Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 22:50:03 (3141)

2003-01-28 22:50:03# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[22:50]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það liggur fyrir að mannkynið hefur sífellt meiri þörf fyrir ál af þeim ástæðum sem ég nefndi. Það sparar orku. Þetta er léttur málmur sem er góður í flugvélar sem við bæði, ég og hv. þm. höfum notað eins og flestir Íslendingar. Það er því mikil og vaxandi þörf fyrir ál.

Hins vegar er rafmagn í þeim álverum sem menn ætla að fara út í núna að mestu leyti framleitt með brennslu jarðefna eða kjarnorku. Þó að mikið vatnsafl sé enn óvirkjað er enn meira af kolum og olíu og gasi ónotað til þessara þarfa. Allar spár ganga út á að þetta hlutfall, 20% vatnsafls á móti 80% brennsluefnis og kjarnorku, breytist ekkert verulega á næstu áratugum. Áfram mun því framleitt ál með brennslu jarðefna á næstu árum. Sú aukning sem þarf verður að mestu leyti knúin brennslu jarðefna. Það er alveg sama þó að okkar hlutur sé lítill. Samt sem áður ber okkur skylda til að framleiða ál. Þetta er enginn áróður sem ég hef hlustað á. Þetta er nokkuð sem mér datt í hug fyrir löngu og ég sagði í ræðu um leið og farið var að ræða um þessa virkjun og aðrar virkjanir.