Ferill 669. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1085  —  669. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 72/1994, um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja o.fl.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)





1. gr.

    1. gr. laganna orðast svo:
    Tilgangur laga þessara er að stuðla að því að orka sé notuð með skynsamlegum og hagkvæmum hætti með því að tryggja að neytendur hafi greiðan aðgang að samræmdum upplýsingum um orkunotkun og hávaðamengun tækja sem lögin ná til, svo og áhrif á umhverfi auk annars er varðar rekstur þeirra.

2. gr.

    1. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
    Lög þessi taka til merkinga og staðlaðra upplýsinga um heimilistæki, bifreiðar og tæki eða búnað til hitunar húsnæðis og upphitunar á vatni sem kveðið er á um í reglugerð.

3. gr.

    1. mgr. 3. gr. laganna orðast svo:
    Framleiðandi, fulltrúi hans eða sá er markaðssetur vöru, hér eftir nefndur birgðasali, skal láta neytendum í té upplýsingar um orkunotkun, orkunýtni, hávaða og annað er varðar rekstur þeirra tækja sem seld eru, leigð, boðin til sölu eða leigu og tilgreindar eru í reglugerð sem sett er á grundvelli laga þessara. Upplýsingar þessar skulu vera á íslensku og þær skal samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð vera að finna á merkimiðum, sérstökum upplýsingablöðum eða veggspjöldum.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að gerðar verði breytingar á gildandi lögum um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja o.fl.
    11. maí 1994 samþykkti Alþingi lög um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja o.fl., nr 72/1994. Við samningu laganna var höfð til hliðsjónar tilskipun ráðs Evrópubandalagsins frá 22. september 1992 (92/75/EBE) um merkingar og staðlaðar vörulýsingar á heimilistækjum. Tilskipun 92/75/EBE er rammatilskipun en í kjölfar hennar hafa verið settar nokkrar tilskipanir um merkingar og vörulýsingar á einstökum heimilistækjum sem teknar hafa verið inn í EES-samninginn. Það eru tilskipun 94/2/EBE um rafknúna kæli- og frystiskápa, tilskipun 95/12/EBE um þvottavélar, tilskipun 95/13/EB um þurrkara, tilskipun 96/60 um sambyggðar þvottavélar og þurrkara, tilskipun 97/17/EB um uppþvottavélar og tilskipun 98/11 um lampa. Á grundvelli heimilda í lögum nr. 72/1994 hefur iðnaðarráðherra innleitt ákvæði þessara tilskipana með setningu reglugerða um einstakar tegundir tækja. Þá var við undirritun EES-samningsins í gildi tilskipun 86/594/EBE um hávaða sem berst í lofti frá heimilistækjum og voru ákvæði hennar innleidd með reglugerð nr. 524/1994.
    13. desember 1999 samþykktu Evrópuþingið og ráðið tilskipun 1999/94/EB um aðgengi neytenda að upplýsingum um eldsneytiseyðslu og koltvísýringslosun við markaðssetningu nýrra fólksbifreiða. Tilskipunin á að tryggja almenningi aðgengilegar upplýsingar um eldsneytisnotkun og koltvísýringslosun nýrra fólksbifreiða með auglýsingum og auglýsingaskiltum á sölustöðum bifreiða. Tilskipunin var felld inn í XX. viðauka við EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 8 frá 31. janúar 2001. Markmið hennar er að reyna að draga úr eldsneytisnotkun og koltvísýringslosun frá bifreiðum með því að hafa áhrif á val neytenda með upplýsingagjöf. Slíkt er til þess fallið að hvetja neytendur til að velja frekar bifreiðar sem þurfa minna eldsneyti en aðrar og draga þannig úr losun koltvísýrings.
    Samkvæmt upplýsingum orkuspárnefndar nam notkun bifreiða og annarra tækja á bensíni og gasolíu u.þ.b. 250 þús. tonnum árið 2000. Meðalnotkun bifreiða á eldsneyti hefur minnkað undanfarna áratugi. Á móti kemur að bifreiðum hefur fjölgað. Í eldsneytisspá orkuspárnefndar 2001–2030 er gert ráð fyrir að orkunýting bifreiða haldi áfram að batna þó að það gerist ekki eins hratt og síðustu tvo áratugi. Orkuspárnefnd miðar við að meðaleldsneytisnotkun bifreiða á ekinn kílómetra minnki um 7% til loka spátímabilsins. Miðað við þessar forsendur verður eldsneytisnotkun bifreiða og tækja 300 þús. tonn árið 2030.
    Heildarlosun koltvísýrings ( CO2) vegna innlendrar eldsneytisnotkunar nam tæplega 2.200.000 tonnum árið 2000. Um það bil 1/ 3 af losun koltvísýrings á Íslandi er vegna samgangna og frá tækjum en langstærstur hluti þessa, eða u.þ.b. 600 þús. tonn, er frá bifreiðum. Samkvæmt eldsneytisspá orkuspárnefndar má gera ráð fyrir að losun frá samgöngum og tækjum aukist um tæplega 20% fram til 2030.
    Ákvæðum tilskipunarinnar má skipta í fjóra þætti. Í fyrsta lagi er kveðið á um að aðildarríki skuli sjá til þess að miði um eldsneytiseyðslu og losun CO2 sé greinilega festur við hverja nýja fólksbifreið á sölustað eða komið fyrir í grennd við hana. Í öðru lagi skulu aðildarríki sjá til þess að í samráði við framleiðendur og í samræmi við kröfur tilskipunarinnar verði að minnsta kosti ár hvert samið yfirlit yfir eldsneytiseyðslu og losun CO2. Í þriðja lagi skulu aðildarríki sjá til þess að fyrir hverja bifreiðategund verði komið fyrir veggspjöldum með lista yfir þekkta eldsneytiseyðslu og losun CO2 allra nýrra fólksbifreiða sem eru sýndar eða boðnar til sölu eða leigu á sölustað eða í umboði sölustaðar. Í fjórða lagi er lagt á aðildarríki að sjá til þess að í öllum kynningarritum séu upplýsingar um þekkta eldsneytiseyðslu og losun CO2 frá þeirri fólksbifreið sem vísað er til.
    Gildissvið laga nr. 72/1994 takmarkast við heimilistæki og tæki eða búnað til hitunar húsnæðis og upphitunar á vatni, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Þá ná lögin ekki til notaðra tækja eða búnaðar, sbr. 2. mgr. 2. gr. Að höfðu samráði við dómsmálaráðuneytið og umhverfisráðuneytið var talið heppilegast að reglugerðir sem ætlað er að innleiða ákvæði tilskipana um upplýsingagjöf um orkunotkun o.fl. til neytenda byggðust allar á sömu lagastoð. Svo að unnt sé að innleiða ákvæði tilskipunar 1999/94/EB í íslenskan rétt með setningu reglugerðar er hins vegar nauðsynlegt að útvíkka gildissvið laganna. Við samningu frumvarpsins hefur verið höfð hliðsjón af danskri og norskri löggjöf um sama efni.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Með greininni er lagt til að upplýsingum um áhrif á umhverfi verði bætt við upptalningu á þeim upplýsingum sem neytendur eiga að hafa greiðan aðgang að. Hér er einkum átt við upplýsingar um losun ýmissa lofttegunda og annað sem hlýst af notkun tækjanna.

Um 2. gr.

    Í greininni er lagt til að gildissvið laganna verði víkkað með því að láta þau ná til bifreiða auk þeirra tækja sem gildandi lög taka til.

Um 3. gr.

    Í 3. gr. laga nr. 72/1994 er kveðið á um að birgðasali skuli láta neytendum í té upplýsingar um orkunotkun, orkunýtni og hávaða tækja og búnaðar sem seld eru, leigð, boðin til sölu eða leigu. Til að taka af öll tvímæli er lagt til að þessu til viðbótar verði kveðið á um að birgðasala sé einnig skylt að láta neytendum í té upplýsingar um annað er snertir notkun þeirra og samræmist tilgangi laganna, sbr. 1. gr. Þá felur breytingin í sér að heimilt er að skylda birgðasala til að setja upp veggspjöld með upplýsingum.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 72/1994, um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja o.fl.

    Tilgangur með frumvarpinu er að útvíkka gildissvið laga nr. 72/1994 þannig að það nái til bifreiða og innleiði þannig tilskipun nr. 1999/94/EB sem kveður á um að seljendur nýrra bifreiða birti með skýrum hætti eldsneytiseyðslu og koltvísýringslosun þeirra bifreiða sem þeir hafa til sölu.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það hafi teljandi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.