Uppbygging og rekstur meðferðarstofnana

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 16:04:29 (2929)

2003-01-22 16:04:29# 128. lþ. 63.7 fundur 417. mál: #A uppbygging og rekstur meðferðarstofnana# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., SI
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 128. lþ.

[16:04]

Sigríður Ingvarsdóttir:

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda, Einari K. Guðfinnssyni, fyrir að vekja máls á þessum mikilvæga málaflokki. Vandinn er vissulega mikill og fer því miður vaxandi og við honum þarf að bregðast hér eftir sem hingað til. Það er áleitin spurning hvort hið opinbera eigi að byggja upp öfluga stofnun og annast meðferðir við ýmiss konar fíkn eða hvort vitlegra sé að ríkið styrki heldur félagasamtök og einkaaðila sem reka ýmiss konar meðferðarstofnanir. Meðferðarúrræði þurfa jú að vera mjög fjölbreytileg. Að sjálfsögðu þarf allt starf er að þessu lýtur að vera faglegt og skila sem bestum árangri fyrir sem flesta. Ég tel að hin ýmsu félagasamtök eins og SÁÁ, Byrgið og ýmis meðferðarheimili skili í heild afar góðu starfi.