Vísinda- og tækniráð

Þriðjudaginn 21. janúar 2003, kl. 17:48:38 (2851)

2003-01-21 17:48:38# 128. lþ. 61.1 fundur 336. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv. 2/2003, 357. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# (heildarlög) frv. 3/2003, 345. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins# frv. 4/2003, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 128. lþ.

[17:48]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að við höfum sama skilning, ég og hv. síðasti ræðumaður, á mikilvægi þess að einkafyrirtækin taki þátt í að fjármagna rannsóknir. Það er grundvallaratriði.

Hér var nefnt sérstaklega hversu mikill þáttur Íslenskrar erfðagreiningar er í þessari aukningu. Hann er mjög verulegur. En það er svo að t.d. í fjárfestingu Finna í einkageiranum í rannsóknum er hlutur Nokia mjög stór. Það er nánast eðli samfélaga af þessari stærð að þegar mikil áhætta er tekin, verið er að fjárfesta í vísindum og nokkur fyrirtæki uppskera en ekki öll --- þetta er mikil áhætta og það er ekki nema hluti af verkefnunum sem fram gengur í raun --- gerist það gjarnan að fyrirtæki sem ná að hasla sér völl verða sterk og fyrirferðarmikil. Þess vegna megum við ekki gera lítið úr því að það er jafnmikilvægt fyrir okkur eins og Finna að fá sterk fyrirtæki og góð sem ná árangri. Við þurfum líka að gera okkur grein fyrir því að einmitt þetta landslag atvinnustarfseminnar sem er svona háð rannsóknum markar líka ákveðna viðkvæmni efnahagskerfisins í þessum efnum. Við vitum að þetta er mjög áhættusamur rekstur. Þess vegna er það líka mikilvægt fyrir samfélagið að hlúa með ýmsum hætti að þessari starfsemi vegna þess hve mikla áhættu fyrirtækin taka. Sú áhætta er ekki bara tekin af fyrirtækjunum, hún er líka tekin af þjóðfélögunum sem undir þeim standa.