Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 18:34:17 (3116)

2003-01-28 18:34:17# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[18:34]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki tekið undir þessi lokaorð hv. þingmanns um að okkur beri að hraða málinu sem allra mest. Að sjálfsögðu skiptir máli að við tökum ákvarðanir okkar á yfirvegaðan hátt. Og ég vil minna hv. þingmann á að samningar við erlenda verktaka eru ekki frágengnir. Það er ekki búið að ganga frá samningnum, sem betur fer. Og ég vona að horfið verði frá þessari ráðagjörð allri, að sjálfsögðu. Það er náttúrlega mjög óábyrg afstaða að hvetja til þess að við lokum málinu áður en útséð er um það hvort við yfirleitt náum samningum við þessa aðila.

Varðandi hugmyndir hv. þingmanns um atvinnusköpun í tengslum við þetta verkefni eru ekki allir sammála í því efni. Alcoa-forstjórinn sem skrifaði okkur alþingismönnum bréf til að samgleðjast yfir því að það ætti að fara að ráðast í þessar stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi telur að þetta muni skapa um 750 manns atvinnu, bæði beint í verksmiðjunni og síðan á svæðinu. Síðan er það alveg rétt að menn hafa verið með spádóma um að þetta kunni að leiða til enn fleiri afleiddra starfa. Hv. þm. talaði um 2,5, að hvert starf í álverksmiðju kynni að skapa 2,5 störf ef ég heyrði það rétt. Og það er alveg rétt, þetta hefur sums staðar komið fram. Gerð var skýrsla um þetta um 1990, ef ég man rétt, en þar voru þessar tölur mjög á reiki, allt frá einu upp í 2,5 afleidd störf.

Ástæðan fyrir því að ég kom í pontu var hugljúf hugleiðing hv. þingmanns um samfélag manna sem honum er greinilega afskaplega umhugað um. Og nú spyr ég hv. þingmann: Mun hann styðja þingmál Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um að þjóðinni verði gefið færi á því að kjósa um þetta afdrifaríka mál í þjóðaratkvæðagreiðslu?