Ferill 186. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Nr. 39/127.

Þskj. 1488  —  186. mál.


Þingsályktun

um úttekt á umfangi skattsvika, skattsniðgöngu og dulinni efnahagsstarfsemi.


    Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að láta gera úttekt á umfangi skattsvika, skattsniðgöngu og dulinni efnahagsstarfsemi. Leggja skal mat á hvernig þau hafi þróast frá árinu 1993 eftir skatttegundum, atvinnugreinum, landsvæðum og í samanburði við aðrar þjóðir og hvert tekjutap ríkis og sveitarfélaga hafi verið af þessum sökum.
    Jafnframt er markmiðið að greina helstu ástæður skattundandráttar og að hve miklu leyti megi rekja hann til skattalaga annars vegar og skattframkvæmdar hins vegar. Leggja skal fram tillögur til úrbóta og meta hvort og á hvaða sviðum efla þurfi skatteftirlit og skattrannsóknir og hvaða ávinningi það geti skilað í auknum skatttekjum.
    Í þessu skyni skal skipa starfshóp, m.a. með aðild ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra, sem skila skal niðurstöðum fyrir 1. júlí 2003.

Samþykkt á Alþingi 3. maí 2002.