Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 22:58:21 (3146)

2003-01-28 22:58:21# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[22:58]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er að vísu þannig með álið, svo að öllu sé til haga haldið og því sé sýnd full sanngirni, að þegar það er endurunnið þá tekur það ekki nema brot af þeirri orku sem þarf upphaflega til að bræða það og umbreyta því úr hrááli. Þar telja menn hins vegar að þróunin sé nokkurn veginn komin á endastöð. Það hafa orðið framfarir með íblöndun í álefni á undanförnum árum og áratugum en flestir telja að þar verði ekki öllu lengra gengið. Í leitinni að nýjum og sterkari efnum, ofurefnum, er álið horfið út úr myndinni.

Svo að ég létti áhyggjum af hv. þm. varðandi plastið eru menn líka á fullri ferð í að þróa m.a. endurvinnsluaðferðir á plasti. Ég hygg að hv. þm. þekki t.d. mjög vel eitt efni sem er endurunnið plast, það er kallað flís og er að ryðja ýmsum öðrum einangrunarefnum, m.a. í skjólfatnaði, út af borðinu.

Ég held að það sé ákaflega hættulegt að einblína á gamlar kenningar um að af því að ál sé létt þá hljóti það að sigra í samkeppninni í iðnaði og það verði endalaust vaxandi þörf fyrir það. Það er umdeilanlegt. Það er í öðru lagi mjög umdeilanlegt að rétt sé að segja að ál sé umhverfisvænn málmur vegna þess hvernig hann kemur inn í orkuútreikningana. Síðan er þróunin eins og raun ber vitni í öðrum greinum.

Varðandi framlagið til gróðurhúsaáhrifanna og að við séum einnig að leggja af mörkum í þeim efnum þá eru þeir útreikningar nú svona og svona, sem ólíklegustu menn blanda sér í, m.a. með blaðaskrifum. Það er eins og menn viti t.d. ekki af Kyoto-bókuninni, að öll þau lönd sem verða bundin af ákvæðum hennar og ætluðu að auka álframleiðslu, verða að kaupa losunarkvóta út á móti. Það mundi ekki auka heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í þeim löndum. (Forseti hringir.) Í þróunarlöndunum eru álver fyrst og fremst reist við vatnsorkuver þannig að ekki breytir það heldur dæminu.