins og hlutverk hans í baráttunni gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi. Ályktun og tilmæli stjórnmálanefndarinnar voru samþykkt samhljóða.
    Af öðrum málefnum sem bar hæst á þingfundinum má nefna stöðu mála í fyrrum Júgóslavíulýðveldinu Makedóníu með tilliti til friðarferlisins þar í landi. Nokkrum vikum áður en þingfundurinn var haldinn höfðu fulltrúar stjórnvalda í Makedóníu og skæruliðahópa undirritað friðarsamkomulag, að frumkvæði Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins, sem kvað á um aukin réttindi albanska minni hlutans í landinu og afvopnun skæruliðahópa. Í ályktunardrögum slóvenska þingmannsins Roman Jakic var hvatt til þess að þjóðarbrotin sem landið búa gerðu sitt ýtrasta til að tryggja friðinn og leggja niður vopn. Mikið væri í húfi enda ylti varanlegur friður í Suðaustur-Evrópu að hluta til á farsælli lausn mála í Makedóníu. Í tilmælum var hvatt til þess að ráðherraráð Evrópuráðsins beitti sér til lausnar þeim vanda sem uppi væri og að Evrópuráðið mundi, í samstarfi við hinar fjölmörgu fjölþjóðastofnanir sem í landinu starfa, veita aðstoð við menntun ungmenna, aðstoða við endurbætur á löggjöf landsins, sérstaklega með tilliti til sveitarstjórnarstigsins, og beita sér fyrir því að flóttafólki yrði gert kleift að snúa aftur til síns heima.
    Vinnuhópur Evrópuráðsþingsins um málefni Norður-Kákasushéraðsins, sem Lára Margrét Ragnarsdóttir, formaður Íslandsdeildarinnar, á sæti í, skilaði áfangaskýrslu sinni á þinginu og urðu nokkrar umræður um hana og stöðu mála í Tsjetsjeníu. Vinnuhópurinn hafði nýlega lokið heimsókn sinni til Moskvu þar sem hann átti viðræður við þarlenda ráðamenn. Þá hafði verið efnt til funda í Strassborg með ýmsum fulltrúum frá Tsjetsjeníu. Þeir sem tóku til máls í umræðum um áfangaskýrsluna lýstu yfir ánægju sinni með að svo margir fulltrúar frá Tsjetsjeníu hefðu séð sér fært að sækja fundina í Strassborg jafnvel þótt fulltrúar sumra hópa hefðu tekið þá ákvörðun að mæta ekki. Slíkt bæri þess merki að menn væru reiðubúnir að ræða saman um lausn aðsteðjandi vanda. Hryðjuverkin í Bandaríkjunum höfðu áhrif á umræðuna um málefni Norður-Kákasus en nokkrum dögum fyrir umræðuna hafði borist yfirlýsing frá Vladimír Pútín, forseta Rússlands, þess efnis að skæruliðum í Tsjetsjeníu yrði gefinn frestur til að koma á vopnahléi. Var yfirlýsingin sett fram í anda alþjóðlegrar baráttu gegn hryðjuverkum. Á sama tíma barst yfirlýsing frá Mashkadov, leiðtoga aðskilnaðarsinna í Tsjetsjeníu, þar sem hvatt var til þess að friðarviðræður hæfust hið fyrsta. Á þingfundinum ríkti nokkur von til þess að frumkvæði forseta Rússlands, viðbrögð Tsjetsjena og hin breytta heimsmynd í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum gæti stuðlað að lausn mála í Tsjetsjeníu.
    Fundinn ávörpuðu eftirtaldir: Klaus Wanger, forseti þings Liechtenstein; Daniel Vaillant, innanríkisráðherra Frakklands; Demetris Christofias, forseti fulltrúadeildar kýpverska þingsins; Donald Johnston, framkvæmdastjóri Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD); og Ernst Walch, utanríkisráðherra Liechtenstein og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins.
    Í innleggi Láru Margrétar Ragnarsdóttur um ógnina sem lýðræðisríkjum stafar af hryðjuverkastarfsemi kom fram að þrátt fyrir þá reiði og angist sem ríki eftir árásirnar og framdar hefðu verið af huglausum mönnum mætti ekki ráðast í skjótar aðgerðir nema að vel yfirlögðu ráði. Ræddi Lára Margrét um þróun öryggishugtaksins á undangengnum árum og áratugum og nauðsyn þess að endurskilgreina það með tilliti til hryðjuverkanna. Taldi hún að aðeins með samstilltu átaki á alþjóðavettvangi tækist að koma í veg fyrir þá ógn sem stafar af hryðjuverkastarfsemi. Í máli hennar kom fram að í allt of mörgum tilfellum sprytti hryðjuverkastarfsemi upp í jarðvegi fátæktar, eymdar og óréttlætis og bæri alþjóðasamfélaginu að takast á við slíkan vanda. Þá lagði Lára Margrét áherslu á að ekki bæri að líta á baráttuna gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi sem árekstur tveggja menningarheima og jafnframt hvatti hún ríki heims til þess að leggjast á eitt og sameinast um að sporna við þessari nútímaógn.
    Lára Margrét Ragnarsdóttir tók einnig til máls í umræðum um áfangaskýrslu Evrópuráðsþingsins um stöðu mála í Norður-Kákasushéraðinu og sagðist fagna frumkvæði Rússlandsforseta til lausnar hinum mannskæðu átökum í Tsjetsjeníu. Sagði hún að ekki væri unnt að horfa á stöðuna í Tsjetsjeníu án þess að líta til ógnarinnar af alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi sem ekki þekkti nein landamæri. Sagðist hún telja að möguleiki væri á raunverulegri lausn mála í hinu stríðshrjáða héraði og með það að markmiði bæri Evrópuráðsþinginu að halda starfi sínu áfram sem milligönguaðili til lausnar málsins.

5.    Nefndastörf.
a. Skipting Íslandsdeildarinnar í nefndir.
Forsætisnefnd: Lára Margrét Ragnarsdóttir
Sameiginleg nefnd
með ráðherranefnd:
Lára Margrét Ragnarsdóttir
    Til vara: Ólafur Örn Haraldsson
Stjórnarnefnd: Lára Margrét Ragnarsdóttir
    Til vara: Ólafur Örn Haraldsson
Stjórnmálanefnd: Lára Margrét Ragnarsdóttir
    Til vara: Tómas Ingi Olrich
Laga- og
mannréttindanefnd:
Margrét Frímannsdóttir
    Til vara: Kristján L. Möller
Jafnréttisnefnd: Margrét Frímannsdóttir
    Til vara: Kristján L. Möller
Efnahagsnefnd: Lára Margrét Ragnarsdóttir
    Til vara: Tómas Ingi Olrich
Umhverfis- og
landbúnaðarnefnd:
Ólafur Örn Haraldsson
    Til vara: Kristinn H. Gunnarsson
Þingskapanefnd: Lára Margrét Ragnarsdóttir
    Til vara: Tómas Ingi Olrich
Mennta- og vísindanefnd: Ólafur Örn Haraldsson
    Til vara: Kristinn H. Gunnarsson
Félags- og
heilbrigðismálanefnd:
Lára Margrét Ragnarsdóttir
    Til vara: Tómas Ingi Olrich
Nefnd um fólksflutninga
og málefni flóttamanna:
Margrét Frímannsdóttir
    Til vara: Kristján L. Möller
b. Þátttaka í nefndafundum utan þinga.
    Utan reglulegra þinga halda nefndir Evrópuráðsþingsins nokkra fundi árlega, ýmist í Strassborg eða París eða einhverju aðildarríkja ráðsins. Alls tók Íslandsdeildin þátt í hátt á annan tug slíkra funda á árinu 2001 og var það einungis lítið brot af þeim fundum sem haldnir voru. Alls stjórnaði Lára Margrét Ragnarsdóttir sex fundum félags-, heilbrigðis- og fjölskyldumálanefndarinnar á árinu. Þá sótti hún þrjá fundi í stjórnmálanefnd þingsins og tvo fundi stjórnarnefndar. Þá stýrði hún, sem formaður félagsmálanefndarinnar, fundum á ráðstefnu umhverfis- og landbúnaðarnefndarinnar um lífshætti á nýju árþúsundi, sem haldin var á grísku eyjunni Santorini. Auk þessa var Láru Margréti boðið í heimsókn til Króatíu í júní sem formaður félagsmálanefndarinnar. Sérlegur starfshópur Evrópuráðsþingsins í málefnum Tsjetsjeníu hélt í tvígang til Rússlands eftir að Lára Margrét tók sæti í honum, í september og í desember. Auk ferðanna tveggja var efnt til þriggja samráðsfunda með fulltrúum Tsjetsjena í Strassborg og Prag.
    Ólafur Örn Haraldsson sótti einn fund í eftirlitsnefnd Evrópuráðsþingsins sem haldinn var í Strassborg í nóvember. Þá sótti hann einnig ráðstefnu umhverfis- og landbúnaðarnefndarinnar um lífshætti á nýju árþúsundi sem haldin var á Santorini.
    Margrét Frímannsdóttir sótti einn fund í laga- og mannréttindanefnd Evrópuráðsþingsins sem fram fór í París í marsmánuði. Þá tók hún þátt í tveimur fundum jafnréttisnefndarinnar sem báðir voru haldnir í París. Einnig tók Margrét þátt í fundi flóttamannanefndar þingsins í Genf í septembermánuði. Samhliða nefndarfundinum sóttu fulltrúar nefndarinnar skrifstofur alþjóðaráðs Rauða krossins og Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna heim.

Alþingi, 17. jan. 2002.



Lára Margrét Ragnarsdóttir,


form.


Ólafur Örn Haraldsson,


varaform.


Margrét Frímannsdóttir.





Fylgiskjal.


Ályktanir, álit og tilmæli Evrópuráðsþingsins árið 2001.

    Eftirfarandi ályktanir, álit og tilmæli til ráðherranefndar Evrópuráðsins voru samþykkt á þingfundum Evrópuráðsþingsins árið 2001:

Fyrsti hluti þingfundar 22.–26. janúar:
          1.      tilmæli nr. 1489, um fólksflutninga í Mið- og Austur-Evrópu,
          2.      tilmæli nr. 1490, um skuldbindingar Lettlands á vettvangi Evrópuráðsins,
          3.      ályktun nr. 1236, um skuldbindingar Lettlands á vettvangi Evrópuráðsins,
          4.      ályktun nr. 1491 og 1492, um þróun mála í sambandsríkinu Júgóslavíu,
          5.      ályktun nr. 1492, um málefni þjóðernisminnihlutahópa,
          6.      ályktun nr. 1496, um stöðu og hlutverk sjálfboðaliða á alþjóðlegu ári sjálfboðaliðans,
          7.      ályktun nr. 1238, um evruna og þjóðríki Evrópu suðausturhluta Evrópu,
          8.      ályktun nr. 1494, um tæknilegar forsendur enduruppbyggingar og efnahagsþróunar í suðausturhluta Evrópu,
          9.      tilmæli nr. 1495, um umhverfisleg áhrif stríðsins í Júgóslavíu,
          10.      tilmæli nr. 1498, um stöðu mála í Tsjetsjeníu,
          11.      tilmæli nr. 1499, um stöðu flóttamanna innan og utan Tsjetsjeníu,
          12.      ályktun nr. 1239, um málfrelsi og lýðræðislega stjórnarhætti í Úkraínu,
          13.      ályktun nr. 1240, um stöðu mála í Tsjetsjeníu,
          14.      ályktun nr. 1241, um kjörbréf rússnesku sendinefndarinnar,
          15.      tilmæli nr. 1497, um málfrelsi og lýðræðislega stjórnarhætti í Úkraínu,
          16.      ályktun nr. 1242, um samvinnu við Miðjarðarhaf og við vatnasvæði Svartahafs,
          17.      tilmæli nr. 1500, um þátttöku innflytjenda og erlendra ríkisborgara í stjórnmálum aðildarríkja Evrópuráðsins,
          18.      tilmæli nr. 1501, um menntun barna og ábyrgð foreldra og kennara, og
          19.      tilmæli nr. 1502, um samvinnu við Miðjarðarhaf og við vatnasvæði Svartahafs.

Stjórnarnefndarfundur 14. mars:
          1.      álit nr. 223, um evrópskan sáttmála um siðferðisreglur löggæslumanna,
          2.      skipun nr. 571, um bættan hag úthverfa stórborga,
          3.      skipun nr. 570, um landvistarleyfi innflytjenda,
          4.      tilmæli nr. 1505, um bættan hag úthverfa stórborga,
          5.      tilmæli nr. 1503, um heilsufar innflytjenda og flóttamanna í Evrópu.

Annar hluti þingfundar 23.–27. apríl:
          1.      ályktun nr. 1212, um ofbeldisverk gegn konum í hernaðarátökum,
          2.      álit nr. 224, um fjárhag og fjárlög Evrópuráðsþingsins fyrir árið 2002,
          3.      álit nr. 225, um útgjöld Evrópuráðsþingsins fyrir árið 2002,
          4.      tilmæli nr. 1506, um tjáningarfrelsi og upplýsingastefnu í Evrópu,
          5.      tilmæli nr. 1507, um baráttu Evrópuríkja gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi,
          6.      álit nr. 225, um drög að sáttmála um glæpi á veraldarvefnum,
          7.      tilmæli nr. 1508, stöðu mála í Kosovo-héraði og nágrannaríkjum,
          8.      skipun nr. 572, um mannréttindi og réttarríki í Kosovo-héraði,
          9.      skipun nr. 573, um stöðu flóttamanna frá Kosovo-héraði,
          10.      tilmæli nr. 1509, um mannréttindi og réttarríki í Kosovo-héraði,
          11.      tilmæli nr. 1511, um stöðu menningarmála í Kosovo-héraði,
          12.      tilmæli nr. 1512, um verndun erfðamengis mannsins,
          13.      álit nr. 227, um drög að bókun við sáttmála Evrópuráðsins um mannréttindi og líftækni,
          14.      ályktun nr. 1243, um Kyoto-bókunina og hnattræna umhverfisvernd,
          15.      tilmæli nr. 1510, um stöðu flóttamanna frá Kosovo-héraði,
          16.      tilmæli nr. 1513, um skuldbindingar Úkraínu á vettvangi Evrópuráðsins,
          17.      ályktun nr. 1244, um skuldbindingar Úkraínu á vettvangi Evrópuráðsins,
          18.      tilmæli nr. 1514, um átökin fyrir botni Miðjarðarhafs,
          19.      ályktun nr. 1245, um átökin fyrir botni Miðjarðarhafs,
          20.      ályktun nr. 1246, um þróun mála síðustu fimmtán ár við Tsjérnóbýl-kjarnorkuverið, og
          21.      tilmæli nr. 1515, um lýðfræðilegar breytingar og sjálfbæra þróun.

Stjórnarnefndarfundur 22. maí:
          1.      tilmæli nr. 1247, um umskurð kvenna,
          2.      ályktun nr. 1516, um fjármál stjórnmálaflokka,
          3.      ályktun nr. 1252, um flutningstækni og samrunaferlið í Evrópu,
          4.      ályktun nr. 1251, um þátt EFTA í hinu evrópska og hnattræna hagkerfi,
          5.      ályktun nr. 1250, um tæknilegar forsendur Kyoto-bókunarinar,
          6.      ályktun nr. 1249, um samvinnu á sviði mannréttindasáttmála Evrópu og réttindaskrá samveldis fullvalda ríkja,
          7.      ályktun nr. 1248, um nefnd Evrópuráðsins gegn pyndingum,
          8.      tilmæli nr. 1520, um tæknilegar forsendur Kyoto-bókunarinnar,
          9.      ályktun nr. 1519, um samvinnu á sviði mannréttindasáttmála Evrópu og réttindaskrá samveldis fullvalda ríkja,
          10.      álit nr. 229, um drög að sáttmála um lögfræðilega aðstoð,
          11.      álit nr. 228, um drög að sáttmála um upplýsingar og samvinnu á sviði upplýsingasamfélagsins,
          12.      tilmæli nr. 1518, um rétt einstaklinga til að hafna herskyldu,
          13.      tilmæli, nr. 1517, um starfshætti nefndar Evrópuráðsins gegn pyndingum, og
          14.      tilmæli nr. 1521, um stöðu Csango-þjóðernisbrotsins í Rúmeníu.

Þriðji hluti þingfundar, 25.–29. júní:
          1.      tilmæli nr. 1522, um afnám dauðarefsinga í áheyrnaraðildarríkjum Evrópuráðsins,
          2.      ályktun nr. 1253, um afnám dauðarefsinga í áheyrnaraðildarríkjum Evrópuráðsins,
          3.      skipun nr. 574, um afnám dauðarefsinga í áheyrnaraðildarríkjum Evrópuráðsins,
          4.      skipun nr. 575, um heimilisþrældóm,
          5.      tilmæli nr. 1523, um heimilisþrældóm,
          6.      ályktun nr. 1254, um Fjárfestingarbanka Evrópu og stöðu mála í Mið- og Austur-Evrópu,
          7.      tilmæli nr. 1524, um stjórn Fjárfestingarbanka Evrópu,
          8.      tilmæli nr. 1527, um framkvæmd Evrópusáttmála um tilflutning sakamanna,
          9.      tilmæli nr. 1526, um baráttuna gegn mansali og sölu barna,
          10.      tilmæli nr. 1525, um Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og 50 ára afmæli Genfar-sáttmálanna,
          11.      tilmæli nr. 1528, um stöðu mála í fyrrum Júgóslavíulýðveldinu Makedóníu,
          12.      ályktun nr. 1255, um stöðu mála í fyrrum Júgóslavíulýðveldinu Makedóníu,
          13.      tilmæli nr. 1529, um skuldbindingar Tyrklands á vettvangi Evrópuráðsins,
          14.      ályktun nr. 1256, um skuldbindingar Tyrklands á vettvangi Evrópuráðsins,
          15.      álit nr. 230, um drög að Evrópusáttmála um verndun einkaréttar á hljóð- og myndmáli,
          16.      álit nr. 231, um drög að sáttmála um samvinnu í löggæslumálum, og
          17.      tilmæli nr. 1530, um stöðu og framtíðarhorfur ungs fólks á þéttbýlissvæðum.

     Fjórði hluti þingfundar 24.–28. september:
          1.      skipun nr. 576, um öryggi og löggæslu í borgum Evrópu,
          2.      tilmæli nr. 1532, um félagsmálastefnu á sviði barna og unglinga í bæjum og borgum Evrópu,
          3.      tilmæli nr. 1531, um öryggi og löggæslu í borgum Evrópu,
          4.      tilmæli nr. 1533, um skuldbindingar Georgíu á vettvangi Evrópuráðsins,
          5.      ályktun nr. 1257, um skuldbindingar Georgíu á vettvangi Evrópuráðsins,
          6.      tilmæli nr. 1536, um eftirlitshlutverk Evrópuráðsþingsins,
          7.      tilmæli nr. 1534, um viðbrögð við hryðjuverkaógninni,
          8.      ályktun nr. 1258, um viðbrögð við hryðjuverkaógninni,
          9.      skipun nr. 577, um stöðu Mannréttindadómstóls Evrópu,
          10.      tilmæli nr. 1535, um stöðu Mannréttindadómstóls Evrópu,
          11.      skipun nr. 578, um eftirlitsstörf Evrópuráðsþingsins,
          12.      ályktun nr. 1260, um eftirlitsstörf Evrópuráðsþingsins,
          13.      ályktun nr. 1259, um Efnahags- og framfarastofun Evrópu og hið hnattræna hagkerfi,
          14.      tilmæli nr. 1537, um stöðu mála í fyrrum Júgóslavíulýðveldinu Makedóníu,
          15.      ályktun nr. 1261, um stöðu mála í fyrrum Júgóslavíulýðveldinu Makedóníu,
          16.      tilmæli nr. 1538, um skuldbindingar Úkraínu á vettvangi Evrópuráðsins,
          17.      ályktun nr. 1262, um skuldbindingar Úkraínu á vettvangi Evrópuráðsins,
          18.      tilmæli nr. 1541, um unga vísindamenn í Evrópu,
          19.      tilmæli nr. 1539, um hið evrópska tungumálaár,
          20.      ályktun nr. 1263, um framþróun vísinda- og tæknimála í Mið- og Austur-Evrópu, og
          21.      tilmæli nr. 1540, um æðri menntun í suðausturhluta Evrópu.

Stjórnarnefndarfundur 8. nóvember:
          1.      ályktun nr. 1266, um einföldun kosningareglna Evrópuráðsþingsins,
          2.      ályktun nr. 1265, um hlutverk svæðisbundinna stofnana á sviði landbúnaðar,
          3.      ályktun nr. 1264, um vinnureglur í kosningum,
          4.      tilmæli nr. 1544, um propiska-kerfið og málefni flóttamanna og innflytjenda í aðildarríkjum Evrópuráðsins,
          5.      tilmæli nr. 1543, um kynþáttafordóma á veraldarvefnum,
          6.      tilmæli nr. 1542, um skipun Evrópunefndar um lög og lýðræðismál, og
          7.      álit nr. 232, um þátttöku borgara í sveitarstjórnarmálum.