Ferill 705. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1131  —  705. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 120/2001, um heimild ríkissjóðs til þess tímabundið að takast á hendur tryggingu eða endurtryggingu á bótaábyrgð sem flugrekendur kunna að baka sér gagnvart þriðja aðila vegna tjóns er hlýst af notkun loftfars vegna hernaðaraðgerða, hryðjuverka eða áþekkra atvika, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið. Nefndarmenn leituðu álits hjá Baldri Guðlaugssyni og Ingva Má Pálssyni frá fjármálaráðuneyti, Sigurði Helgasyni og Halldóri Vilhjálmssyni frá Flugleiðum, Lárusi Atlasyni frá Atlanta og Sólrúnu Halldórsdóttur frá Sjóvá-Almennum.
    Frumvarpið er lagt fram í því skyni að framlengja gildistíma laga nr. 120/2001, sem veita ríkissjóði heimild til að takast á hendur tryggingu eða endurtryggingu á bótaábyrgð sem íslenskir flugrekendur kunna að baka sér gagnvart þriðja aðila vegna tjóns sem hlýst af notkun loftfars vegna hernaðaraðgerða, hryðjuverka eða áþekkra atvika, en lögin voru sett í framhaldi af því að vátryggjendur um allan heim sögðu upp ábyrgðartryggingum flugrekenda vegna hryðjuverkanna í Bandaríkjunum 11. september 2001.
    Lögunum var ætlað að gilda til ársloka 2001. Fljótlega kom hins vegar í ljós að vátryggjendur voru ekki farnir að bjóða fullnægjandi ábyrgðartryggingar. Því var gildistími laganna framlengdur til 10. apríl 2002. Nú hefur hins vegar komið í ljós að vátryggjendur eru ekki enn farnir að bjóða fullnægjandi ábyrgðartryggingar. Því er nauðsynlegt að framlengja gildistíma heimildar ríkissjóðs enn um sinn og er lagt til í frumvarpinu að hún geti staðið allt til ársloka 2002.
    Nefndin bendir á að trygging ríkissjóðs er veitt til skamms tíma hverju sinni og er aðeins framlengd ef nauðsyn krefur. Nefndin bendir jafnframt á að heildarábyrgð ríkissjóðs hefur lækkað úr 27.000 millj. USD í 2.200 millj. USD frá því málið kom fyrst til kasta Alþingis. Ástæðan fyrir þessari lækkun er að tryggingarkrafan hefur lækkað, grunnfjárhæð tryggingar sem flugfélögin tryggja sjálf hefur hækkað úr 50 millj. USD í 150 millj. USD og enn fremur hefur verið sett þak á ábyrgð gagnvart hverju einstöku flugfélagi sem takmarkast nú við tjón vegna einnar flugvélar. Fyrirkomulag þessara mála hérlendis hefur verið í samræmi við það sem almennt hefur tíðkast annars staðar og nefndin gengur út frá því að framkvæmd þessarar tryggingar af hálfu ríkisins verði í samræmi við alþjóðlega þróun, þar á meðal verði tekið upp samstarf við önnur ríki ef möguleiki opnast á slíku.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Gunnar Birgisson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

    Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson skrifa undir álitið með fyrirvara og áskilja sér rétt til að flytja breytingartillögu við málið.

Alþingi, 5. apríl 2002.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Jóhanna Sigurðardóttir,


með fyrirvara.


Einar K. Guðfinnsson.



Kristinn H. Gunnarsson.


Össur Skarphéðinsson,


með fyrirvara.


Sigríður A. Þórðardóttir.



Ögmundur Jónasson.


Hjálmar Árnason.