Mótvægisaðgerðir vegna stóriðjuframkvæmda á Austurlandi

Þriðjudaginn 21. janúar 2003, kl. 13:50:55 (2819)

2003-01-21 13:50:55# 128. lþ. 61.97 fundur 356#B mótvægisaðgerðir vegna stóriðjuframkvæmda á Austurlandi# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 128. lþ.

[13:50]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Eftir ræðu hv. þm. Vinstri grænna hljóta ýmsar spurningar að vakna. Maður hlýtur að spyrja hv. þm. hvort hann hafi ekki tekið eftir blikum á lofti í íslensku atvinnulífi þar sem hinn skelfilegi vágestur, atvinnuleysið, hefur gert vart við sig. Telur hann ekki að bregðast þurfi við? Maður hlýtur líka að spyrja hvort hv. þm. viti ekki að á framkvæmdatímanum einum, 2003--2007, er áætlaður launakostnaður 11 milljarðar kr. Maður hlýtur að spyrja hvort hv. þm. telji ekki fagnaðarefni að á þessum tíma skuli 11 milljarðar renna í vasann á íslensku launafólki (ÖJ: Íslensku?) auk fjölmargra smáfyrirtækja sem fá verkefni í tengslum við þetta eins og reynslan sýnir.

Er það ekki fagnaðarefni að með þessu verkefni skuli varanleg verðmætasköpun í útflutningsverðmætum aukast um tugi milljarða kr. og þar með lagður enn frekari grunnur að íslensku velferðarkerfi og hugsanlega skapað svigrúm til frekari kjarabóta handa íslensku launafólki?

Herra forseti. Hv. þingmenn Vinstri grænna munu örugglega koma síðar í vetur í þennan ræðustól og krefjast kjarabóta fyrir íslenskan almenning og ýmissa útgjalda úr velferðarkerfinu. En herra forseti, mér verður stöðugt óljósara hvernig þeir hyggjast sækja þau verðmæti. Sú stefna að peningar komi af himnum ofan og ríkisútgjöld skuli vera óendanleg er líklega helsta ógnin við allar hagtölur og efnahagslegan stöðugleika á Íslandi.