Endurgreiðsla virðisaukaskatts hjá heilbrigðisstofnunum

Miðvikudaginn 29. janúar 2003, kl. 14:05:13 (3167)

2003-01-29 14:05:13# 128. lþ. 67.3 fundur 503. mál: #A endurgreiðsla virðisaukaskatts hjá heilbrigðisstofnunum# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 128. lþ.

[14:05]

Fyrirspyrjandi (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir þetta svar sem mér finnst ekki svara alveg spurningu minni. Mér finnst að það þurfi að ríkja ákveðin sanngirni í þessum málum. Það er alveg ljóst að Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands hefur margoft sótt um til skattyfirvalda að fá leiðréttingu á þessum málum, m.a. vegna þess að svipaðar stofnanir, t.d. jafnágæt stofnun og Reykjalundur, önnur stofnun sem heitir Eir, enn önnur sem heitir Ás o.s.frv., allt eru þetta sjálfseignarstofnanir, vel reknar og myndarlegar, þessar stofnanir fá virðisaukaskattinn endurgreiddan. Þess vegna er í raun og veru engin sanngirni í því að Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands skuli ekki fá endurgreiddan virðisaukaskatt. Eins og ég sagði, herra forseti, í upphafi máls míns standa yfir heilmiklar endurbyggingar hjá heilsustofnuninni í Hveragerði, nú er verið að byggja endurhæfingarhús, baðhús og þess háttar. Einnig er verið að taka í notkun ný tölvukerfi og þess vegna er mjög ósanngjarnt, afar ósanngjarnt, að þessi stofnun skuli ekki fá endurgreiddan virðisaukaskatt eins og aðrar stofnanir sem svipar mjög til þessarar.

Eins og ég segi hefur margreynt á þetta og ég skora á hæstv. ráðherra að endurskoða þessi mál. Eins og fram kom reyndar í svari hans getum við látið á það reyna með tvennum hætti, annars vegar að sækja enn einu sinni um það að heilsustofnunin fái endurgreiddan virðisaukaskatt í gegnum skattyfirvöld og hins vegar að breyta lögum en mér finnst mjög brýnt að stofnanir sem starfa á svipuðum grunni vinni eftir sömu leikreglum.