Ferill 582. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1211  —  582. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 113/1990, um tryggingagjald, l. nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og l. nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Erlu Pétursdóttur frá fjármálaráðuneyti. Umsagnir bárust frá Þjóðhagsstofnun, ríkisskattstjóra, Verslunarráði Íslands, Alþýðusambandi Íslands, skattstjóranum í Reykjanesumdæmi, Bandalagi háskólamanna, Samtökum verslunar og þjónustu, Samtökum iðnaðarins, Landssamtökum lífeyrissjóða og skattstjóranum í Reykjavík.
    Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu tengjast allar breytingum sem gerðar voru sl. haust á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Frumvarpið felur í sér að reiknað endurgjald manns sem vinnur við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann er ráðandi vegna eignar- eða stjórnunaraðildar myndi stofn til tryggingagjalds og til lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs. Frumvarpið gerir jafnframt ráð fyrir að lífeyrissjóðum verði heimilt að fjárfesta í verðbréfum sem skráð eru á skipulegum markaði í Liechtenstein með sama hætti og í ríkjum OECD til að uppfylla samningsskuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum og loks að ákvörðun skattstjóra um reiknað endurgjald í staðgreiðslu verði kæranleg til ríkisskattstjóra.
    Nefndin leggur til tvær breytingar á frumvarpinu. Þær eru þessar:
     1.      Í frumvarpinu er kveðið á um málskotsrétt til ríkisskattstjóra vegna ákvarðana skattstjóra á staðgreiðsluári um reiknað endurgjald. Nefndin leggur til að nánar verði kveðið á um kæruréttinn og þannig leitast við að afmarka upphaf og endi kærufrests. Kæruréttur til ríkisskattstjóra er og bundinn við ágreining sem um er fjallað í 6. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Nefndin telur að kærufrestur þyki hæfilega ákveðinn 15 dagar í ljósi þess að um er að ræða bráðabirgðaákvörðun staðgreiðslu. Almennur málskotsréttur vegna þeirra ákvarðana skattstjóra, sem um er fjallað í 4. mgr. 28. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, og varða áætlun skattstjóra á staðgreiðslu vegna síðbúinna skila launagreiðenda á skilagreinum t.d. vegna launamanna eða álagsbeitingu skv. 2. mgr. 28. gr. sömu laga verður eftir sem áður til yfirskattanefndar. Nefndin bendir á að í þessum tilvikum er gjarnan um að ræða almenn skil á staðgreiðslu eftir eindaga vegna launamanna og snýst ágreiningur fremur um álag en launaþáttinn sjálfan. Ákvörðun skattstjóra er því endanleg í tilvikum sem þessum og sætir því kæru til yfirskattanefndar gagnstætt því sem er um málskotsrétt til ríkisskattstjóra vegna ágreinings um bráðabirgðaákvörðun reiknaðs endurgjalds á staðgreiðsluári, þar sem endanleg niðurstaða ræðst við álagningu samkvæmt framtali. Nefndin bendir á að gera verður þannig greinarmun á því hvaða ákvarðanir eru endanlegar vegna staðgreiðsluársins og hverjar ráðast af álagningu eftirfarandi árs.

     2.      Þá leggur nefndin til viðbótarbreytingu á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, þess efnis að samræmi verði á milli 1. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og 1. mgr. 19. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda hvað varðar skráningu manna inn á virðisaukaskattsskrá annars vegar og launagreiðendaskrá hins vegar. Nefndin bendir á að í framkvæmd hefur verið reynt að fylgja því eftir að menn fari inn á báðar skrárnar samhliða þar sem ljóst er að maður getur ekki stundað virðisaukaskattsskylda starfsemi án þess að þurfa að skrá sig inn á launagreiðendaskrá.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er grein fyrir í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 11. apríl 2002.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Jóhanna Sigurðardóttir.


Einar K. Guðfinnsson.



Kristinn H. Gunnarsson.


Össur Skarphéðinsson.


Sigríður A. Þórðardóttir.



Ögmundur Jónasson.


Gunnar Birgisson.


Hjálmar Árnason.