Ferill 503. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1004  —  503. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar.

Frá meiri hluta iðnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þorgeir Örlygsson, Guðjón Axel Guðjónsson, Helga Bjarnason og Kristján Skarphéðinsson frá iðnaðarráðuneyti, Friðrik Sophusson, Jóhann Má Maríusson, Bjarna Bjarnason, Agnar Olsen, Stefán Pétursson og Kristján Gunnarsson frá Landsvirkjun, Jóhannes Geir Sigurgeirsson stjórnarformann Landsvirkjunar, Yngva Harðarson frá Ráðgjöf og efnahagsspám ehf., Þorkel Helgason og Hákon Aðalsteinsson frá Orkustofnun, Þórð Friðjónsson, Magnús Harðarson og Pál Harðarson frá Þjóðhagsstofnun, Stefán Thors frá Skipulagsstofnun, Geir A. Gunnlaugsson frá Reyðaráli hf., Magnús Jóhannesson frá umhverfisráðuneyti, Árna Bragason frá Náttúruvernd ríkisins, Kristján Hauk Skarphéðinsson frá Náttúrufræðistofnun, Má Guðmundsson frá Seðlabanka Íslands, Theódór Bjarnason frá Byggðastofnun, Svein Sigurbjarnarson og Skúla Björn Gunnarsson frá Markaðsstofu Austurlands, Arnór Benediktsson, Bjarna Björgvinson og Guðgeir Ragnarsson frá Norður-Héraði, Gunnþórunni Ingólfsdóttur, Kristin Bjarnason og Þórarin Rögnvaldsson frá Fljótsdalshreppi, Einar Rafn Haraldsson frá Afli fyrir Austurland, Smára Geirsson frá Samtökum sveitarfélaga á Austurlandi, Guðmund Bjarnason frá Fjarðabyggð, Tryggva Felixson frá Landvernd og Þórólf Matthíasson. Umsagnir bárust um málið frá Skútustaðahreppi, Rafmagnsveitum ríkisins, Skipulagsstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Fjarðabyggð, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Landvernd, Náttúruvernd ríkisins, Náttúruverndarsamtökum Austurlands, Hinu íslenska náttúrufræðifélagi, Orkubúi Vestfjarða, Samtökum iðnaðarins, Reyðaráli hf., Hæfi hf., Fljótsdalshreppi, Seðlabanka Íslands, Orkustofnun, Norður-Héraði, Norðurorku, Samtökum um náttúruvernd á Norðurlandi, Landsvirkjun, Þjóðhagsstofnun, Austur-Héraði og Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi. Einnig bárust gögn frá Landsvirkjun, Orkustofnun, samstarfshópi Markaðsstofu Austurlands og Afli fyrir Austurland. Nefndin leitaði eftir umsögn efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis á efnahagslegum áhrifum og arðsemi virkjunarinnar; enn fremur var leitað eftir umsögn umhverfisnefndar Alþingis á umhverfisþáttum málsins. Umsagnir meiri hluta og minni hluta beggja nefnda eru birtar í heild sem fylgiskjöl með áliti þessu.
    Frumvarpinu er ætlað að afla lagaheimilda fyrir Kárahnjúkavirkjun og stækkun Kröfluvirkjunar vegna byggingar álvers sem fyrirhuguð er á Austurlandi á næstu árum.
    Samkvæmt upplýsingum Landsvirkjunar er stefnt að virkjunarframkvæmdunum ef samningar nást um byggingu og rekstur álvers við Reyðarfjörð. Gert er ráð fyrir að ákvörðun um það muni liggja fyrir 1. september 2002 eða síðar. Í því skyni er afar æskilegt að þá liggi fyrir heimildir hins opinbera til virkjunarframkvæmda. Samkvæmt greinargóðu yfirliti frá Orkustofnun eru Kárahnjúkar, Krafla og Bjarnarflag eina leiðin til orkuöflunar fyrir Reyðarálsverkefnið. Fjármögnun álversins byggist m.a. á þeirri forsendu.
    Áætlað er að fjárfesting í virkjunum verði 85 milljarðar kr. í fyrri áfanga og 33 milljarðar kr. í síðari áfanga, alls 118 milljarðar kr. Sé álverið sjálft tekið með í reikninginn nemur heildarfjárfesting í verkefninu hátt í 250 milljörðum kr.
    Lögum samkvæmt er Landsvirkjun óheimilt að fjárfesta í framkvæmdum vegna stóriðju ef þær framkvæmdir leiða til hækkaðs orkuverðs til almennings. Um arðsemi virkjunarinnar segir í umsögn meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis til iðnaðarnefndar, en svipað álit kemur fram í umsögn 1. minni hluta nefndarinnar:
    „Gert er ráð fyrir að stór hluti stofnkostnaðar verkefnisins falli til á árunum 2004–2006, en þá er áætlað að fjárfest verði fyrir meira en helming af heildarfjárfestingu þess. Við mat á arðsemi verkefnisins notast Landsvirkjun við svokallað áætlað núvirt sjóðstreymi (e. discounted cash flow), en sú aðferð er þekkt við útreikninga sem þessa. Gert er ráð fyrir raunarðsemi eða innri vöxtum upp á 6,3–6,4%, eða um 1% umfram ávöxtunarkröfu verkefnisins. Ávöxtun eigin fjár jafngildir um 14,5% raunarðsemi og gert er ráð fyrir að verkefnið borgi upp stofn- og vaxtakostnað á innan við 30 árum, þrátt fyrir að áætlaður líftími flestra mannvirkjanna sé á bilinu 80–100 ár. Jafnframt gerir Landsvirkjun ráð fyrir óbreyttu orkuverði eftir lok samningstíma, þrátt fyrir þá reynslu að orkuverð hækki jafnan frekar en lækki. Álverð í framtíðinni skiptir miklu máli hvað verkefnið varðar. Álverð sveiflast samkvæmt spám og leitar niður á við, enda eru miklar tækniframfarir í áliðnaði jafnt sem öðrum iðnaði. Nú er álverð mjög lágt, en útreikningar Landsvirkjunar byggjast á því að það muni hækka til skemmri tíma. Næstu áratugina er miðað við að álverð haldist tiltölulega stöðugt að raungildi en leiti niður á við og byggt er á þeirri forsendu að verðlækkunin verði 0,4% á ári.
    Til samanburðar við útreikninga Landsvirkjunar hefur fyrirtækið Ráðgjöf og efnahagsspár jafnframt unnið líkindareikninga um arðsemi orkusölu til Reyðaráls. Allar meginforsendur verkefnisins eru settar inn sem áhættuforsendur, þ.e. álmarkaðurinn, stofnkostnaður, orkusala og raungengi. Helstu niðurstöður eru mjög í takt við útreikninga Landsvirkjunar, en gert er ráð fyrir meðalarðsemi upp á 6,2%, með staðalfrávikum upp á 1,1% í hvora átt. Þá eru líkur á jákvæðu núvirði taldar vera 79% miðað við 5,3% arðsemiskröfu.“
    Ljóst er samkvæmt þessu að yfirgnæfandi líkur eru á að framkvæmdin muni reynast Landsvirkjun arðbær. Fulltrúar fyrirtækisins upplýstu jafnframt að áfram væri stefnt að lækkun orkuverðs til almennings sem nemur um 2% á ári í samræmi við ályktun Alþingis þar um.
    Um þjóðhagsleg áhrif verkefnisins segir m.a. í fyrrgreindri umsögn meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar, en svipuð skoðun kemur fram í umsögn 1. minni hluta nefndarinnar:
    „Fulltrúar Þjóðhagsstofnunar telja að landsframleiðsla verði rúmlega 2% meiri á framkvæmdatímanum en ella og þjóðarframleiðsla 1–1,5% meiri. Gert er ráð fyrir að á árunum 2002–2013 verði fjárfesting um 12% hærri en annars. Gert er ráð fyrir að vinnuaflsnotkun í framkvæmdunum verði rétt um 0,5% af heildarframboði vinnuafls, og nái hámarki árið 2005. Þjóðhagsstofnun bendir á að umfang framkvæmdanna árin 2004–2006 og minnkun þeirra strax á eftir árið 2007–2008 geri miklar kröfur til hagstjórnar. Ef ekki komi til mótvægisaðgerða megi búast við að verðbólga fari yfir þolmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabanka Íslands og verði allt að 4–5%, miðað við 2,5% ella. Útlit er fyrir að viðskiptahalli aukist nokkuð á framkvæmdatímanum, að jafnaði um 2% af vergri landsframleiðslu, og nái hámarki á árunum 2005–2006. Þjóðhagsstofnun telur hins vegar að eftir að framkvæmdum við verkefnið lýkur og álver Reyðaráls hefur náð fullum afköstum muni áhrif á viðskiptajöfnuð verða jákvæð og útflutningur gæti orðið um 14% meiri en ella fyrsta áratuginn eftir lok framkvæmda. Landsframleiðsla gæti orðið 1,25–1,5 hærri til lengdar en ella og þjóðarframleiðsla tæplega 1% hærri. Þjóðhagsstofnun gerir ráð fyrir því að útflutningur geti orðið um 14% meiri en annars fyrsta áratuginn eftir lok framkvæmda miðað við óbreytt raungengi. Í útreikningum Þjóðhagsstofnunar er gert ráð fyrir óbreyttum stýrivöxtum Seðlabanka Íslands. Loks bendir Þjóðhagsstofnun á að verði ekki af verkefninu megi gera ráð fyrir að fólki á Austurlandi haldi áfram að fækka.“
    Á framkvæmdatíma virkjunar má búast við nokkrum þensluáhrifum í efnahagslífi. Ýmsir umsagnaraðilar benda á mikilvægi þess að stjórnvöld grípi til efnahagslegra mótvægisaðgerða. Seðlabankinn telur að vegna framkvæmdanna kunni hann að hækka stýrivexti um 1–2%. Um skammtímaáhrif þess á almenna vexti er óljóst. Ræðst það nokkuð af ástandi efnahagslífsins að öðru leyti og rekstri ríkissjóðs. Meiri hlutinn telur brýnt að ríkisvaldið taki mið af þenslunni í efnahagslífinu við hagstjórn á umræddum framkvæmdatíma. Meiri hlutinn vekur hins vegar athygli á því að langtímaáhrif Reyðarálsverkefnisins geta falið í sér lækkun vaxta almennt, m.a. vegna aukinnar þjóðarframleiðslu í kjölfar vaxandi útflutningstekna frá Reyðaráli. Þá má telja líklegt að verkefnið í heild sinni hafi jákvæð áhrif á gengisþróunina.
    Fulltrúar Landsvirkjunar bentu á að fjárfesting virkjunarframkvæmda vegna Reyðaráls væri, sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu, svipuð og fjárfesting í Búrfellsvirkjun var um miðjan sjöunda áratuginn. Meiri hlutinn telur efnahagsleg áhrif af þeim framkvæmdum hafa verið einkar jákvæð fyrir landsmenn alla. Ekki síðri gætu áhrif af Kárahnjúkum orðið.
    Stærstur hluti raforkuframleiðslu heimsins byggist á mengandi aðferðum, svo sem kolum, jarðgasi, olíu og kjarnorku. Meiri hlutinn telur einsýnt að í framtíðinni muni mengunarskattar verða lagðir á fyrrgreinda orkugjafa, samkvæmt umræðu í kjölfar Kyoto-samnings. Slík ákvörðun mun almennt hækka orkuverð í heimunum. Það umhverfi mun gera forsendur þeirra framkvæmda sem hér er um fjallað enn hagstæðari.
    Við undirbúning þessa máls hefur verið unnið samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum.
    Í umsögn meiri hluta umhverfisnefndar Alþingis segir m.a.:
    „Um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal hefur verið unnið mat á umhverfisáhrifum og eftir kæruferli hafa Skipulagsstofnun og umhverfisráðherra fellt úrskurði, samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Meiri hluti nefndarinnar gerir ekki athugasemd við þessa málsmeðferð. Þá telur meiri hlutinn að skilyrði þau sem sett hafa verið fyrir framkvæmdinni í úrskurði umhverfisráðherra séu mjög til bóta og telur brýnt að skýrt verði kveðið á um þau þegar að útgáfu virkjunarleyfis kemur.“
    Í umsögn Orkustofnunar kemur m.a. fram að vandað hafi verið til undirbúnings og rannsókna vegna Kárahnjúkavirkjunar í hvívetna og „víða hefur verið gengið svo langt til móts við umhverfissjónarmið sem ætlast megi til án þess að stofna hagkvæmni verkefnisins í hættu“.
    Meiri hlutinn telur reyndar að líklega hafi ekkert verkefni hérlendis nokkru sinni verið rannsakað jafnmikið og virkjun við Kárahnjúka.Um virkjun við Kröflu og Bjarnarflag er unnið eftir lögum um mat á umhverfisáhrifum þótt Alþingi hafi þegar veitt Landsvirkjun heimild fyrir virkjun í Bjarnarflagi.
    Í forsendum fyrir kostnaði af framkvæmdum við Kárahnjúka er gert ráð fyrir ýmsum mótvægisaðgerðum vegna umhverfisrasks á virkjanasvæðum. Er þar m.a. byggt á matsferli umhverfisáhrifa, sem og úrskurði umhverfisráðherra.
    Meiri hlutinn telur að frá sjónarhóli jafnt umhverfisverndar sem útivistar sé æskilegt að ósnortin víðerni norðan Vatnajökuls verði lögð undir þjóðgarð. Meiri hlutinn hvetur til að tillögur um það verði teknar til alvarlegrar skoðunar hið fyrsta.
    Fram kemur m.a. í umsögn Þjóðhagsstofnunar, Byggðastofnunar og Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi að Reyðarálsverkefnið og virkjanir tengdar því muni styrkja og byggja ört upp byggðir á Miðausturlandi. Er það og í samræmi við atvinnu- og byggðaáhrif af stóriðju í Hafnarfirði og á Grundartanga. Hér getur verið um að ræða eina öflugustu byggðaaðgerð síðustu áratuga. Í umsögn meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar segir um þennan þátt:
    „Álverið og virkjunarframkvæmdir munu til skemmri og lengri tíma hafa afar jákvæð áhrif á lífskjör og búsetu á Austurlandi en það svæði hefur verið í nokkurri varnarstöðu á undanförnum árum. Það hefur enn fremur mikla þýðingu fyrir landsbyggðina í heild ef sýnt er fram á að atvinnurekstur af þessum toga og þessari stærð geti blómstrað svo langt frá höfuðborgarsvæðinu.“
    Þjóðhagsleg áhrif stóriðju á Austurlandi eru mikilvæg. Þjóðhagsstofnun spáir því að Reyðarálsverkefnið í heild muni auka þjóðarframleiðslu um 1% og landsframleiðsla verði allt að 1,5% hærri til lengdar vegna þess. Langtímaáhrif af þeim þáttum eru afar jákvæð fyrir efnahagslíf þjóðarinnar í heild og ættu að stuðla að auknum stöðugleika í efnahagslífi, tryggara atvinnuástandi og bættum lífskjörum þjóðarinnar. Vissulega er um fórnarkostnað að ræða þar sem virkjun raskar óspilltri náttúru. Þess hefur þó verið gætt að halda umhverfisraski í lágmarki. Hin jákvæðu efnahagslegu áhrif og byggðaáhrif fyrir þjóðina í heild vega þó upp þann fórnarkostnað. Þá má benda á að vegna framkvæmda við Kárahnjúka opnast ýmsir nýir möguleikar fyrir hinn almenna ferðamann, m.a. vegna vegalagningar um svæðið. Vinnuhópur á vegum Markaðsstofu Austurlands hefur þegar kynnt metnaðarfull áform í ferðaþjónustu á svæðinu.
    Í umsögn sveitarstjórnar Norður-Héraðs er vakin athygli á því að vegna ákvæða sveitarstjórnarlaga nýtur aðeins eitt sveitarfélag tekna af virkjuninni. Ræður staðsetning stöðvarhússins því hvaða sveitarfélag þar á í hlut. Þau sveitarfélög sem leggja til land undir virkjun, göng, vegi og annað sem óhjákvæmilega tengist virkjuninni í heild njóta hins vegar engra beinna tekna. Meiri hlutinn telur mikilvægt að þessum ákvæðum verði breytt á þann veg að tekjustofnar sveitarfélaga vegna virkjunarstarfsemi verði breikkaðir.
    Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið mælir meiri hlutinn eindregið með því að frumvarpið verði samþykkt.
    Bryndís Hlöðversdóttir og Svanfríður Jónasdóttir rita undir nefndarálitið með fyrirvara sem lýtur að eftirtöldum atriðum:
    Fulltrúar Samfylkingarinnar í nefndinni styðja framkvæmdina í trausti þess að áætlanir um arðsemi framkvæmdarinnar standist og að gripið verði til viðeigandi ráðstafana til að tryggja stöðugleika í efnahagslífinu sbr. umsögn 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar þar að lútandi.
    Fyrirvarar fulltrúa Samfylkingarinnar lúta auk þess að verndun lands norðan Vatnajökuls þannig að í kjölfar virkjunar við Kárahnjúka verði ekki ráðist í frekari framkvæmdir sem skaðað geti dýrmætar náttúruperlur norðan jökuls, en í nefndaráliti þessu er tekið mjög sterklega undir áherslur Samfylkingarinnar í þeim efnum.
    Þá telja fulltrúar Samfylkingarinnar að í umfjöllun málsins hafi komið skýrt fram hve mikilvægt það er að mótuð verði heildstæð auðlindastefna. Einnig vísa fulltrúar Samfylkingarinnar til mikilvægis þess að skoða hvernig takmarka má áhættu almennings af fjármögnun verkefna sem þessara svo sem með stofnun sérstaks fyrirtækis um framkvæmdina og verkefnafjármögnun.

Alþingi, 18. mars 2002.



Hjálmar Árnason,


form., frsm.


Guðjón Guðmundsson.


Bryndís Hlöðversdóttir,


með fyrirvara.



Pétur H. Blöndal.


Svanfríður Jónasdóttir,


með fyrirvara.


Helga Guðrún Jónasdóttir.



Kjartan Ólafsson.


Ísólfur Gylfi Pálmason.




Fylgiskjal I.


Umsögn meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis hefur á fundum sínum fjallað um frumvarp til laga um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar, sbr. bréf iðnaðarnefndar Alþingis frá 20. febrúar sl. Frumvarpinu er ætlað að afla lagaheimilda fyrir Kárahnjúkavirkjun og stækkun Kröfluvirkjunar vegna byggingar álvers sem fyrirhuguð er á Austurlandi á næstu árum. Á meðal gesta sem nefndin fékk á sinn fund vegna málsins voru fulltrúar Landsvirkjunar, Þjóðhagsstofnunar, Seðlabanka Íslands, Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, Alþýðusambands Íslands, Samtaka atvinnulífsins, Reyðaráls hf., Verslunarráðs Íslands, fjármálaráðuneytis, iðnaðarráðuneytis, Landssambands lífeyrissjóða og Norðuráls. Einnig komu á fund nefndarinnar Sigurður Jóhannesson, Jón Sigurðsson, Sveinn Aðalsteinsson og Þorsteinn Sigurlaugsson.
    Fulltrúar Landsvirkjunar kynntu virkjunarframkvæmdina sjálfa, stofnkostnað hennar og áætlaða arðsemi fyrir nefndinni. Áætlað er að fjárfesting í virkjunum verði 85 milljarðar kr. í fyrri áfanga og 33 milljarðar kr. í síðari áfanga, alls 118 milljarðar kr. Sé álverið sjálft tekið með í reikninginn nemur heildarfjárfesting í verkefninu hátt í 250 milljörðum kr. Með lokuðum útboðum með forvali ætlar Landsvirkjun að tryggja að verktakar hafi tæknilega og fjárhagslega hæfni til að ljúka sínum verkum og verkþáttum. Jafnframt verða tilboð frá verktökum opnuð áður en samningar verða undirritaðir og ljóst að ekkert verður af verkefninu ef ekki fást ásættanleg tilboð.
    Gert er ráð fyrir að stór hluti stofnkostnaðar verkefnisins falli til á árunum 2004–2006, en þá er áætlað að fjárfest verði fyrir meira en helming af heildarfjárfestingu þess. Við mat á arðsemi verkefnisins notast Landsvirkjun við svokallað áætlað núvirt sjóðstreymi (e. discounted cash flow), en sú aðferð er þekkt við útreikninga sem þessa. Gert er ráð fyrir raunarðsemi eða innri vöxtum upp á 6,3–6,4%, eða um 1% umfram ávöxtunarkröfu verkefnisins. Ávöxtun eigin fjár jafngildir um 14,5% raunarðsemi og gert er ráð fyrir að verkefnið borgi upp stofn- og vaxtakostnað á innan við 30 árum, þrátt fyrir að áætlaður líftími flestra mannvirkjanna sé á bilinu 80–100 ár. Jafnframt gerir Landsvirkjun ráð fyrir óbreyttu orkuverði eftir lok samningstíma, þrátt fyrir þá reynslu að orkuverð hækki jafnan frekar en lækki. Álverð í framtíðinni skiptir miklu máli hvað verkefnið varðar. Álverð sveiflast samkvæmt spám og leitar niður á við, enda eru miklar tækniframfarir í áliðnaði jafnt sem öðrum iðnaði. Nú er álverð mjög lágt, en útreikningar Landsvirkjunar byggjast á því að það muni hækka til skemmri tíma. Næstu áratugina er miðað við að álverð haldist tiltölulega stöðugt að raungildi en leiti niður á við og byggt er á þeirri forsendu að verðlækkunin verði 0,4% á ári.
    Til samanburðar við útreikninga Landsvirkjunar hefur fyrirtækið Ráðgjöf og efnahagsspár jafnframt unnið líkindareikninga um arðsemi orkusölu til Reyðaráls. Allar meginforsendur verkefnisins eru settar inn sem áhættuforsendur, þ.e. álmarkaðurinn, stofnkostnaður, orkusala og raungengi. Helstu niðurstöður eru mjög í takt við útreikninga Landsvirkjunar, en gert er ráð fyrir meðalarðsemi upp á 6,2%, með staðalfrávikum upp á 1,1% í hvora átt. Þá eru líkur á jákvæðu núvirði taldar vera 79% miðað við 5,3% arðsemiskröfu.
    Fulltrúar Þjóðhagsstofnunar telja að landsframleiðsla verði rúmlega 2% meiri á framkvæmdatímanum en ella og þjóðarframleiðsla 1–1,5% meiri. Gert er ráð fyrir að á árunum 2002–2013 verði fjárfesting um 12% hærri en annars. Gert er ráð fyrir að vinnuaflsnotkun í framkvæmdunum verði rétt um 0,5% af heildarframboði vinnuafls, og nái hámarki árið 2005. Þjóðhagsstofnun bendir á að umfang framkvæmdanna árin 2004–2006 og minnkun þeirra strax á eftir árið 2007–2008 geri miklar kröfur til hagstjórnar. Ef ekki komi til mótvægisaðgerða megi búast við að verðbólga fari yfir þolmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabanka Íslands og verði allt að 4–5%, miðað við 2,5% ella. Útlit er fyrir að viðskiptahalli aukist nokkuð á framkvæmdatímanum, að jafnaði um 2% af vergri landsframleiðslu, og nái hámarki á árunum 2005–2006. Þjóðhagsstofnun telur hins vegar að eftir að framkvæmdum við verkefnið lýkur og álver Reyðaráls hefur náð fullum afköstum muni áhrif á viðskiptajöfnuð verða jákvæð og útflutningur gæti orðið um 14% meiri en ella fyrsta áratuginn eftir lok framkvæmda. Landsframleiðsla gæti orðið 1,25–1,5 hærri til lengdar en ella og þjóðarframleiðsla tæplega 1% hærri. Þjóðhagsstofnun gerir ráð fyrir því að útflutningur geti orðið um 14% meiri en annars fyrsta áratuginn eftir lok framkvæmda miðað við óbreytt raungengi. Í útreikningum Þjóðhagsstofnunar er gert ráð fyrir óbreyttum stýrivöxtum Seðlabanka Íslands. Loks bendir Þjóðhagsstofnun á að verði ekki af verkefninu megi gera ráð fyrir að fólki á Austurlandi haldi áfram að fækka.
    Í máli fulltrúa Seðlabanka Íslands kom fram að með mótvægisaðgerðum ætti að vera hægt að halda verðbólgu innan þolmarka á framkvæmdatímanum. Til þess þyrfti hins vegar að halda stýrivöxtum Seðlabankans 2% hærri en ella. Seðlabankinn mun fylgjast grannt með þróun mála og gera frekari athuganir þegar nær dregur framkvæmdunum sjálfum. Málið yrði fyrst og fremst skoðað út frá verksviði bankans sjálfs, þ.e. hugsanlegum áhrifum á vexti, gengi og stefnuna í peningamálum. Seðlabankinn telur líklegt að vaxtastig á Íslandi verði hærra um töluverðan tíma og býst við að vaxtahækkun muni koma til strax síðla árs ef af framkvæmdinni verður. Bankinn telur hins vegar rétt að hreyfa hvorki við verðbólgumarkmiði né þolmörkum verðbólgu þrátt fyrir það þar sem vextir muni byrja að lækka aftur um það leyti sem framkvæmdirnar ná hámarki. Það skal jafnframt tekið fram að fyrirhuguð viðbrögð Seðlabankans í vaxtamálum byggjast á því að engar mótvægisaðgerðir komi til í ríkisfjármálum. Seðlabankinn telur ekki ástæðu til að ætla að kaupmáttur rýrni á byggingartíma virkjunarinnar þar sem búast megi við meira launaskriði en ella og að kaupmáttur verði hærri. Seðlabankinn telur hins vegar erfitt að spá fyrir um hvert gengið verði á framkvæmdatímanum, en telur líklegt að það muni taka töluverða sveiflu í tengslum við framkvæmdirnar. Jafnframt benti bankinn á að vaxtahækkun um hríð væri ekki endilega slæm þar sem hún kæmi í veg fyrir að verðbólga festist í sessi.
    Þorsteinn Sigurlaugsson sagði að stofnkostnaður verkefnisins væri 118 milljarðar kr. á núverandi gengi og að líftími fjárfestingarinnar væri allt að 60 ár. Orkugetan væri 4.890 gígavattstundir á ári og rekstrarkostnaður 1.200 millj. kr. á hverju ári. Hann sagði fjármagnskostnað vera gífurlegan í Reyðarálsverkefninu, eða meira en 660 bandaríkjadali á hvert tonn af áli. Greiðslugeta Reyðaráls fyrir orkuna lægi á bilinu 1–1,5 kr. Þorsteinn telur árlega lækkun álverðs vera 1–2% til lengri tíma litið og að búast megi við töluverðri lækkun orkuverðs. Hann telur ekki vera nema 50% líkur á að ávöxtunarkrafa náist.
    Sveinn Aðalsteinsson sagði að áliðnaðurinn væri allur að flytjast til þróunarlandanna, Asíu og Afríku. Af þeim sökum yrði álverðið mun lægra í framtíðinni en spár segðu fyrir um.
    Jón Sigurðsson vakti máls á þeim möguleika að áhættan sem falin væri í verkefninu væri ofviða Íslendingum. Ef Reyðarál hætti að geta borgað Landsvirkjun fyrir orkuna mundi Landsvirkjun missa tekjur af verksmiðjunni í einhver ár og síðan væru allar líkur á því að annar aðili tæki við rekstrinum og þvingaði Landsvirkjun til að selja sér orkuna á verulega lægra verði en verið hefði.
    Fulltrúi ASÍ vísaði einkum í ályktun miðstjórnarfundar ASÍ frá 7. nóvember 2001 um virkjana- og stóriðjumál. Þar lýsir miðstjórn ASÍ stuðningi sínum við áform um byggingu álvers við Reyðarfjörð og virkjunarframkvæmdir á Austurlandi og leggur áherslu á að framkvæmdin sé afar mikilvæg fyrir uppbyggingu atvinnu og lífskjara launafólks, bæði á Austurlandi og um landið allt. Miðstjórnin telur engu síður mikilvægt að á byggingartímanum verði tekið tillit til þensluáhrifa framkvæmdanna, en hætta sé á að verðbólga aukist og/eða raungengi hækki vegna umfangs fjárfestingarinnar. Það dregur úr samkeppnishæfni annarra útflutnings- eða samkeppnisgreina. Miðstjórn ASÍ leggur auk þess áherslu á að gert verði ráð fyrir að unnt verði að framleiða um 10–15% meiri orku en stóriðjan krefst og að viðbótarorkunni verði ráðstafað á alþjóðlega samkeppnishæfu verði til uppbyggingar atvinnulífsins. Jafnframt þurfi að styrkja stoðir ýmissa þjónustugreina á svæðinu og stuðla að aukinni fjölbreytni í uppbyggingu atvinnulífsins.
    Verslunarráð Íslands telur fyrirhugaða framkvæmd hagkvæma og lítur svo á að hún muni bæta verulega við áætlaðan hagvöxt. Verslunarráðið telur nauðsynlegt að skoða orkugeirann eins og aðra geira með tilliti til þess hvernig einkaaðilar geti komið þar inn.
    Fulltrúar fjármálaráðuneytis sögðu að reiknað væri með miklum áhrifum verkefnisins til skamms tíma litið og útilokuðu ekki að gripið yrði til mótvægisaðgerða í ríkisfjármálum til að vega upp á móti þeim áhrifum sem verkefnið kynni að hafa. Þeir bentu þó á að efnahagsástandið í landinu á þeim tíma sem ráðist væri í framkvæmdir skipti meira máli almennt séð en beinar mótvægisaðgerðir. Til lengri tíma litið hefði verkefnið jákvæð áhrif á útflutning, viðskiptajöfnuð og hagvöxt í landinu sem mundi leiða til þess að lífskjör í landinu bötnuðu. Þeir bentu á að staða efnahagslífsins til að takast á við framkvæmdirnar væri með besta móti nú. Jafnframt kom fram í máli fulltrúa ráðuneytisins að allar efnahagsforsendur mundu breytast ef ráðist væri í framkvæmdirnar og líklegt væri að grípa þyrfti til mótvægisaðgerða í ríkisfjármálum sem næmu 2–5 milljörðum kr. Til að meta málið í samhengi þyrfti að horfa á allan framkvæmdatímann. Það væri verkefni hagstjórnar að meta stöðuna eftir því sem aðstæður breyttust.
    Fulltrúar lífeyrissjóðanna greindu frá því að fimm lífeyrissjóðir hefðu undanfarið unnið í starfshópi við að meta hversu áhugaverður fjárfestingarkostur álver Reyðaráls væri. Gert væri ráð fyrir því að hlutdeild íslenskra aðila yrði í kringum 50% og þar af kæmi u.þ.b. helmingurinn frá lífeyrissjóðunum, alls um 25%. Þegar að því kæmi að álverið tæki til starfa væri þátttökuframlag hvers lífeyrissjóðs á bilinu 1–1,5% af eignum hvers og eins þeirra. Fulltrúar lífeyrissjóðanna bentu jafnframt á að fjárfesting lífeyrissjóðanna í verkefninu næmi u.þ.b. 10 milljörðum kr. á 6–7 árum, en sjóðirnir hefðu yfir 100 milljarða kr. til ráðstöfunar til fjárfestingar árlega. Um væri að ræða mjög lítinn hluta af heildareignum hvers lífeyrissjóðs og það breytti sáralitlu um fjármagnsmarkaðinn þótt 1–2 milljarðar kr. færu í verkefnið árlega um nokkurra ára skeið.
    Fulltrúi Norðuráls gerði grein fyrir sýn á álverðið til lengri tíma og tók undir þær spár helstu erlendra ráðgjafa og stærstu banka sem lána til byggingar álvera að álverðið yrði í kringum 1.500–1.600 dollara á tonnið til lengri tíma litið. Ástæðan fyrir lægðinni sem nú væri, þar sem álverðið væri í kringum 1.400 dollara á tonnið, væri m.a. efnahagsástandið í Bandaríkjunum. Hann benti einnig á að væntingar manna um álverð yrðu að vera á bilinu 1.550–1.600 dollarar á tonnið, annars væru ný álver ekki byggð. Síaukin eftirspurn væri eftir áli, einkum til nota við bílaframleiðslu, en einnig í byggingarvörur og fleiri vörur. Hann benti jafnframt á að ábyrgð ríkisins á virkjunarframkvæmdum væri mikilvæg þar sem þeir sem lánuðu til framkvæmda horfðu mjög til stuðnings hins opinbera við framkvæmdina. Ríkisábyrgð væri viðbótartrygging fyrir lánveitendur og lækkaði fjármagnskostnað. Varðandi það að áliðnaðurinn væri að miklu leyti að flytjast til þróunarlandanna og Kína benti hann á að ekki væru margir kostir varðandi orkuöflun í Evrópu. Þó væri enn verið að reisa ný álver annars staðar, svo sem í Kanada og Noregi.
    Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar mælir eindregið með samþykkt frumvarpsins á grundvelli þeirra efnahagslegu forsendna sem farið hefur verið yfir. Rök meiri hlutans eru í megindráttum þessi:
    1. Álverið og virkjunin leiða til þess að útflutningur landsmanna eykst verulega og verður um 14% meiri en ella fyrsta áratuginn eftir lok framkvæmda og landsframleiðsla verður árlega u.þ.b. 1,25–1,5% hærri en ella vegna þessarar starfsemi. Þetta er því mikilvægt framlag til hagvaxtar og betri lífskjara í landinu.
    2. Virkjunarframkvæmdir Landsvirkjunar eru mjög líklegar til þess að vera arðsamar fyrir fyrirtækið. Spá Landsvirkjunar um álverð og orkuverð í framtíðinni byggist á því sem almennt gengur og gerist meðal þeirra aðila í heiminum sem taka ákvarðanir um fjárfestingar í álverum eða lánveitingar til þeirra.
    3. Álverið og virkjunarframkvæmdir munu til skemmri og lengri tíma hafa afar jákvæð áhrif á lífskjör og búsetu á Austurlandi en það svæði hefur verið í nokkurri varnarstöðu á undanförnum árum. Það hefur enn fremur mikla þýðingu fyrir landsbyggðina í heild ef sýnt er fram á að atvinnurekstur af þessum toga og þessari stærð geti blómstrað svo langt frá höfuðborgarsvæðinu.
    4. Fjármálaráðuneytið og Seðlabankinn gera sér grein fyrir því að vandi getur skapast vegna umframeftirspurnar í hagkerfinu á framkvæmdatímanum og reikna með því að grípa þurfi til mótvægisaðgerða, svo sem vaxtahækkana eða samdráttar í framkvæmdum ríkisins. Rétt er þó að vekja athygli á því að framkvæmdir á Austurlandi eru líklegar til þess að skapa tiltölulega minni þensluáhrif en ef þær væru nær höfuðborginni þar sem töluverð ónýtt þjónustugeta er á svæðinu og dulið atvinnuleysi vegna hagræðingar í hefðbundnum atvinnugreinum svæðisins og frekari möguleika í þeim efnum.
    5. Það hefur sýnt sig í rekstri annarra álvera hér á landi að hér er þekking og hæfni til þess að ná samfelldum árangri í að auka framleiðni í þessari starfsemi þannig að hún haldi samkeppnishæfni sinni yfir lengri tíma. Þegar upp er staðið stendur og fellur starfsemin með því hvort stjórnendur og annað starfsfólk sem ræðst til starfa í álverinu nær að gera jafnvel eða betur en gerist í öðrum löndum í að auka framleiðni í álvinnslunni eftir að fyrirtækið er komið í rekstur. Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar hefur fullt traust á því að til fyrirtækisins ráðist hæft fólk en það dregur stórlega úr áhættu Landsvirkjunar og þjóðarinnar til lengri tíma.

Alþingi, 12. mars 2002.


F.h. meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis,

Vilhjálmur Egilsson,
formaður.




Fylgiskjal II.


Umsögn 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Afstaða Samfylkingarinnar er að virkjun við Kárahnjúka komi til greina sé eftirfarandi skilyrðum fullnægt. Í fyrsta lagi þarf efnahagslegur ávinningur af virkjun og álveri að vera mikill og ótvíræður. Í öðru lagi þarf að liggja fyrir hverjar þjóðhagslegar afleiðingar fjárfestingarinnar verða og til hvaða mótvægisaðgerða verður gripið til að sporna við óhóflegri þenslu og verðbólgu. Í þriðja lagi er alger forsenda að fyrir liggi stefna stjórnvalda um verndun lands norðan Vatnajökuls, þannig að í kjölfar virkjunar við Kárahnjúka verði ekki ráðist í frekari framkvæmdir sem skaðað geta dýrmætar náttúruperlur norðan jökuls.
    Við skoðun málsins í efnahags- og viðskiptanefnd komu eftirfarandi aðalatriði fram:
    1. Orkuverð er með þeim hætti að sannfærandi rök eru fyrir því að raunarðsemi virkjunarinnar verði 6,3–6,4%. Það er 1% umfram ávöxtunarkröfu verkefnisins. Hlutlaust fyrirtæki, Ráðgjöf og efnahagsspár, gerði sjálfstæða útreikninga út frá öllum helstu áhættuforsendum, þ.e. stofnkostnaði, þróun álverðs, raungengi og orkumarkaði, og komst að sömu niðurstöðu.
    2. Ávöxtun eigin fjár svarar til raunarðsemi upp á 14,5%. Því má gera ráð fyrir að verkið geti greitt upp stofnkostnað og vexti á innan við 30 árum, þó að líftími mannvirkisins sé áætlaður 80–100 ár. Í þeim útreikningum er eigi að síður gert ráð fyrir óbreyttu orkuverði að slepptum samningstíma. Löng reynsla sýnir þó að verðið hækkar þá fremur en lækkar.
    3. Helsti áhættuþátturinn í útreikningum á arðsemi framkvæmdarinnar er þróun álverðs. Landsvirkjun hefur byggt forsendur sínar um álverð á spám virtustu greiningarfyrirtækja sem hafa mikla reynslu af að greina þróun markaðarins. Fulltrúi Noral, sem kom til fundar við nefndina, tók undir þær spár. Hann kvað núverandi lægð, 1.400 bandaríkjadali/tonn, fyrst og fremst stafa af efnahagsástandi í Bandaríkjunum. Það virðist nú aftur á uppleið. Hann taldi líkt og ráðgjafar Landsvirkjunar álverð til lengri tíma verða 1.550–1.600 bandaríkjadali/tonn.
    4. Áhættan af framkvæmdinni er eigi að síður nokkur. Það skiptir því máli að sem minnst áhætta hvíli á herðum innlendra fjárfesta. Því er brýnt að erlend aðild að álverinu sé sem mest og æskilegt að hún verði ekki undir helmingi.
    5. Þjóðhagsstofnun upplýsti að á framkvæmdatíma yrði landsframleiðsla rúmum 2% meiri en ella og þjóðarframleiðsla 1–1,5% meiri. Eftir að framkvæmdum lýkur og virkjun og álver starfa með fullum afköstum mun árlegur útflutningur aukast um 14%, a.m.k. fyrsta áratuginn. Landsframleiðsla gæti til lengdar orðið 1,25–1,5% hærri og þjóðarframleiðsla tæpum 1% meiri.
    6. Á árunum 2002–2013 yrði fjárfesting 12% hærri en annars. Meira en helmingur fjárfestingarinnar fellur hins vegar á árin 2004–2006. Strax eftir 2007/2008 hjaðna framkvæmdir á hinn bóginn ört. Ferill framkvæmdanna gerir því mjög miklar kröfur til hagstjórnar, ef ekki á að bresta á með aukinni verðbólgu og þenslu. Án mótvægisaðgerða mun verðbólga rjúfa 2,5% þolmörk verðbólgumarkmiða Seðlabankans og verða 4–5%.
    7. Seðlabankinn hefur upplýst að verði af framkvæmdum yrði bankanum nauðsynlegt að hækka stýrivexti um 2–2,5% strax á seinni hluta þessa árs. Vextir taki síðan að lækka aftur í þann mund sem framkvæmdir ná hámarki um miðjan áratuginn. Það er á hinn bóginn athyglisvert að fjármálaráðuneytið er á öndverðum meiði við Seðlabankann og telur enga þörf á mótvægisaðgerðum fyrr en árið 2004.
    8. Hækkun stýrivaxta í þeim mæli sem Seðlabankinn hefur reifað mun hafa mjög óhagstæðar afleiðingar í för með sér þar sem hún mun leiða til þess að langtímavextir hækka um 0,5%. Þannig er hægt að halda því fram að Kárahnjúkavirkjun muni tímabundið leiða til neikvæðra áhrifa fyrir lítil fyrirtæki, ekki síst sprotafyrirtæki, sem ekki geta sótt sér vaxtaminna fjármagn erlendis, og fyrir skuldsettar fjölskyldur og húsnæðiskaupendur. Í því sambandi benda fulltrúar Samfylkingarinnar á tillögur flokksins um skattaívilnanir handa smáfyrirtækjum þar sem sérstaklega yrði tekið á hag sprotafyrirtækja.
    9. Í skýrslu Hagfræðistofnunar frá júní 2001 er bent á að áhrif Noral-verkefnisins muni ráðast verulega af efnahagsástandinu þegar framkvæmdir hefjast og því sé brýnt að stjórnvöld móti stefnu sem „tryggir stöðugleika og dregur úr verðhækkunum áður en verkefninu verður hrint í framkvæmd. Að auki verða stjórnvöld að vera búin að ákveða til hvaða aðgerða skuli gripið á framkvæmdatímanum til að freista þess að stemma stigu við vaxandi verðbólgu og þenslu.“ Fulltrúar Samfylkingarinnar telja því brýnt að áður en málið er endanlega afgreitt frá Alþingi verði þinginu gerð grein fyrir mótvægisaðgerðum sem nauðsynlegt er að grípa til vegna framkvæmdanna.
    Niðurstaða okkar er sú að þær upplýsingar sem liggja fyrir um arðsemi framkvæmdarinnar sýni að ávinningurinn af henni er mikill og ótvíræður. Allt bendir til að framkvæmdin gæti til frambúðar haft jákvæð áhrif á kaupmátt og lífskjör Íslendinga og almennt á samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Áhættan af framkvæmdinni er eigi að síður allnokkur og því telja fulltrúar Samfylkingarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd æskilegt að erlend fjárfesting verði sem mest og ekki undir helmingi. Fjárfestingaferillinn gerir hins vegar kröfur til skarpra aðgerða á sviði hagstjórnar sem tímabundið geta haft neikvæð áhrif á vaxtakjör fjölskyldna og smærri fyrirtækja. Þótt jákvæð langtímaáhrif af framkvæmdinni vegi þau að sönnu upp með tímanum hvílir sú skylda á ríkisstjórninni að grípa til mótvægisaðgerða sem geta dregið úr nauðsyn vaxtahækkunar.
    Fulltrúar Samfylkingarinnar vilja taka skýrt fram að þótt arðsemi framkvæmdarinnar sé góð og jákvæð langtímaáhrif hennar á lífskjör þjóðarinnar vegi upp neikvæð skammtímaáhrif sem birtast í vaxtahækkun og afföllum á húsbréfum sé ekki hægt að taka endanlega afstöðu til framkvæmdarinnar fyrr en búið er að skýra afstöðu meiri hlutans í þinginu til verndar svæðanna sem ósnortin verða norðan Vatnajökuls að loknum framkvæmdum.



Fylgiskjal III.


Umsögn 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Í ljósi þess að mjög alvarleg varnaðarorð hafa komið fram um grundvöll þann sem áætlanir Landsvirkjunar byggjast á hvað varðar álverð á komandi árum og áratugum og áætlaðan byggingarkostnað Kárahnjúkavirkjunar og óvissu henni tengd vegna mjög viðamikilla jarðganga og stíflugerðar, auk mótvægisaðgerða til verndar náttúru svæðisins, er hér með lagt til að forsendur arðsemisútreikninga Landsvirkjunar verði ítarlega endurskoðaðar. Jafnframt verði leitað enn frekari upplýsinga til viðbótar þeim sem að undanförnu hafa borist um ástand á álmörkuðum og framtíðarhorfur í áliðnaði heimsins.
    Í umræðum á fundum efnahags- og viðskiptanefndar vegna fyrirhugaðrar Kárahnjúkavirkjunar með fulltrúa Landsvirkjunar, embættismönnum frá Þjóðhagsstofnun, Seðlabanka og Hagfræðistofnunar HÍ, auk fulltrúa atvinnulífsins, ASÍ og nokkurra óháðra aðila, kom mjög greinilega fram að opinberar stofnanir leggja til grundvallar sínum umsögnum í einu og öllu áætlanir Landsvirkjunar.
    Í umsögn Seðlabankans kemur fram að um sé að ræða stærstu fjárfestingu í raforkukerfi landsmanna í sögu þjóðarinnar sem óhjákvæmilega snerti margvísleg svið, svo sem atvinnumál, umhverfismál, arðsemi og áhættu fjárfestingar Landsvirkjunar, byggðamál, ríkisábyrgðir og fjárhagslegt skipulag í tengslum við áhættufjárfestingu í raforkukerfinu og tengdri stóriðju, þjóðarbú og hagstjórn. Jafnframt að þar sem ekki hafi tekist í tíma að fá aðgang að öllum gögnum sem nauðsynleg eru til að leggja sjálfstætt mat á áhrif verkefnisins byggist álit bankans í veigamiklum atriðum á athugunum Þjóðhagsstofnunar á þjóðhagslegum áhrifum Noral-verkefnisins. Seðlabankinn leggur á þessu stigi ekkert mat á þessar niðurstöður. Hann tekur þær einfaldlega sem gefnar sem undirstöður undir mat sitt á því hvaða áhrif verkefnið kann að hafa á peningastefnuna, vexti, gengi og aðra þá þætti sem snerta bankann. Seðlabankinn virðist ekki líta á það sem hlutverk sitt að taka afstöðu til málsins í heild enda eru margir þættir þess utan verksviðs hans. Það sé fyrst og fremst verksvið þeirra sem standa að byggingu álverksmiðju á Reyðarfirði að taka ákvörðun um hvort þeir vilji ráðast í verkefnið í ljósi væntanlegrar ávöxtunar og áhættu. Með sama hætti yrði það viðfangsefni þeirra sem fá það hlutverk að selja álverinu raforku að meta hvort arðsemi og áhætta verður verjanleg. Alþingi yrði að meta hvort veita beri málinu brautargengi þar sem vegnir yrðu saman hugsanlegur ávinningur í hærri þjóðartekjum og byggðarþróun og hugsanleg þjóðhagsleg áhætta og neikvæð umhverfisáhrif. Seðlabankinn bendir hins vegar á að rök kunni að vera til að skoða hvort ekki sé unnt að takmarka áhættu almennings af verkefninu með því að takmarka með einhverjum hætti þær ábyrgðir opinberra aðila sem verða á lánsfjáröflun til orkuframkvæmda að öðru óbreyttu. Seðlabankinn hefur almennt verið á móti víðtækri notkun ríkisábyrgða í áhætturekstri og fjármálastarfsemi enda geta þær skekkt áhættumat og samkeppnisstöðu.
    Í mati Seðlabankans er byggt á úttekt Þjóðhagsstofnunar sem er fylgiskjal með frumvarpinu. Seðlabankinn segir enn fremur: „Ekki er reiknað með neinum mótvægisaðgerðum í rískisfjármálum. Leggja verður ríka áherslu á að matið er mikilli óvissu háð og aðeins til viðmiðunar. Ástandið getur að verulegu leyti ráðist af ástandi þjóðarbúskaparins þegar framkvæmdir hefjast og öðrum ytri áhrifum sem þjóðarbúið verður fyrir meðan á þeim stendur… Einn stærsti óvissuþátturinn sem tengist framkvæmdunum er áhrif þeirra á gengi krónunnar. Í þeim framreikningi Þjóðhagsstofnunar sem hér er stuðst við er reiknað með óbreyttu gengi krónunnar. Allar niðurstöður hér á eftir verður að skoða í ljósi þess. Sennilegt er að umtalsverðar gengisbreytingar verði fylgifiskur framkvæmdanna, þótt erfitt sé að sjá þær nákvæmlega fyrir, hvað þá að tímasetja þær … Seðlabankinn mun vinna að því að verðbólga verði sem næst 2½% á ári. Framkvæmdirnar munu því krefjast aukins aðhalds peningastefnunnar áður en og meðan þær eru sem mestar…“ Fram kemur hjá Seðlabankanum að gera megi ráð fyrir 2½% hækkun vaxta við upphaf framkvæmda.
    Vegna þessarar fyrirhuguðu vaxtahækkunar Seðlabankans, ef af virkjunar- og álversframkvæmdum verður, er ljóst að um svokallaðar ruðningsaðgerðir verður að ræða. Með hugtakinu „ruðningsaðgerðir“ er átt við að þeim fyrirtækjum sem veikast standa yrði einfaldlega rutt úr vegi. Þetta á ekki hvað síst við um svokölluð „sprotafyrirtæki“ sem geta skapað arðsöm störf til framtíðar litið ef þau fá tíma og aðstæður til að vaxa úr grasi. Þannig mundi þessi einstaka risaframkvæmd, ef af yrði, ryðja úr vegi mörgum fyrirtækjum sem annars gætu vaxið og dafnað. Samdráttur í opinberum framkvæmdum einn og sér nægði engan veginn til að vega á móti þeim miklu framkvæmdum tengdum álveri sem hér um ræðir. Til viðbótar þessu kæmu síðan auknar álögur á almenning í formi mikilla vaxtahækkana, auk þess að mjög hæpið verður að teljast að markmið Seðlabankans um 2½% verðbólgu á ári náist á sama tíma og á slíkri risaframkvæmd stæði, sem með margvíslegum hætti mundi hafa mjög mikil áhrif til spennuaukningar í hagkerfinu.
    Á framangreindum fundum komu fram athyglisverðar upplýsingar um þróun álframleiðslu og hvernig hún færist í síauknum mæli til iðnþróunarþjóðanna, ekki hvað síst til Kína. Þannig er nú áætlað að Kína, sem að undanförnu hefur verið stærsti álinnflytjandi heims, verði að 3–5 árum liðnum orðið að nettó-útflutningslandi á áli. Þessar viðamiklu breytingar hafa mjög mikil áhrif á þróun álverðs til framtíðar litið. Í sambandi við álverð og álverðsþróun væri vert að fá upplýsingar um hvað helstu sérfræðingar heims hafi gert ráð fyrir að álverð væri um þessar mundir, þegar fyrir 2–3 árum var verið að leggja grunn að þeim útreikningum sem nú er stuðst við.
    Órjúfandi tengsl eru á milli ákvörðunar um byggingu Kárahnjúkavirkjunar og byggingu álverksmiðju og tilheyrandi kolskautaverksmiðju. Í því sambandi væri mjög mikilvægt að fram kæmi við hvaða álverð væri áætlað að væntanleg Reyðarálsverksmiðja væri rekin á „núlli“.
    Vegna þeirra frétta er nú berast um að Norsk Hydro hafi gefið íslenskum stjórnvöldum til kynna að fyrirtækið geti ekki staðið við þann tímaramma sem ráð var fyrir gert vegna fyrirhugaðra framkvæmda við álver í Reyðarfirði og jafnframt sé það ekki tilbúið að ganga frá nýrri tímaáætlun er sjálfgert að fresta málinu af hálfu Alþingis meðan frekari gagna er aflað og hætta öllum frekari undirbúningi framkvæmda vegna Kárahnjúkavirkjunar að sinni.

Alþingi, 18. mars 2002.



Ögmundur Jónasson.




Fylgiskjal IV.


Umsögn meiri hluta umhverfisnefndar.


    Umhverfisnefnd hefur fjallað um málið í samræmi við bréf iðnaðarnefndar frá 20. f.m. og fengið á sinn fund Stefán Thors frá Skipulagsstofnun ríkisins, Árna Bragason frá Náttúruvernd ríkisins og Magnús Jóhannesson og Sigríði A. Arnardóttur frá umhverfisráðuneyti.
    Um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal hefur verið unnið mat á umhverfisáhrifum og eftir kæruferli hafa Skipulagsstofnun og umhverfisráðherra fellt úrskurði, samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Meiri hluti nefndarinnar gerir ekki athugasemd við þessa málsmeðferð. Þá telur meiri hlutinn að skilyrði þau sem sett hafa verið fyrir framkvæmdinni í úrskurði umhverfisráðherra séu mjög til bóta og telur brýnt að skýrt verði kveðið á um þau þegar að útgáfu virkjunarleyfis kemur.
    Meiri hlutinn áréttar ákvæði 2. gr. frumvarpsins sem kveður á um að iðnaðarráðherra veiti ekki leyfi til framkvæmda við stækkun Kröfluvirkjunarinnar í allt að 220 MW, ásamt aðalorkuveitum, nema fyrir liggi mat á umhverfisáhrifum framkvæmda samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum.
    Ásta Möller var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 14. mars 2002.

Magnús Stefánsson, form.
Kristján Pálsson.
Gunnar Birgisson.
Jónas Hallgrímsson.
Katrín Fjeldsted,
með fyrirvara.




Fylgiskjal V.


Umsögn 1. minni hluta umhverfisnefndar.


    Undirrituð telja að eftir að Skipulagsstofnun felldi úrskurð sinn um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Kárahnjúkavirkjunar 1. ágúst 2001 og sá úrskurður var kærður til umhverfisráðherra á grundvelli laganna um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, hafi ráðherrann átt um tvo kosti að velja. Að taka kæruna eins og hann gerði til umfjöllunar með því að gangast fyrir einhvers konar framhaldsmati byggðu að einhverju leyti á nýjum upplýsingum. Ellegar að senda málið aftur til umfjöllunar Skipulagsstofnunar sem þá hefði fengið hin nýju rannsóknagögn í hendur og getað kveðið upp nýjan úrskurð.
    Við berum ekki brigður á lögmæti þess ferlis sem umhverfisráðherra ákvað að setja málið í, enda liggur því til grundvallar lögfræðiálit Eiríks Tómassonar, þar sem færð eru rök fyrir niðurstöðu ráðherrans. Það er hins vegar okkar skoðun að sá kostur sem ráðherrann valdi verði að teljast stjórnsýslulega hæpinn vegna þess að hinn endanlegi úrskurðaraðili, þ.e. umhverfisráðherrann, ber ábyrgð á umhverfismatsferlinu sjálfu og þeim vinnubrögðum sem við það er beitt. Þar með ber ráðherrann og ráðuneytið, sé þessi leið valin, ábyrgð á einstökum niðurstöðum úr matsferlinu. Þetta rýrir trúverðugleika ráðuneytisins og ráðherrans og kallar fram efasemdir um það hvort málsmeðferðin standist stjórnsýslulega og hvort hún standist alþjóðlegar skuldbindingar okkar í umhverfismálum.
    Ákjósanlegra hefði verið að umhverfismat byggt á nýjustu upplýsingum hefði verið í höndum Skipulagsstofnunar. Þó skal það tekið fram að skilyrðin sem umhverfisráðherra setti í úrskurði sínum 20. desember sl. eru til bóta.
    Ljóst er að lögin um mat á umhverfisáhrifum þarfnast endurskoðunar með tilliti til þess hvernig skuli fara með kærur til ráðherra vegna úrskurða Skipulagsstofnunar.

Jóhann Ársælsson.
Þórunn Sveinbjarnardóttir.




Fylgiskjal VI.


Umsögn 2. minni hluta umhverfisnefndar.


    „Allt þetta ofbeldi manns á náttúru: Sjá ég er herra sköpunarverksins, vötnin skulu ekki ná að frjósa gegn vilja mínum, sjálfur skal ég ráða hvar skógar vaxa og akrar spretta, vilji dýrin fá hlutdeild í þeirri veröld sem ég ræð, þá skal það allt á mínum forsendum, standi fjöllin í vegi mínum ryð ég þeim burt, streymi fljótin móti þörf minni sný ég þeim aftur að uppsprettunum. [….] Flestir kalla þetta framfarir. Ég kalla það ofbeldi. Ofbeldi manns á náttúru. Það er náskylt ofbeldi manns á manni og situr til borðs með sorginni.“
Lífsins tré eftir Böðvar Guðmundsson.


Tímapressa og áhugaleysi.
    Það er álit 2. minni hluta að áhugaleysi meiri hlutans hafi orðið til þess að málið var ekki skoðað til hlítar af nefndinni. Málið var einungis á dagskrá tveggja funda nefndarinnar og eingöngu voru þrír aðilar kallaðir fyrir nefndina. Ekki var áhugi fyrir því að fara sameiginlega yfir umsagnir þær sem iðnaðarnefnd bárust heldur var ákveðið að nefndarmönnum væri í sjálfsvald sett með hvaða hætti þeir kynntu sér framkomnar umsagnir. Meiri hlutinn taldi ekki ástæðu til að fara yfir skýrslu þá sem samin var í nafni umsjónarnefndar verkefnisstjórnar rammaáætlunar um mat á gildi lands norðan Vatnajökuls fyrir náttúruvernd og þjóðgarð. Þá var ekki áhugi fyrir því hjá meiri hlutanum að kalla til fleiri sérfróða gesti um málefnið þó að í orði kveðnu hafi nefndarmönnum verið gefinn kostur á slíku. Það er mat 2. minni hluta að hér sé um svo viðamikið mál að ræða að frestur sá sem gefinn var til umfjöllunar um málið hafi verið skammarlega stuttur og að umhverfisnefnd hafi í ljósi þess ekki lagt meira á sig við umfjöllunina en raun ber vitni.

Takmörkuð auðlind.
    Orkan í fallvötnum landsins er takmörkuð auðlind. Í umsögn Orkustofnunar frá í febrúar 2002, sem fylgir frumvarpinu, kemur fram að lengi hafi verið talið að framleiða megi 50 TWh/a af raforku, 30 með vatnsafli og 20 með jarðgufu. Það er alkunna að kröfurnar um varúð í umhverfismálum fara stöðugt vaxandi og hafa breyst mikið á fáum árum. Í ljósi þess má ætla að það sem lengi hefur verið talið ásættanlegt að virkja af vatnsafli að teknu tilliti til umhverfisþátta sé minna í dag en fyrir áratug. Auk þess ber að minna á að fullyrðing Orkustofnunar byggist eingöngu á lauslegu mati stofnunarinnar en ekki á vísindalegri úttekt á borð við þá sem nú er unnið að undir merkjum rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Það er því mat 2. minni hluta að stjórnvöld setji stefnu sína í stóriðjumálum fram með þeim hætti að þjóðinni sé talin trú um að virkjanlegt vatnsafl sé meira en hægt verður að fallast á með nokkurri sanngirni út frá umhverfissjónarmiðum. Enda kemur fram í umsögn Orkustofnunar, sem fylgir frumvarpinu, að raforkuþörf hins almenna markaðar auk stóriðjuáforma þeirra sem nú virðast í pípunum sé rúmar 22 TWh/a.

Rammaáætlun til málamynda.
    Það er nöturleg staðreynd að ríkisstjórnin skuli leggja fram frumvarp til laga um virkjun á borð við Kárahnjúkavirkjun og gífurlega stækkun Kröfluvirkjunar áður en fyrir liggur endanleg niðurstaða úr verkefni því sem ríkisstjórnin setti sjálf á laggirnar árið 1997, rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Á heimasíðu rammaáætlunarinnar má lesa eftirfarandi tilvitnun í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar um sjálfbæra þróun til aldamóta: Iðnaðarráðherra, í samráði við umhverfisráðherra, láti gera rammaáætlun til langs tíma um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og skal henni lokið fyrir árið 2000. Áætlunin sé í samræmi við samhæfða stefnu í umhverfis-, orku-, iðnaðar- og efnahagsmálum. Í henni verði sérstaklega fjallað um verndargildi einstakra vatnasvæða og niðurstöður færðar að skipulagi. Í því sambandi verði sérstaklega könnuð áhrif smárra virkjana.
    Það kom í ljós strax í upphafi að verkið yrði mun umfangsmeira og tímafrekara en ríkisstjórnin hefði óskað sér. Þannig lá það fyrir haustið 1999 að fara þyrfti yfir rúmlega 60 mögulegar hugmyndir að vatnsaflsvirkjunum og um 30 hugmyndir að jarðvarmavirkjunum og áður en vinnan hófst gerði verkefnisstjórnin sér vonir um að af þessum hugmyndum yrði hægt að ljúka vinnu við 25 hugmyndir sem kynntar yrðu haustið 2002. Þetta hefur ekki gengið eftir og nú er svo komið að iðnaðarráðherra hefur lagt hart að verkefnisstjórninni að skila einhvers konar „tilraunamati“ í haust á virkjanakostum á miðhálendi Íslands. Slík krafa gerir það eitt að rýra trúverðugleika verkefnisins og staðfesta það mat 2. minni hluta að verið sé að breyta öflugu tæki til áætlanagerðar í sýndarmennsku og málamyndaáætlun.

Ekkert gert með mat á þjóðgarðshugmyndinni.
    Fyrir þrýsting frá umhverfis- og náttúruverndarsamtökum og frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði varð iðnaðarráðherra við beiðni umhverfisráðherra (bréf dags. 21. september 2000) um að fela verkefnisstjórn rammaáætlunar að leggja sérstakt mat á gildi lands norðan Vatnajökuls fyrir náttúruvernd og þjóðgarð. Hinn 19. maí 2001 var dreift á Alþingi svari iðnaðarráðherra við spurningu Kolbrúnar Halldórsdóttur um þetta mat. Í svarinu kemur í ljós sú ætlun/von ráðherrans að mat þetta ætti að geta legið fyrir á sama tíma og skýrsla Landsvirkjunar um umhverfisáhrif Kárahnjúkavirkjunar, þ.e. í maí 2001. Svo fór þó ekki, heldur var ráðherranum afhent skýrsla umsjónarnefndar verkefnisstjórnarinnar um mat á gildi lands norðan Vatnajökuls fyrir náttúruvernd og þjóðgarð ásamt greinargerð Þjóðhagsstofnunar um efnahagslegt umfang þjóðgarðs norðan Vatnajökuls 9. október 2001. Í því kemur fram að verndar- og útivistargildi lands norðan Vatnajökuls gefur fullt tilefni til að þar verði stofnaður þjóðgarður í tengslum við væntanlegan Vatnajökulsþjóðgarð og að hann mundi auka vinnsluvirði þeirra tekna sem þjóðin hefur af ferðaþjónustu. Þar kemur einnig fram að ef til Kárahnjúkavirkjunar kæmi mundi hún rýra verndar- og útivistargildi svæðisins. Mat þetta hefur aldrei verið kynnt. Það er mat 2. minni hluta að vinnubrögð af þessu tagi séu fyrir neðan allar hellur og skammarlegt að mat þetta skuli ekki hafa verið formlega kynnt Alþingi eða þeim aðilum sem upphaflega gerðu kröfu um að það færi fram. Það er mat 2. minni hluta að Alþingi beri skylda til að bera saman þessa tvo ólíku kosti til landnýtingar á svæðinu norðan Vatnajökuls og ekkert réttlæti það að ákvörðun verði tekin um Kárahnjúkavirkjun áður en vitað er hverju menn eru að hafna með því.

Auðlindastefna ekki til staðar.
    Í skýrslu auðlindanefndar (september 2000) er gerð ítarleg grein fyrir þeirri skoðun nefndarinnar að móta beri stefnu varðandi auðlindarentu sem nýting vatnsafls í eigu þjóðarinnar skapar (sjá álitsgerð nefndarinnar, bls. 55–61), enda sé orka fallvatnanna ein helsta auðlind þjóðarinnar. 2. minni hluti gagnrýnir harðlega að álit auðlindanefndarinnar hvað þetta varðar skuli ekki hafa verið tekið til sérstakrar umfjöllunar í tengslum við frumvarpið sem hér um ræðir. Þá gagnrýnir 2. minni hluti að ekki skuli hafa verið gerð nein tilraun til þess af stjórnvöldum að láta meta verðgildi þess lands sem ljóst er að muni tapast og eyðileggjast við væntanlegar framkvæmdir.
    Í skýrslu auðlindanefndar (bls. 70) er það álit nefndarinnar ítrekað að til að ákvarða fjárhæð eða hlutfall auðlindaskatts sé nauðsynlegt að framkvæma yfirgripsmikið mat á þeim verðmætum sem um er að tefla, ekki síst umhverfisverðmætum, og eru nefndar í því sambandi tvær af aðferðum hagfræðinnar til að mæla slík verðmæti, annars vegar skilyrt verðmætamat („contingent valuation“) og hins vegar ánægjuverð („hedonic prices“). Þá vill 2. minni hluti benda á það að Nele Linehoop, sem stundar nám í umhverfishagfræði við Háskólann í Aberdeen, Skotlandi, hefur beitt aðferðum skilyrts verðmætamats á náttúruverðmæti þess svæðis sem tapast mundi við Hálslón og komist að þeirri niðurstöðu að verðgildi landsins sem þar fer undir vatn sé tæpar 400 millj. kr. (sjá grein í Glettingi, 11. árg., 2.–3. tbl. 2001). Af þessu dregur 2. minni hluti þá ályktun að verði allt það landsvæði sem skaðast mundi við væntanlegar framkvæmdir reiknað til verðgildis með sömu aðferðum og það síðan tekið til greina í heildarkostnaðarábatagreiningu verkefnisins gætu framkvæmdirnar aldrei talist hagkvæmar.

Ekkert bólar á átaki til orkusparnaðar.
    Þá gagnrýnir 2. minni hluti einnig að ekki skuli bóla á átaki til orkusparnaðar sem stjórnvöld hafa boðað í samþykktri framkvæmdaáætlun um sjálfbæra þróun til andamóta. Þá er rétt að benda á þann seinagang sem einkennt hefur áframhaldandi vinnu við slíka stefnumörkun. Á umhverfisþingi sem haldið var í janúar 2001 lagði umhverfisráðherra fram drög að stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um sjálfbæra þróun á nýrri öld (2001–2020). Ekkert virðist þeirri vinnu hafa miðað áfram þar sem ekki er annað að hafa á heimasíðu umhverfisráðuneytisins varðandi þá stefnumörkun en drögin sem hafa lúrt þar óbreytt í á annað ár. Í drögunum má líka sjá að umhverfisráðherra hefur gleymt öllum hugmyndum um átak til orkusparnaðar sem fjallað var um í eldri stefnumörkun. Einnig er ljóst á drögunum að hagsmunir og sjónarmið orkuvinnslufyrirtækja eiga að vera leiðarljós ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum á nýrri öld en ekki sjónarmið náttúruverndar. 2. minni hluti telur slík sjónarmið einkennandi fyrir alla meðferð og umfjöllun um frumvarp um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar.

Umhverfismat á forræði umhverfisráðherra.
    Annar minni hluti hefur gagnrýnt þá ákvörðun umhverfisráðherra að efna til framhalds-umhverfismats á eigin forræði og talið að slíkt samrýmist ekki lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Þannig kaus ráðherrann að fjalla efnislega um umhverfisþætti málsins eftir að 122 aðilar höfðu kært úrskurð Skipulagsstofnunar til ráðherra í stað þess að fjalla um kærurnar á grundvelli þeirra gagna sem fyrir Skipulagsstofnun lágu og voru grundvöllur úrskurðar stofnunarinnar. Engin fordæmi eru fyrir matsferli af þessu tagi og engir forskrift um slíkt viðbótarmat í lögum um mat á umhverfisáhrifum. Þá ber að mati 2. minni hluta einnig að líta til þess við endanlega ákvörðun um framkvæmdirnar að í úrskurði sínum andmælir ráðherrann ekki efnislega rökstuðningi Skipulagsstofnunar eða lýsir sig ósammála málefnalegum rökum stofnunarinnar um neikvæð óafturkræf umhverfisáhrif. Þvert á móti tekur umhverfisráðherra undir og jafnvel vísar til röksemda Skipulagsstofnunar.
    Í þessu ljósi telur 2. minni hluti stórfurðulegt að mat umhverfisráðherrans skuli vera að heimila skuli virkjunina, þrátt fyrir gífurleg óafturkræf umhverfisáhrif hennar, jafnvel eftir að meginréttlætingu framkvæmdaraðila, meintum efnahagslegum ávinningi, hefur verið kippt undan matinu. Það er mat 2. minni hluta að úrskurður umhverfisráðherra sé pólitískur úrskurður en ekki málefnalegur og hann gangi gegn markmiðum alþjóðasamninga og tilskipana sem lög um mat á umhverfisáhrifum byggjast á.

Landsvirkjun tók áhættuna.
    Það kom fram í máli skipulagsstjóra þegar hann kom fyrir nefndina að Landsvirkjun hefði verið fullkunnugt um sjónarmið Skipulagsstofnunar varðandi skort á gögnum um mögulegar mótvægisaðgerðir vegna áfoks og jarðvegsrofs við Hálslón og hefði gert kröfu um að matsskýrslan yrði auglýst þrátt fyrir að þessi gögn skorti. Með því er augljóst að Landsvirkjun tók þá áhættu að í úrskurði Skipulagsstofnunar yrði krafist frekari gagna. Þegar þetta er ljóst verður allur málatilbúnaður Landsvirkjunar í kringum þetta atriði hinn fáránlegasti (sjá einnig grein Hreins Loftssonar í Mbl. 25. ágúst 2001). Það er mat 2. minni hluta að Landsvirkjun hefði mátt vita að krafist yrði frekari gagna um mótvægisaðgerðir og að umhverfisráðherra hefði á grundvelli þess hversu mikið af gögnum barst í kæruferlinu haft fulla ástæðu til að vísa málinu aftur á byrjunarreit. Það kom fram í máli fulltrúa umhverfisráðuneytisins sem kom fyrir nefndina að slíkt hefði að öllum líkindum tafið málið um of og auk þess hefðu starfsmenn umhverfisráðuneytisins talið sér skylt að rannsaka fram komin viðbótargögn og rannsaka vel alla þætti málsins á grundvelli lögfræðiálits Eiríks Tómassonar. 2. minni hluti gagnrýnir það að ekki skyldu kallaðir til fleiri aðilar en Eiríkur Tómasson til að skera úr um það hvers konar meðferð viðbótargögnin ættu að fá í ráðuneytinu.

Mat Náttúruverndar ríkisins.
    Árni Bragason, forstöðumaður Náttúruverndar ríkisins, kom á fund nefndarinnar og í máli hans kom fram gagnrýni á það að ekki skyldi vera gert ráð fyrir því í frumvarpi iðnaðarráðherra að framkvæmdaraðila yrði skylt að fara eftir skilyrðunum í úrskurði umhverfisráðherra yrði af framkvæmdum. Sömuleiðis mótmælti Árni ummælum í greinargerð Orkustofnunar, sem fyrr er getið og fylgir frumvarpinu, um að erfitt sé að meta Kárahnjúkavirkjun inn í rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma (bls. 18). Árni telur fullkomlega eðlilegt að Kárahnjúkavirkjun verði metin með öðrum virkjanakostum í rammaáætluninni. Þá lýsti Árni sig einnig ósammála niðurstöðu Orkustofnunar í 7. kafla í greinargerðinni þar sem fjallað er um mögulega sambúð friðlanda og virkjana á svæðinu norðan Vatnajökuls. 2. minni hluti tekur undir sjónarmið Náttúruverndar ríkisins sem koma skýrt fram í skriflegri umsögn stofnunarinnar til nefndarinnar (1. mars 2002).

Kröfluvirkjun.
    Sá hluti frumvarpsins sem fjallar um Kröfluvirkjun er eðli málsins samkvæmt harla rýr, enda hefur ekki farið fram mat á umhverfisáhrifum þeirrar stækkunar sem um er rætt. 2. minni hluti tekur undir sjónarmið þau sem koma fram í umsögnum Náttúruverndar ríkisins, Landverndar og SUNN, Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi. Þessir aðilar benda á að samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum megi ekki gefa út leyfi fyrir framkvæmd fyrr en úrskurður um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir (1. gr). Þá er þess einnig getið í umsögnum þessara aðila að um Kröfluvirkjun beri að fjalla á vettvangi rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og tekur 2. minni hluti undir varnaðarorð SUNN vegna mögulegs umhverfisskaða ef borað verður á viðkvæmu svæði vestan undir Leirhnjúk og í hrauni frá Mývatnseldum. 2. minni hluti telur að fresta beri leyfisveitingum um stækkun Kröfluvirkjunar þar til farið hefur fram mat á umhverfisáhrifum slíkrar stækkunar. Þá er einnig full ástæða til að benda á að Kröflusvæðið er friðlýst samkvæmt lögum.

Álitsgerð NAUST o.fl.
    Í umsögn Náttúruverndarsamtaka Austurlands er gerð krafa um að mótvægisaðgerðir vegna áfoks við Hálslón og Kárahnjúkavegur sæti sjálfstæðu mati á umhverfisáhrifum, enda sé hér um að ræða viðamiklar framkvæmdir sem ekki hafi verið metnar á sama hátt og aðrir þættir sem tengjast framkvæmdum Kárahnjúkavirkjunar. 2. minni hluti tekur undir þessi sjónarmið og vísar í því sambandi til umsagnar Skipulagsstofnunar um kærur við úrskurð Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar (bls. 9), en þar eru ummæli sem styðja þessi sjónarmið NAUST. Þá tekur 2. minni hluti jafnframt undir áhyggjur NAUST vegna áhættu af áhrifum flóða í Jökulsá á Dal (m.a. vegna jökulhlaupa) á hugmynd umhverfisráðherra um breytt fyrirkomulag á yfirfalli úr Hálslóni og telur 2. minni hluti hér vera um að ræða atriði sem óljóst sé hvernig verði í framkvæmd. Er þetta atriði til marks um það hversu óljós áhrifin eru af þeim framkvæmdum sem umhverfisráðherra fjallaði um í viðbótarmati sínu. Þá vekur NAUST athygli á því að ekki hafi verið gefnar neinar skýringar á misvísandi upplýsingum um virkjað rennsli í fyrri áfanga Kárahnjúkavirkjunar. Í athugasemdum með frumvarpinu (bls. 8) kemur fram að í fyrri áfanga verði virkjað 120 rúmmetra rennsli á sekúndu, en í matsskýrslu Landsvirkjunar (bls. 4) er gert ráð fyrir að í fyrri áfanga verði virkjað 90 rúmmetra rennsli á sekúndu. Í sama streng tekur Landvernd í sinni umsögn.

Álit Landverndar.
    Í umsögn Landverndar er tekið undir með Náttúruvernd ríkisins, SUNN og NAUST varðandi þá umhverfisþætti sem getið er hér að framan og lúta að stækkun Kröfluvirkjunar. Að öðru leyti fjallar umsögn Landverndar um jarðminjar, áfok, endurheimt gróðurs, hönnun virkjunarinnar, virkjunarleyfi og efnahagsmálin. Hún hefur að geyma þarfar áminningar til þingmanna sem undirstrika það álit 2. minni hluta að með áformum um Kárahnjúkavirkjun og álver á Austurlandi séu stjórnvöld að tjalda til einnar nætur og láti undir höfuð leggjast að gera áætlanir til langs tíma. Á vegum Landverndar fór fram öflug rýni fjölmargra sérfræðinga í matsskýrslur Landsvirkjunar og Reyðaráls sumarið 2001. Afrakstur þeirrar vinnu hefur verið gefinn út í skýrslu sem fylgdi umsögninni til þingnefnda. Niðurstaða þeirrar skoðunar var sú að umhverfisáhrif Kárahnjúkavirkjunar væru umtalsverð og óafturkræf. 2. minni hluti tekur undir þá niðurstöðu og leggur áherslu á að það er sama niðurstaða og matsskýrsla Landsvirkjunar leiddi í ljós og varð sömuleiðis niðurstaða Skipulagsstofnunar.

Kárahnjúkavirkjun er ekki sjálfbær.
    Það hefur komið fram í umfjöllun um málið að Kárahnjúkavirkjun fullnægi ekki skilyrðum sem nauðsynleg eru til að hún geti talist sjálfbær og að hægt sé að tala um að hún sé í sátt við umhverfið. 2. minni hluti mótmælir þeirri túlkun stjórnvalda að hér sé verið að nýta endurnýjanlegar auðlindir þjóðarinnar á sjálfbæran hátt. Sannleikurinn er sá að með tímanum fyllist Hálslón af aur og gert er ráð fyrir að eftir 100 ár verði afkastageta virkjunarinnar orðin verulega skert. Á endanum hættir lónið að geta tekið við vatnsforða vegna aursöfnunar. Þegar svo verður komið verður sjálfhætt allri raforkuframleiðslu Kárahnjúkavirkjunar. Ekki liggja fyrir nákvæmir útreikningar um það á hve löngum tíma þetta gerist, en ekki er því mótmælt að þessi verði endirinn. Þá hefur einnig verið á það bent að hraðari bráðnun Vatnajökuls í seinni tíð gæti mögulega haft áhrif á vatnsbúskap eða rennsli jökulvatnanna norðan hans. Í viðtali í Fréttablaðinu 21. janúar 2002 var upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar inntur eftir því hvort utanaðkomandi áhrif af þessu tagi gætu ekki sett strik í reikninga Landsvirkjunar. Hann taldi svo ekki vera þar sem Landsvirkjun miðaði við að vera búin að greiða virkjunina upp á 40 árum. Í tilefni af þessu svari varpar 2. minni hluti fram þeirri spurningu til iðnaðarnefndar hvort ekki sé þá rétt að gera kröfu um að inn í stofnkostnað virkjunarinnar verði settur sá kostnaður sem hlytist af niðurrifi hennar og allra mannvirkja sem henni tengjast auk kostnaðar við að færa náttúru landsins aftur til fyrra horfs.

Lokaorð.
    Í umsögnum nokkurra aðila kom fram gagnrýni á 4. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Það er skoðun 2. minni hluta að stytta beri tímamörkin verði frumvarpið að lögum og áskilur sér rétt til að leggja fram breytingartillögu þess efnis komi málið til áframhaldandi umfjöllunar á þessu löggjafarþingi. Í ljósi fréttaflutnings af mögulegu bakslagi í framkvæmdahug Norsk Hydro telur 2. minni hluti að fresta beri afgreiðslu þessa frumvarps þar sem engin glóra hefur hingað til verið talin vera í því ráðslagi að samþykkja virkjunarleyfi fyrir stórvirkjanir sem hafa engan tryggan orkukaupanda.

Reykjavík, 16. mars 2002.

Kolbrún Halldórsdóttir.