Skipan Evrópustefnunefndar

Mánudaginn 27. janúar 2003, kl. 15:05:25 (3020)

2003-01-27 15:05:25# 128. lþ. 65.1 fundur 369#B skipan Evrópustefnunefndar# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 128. lþ.

[15:05]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli. Frá því að ég varpaði þessari hugmynd fram og þar sem hún fékk, eins og hv. þm. nefndi, allgóðar undirtektir, hef ég látið vinna plögg sem gætu sýnt starfsgrundvöll slíkrar nefndar. Ég hafði hugsað mér núna í þessari viku að senda forustumönnum flokkanna þær hugmyndir. Ég tel að það sé eðlilegra að ég geri það fyrst til að fá fram viðhorf manna við þeim hugmyndum áður en ég leita eftir tilnefningum í nefndina þannig að menn séu a.m.k. nokkurn veginn sammála um á hvaða grundvelli þeir ættu að starfa. Ég taldi rétt að gera þetta svona. Þessari frumvinnu er lokið af minni hálfu og mun ég þá koma því í fyrirspurnaformi til forustumanna flokkanna. Ég tel að þó að slík nefnd sé auðvitað fyrst og fremst hugsuð til þess að skapa vettvang til að menn geti náð saman um tiltekna meginþætti í umræðunni --- ekki endilega um stefnu til Evrópumála. Hana mótar hver flokkur fyrir sig --- en ég taldi rétt að vinna það með þessum hætti, að fá samstöðu um verkefnissvið nefndarinnar --- ég lýsti því ekki í einstökum atriðum í áramótagreininni --- og ef um það gæti orðið sæmilegur friður eða sæmileg sátt að óska þá eftir tilnefningum í nefndina. Þannig hugsaði ég mér þennan málatilbúnað.