Mótvægisaðgerðir vegna stóriðjuframkvæmda á Austurlandi

Þriðjudaginn 21. janúar 2003, kl. 14:08:53 (2827)

2003-01-21 14:08:53# 128. lþ. 61.97 fundur 356#B mótvægisaðgerðir vegna stóriðjuframkvæmda á Austurlandi# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 128. lþ.

[14:08]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það er út af fyrir sig hægt, og ekkert óeðlilegt við það, að velta fyrir sér þessum miklu málum á grundvelli umhverfismála og náttúru og slíkra stórmála og sjálfsagt og eðlilegt að fara yfir þau mál og velta fyrir sér hvort menn styðji þessar framkvæmdir eða ekki með þeim rökum. En það er eiginlega ekki hægt að ætla að reyna að finna sér málstað til að vera á móti þessum framkvæmdum vegna þess að á tveggja ára tímabili kunni menn hugsanlega að þurfa að laga efnahagslífið í landinu að tilteknum framkvæmdahápunkti, að ætla sér að vera á móti því að skapa hér efnahagsleg tækifæri sem munu hjálpa okkur um 40 ára skeið vegna þess að á tilteknum hápunkti framkvæmdanna þurfi menn kannski að laga efnahagslífið að þessum veruleika. Geta menn verið á móti málinu á þeim forsendum? (ÖJ: Á tveimur árum?) Já, á hápunkti framkvæmdanna, 2005--2006. Mér finnst ekki hægt að leggja málið upp með þeim hætti. Það er sjálfsagt og eðlilegt að ræða um það út frá umhverfismálum og náttúrufari. Það eru stórmál og sjálfsagt að gera það og mynda sér skoðun út frá því. En það er ekki hægt út frá þessum punkti, finnst mér.

Ég vek athygli á því og nefndi það hér áðan að þegar menn voru að fara í álverið í Straumsvík árið 1968 voru fjárfestingar vegna álvers og vegna Landsvirkjunar um 7,56% af vergri landsframleiðslu árið 1968 og um 6,44% árið 1969. Núna erum við að tala um framkvæmdir upp á 5,5% af vergri landsframleiðslu við aðstæður þegar efnahagslífið er miklu sveigjanlegra og miklu færara um að taka á móti framkvæmdum af þessu tagi. Menn geta ekki verið að búa sér til andstöðu á þessari forsendu, minn ágæti hv. þm. Ögmundur Jónasson. (ÖJ: Hvernig væri að svara spurningunum um niðurskurðinn, um ruðningsáhrifin?) Ég skal gera það sem forsætisráðherra hér 2005.