Launamunur kynjanna hjá hinu opinbera

Mánudaginn 27. janúar 2003, kl. 15:55:03 (3045)

2003-01-27 15:55:03# 128. lþ. 65.95 fundur 380#B launamunur kynjanna hjá hinu opinbera# (umræður utan dagskrár), SvH
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 128. lþ.

[15:55]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það eru auðvitað ekki orð í tíma töluð nú, að kvarta yfir þeim tíma sem mönnum gefst kostur á að ræða svo mikilsverð mál og það sem nú er til umfjöllunar. Menn verða á handahlaupum á þessu skamma þingi. En við þyrftum endilega að hugsa fyrir því, herra forseti, að forgangsraða í þessum efnum. Við mættum gefa hinum mikilvægustu málum aðeins meira rými en gert er. Þetta verður kannski, herra forseti, umhugsunarefni fyrir þá sem við taka hér eftir kosningar. (SJS: Verður breyting?) Já, það verður gjörbreyting, fyrst hv. þm. spyr að því. Menn þarf kannski ekkert að undra að högum kvenna skuli komið eins og raun ber vitni vegna þess að það er ekki langt síðan þessi partur mannkynsins, þessi mikilvægari partur mannkynsins, fékk almenn mannréttindi, t.d. kosningarrétt. Þetta var ánauðug stétt, sem mest mátti vera.

Frjálslyndi flokkurinn hefur það fyrir grunvallarstefnu sína að laun kvenna og karla skuli jöfn án allra tvímæla og undanbragða. Ég hygg að allir flokkar hafi þessa stefnu, eins og fram kom hjá hæstv. fjmrh. En valdhafar hverju sinni, ég er ekki sérstaklega að beina því að núv. hæstv. ríkisstjórn sem á að vísu ómælda sök, þeirra stefna er meira í orði en á borði. Þess vegna vinnst þetta svona slælega.

Ég treysti hæstv. núv. fjmrh. til margra góðra hluta en hann á bara rúma þrjá mánuði eftir til að bæta ráð sitt í þessum efnum.