Heilsugæsla, félagsþjónusta og öldrunarþjónusta

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 15:41:56 (2919)

2003-01-22 15:41:56# 128. lþ. 63.6 fundur 449. mál: #A heilsugæsla, félagsþjónusta og öldrunarþjónusta# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 128. lþ.

[15:41]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Hv. 19. þm. Reykv. hefur beint til mín svohljóðandi fyrirspurn:

,,Telur ráðherra að flytja eigi félagsþjónustu, öldrunarþjónustu og heilsugæslu á eina hendi til sveitarfélaga í ljósi góðs árangurs af samræmingu þessara þjónustuþátta í reynslusveitarfélögunum Akureyri og Höfn í Hornafirði?``

Eins og þingheimur þekkir var ein meginástæða þess að farið var af stað með tilraunaverkefni reynslusveitarfélaganna sú að skynsamlegt þótti að kanna með þeim hætti hvort rétt væri að flytja ákveðin verkefni frá ríki til sveitarfélaga. Ætlunin var að láta á það reyna hvort betra væri að sveitarfélögin tækju við þjónustuþættinum, bæði með hagsmuni þeirra í huga sem njóta þjónustunnar og jafnframt hvort það hefði í för með sér hagkvæmari rekstur. Gerður var samningur til nokkurra ára um flutning þessara verkefna og rann samningurinn út um áramótin 2001. Nú standa yfir viðræður um framhald þessara samninga við bæði sveitarfélögin og er þess vænst að samningar takist fljótlega.

Rétt er, eins og fram kemur í fyrirpsurninni, að árangur þessarar tilraunar hefur að mörgu leyti verið góður. Þannig hefur yfirbygging í sumum tilfellum minnkað og betri nýting ýmiss konar sérfræðiþekkingar hefur náðst. Oft er nefnt að betri yfirsýn yfir málefni einstaklinga hafi í för með sér að þeir fái frekar samfellda þjónustu sem hæfi vanda þeirra. Einnig hafa ýmsar áherslur breyst í rekstri þjónustunnar. Meiri áhersla hefur verið lögð á þjónustu í heimahúsum en minni á stofnanaþjónustu. Þar fyrir utan er þjónusta af þessu tagi dæmigerð nærþjónustua sem á að vera sveigjanleg og löguð að aðstæðum í hverju samfélagi fyrir sig og ætti í eðli sínu að vera betri en sú þjónusta sem veitt er með miðstýrðum og stöðluðum hætti.

Hins vegar þótti ljóst þegar samningstímabilið rann út um áramót 2001--2002 að ekki lægju fyrir nægilega ítarlega upplýsingar um árangur til að draga mætti rökstuddar ályktanir um flutning þessara verkefna á landsvísu. Svo stórfelldur flutningur verkefna milli opinberra aðila þarfnast mikils undirbúnings því að mikið er í húfi að vel til takist. Einfaldara er að laga ýmis skipulagsatriði þegar um er að ræða smærri einingar en þegar breytingar þarf að gera um land allt. Var því ákveðið að halda verkefninu áfram og framlengja samninga að yfirstandandi endurskoðun lokinni. Jafnframt var ákveðið í ljósi hins góða árangurs að halda áfram að undirbúa samræmingu margvíslegrar þjónustu sem nú er veitt af ýmsum aðilum.

Ég tel í þessu sambandi rétt að minna á að 19. nóv. sl. var undirrituð yfirlýsing ríkisstjórnarinnar og Landssambands eldri borgara sem endurspeglaði samkomulag um aðgerðir ríkisvaldsins í málefnum aldraðra næstu tvö til þrjú árin. Í tillögum samráðshóps um málefni eldri borgara er lagt til að heimaþjónusta við aldraða verði efld verulega frá því sem nú er með það að markmiði að aldraðir geti dvalist sem lengst á eigin vegum utan stofnana. Til þess að ná þessu markmiði taldi hópurinn mikilvægt að einn aðili væri ábyrgur fyrir þjónustunni hvort sem um væri að ræða hjúkrun, aðhlynningu eða aðstoð við heimilishald. Lagt var til að stjórnvöld beittu sér fyrir samtvinnun þessarar þjónustu undir sameiginlegri stjórn þar sem einn aðili væri ábyrgur fyrir framkvæmd og fjárhag.

Í framhaldi af tillögum samráðshópsins hefur verið samþykkt að leggja fjármagn til þess að samþætta félagsþjónustu sveitarfélaganna og heimahjúkrun á vegum heilsugæslustöðva.

[15:45]

Eins og þingheimi er kunnugt hef ég í störfum mínum lagt ríka áherslu á eflingu þjónustu við sjúka í heimahúsum og tel að það sé skynsamlegt og hagkvæmt. Til að hrinda í framkvæmd tillögu samráðshópsins um málefni eldri borgara hef ég ákveðið að setja á stofn nefnd til þess að fara yfir með hvaða hætti best væri að standa að þessari samþættingu og mun nefndin taka til starfa innan tíðar. Er henni ætlað að ljúka störfum innan skamms tíma og skila ráðherra tillögum um hvernig skipulagi þjónustunnar verði best fyrir komið.

Herra forseti. Þrátt fyrir góðan árangur af samþættingu félagsþjónustu, öldrunarþjónustu og heilsugæslu í reynslusveitarfélögunum tel ég ekki tímabært á þessari stundu að taka ákvörðun um að flytja alla þessa þjónustu á eina hendi til sveitarfélaganna, en ég tel vel koma til greina að stefna að því þegar meiri reynsla hefur fengist.

Þá er mikilvægt að fá fram sem fyrst tillögur um yfirstjórn í heimaþjónustu við aldraða, en nefnd sem falið hefur verið að undirbúa þær er um það bil að hefja störf eins og ég hef áður sagt. Vænti ég að á grundvelli þeirra tillagna megi samræma þessa þjónustuþætti og ná fram enn betri árangri bæði í rekstri og gæðum þjónustu.