2003-01-29 00:04:45# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[24:04]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég segi bara það að ef starfshópi um gerð rammaáætlunar yrði nú gert að gangast inn á þá hugmyndafræði að umhverfisspjöllin séu ásættanleg, bara ef aflið sem kemur úr viðkomandi virkjun sé nógu mikið, eða kannski, sem væri náskylt, að segja sem svo: Ef framkvæmdin er bara nógu hagkvæm eru umhverfisáhrifin réttlætanleg, geta menn eins sleppt þessu. Þá væru menn algerlega að leggja á þetta efnishlaðinn mælikvarða og horfa fram hjá því að verðmæti náttúrugersema geti verið algilt og eitthvað sem menn leggja ekki efnislegan mælikvarða á. Þannig nálgast ég þetta.

Ég held að á bak við lúri grundvallarágreiningur um það hvernig menn nálgast þessi mál. Það er kannski það sem ég varð fyrir vonbrigðum með, að glöggur maður eins og Þorkell Helgason skuli í tilraunum sínum til að verja þessa virkjanastefnu sem núverandi stjórnvöld eru að knýja fram fara út í slíkt. Þá er ósköp einfaldlega verið að leggja hagkvæmnis- eða efnisgilda mælikvarða yfir allt sem heitir umhverfisvernd eins og þetta sé bara reikningsdæmi, ekkert annað, ískalt reikningsdæmi. Og hvar endum við í þeirri röksemdafærslu? Jú, við endum auðvitað þannig að við virkjum líka Gullfoss ef það er nógu hagkvæmt, ef það er nógu stór virkjun til þess að réttlæta það að þessi þó annars fallegi foss hverfi. Það er þetta sem mér finnst að við verðum að ræða og takast á um.

Af þessum ástæðum hafna ég algjörlega tilraunum til að gera lítið úr niðurstöðu rammaáætlunarhópsins sem setti Kárahnjúkavirkjun efst á listann yfir verstu kostina.