Ferill 607. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1408  —  607. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 28/1998, um verslunaratvinnu, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Ögmund Þormóðsson og Tryggva Axelsson frá viðskiptaráðuneyti. Umsagnir bárust frá Hagstofu Íslands, Myndstefi, Samtökum verslunar og þjónustu, Verslunarráði Íslands, lögreglustjóranum í Reykjavík og ríkislögreglustjóra.
    Frumvarpinu er ætlað að stuðla að betri skilum á 10% fylgiréttargjaldi sem rennur til listamanna eða erfingja þeirra samkvæmt höfundalögum. Jafnframt eru í frumvarpinu lagðar til breytingar sem tengjast sölu notaðra ökutækja, fyrst og fremst þess efnis að lögreglustjóri í hverju umdæmi skuli veita leyfi til að reka verslun eða umboðssölu með notuð ökutæki í stað viðskiptaráðherra og haldi skrá yfir leyfishafa í umdæminu og geti svipt þá starfsleyfi. Ákvörðun lögreglustjóra um sviptingu starfsleyfis má skjóta til viðskiptaráðherra og dómstóla.
    Nefndin leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu. Þær eru eftirfarandi:
     1.      Lagt er til að efnismálsgrein a-liðar 8. gr. verði breytt á þann veg að ekki verði skylda að þeir einir sem skráð hafa verslunarrekstur samkvæmt lögunum, eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu, geti fengið leyfi til að halda lokað uppboð til að styrkja ákveðna nánar tilgreinda starfsemi. Nefndin bendir jafnframt á að íþróttastarfsemi fellur undir menningu, sbr. upptalningu á þeirri starfsemi sem hægt er að fá leyfi til að halda uppboð til að styrkja, en leggur til að íþróttastarfsemi verði tilgreind sérstaklega til að taka af allan vafa um þetta atriði.
     2.      Þá er lagt til að ákvæði 9. gr. um refsingar vegna brota á lögunum verði breytt á þann veg að eingöngu liggi fangelsisrefsing við brotum gegn ákvæðum IV. kafla laganna um sölu notaðra ökutækja eða gegn 7. mgr. 23. gr. laganna um sendingu skilagreina um sölu listmuna.
     3.      Loks leggur nefndin til að við frumvarpið bætist ákvæði til bráðabirgða þess efnis að fyrir útgáfu leyfis til sölu notaðra ökutækja skv. 1. mgr. 12. gr. skuli greiða 25.000 kr. gjald sem renni í ríkissjóð þar til kveðið verður á um gjaldið í lögum um aukatekjur ríkissjóðs, en til stendur að leggja fram frumvarp þar sem m.a. verður bætt heimild til gjaldtöku fyrir útgáfu slíks leyfis inn í þau lög.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er grein fyrir hér að ofan og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Einar K. Guðfinnsson og Gunnar Birgisson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Jóhanna Sigurðardóttir, Össur Skarphéðinsson og Ögmundur Jónasson skrifa undir álit þetta með fyrirvara.

Alþingi, 26. apríl 2002.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Jóhanna Sigurðardóttir,


með fyrirvara.


Kristinn H. Gunnarsson.



Össur Skarphéðinsson,


með fyrirvara.


Sigríður A. Þórðardóttir.


Ögmundur Jónasson,


með fyrirvara.



Hjálmar Árnason.