Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 13:57:49 (3084)

2003-01-28 13:57:49# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[13:57]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ráðherra vék réttilega að því að niðurstaða Skipulagsstofnunar frá 20. des. um að ekki þurfi sjálfstætt mat á umhverfisáhrifum þessarar nýju framkvæmdar með nýrri tækni sem byggð verður af óskyldum aðila því sú sem áður stóð til hafi verið kærð. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra í fyrsta lagi: Kom aldrei til álita að bíða með framlagningu þessa máls eða a.m.k. umfjöllun um það þangað til ráðherra hefur fellt úrskurð sinn? Eða lítur ráðherra svo á að úrskurður hæstv. umhvrh. í þessu máli sé hreint formsatriði og það liggi fyrir á hvern veg hann verður?

Í öðru lagi talar hæstv. ráðherra í sömu setningu um bestu tækni og bestu fáanlegar mengunarvarnir og í hinum hluta setningarinnar um að ekki verði um vothreinsibúnað að ræða heldur verði þau mál leyst með öðrum hætti, eins og kunnugt er orðið. Með tveimur 80 metra háum strompum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Er ríkisstjórn Íslands, þar með talið hæstv. umhvrh., sammála því að það sé jafngild aðferð því að hreinsa mengunina eða fella hana með vothreinsibúnaði og hitt að reisa háa strompa til að dreifa henni betur yfir umhverfið? Er það stefna hæstv. ríkisstjórnar að þetta tvennt sé jafngilt og hægt sé að segja að um bestu fáanlega tækni sé að ræða þegar menn nota strompa í staðinn fyrir hreinsun?

Í þriðja lagi, herra forseti. Ég mótmæli því að hæstv. ráðherra tali með þeim hætti sem hún gerir fyrir hönd allra Austfirðinga og fyrir hönd allra landsmanna, eins og hæstv. ráðherra viti ekki um þann djúpstæða ágreining sem er í þessu máli og þar á meðal á Austurlandi eins og ítrekaðar samþykktir, mótmælafundir og aðgerðir eystra bera vitni um.

Varðandi þetta venjulega, með að menn eigi ekki að hafa aðrar skoðanir en ráðamenn þegar þeir hafa tekið ákvarðanir. Hvernig hugsar ríkisstjórn Íslands sér þetta í framkvæmd? Er þess að vænta að gefin verði út reglugerð um hvenær almenningur má hafa sjálfstæða skoðun í þessu landi og hvenær ekki? Verður gefin út reglugerð um hvenær fólk skuli hætta að halda fram sjónarmiðum sínum í málum ef ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun?