2003-01-29 00:07:00# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[24:07]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað eru það útúrsnúningar hjá hv. þingmanni þegar hann talar um að virkja Gullfoss og þar fram eftir götunum. Hins vegar er rammaáætlun unnin þannig að allir kostir eru skoðaðir. Þess vegna þýðir ekki að koma upp í ræðustól á Alþingi og segja að vegna þess að verið sé að skoða t.d. Jökulsá á Fjöllum sé meiningin að virkja Dettifoss. Þetta eru útúrsnúningar.

En, hæstv. forseti, ég vildi gjarnan fá að eiga síðasta orðið hér í 1. umr. og kannski tekst mér það með því að koma núna í ræðustól. Ég vil þá endurtaka að ég þakka þessa umræðu. Nú hefst nefndarstarf, þessu máli verður vísað væntanlega á morgun til iðnn. Nefndarstarfið er mikilvægt, þar er farið meira í smáatriði og reynt að svara öllum þeim spurningum sem kunna að koma upp hjá hv. þingmönnum í nefndinni. Ég vona að það starf gangi vel þannig að ekki verði margar vikur þar til allir endar verði bundnir og við getum skrifað undir samkomulag um það að fara í þessa gríðarlega mikilvægu framkvæmd fyrir íslenskt samfélag.