Ferill 493. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1011  —  493. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórhall Vilhjálmsson frá fjármálaráðuneyti, Hauk Hafsteinsson frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, Vilhjálm Bjarnason frá Þjóðhagsstofnun, Ara B. Thorarensen og Sveinbjörn Guðjónsson frá Fangavarðafélagi Íslands, Ingimund Einarsson frá lögreglustjóranum í Reykjavík, Jónas Magnússon og Óskar Bjartmarz frá Landssambandi lögreglumanna, Hörð Davíð Harðarson frá Tollvarðafélagi Íslands og Loft Jóhannsson og Karl Alvarsson frá Félagi íslenskra flugumferðarstjóra. Umsagnir bárust um málið frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Félagi íslenskra flugumferðarstjóra, Tollvarðafélagi Íslands, ríkislögreglustjóranum, Fangavarðafélagi Íslands, lögreglustjóranum í Reykjavík, Landssambandi lögreglumanna og Þjóðhagsstofnun. Jafnframt bárust gögn frá fjármálaráðuneyti.
    Frumvarpið er lagt fram í tengslum við kjarasamninga sem lögreglumenn gerðu í júlí árið 2001, en þá undirrituðu dómsmálaráðherra og fjármálaráðherra yfirlýsingu þar sem fram kom að ríkisstjórnin mundi beita sér fyrir því að bætt yrði í lög um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins ákvæði um að lögreglumönnum sem leystir væru frá embætti 65 ára skyldi reiknaður lífeyrir eins og þeir hefðu starfað til 70 ára aldurs.
    Nefndin vekur athygli á að aðrar stéttir en lögreglumenn telja sig eiga rétt á að hljóta sömu kjör og lögreglumönnum eru tryggð með kjarasamningum og frumvarpi því sem hér er til meðferðar og bendir á að búast megi við kröfum stétta á borð við fangaverði, tollverði og flugumferðarstjóra um sömu réttindi á næstu árum. Nefndin gerir sér grein fyrir því að á næstu árum kunna að verða gerðir kjarasamningar við aðra hópa opinberra starfsmanna sem kveða á um breytt lífeyrisréttindi.
    Nefndin leggur til breytingu á frumvarpinu þess efnis að lögreglumönnum verði veittur lengri frestur en frumvarpið gerir ráð fyrir til að ákveða hvort þeir nýti sér nýjar reglur frumvarpsins eða eldri reglur um starfslok, eða til 1. maí 2003 í stað 1. október 2002 eins og frumvarpið gerir ráð fyrir.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

    Í stað orðanna „1. október 2002“ í 1. efnismgr. 3. gr. komi: 1. maí 2003.



Prentað upp.

    Einar K. Guðfinnsson, Össur Skarphéðinsson og Hjálmar Árnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 15. mars 2002.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Jóhanna Sigurðardóttir.


Kristinn H. Gunnarsson.



Helga Guðrún Jónasdóttir.


Ögmundur Jónasson.


Gunnar Birgisson.