Ferill 672. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1271  —  672. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á ýmsum lögum vegna nýs stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Magnús K. Hannesson frá utanríkisráðuneyti.
    Nýr stofnsamningur Fríverslunarsamtaka Evrópu var undirritaður í Vaduz í Liechtenstein 21. júní 2001 og veitti Alþingi ríkisstjórninni heimild til að fullgilda hann með þingsályktun 10. apríl sl. Fullgilding samningsins kallar á lagabreytingar hér á landi og miðar frumvarpið að breytingum á innlendri löggjöf sem fjallar um vöruviðskipti, þjónustuviðskipti, fjárfestingar og rétt til stofnsetningar en markmið lagabreytinganna er fyrst og fremst að veita svissneskum ríkisborgurum og lögaðilum rétt til samræmis við EES-borgara þar sem það leiðir af nýjum stofnsamningi EFTA.
    Við athugun nefndarinnar á málinu kom í ljós að 22., 24. og 25. gr. frumvarpsins ganga lengra en fullgilding nýs Fríverslunarsamnings Evrópu krefst og leggur nefndin til að þeim ákvæðum verði breytt. Jafnframt hefur komið í ljós að í frumvarpið vantar breytingar á fjölmörgum ákvæðum laga sem eru á málefnasviði iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis og leggur nefndin því til að þeim ákvæðum verði bætt við. Þá er lögð til breyting á gildistökuákvæði og að lokum eru lagðar til nokkrar lagfæringar á frumvarpinu en þar er ekki um efnisbreytingu að ræða.
    Nefndin vekur athygli á að í 1. gr. frumvarpsins er breytt lögum nr. 45/1965, um eftirlit með útlendingum. Þau lög munu falla úr gildi 1. janúar 2003 við gildistöku nýrra laga um útlendinga ef samþykkt verða á þessu þingi og þarf þá að gera samsvarandi breytingu á þeim.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali og gerð er grein fyrir hér að framan.
    Lára Margrét Ragnarsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir og Einar K. Guðfinnsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 18. apríl 2002.



Sigríður A. Þórðardóttir,


form., frsm.


Magnús Stefánsson.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.



Katrín Fjeldsted.


Ögmundur Jónasson.


Jónína Bjartmarz.