Ferill 347. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 907  —  347. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 145/1994, um bókhald, lögum nr. 144/1994, um ársreikninga, og lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Maríönnu Jónasdóttur, Guðmund Guðbjarnason, Jón Guðmundsson og Telmu Halldórsdóttur frá fjármálaráðuneyti, Indriða H. Þorláksson ríkisskattstjóra, Vilhjálm Bjarnason og Gamalíel Sveinsson frá Þjóðhagsstofnun, Jóhann Unnsteinsson frá Félagi löggiltra endurskoðenda, Birgi Ármannsson frá Verslunarráði Íslands, Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins, Ólaf Örn Klemensson og Hallgrím Ásgeirsson frá Seðlabanka Íslands, Þorvarð Gunnarsson frá Deloitte & Touche hf., Skúla Eggert Þórðarson skattrannsóknarstjóra, Völu Valtýsdóttur frá Taxis hf., Ernu Bryndísi Halldórsdóttur endurskoðanda og Sigurð Þórðarson ríkisendurskoðanda. Jafnframt bárust umsagnir um málið frá Þjóðhagsstofnun, Félagi löggiltra endurskoðenda, Ernu Bryndísi Halldórsdóttur, Verslunarráði Íslands, Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, Samtökum atvinnulífsins, skattrannsóknarstjóra ríkisins, Seðlabanka Íslands, Deloitte & Touche hf., ríkisskattstjóra, Lögmannafélagi Íslands, Ríkisendurskoðun, Lögmannsstofunni Taxis hf. og reikningsskilaráði.
    Frumvarpinu er ætlað að heimila íslenskum félögum sem uppfylla ákveðin skilyrði að færa bókhald og semja ársreikning í erlendum gjaldmiðli. Miðað er við að þau félög sem fá þessa heimild notfæri sér hana í að minnsta kosti fimm ár nema þau hætti á einhverjum tíma að uppfylla skilyrðin fyrir notkun hennar. Þetta fyrirkomulag er lagt til svo að jafnvægi náist og skammtímahagsmunir ráði ekki ferðinni við samningu ársreiknings hverju sinni. Í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir breytingum á skattalögum til þess að tryggja að skattstofn þeirra félaga sem nýta sér heimildina verði áfram í íslenskum krónum.
    Nefndin leggur til töluverðar breytingar á frumvarpinu. Þær eru sem hér segir:
     1.      Lagt er til að í stað þess að skylt verði að færa bókhald bæði í íslenskum krónum og erlendum gjaldmiðli vegna skattskila verði heimilt að færa það eingöngu í erlendum gjaldmiðli, en nokkur gagnrýni kom fram á þetta skilyrði í umfjöllun nefndarinnar um málið. Eftir stendur að félögum er frjálst að velja hvort þau færa áfram samhliða bókhald í íslenskum krónum vegna skattskila. Hins vegar verður að gera þá kröfu að félög haldi launabókhald, skrá um afdrátt opinberra gjalda, útskrift reikninga vegna virðisaukaskattsskyldrar sölu á vörum og þjónustu, svo og innskatt vegna kaupa á virðisaukaskattsskyldum aðföngum og öðrum upplýsingum er varða upplýsingagjöf til skattyfirvalda í íslenskum krónum, sbr. tillögu um breytingar á 8. gr. frumvarpsins og frumvarps sem nefndin flytur um breytingu á lögum um virðisaukaskatt og tryggingagjald.
     2.      Lagt er til að orðin „á starfsstöð" í 1. málsl. efnismálsgreinar a-liðar 3. gr. frumvarpsins falli brott til að fyrirbyggja allan misskilning. Ákvæðið heimilar félögum að geyma bókhald og bókhaldsgögn sín erlendis. Hér er átt við félög skráð hérlendis, t.d. dótturfélög erlendra félaga eða útibú þeirra sem eru því bókhaldsskyld hér á landi en bókhald gæti verið fært á starfsstöð eigenda erlendis. Ákvæðið nær ekki til samsvarandi félaga í eigu íslenskra félaga sem skáð eru erlendis enda eru þau bókhaldsskyld samkvæmt þarlendum lögum. Því er lagt til að niður falli orðin „á starfsstöð" þar sem þau eru til þess fallin að valda misskilningi.
     3.      Þá er lagt til að í stað orðanna „í erlendri mynt" í lokamálslið 4. gr. frumvarpsins komi orðin „í erlendum gjaldmiðli", en þetta er gert til að gæta samræmis í orðanotkun.
     4.      Til skýringar er einnig lögð til orðalagsbreyting við 5. gr. frumvarpsins til að ljóst sé að átt er við viðskipti móðurfélags sem er hér á landi við erlent dótturfélag og að viðskipti móðurfélagsins séu svo til eingöngu við dótturfélagið.
     5.      Nefndin leggur jafnframt til breytingar á 6. gr. frumvarpsins þess efnis að félög sem taka upp færslu bókhalds í erlendum gjaldmiðli hafi í upphafi val um það hvort þau umreikni fjárhæðir í efnahagsreikningi fyrra árs samkvæmt lokagengi þess árs eða umreikni efnahagsliði, aðra en peningalegar eignir og skuldir, þ.e. fastafjármuni og eignarhluti í félögum, með því gengi sem gilti við kaup eignanna, þ.e. sögulegu gengi. Þá verður heimilt að umreikna innborgað hlutafé og stofnfé, þ.m.t. innborgað yfirverð, á því gengi sem gilti þegar innborganir hlutafjár og yfirverðs þess fóru fram. Lögbundinn varasjóður hlutafélaga skal þó vera sama hlutfall af nafnverði hlutafjár í erlendum gjaldmiðli og það er í reikningsskilum fyrir umreikning. Nefndin bendir á að gera megi ráð fyrir því að það verði einkum eldri félög sem muni umreikna eignir sínar og skuldir með lokagengi reikningsársins en yngri félög og þau sem þegar hafi lagt fram ársreikninga sína, bæði í íslenskum krónum og erlendum gjaldmiðli, nýti sér valmöguleika við umreikninginn.
     6.      Lagt er til að frestur í 7. gr. frumvarpsins verði framlengdur um tvo mánuði, til 30. apríl 2002, þar sem frumvarpið var ekki afgreitt fyrir áramót eins og upphaflega var stefnt að.
     7.      Loks gerir nefndin tillögur um viðamiklar breytingar á 8. gr. frumvarpsins og leggur til þá meginreglu í 1. mgr. að umreikna skuli fjárhæðir úr starfrækslugjaldmiðlinum í íslenskar krónur og ákvarða skattstofna samkvæmt því. Umreikningsaðferðin sem hér er lögð til er almennt viðurkennd í reikningsskilum þegar verið er að umreikna fjárhæðir úr starfrækslugjaldmiðli í annan gjaldmiðil og er hún tiltölulega auðveld í notkun. Hún gefur þó ekki eins nákvæma niðurstöðu og hefðbundin framtalsskil sem byggjast á niðurstöðum úr bókhaldi sem fært er í íslenskum krónum. Kemur það til af því að verið er að umreikna fjárhæðir úr starfrækslugjaldmiðli yfir í íslenskar krónur sem áður hafa jafnvel verið umreiknaðar á árinu úr íslenskum krónum á öðru gengi. Enn fremur er um innbyggt endurmat fjárhæða að ræða vegna breytinga á gengi milli reikningstímabila, t.d. á fastafjármunum og fyrningarfjárhæðum þeirra.
                  Í 2. mgr. er lagt til að meginreglan verði sú að tekjur og gjöld verði umreiknuð í íslenskar krónur á meðalgengi. Rekstrarliðir ársreiknings sem nauðsynlegt er að breyta til samræmis við ákvæði skattalaga verða því einnig umreiknaðir á meðalgengi reikningstímabilsins nema annað leiði af lögunum, sbr. umfjöllun um frestaðan söluhagnað og tap.
                  Þá er lögð til sú meginregla að eignir og skuldir verði umreiknaðar í íslenskar krónur á gengi í lok viðkomandi reikningsárs. Efnahagsliðir ársreiknings sem nauðsynlegt er að breyta til samræmis við ákvæði skattalaga verða því einnig umreiknaðir á lokagengi reikningsársins nema annað leiði af lögunum, sbr. ákvæði um eignamat vegna tiltekinna eigna, þ.e. fasteigna og eignarhluta í félögum.
                  Jafnframt er tekið fram að sá gengismunur sem myndast við það að ekki er notað sama gengi við umreikning rekstrarliða annars vegar og efnahagsliða hins vegar skuli ekki hafa áhrif á skattskyldar tekjur eins og þær ákvarðast skv. a-lið 2. mgr. 8. gr. eins og lagt er til að henni verði breytt.
                  Í 3. mgr. er nánar kveðið á um ákvörðun tekjuskattsstofns og eignarskattsstofns félaga sem semja ársreikninga í erlendum gjaldmiðli. Kveðið er á um að umreikna skuli fjárhæðir á fyrningaskýrslu, stofnverð og fengnar fyrningar, svo og stofnverð ófyrnanlegra eigna og eigna sem ekki eru í fyrnanlegu ástandi í lok viðkomandi reikningsárs með lokagengi við umreikning yfir í erlendan gjaldmiðil. Með þessu ákvæði er verið að viðhalda hlutfalli fyrningarverðs og fenginna fyrninga við yfirfærslu í erlendan gjaldmiðil og er óháð þeirri aðferð sem notuð er við yfirfærslu þessara fjárhæða skv. 6. gr. frumvarpsins. Söluhagnaður eða sölutap í íslenskum krónum fer eftir a-lið 2. mgr. eins og lagt er til að henni verði breytt.
                  Þá er lagt til að um söluhagnað á eignarhlutum fari eftir ákvæðum 17. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt þegar um hlutabréf er að ræða en 18. gr. sömu laga þegar um eignarhluta í samlögum og sameignarfélögum er að ræða. Hér er um frávik að ræða frá ákvæðum a-liðar 2. mgr., eins og lagt er til að henni verði breytt, þar sem stofnverð þessara eigna og söluverð í íslenskum krónum er ákvarðað á sama hátt og hjá félögum sem semja skattskil á grundvelli ársreiknings í íslenskum krónum. Sérstakar reglur gilda um ákvörðun söluhagnaðar eftir því hvort eignarhluti var í eigu seljanda eða ekki í árslok 1996 vegna afnáms verðleiðréttra reikningsskila og skattskila á síðasta ári. Einnig er lagt til að fasteignir skuli telja fram á fasteignamati og eignarhlutar í félögum á nafnverði í íslenskum krónum eins og lögin kveða á um varðandi önnur félög, sbr. 74. gr. laganna, en þær fjárhæðir færast til eigna í stað umreiknings skv. b-lið 2. mgr. eins og lagt er til að henni verði breytt. Þá er lagt til að hlutafé félags skuli færast til frádráttar eignum skv. 77. gr. laganna samkvæmt skráðu nafnverði þess í íslenskum krónum og að þegar söluhagnaður ákvarðaður í íslenskar krónur í greinargerð skv. 1. mgr., eins og lagt er til að henni verði breytt, er ekki skattlagður á söluári en skattlagningu frestað samkvæmt heimild í lögunum komi fjárhæð hans til tekna óbreytt eins og við skattskil fyrirtækja í íslenskum krónum. Á sama hátt skal rekstrartap eins og það er ákvarðað í íslenskum krónum í greinargerð færast til frádráttar rekstrartekjum í óbreyttri krónufjárhæð eins og við skattskil fyrirtækja í íslenskum krónum. Um söluhagnað og rekstrartap sem myndaðist reikningsárið 2001 og fyrr fer eftir bráðabirgðaákvæði C- og D-liðar b-liðar í 41. gr. laga nr. 133/2001, sem breyttu lögum um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, með síðari breytingum. Loks er lagt til varðandi 3. mgr. að um skattskil lögaðila sem heimild hafa til að semja ársreikninga í erlendum gjaldmiðli fari að öðru leyti en að framan greinir eftir sömu reglum og gilda um skattskil lögaðila í íslenskum krónum. Þetta varðar bæði ákvörðun um hvenær og hvernig tekjur eru færðar til tekna og gjöld til frádráttar, svo og um eignir og skuldir.
                  Þá leggur nefndin til að í 4. mgr. verði þeim aðilum sem færa bókhald sitt jafnframt í íslenskum krónum heimilað að byggja greinargerð sína skv. 1. mgr., eins og lagt er til að henni verði breytt, til ákvörðunar á tekjuskattsstofni og eignarskattsstofni á grundvelli þess bókhalds í stað umreiknings. Það er þó áskilið að þeirri aðferð verði viðhaldið í a.m.k. fimm ár, en eins og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið er þessi möguleiki fyrir hendi í bókhaldshugbúnaði og fyrir liggja upplýsingar um að íslensk félög noti slíkan hugbúnað.
     8.      Nefndin leggur einnig til að við frumvarpið bætist ný grein, 9. gr., þess efnis að upplýsingar til skattyfirvalda sem skylt er að gefa skv. 92. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, varðandi þriðja aðila, svo sem upplýsingar um launagreiðslur, verktakagreiðslur, hlutafé og arðgreiðslur og aðrar slíkar upplýsingar, skuli vera í íslenskum krónum eins og þær voru ákvarðaðar við greiðslu. Þar sem um er að ræða íslensk félög sem skráð eru hér á landi og eru skattskyld af starfsemi sinni hér á landi fara greiðslur oftast nær fram hérlendis í íslenskum krónum, t.d. laun. Staðgreiðsla reiknast samkvæmt því og er skilað í ríkissjóð, svo og tryggingagjald sem reiknast af launagreiðslum. Sama fjárhæð verður svo gjaldandi að gefa upp á skattskýrslu sinni og greidda staðgreiðslu af henni. Í undantekningartilvikum kann að vera að launagreiðsla fari fram í erlendum gjaldmiðli en þá er hin almenna regla um færslu erlendra viðskipta í bókhaldi sem ákvarðar fjárhæðina samkvæmt viðskiptagengi greiðsludagsins. Sama má segja um virðisaukaskatt. Öll virðisaukaskattsskyld viðskipti fara fram innan lands og reikningar milli íslenskra fyrirtækja verða að vera áfram í íslenskum krónum að uppruna til og greiðslur í íslenskum krónum. Annars verða viðskiptaaðilar að taka á sig gengisáhættu eingöngu vegna þess að annar aðilinn hefur heimild til að færa bókhald í erlendum gjaldmiðli. Innskattur annars aðilans í viðskiptum verður að vera í samræmi við útskatt hins aðilans og skil skattsins til ríkissjóðs. Fyrirtækin verða því að halda utan um allar slíkar greiðslur sem skylt er að gera skattyfirvöldum grein fyrir sem og þriðja aðila. Það verður því ekki hjá því komist að félög haldi utan um ýmsar greiðslur í íslenskum krónum þrátt fyrir að bókhaldsbækurnar séu færðar í erlendum gjaldmiðli.
     9.      Loks gerir nefndin breytingartillögu við gildistökuákvæði frumvarpsins þess efnis að lögin öðlist þegar gildi en komi til framkvæmda frá 1. janúar 2002.
    Samhliða afgreiðslu málsins úr nefndinni og þeim breytingartillögum sem gerð hefur verið grein fyrir hér að framan flytur nefndin sjálfstætt frumvarp til breytinga á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og lögum nr. 13/1990, um tryggingagjald, en það er nauðsynlegt vegna þeirra breytinga sem nefndin leggur til á frumvarpinu, sbr. 8. lið hér að framan.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali og gerð er grein fyrir hér að framan.
    Kristinn H. Gunnarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 26. febr. 2002.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Jóhanna Sigurðardóttir.


Einar K. Guðfinnsson.



Össur Skarphéðinsson.


Sigríður A. Þórðardóttir.


Ögmundur Jónasson.



Gunnar Birgisson.


Hjálmar Árnason.