Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 18:46:02 (3122)

2003-01-28 18:46:02# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[18:46]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég vil vegna þess sem hv. þm. sagði taka fram að mjög hörð krafa var um það utan af landi og frá mörgum stöðum að krefjast þess að álver risi í þeim fjórðungi þar sem þeir voru þingmenn fyrir kosningarnar 1991 og það er rétt. Ég hygg líka eins og fram kom að við vorum sammála um að þá hafi verið orðið svo brýnt að við öfluðum meiri gjaldeyris að allir gerðu sér grein fyrir, eða flestir, nauðsyn þess að ráðist í mikla virkjun og stóriðju í tengslum við hana, einmitt á þeim tíma. Ég minnist þess að á þeim tíma var haldinn fundur á Akureyri þar sem frambjóðendur voru um það spurðir hvort þeir mundu greiða atkvæði með stóriðju annars staðar en á Akureyri ef til kæmi og ég hygg að ég hafi verið eini þingmaðurinn sem sagðist mundi gera það því hungur okkar eftir gjaldeyri væri orðið svo mikið að við yrðum að seðja það og við það yrði að sitja ef ekki næðist samkomulag um stóriðju við Eyjafjörð heldur yrði annað farið.

Ég hlýt líka að árétta þá skoðun mína af þessu tilefni að landsbyggðarmenn eiga að standa fast um það að verksmiðjurnar, stóriðjufyrirtækin, rísi sem næst þeim stöðum þar sem virkjað er, en ekki sé farið með alla orkuna hingað til Reykjavíkur, enda hefur það mikið orkutap í för með sér. Það er athyglisvert í ljósi þess hvernig þessi mál hafa verið rædd og eins og fram kom í ræðu hv. þm. að álver við Reyðarfjörð skapar fleiri störf í Reykjavík heldur en á Austurlandi. Það er kannski kjarni málsins sem sýnir að þetta er mál allrar þjóðarinnar en ekki einstakra byggðarlaga.