Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 15:07:40 (3094)

2003-01-28 15:07:40# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[15:07]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er náttúrlega eins og við var að búast að dregnar voru upp ýmsar rangfærslur og hálfsannleikur í ræðu hv. formanns Vinstri grænna í upphafi umræðunnar. Ég ætla ekki að eltast við það allt saman. En ég hlýt að spyrja hv. formann Vinstri grænna hvernig hann meti búseturöskun í landinu. Hvernig metur hann það fólk sem býr á Austurlandi og ætlar sér að hafa atvinnu af því að vinna við álver, vinna við þau atvinnutækifæri sem myndast í kringum álverið? Hvernig væri að fá smámat á því? Og af því hv. þm. hefur tilkynnt það að hann muni bjóða sig fram í þessu kjördæmi þá held ég að íbúum kjördæmisins muni þykja það býsna fróðlegt að heyra mat hans á því, og þar verði þá væntanlega horft til annarra atriða en þeirra að stjórnvöld fylgi fram stefnu sinni um nýtingu orku fallvatnanna í landinu, sem stjórnvöld hafa aldrei farið í grafgötur með að þau ætli að gera. Það er stefna stjórnvalda að nýta orku fallvatnanna til hagsbóta fyrir þjóðina. Sem betur fer eigum við orku á Austurlandi sem við ætlum okkur að nýta til atvinnusköpunar. Hvernig metur hv. formaður Vinstri grænna þessi mál?