Vísinda- og tækniráð

Þriðjudaginn 21. janúar 2003, kl. 16:57:41 (2846)

2003-01-21 16:57:41# 128. lþ. 61.1 fundur 336. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv. 2/2003, 357. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# (heildarlög) frv. 3/2003, 345. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins# frv. 4/2003, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 128. lþ.

[16:57]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Við tökum hér fyrir umræðu um þrjú frv. til laga, frv. til laga um Vísinda- og tækniráð, frv. til laga um opinberan stuðning við vísindarannsóknir og frv. til laga um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þessi frv. því að félagar mínir úr Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði, hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson, hafa lýst afstöðu okkar hvað varðar þessi frv. Ég vil þó taka fram, eins og hinir félagar mínir hafa gert, að ég tel að markmiðslýsingin sé góð og að allir geti skrifað undir markmiðslýsingar í 1. gr. frumvarpanna, en í frv. til laga um Vísinda- og tækniráð segir, með leyfi forseta:

,,Markmið laga þessara er að efla vísindarannsóknir, vísindamenntun og tækniþróun í landinu í því skyni að treysta stoðir íslenskrar menningar og auka samkeppnishæfni atvinnulífsins.``

Í frv. um opinberan stuðning við vísindarannsóknir er álíka markmiðslýsing:

,,Markmið laga þessara er að efla vísindarannsóknir og vísindamenntun á Íslandi með því að styrkja grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir og stuðla að samvinnu þeirra aðila sem starfa að vísindarannsóknum jafnframt því að tryggja áreiðanleika og gæði upplýsinga um vísindi og rannsóknir hér á landi.``

Þetta eru háleit og góð markmið sem ég held að allir hv. þm. geti skrifað undir og hafa reyndar gert það í málflutningi sínum hér í dag.

Í frv. til laga um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins segir í 1. gr.:

,,Markmið laga þessara er að efla samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs með því að byggja upp innviði og tæknilega getu fyrirtækja, stofnana og frumkvöðla til að takast á við tækniþróun og rannsóknir er henni tengjast sem leiða til nýsköpunar í íslensku atvinnulífi.``

Þannig eru markmiðslýsingarnar með frv. öllum þremur góðar. En það sem við höfum gagnrýnt hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði í þessari umræðu er að við teljum að nálgun að breytingum á þessum málaflokki hafi verið röng. Eins og fram hefur komið í umræðunni í dag var mikið litið til Finnalands til að finna módel eða fyrirmynd að því hvernig við ættum að fara í breytingar á málaflokknum. Það hefur síðan leitt til þess að öll frv. byggja á mikilli miðstýringu þar sem vald og áhrif ráðherra verða efld, eins og fram hefur komið.

[17:00]

Ég held að það hafi verið óheppilegt í vinnunni að leggja svo mikla áherslu á þessa finnsku fyrirmynd. Menn hefðu átt að leita fanga víða annars staðar vegna þess að staða Finna er ekki dæmigerð ef við lítum á löndin í kringum okkur vegna þess að í kjölfar hruns Sovétríkjanna lentu Finnar í má segja efnahagslegum hamförum þar sem iðnaður þeirra var að langmestu leyti grundvallaður á afhendingu vöru og þjónustu til Sovétríkjanna með miðstýrðum samningum þar að lútandi. Þegar þjóðfélagið breyttist þar austan við stóðu Finnar frammi fyrir nánast efnahagslegu hruni með gríðarlegu atvinnuleysi í kjölfarið. Leið Finna til þess að komast út úr vandanum á sem skjótvirkastan hátt var því að byggja á einhvers konar átaksverkefni, og það varðaði vísindamál eins og margt annað. Ég tel því að ákaflega óheppilegt hafi verið að velja Finnland sem fyrirmynd vegna þess að nálgun þeirra byggðist á efnahagslegum og félagslegum hamförum á sínum tíma og leið þeirra til að komast sem skjótast út úr því var að beita handafli að vissu leyti.

Við getum sagt að eitt sveitarfélag á Íslandi hafi lent í svipuðum hremmingum efnahagslega og félagslega, þ.e. Akureyrarkaupstaður og Eyjafjörður þar sem iðnaður var að mjög miklu leyti grundvallaður á afhendingu vöru til Sovétríkjanna. Þar voru Sambandsverksmiðjurnar og síðan náttúrlega niðurlagningarverksmiðjur og prjónaverksmiðjur og þetta kallaði í kjölfarið ekkert ólíkt og í Finnlandi á hundruða manna atvinnuleysi.

Eins og menn muna var valin sem einn liður í uppbyggingunni á Akureyri á sínum tíma að hluta til leið sem hefur verið farin í Finnlandi, þ.e. uppbygging menntakerfisins. Það er ekkert vafamál að Háskólinn á Akureyri sem var settur á laggirnar í kjölfarið hefur verið gríðarlega mikið innlegg í að endurreisa og koma efnahagskerfinu á þeim stað inn á nýjar brautir miðað við breytt ástand.

Það er sem sagt fyrst og fremst þetta, virðulegi forseti, sem ég vil gera athugasemdir við, þ.e. þessa miðstýringaráráttu. Ég held að hættulegt sé að vera með miðstýrða pólitíska stýringu ef við lítum til lengri tíma. Ég held að vísindasamfélagið sjálft eigi að fá svigrúm til þess að fjalla um áherslur sínar. Það er nú svo samkvæmt reynslunni að það sem okkur finnst kannski einskis nýt vísindi í dag geta orðið okkur að miklu gagni eftir nokkra áratugi. Um þetta höfum við mörg dæmi þar sem við í núinu skiljum ekki beint hvað vísindamenn eru að fara út í. Þess vegna er mjög varhugavert að mínu mati að fara út í miðstýrða ráðherrastýringu sem ég held að leiði alltaf af sér að menn sjái ekki þá möguleika og færi sem e.t.v. aðrir sjá þegar litið er áratugi fram í tímann.

Það er fyrst og fremst út frá þessari uppsetningu, þessari pólitísku stýringu á málaflokknum sem við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði getum ekki stutt þessi frv. og hefðum viljað að aðkoman að vinnunni í kringum þau hefði verið á allt öðrum grunni.

Því hefur verið haldið á lofti að vísindasamfélagið hafi skrifað undir þessi frv. og sé búið að samþykkja þau meira eða minna. Ég hef nú samt á tilfinningunni að vísindasamfélagið sé yfir höfuð ekki ánægt en meti stöðuna þannig að það þýði ekki að streitast á móti lengur, að ekki verði komist fram með breytingar sem vísindasamfélagið --- alla vega margir sem ég hef talað við -- vill sjá á þessum frv. Maður hefur heyrt það nefnt að engan tíma megi missa lengur vegna þess að verkefni séu í gangi sem þurfi á fjárveitingum að halda og frumvörpin verði því að fara í gegnum þingið og það er náttúrlega alveg óviðunandi röksemdafærsla. Ég hef þess vegna á tilfinningunni af samtölum mínum við vísindamenn að þeir taki undir þær áhyggjur sem hafa komið fram í ræðum margra þingmanna hér í dag af því að sérstaklega hefði þurft að þurrka þessa pólitísu stýringu, miðstýringu, út úr frumvörpunum og kappkosta um að stuðla að valddreifingu og dreifðri ákvarðanatöku um fjárveitingar og val verkefna sem á að vinna í vísindalegum tilgangi í samfélaginu.