Þingvellir

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 14:55:18 (2899)

2003-01-22 14:55:18# 128. lþ. 63.2 fundur 111. mál: #A Þingvellir# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 128. lþ.

[14:55]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Hv. þm. hreyfir hér athyglisverðu máli. Íslendingar gerðust í desember árið 1995 aðilar að samningi Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna frá 1972 um verndun menningar- og náttúruarfleifðar heimsins. Samráðshópur um framkvæmd samningsins var skipaður af menntmrh. 10. júlí árið 2000 og í honum eru Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður, formaður, Árni Bragason, forstöðumaður Náttúruverndar ríkisins, Sigurður Þráinsson fyrir umhvrn. og Þorgeir Ólafsson fyrir menntmrn.

Samráðshópurinn lagði fram í desember 2000 yfirlitsdrög um þá staði sem Ísland telur til mikilvægari menningar- og náttúrarfleifðar ásamt tillögum um að Þingvellir og Skaftafell yrðu tilnefnd á heimsminjaskrána og þau voru samþykkt í ríkisstjórn 4. desember 2001. Hópurinn lét gera drög að verk- og kostnaðaráætlun vegna tilnefninganna og var hún lögð fram í júní 2001. Í janúar 2002 samþykkti menntmrn. að leggja fram 500 þús. kr. af safnliðum til að geta hafið undirbúning umsóknar og umhvrn. lagði fram 250 þús. kr. að sínu leyti.

Í september sl. kom hingað til lands Birgitta Hoberg, helsti sérfræðingur heims í gerð umsókna um staði á heimsminjaskránni. Hún starfar hjá sænska þjóðminjavarðarembættinu og hefur séð um allar tilnefningar Svía auk þess að leiðbeina og stjórna tilnefningarvinnu fyrir önnur ríki. Hún ráðlagði okkur eindregið að stefna að því að tilnefna Þingvelli fyrir 1. febrúar 2003 og þá aðeins sem menningarminjastað. Áður hafði verið að því stefnt að tilnefna í flokkinn ,,safn blandaðra staða``, þ.e. sem menningar- og náttúruminjastað.

Í ársbyrjun 2004 verður í umsókn til UNESCO óskað eftir að náttúruminjum á Þingvöllum verði bætt við fyrri tilnefningu og jafnframt verður óskað eftir að Skaftafell fari á heimsminjaskrá í flokki náttúruminja. Menntmrh. og umhvrh. samþykktu í september sl. ofangreindar tillögur, og í fjárlagafrv. fyrir árið 2003 er gert ráð fyrir 6 millj. kr. sem framlagi til þessa verkefnis.

Þingvallanefnd og menntmrn. hafa skipað starfshóp til að undirbúa tilnefningu Þingvalla og hafa ráðið ráðgjafarfyrirtæki til að stýra verkinu. Gert er ráð fyrir að umsóknin verði komin í hendur UNESCO fyrir 1. febrúar 2003. Ef hún verður samþykkt munu Þingvellir verða komnir á heimsminjaskrá á 60 ára lýðveldisafmæli þjóðarinnar 2004.