Vatnsveitur sveitarfélaga

Þriðjudaginn 21. janúar 2003, kl. 18:05:07 (2857)

2003-01-21 18:05:07# 128. lþ. 61.4 fundur 422. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (rekstrarform, arðgreiðslur o.fl.) frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 128. lþ.

[18:05]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við erum að fjalla um frv. til laga um breytingu á lögum um vatnsveitur sveitarfélaga. Þetta er frv. sem var til umfjöllunar á síðasta þingi og kom þá til hv. félmn. Þar var það langt komið í vinnslu en var ekki afgreitt úr nefndinni. Hér hefur verið bætt inn í frv. breytingum í samræmi við umsagnir sem bárust nefndinni við vinnslu þess á síðasta þingi.

Samfylkingin hefur verið hlynnt því að það eigi að vera á valdi sveitarfélaganna hvernig þau haga rekstri sínum á fyrirtækjum eins og vatnsveitum. Við teljum eðlilegt að sama gildi um vatnsveitur eins og t.d. hitaveitur og rafveitur, eins og lagt er til í þessu frv. Einnig eru lagðar til ýmsar aðrar breytingar sem auka sveigjanleika í stjórn vatnsveitna og við teljum það eðlilegt. Þar sem ég á sæti í hv. félmn. þá munum við auðvitað fara yfir þetta mál lið fyrir lið þegar það kemur til nefndarinnar og skoða nánar. Í fljótu bragði get ég ekki séð annað en að þær breytingar sem lagðar eru til hér eftir umsagnirnar sem komu á síðasta þingi séu yfirleitt til bóta. Ég mun hins vegar koma frekar að vinnslu málsins í nefndinni.