Varnir gegn mengun sjávar

Miðvikudaginn 29. janúar 2003, kl. 14:35:25 (3178)

2003-01-29 14:35:25# 128. lþ. 68.2 fundur 53. mál: #A varnir gegn mengun sjávar# (förgun skipa og loftfara) frv., Flm. EKG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 128. lþ.

[14:35]

Flm. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 32/1986, um varnir gegn mengun sjávar, með síðari breytingum. Flutningsmaður ásamt mér er hv. þm. Kristján Pálsson.

Málið sem hér um ræðir er mjög mikið hagsmunamál. Í fyrsta lagi hagsmunamál eigenda hafnanna í landinu, þ.e. sveitarfélaganna, en einnig mikið hagsmunamál útgerða í landinu eins og ég mun færa rök fyrir síðar í máli mínu.

Frv. gengur út á að opna á bráðabirgðaákvæði sem hefði í för með sér að hægt væri að sökkva ónýtum skipum, svokölluðum reiðileysisskipum, að sjálfsögðu eftir að búið væri að tæma þau af mengandi efnum og nýta þannig heimild sem er til staðar í svonefndu OSPAR-samkomulagi, Osló/París-samkomulagi, um verndun Norðaustur-Atlantshafsins sem undirritað var í París 30. september 1992 og tók gildi 25. mars 1998. Þannig er mál með vexti að það mun hafa verið ætlun hæstv. þáv. umhvrh. að hafa þessa heimild í lögum, að hægt væri að farga þessum ónýtu skipum eins og OSPAR-samkomulagið gerði ráð fyrir og aðrar þjóðir eru að nýta sér. Þannig var þetta í frv. á sínum tíma en Alþingi ákvað hins vegar að fella brott þessa heimild án þess að það væri rökstutt með nokkrum hætti í nefndaráliti.

Sá sem hér stendur hefur ábyggilega greitt þessari breytingu atkvæði sitt illu heilli á sínum tíma og er nú að leggja fram frv. til að reyna að leiðrétta það sem ég tel að hafi verið mistök og yfirsjón Alþingis að þessu leyti. Það er einfaldlega þannig að það eru engin sérstök rök fyrir því að koma í veg fyrir að menn geti fargað þessum skipum. Þessi skip valda eigendum hafnanna kostnaði, þ.e. sveitarfélögunum, og einnig útgerðum til lengri og skemmri tíma.

Hér er ekki verið að leggja til að fara illa með náttúruauðlindir. Hér er ekki lagt til að standa fyrir mengandi úrræðum, öðru nær. Eins og fram kemur í greinargerð sem fylgir þessu frv. gerum við flutningsmenn ráð fyrir að sett verði sérstök reglugerð á grundvelli þessarar lagabreytingar þar sem ráðherra skikki menn til að tæma þessi skip af öllum mengandi efnum, t.d. olíu, glussa og rafgeymum þannig að hægt sé að sökkva þeim í sjó án þess að valda neinum skaða. Það er auðvitað eðlilegt að gera þetta með þeim hætti að fundin sé slóð þar sem þessum skipum sé sökkt án þess að það valdi hættu fyrir sjófarendur. Það er auðvitað auðvelt að koma þessu þannig fyrir að það skapi enga hættu ef vel er að verki staðið og þetta gert með skipulegum hætti.

Það eru auðvitað engin sérstök rök fyrir okkur Íslendinga að haga þessum málum öðruvísi en hjá öðrum þjóðum. Aðrar þjóðir gera þetta þannig og hafa slíka heimild, t.d. Norðmenn og auðvitað eru engin sérstök rök fyrir okkur að vinna öðruvísi að málum.

Þetta mál hefur vakið allmikla athygli. Ég hef orðið var við það eftir að það var flutt á sínum tíma. Margir hafa haft við mig samband og rætt þessi mál við mig. Við höfum fengið alls konar athyglisverðar hugmyndir. Um daginn hringdi í mig gamall sjómaður sem sagði frá því að sú hugmynd hefði einu sinni komið upp að þessum skipum yrði sökkt í kringum Kolbeinsey og hún varin þannig. Nú veit ég ekki hvort það er raunhæf hugmynd. Síðan hafa haft samband við mig atvinnukafarar og áhugakafarar sem sjá þarna möguleika á að búa til spennandi köfunarsvæði sem fiskur mundi laðast að o.s.frv. Þannig hafa mjög margir áhuga á þessu máli og sjá í því möguleika sem sjálfsagt er að skoða og reyna að vinna úr.

Stóra málið er hins vegar að í dag liggja fjölmörg skip í höfnum landsins. Eftir þær breytingar sem gerðar hafa verið á lögum um stjórn fiskveiða, sem allir þekkja, hefur þróunin fremur verið í þá átt að þessum skipum hafi fjölgað. Árið 2000 gerði Hafnasamband sveitarfélaga sérstaka könnun á ástandinu og komst að því að á þeim tíma lágu 158 bátar og skip óhreyfð í höfnum landsins. Í þessum skipum eru um 70 þús. tonn af járni. Nú vil ég taka mjög skýrt fram að því fer fjarri að skipin séu öll reiðileysisskip. Það getur verið að þetta sé tímabundið ástand. Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því að þessi skip liggja óhreyfð í höfnum landsins og engin ástæða til að draga þá ályktun að þessi skip séu reiðuleysisskip sem eigi að sökkva í sæ, því fer alveg víðs fjarri. En ýmis þessara skipa eru í þeirri stöðu og ástæðan fyrir því að þau liggja í höfninni er sú að menn hafa ekki önnur úrræði. Kostnaðurinn við förgun þeirra er að öðru leyti of mikill til þess að það sé talið borga sig.

Ef við leikum okkur aðeins með tölur, eins og gert var í athyglisverðri grein og úttekt á þessu máli sem Helgi Mar Árnason gerði í Morgunblaðinu 9. janúar sl., er það þannig að kostnaður við förgun stálskipa er nú talinn um 15 þús. kr. á tonnið. Kostnaður við förgun þeirra skipa sem ég nefndi áðan, ég ítreka hins vegar að þau eru ekki öll reiðuleysisskip, væri rúmlega milljarður kr. Það mundi kosta 4,5 millj. að farga 300 tonna skipi og þar fram eftir götunum. Við vitum að miðað við það skipaverð sem er í dag þá er þetta nálægt markaðsvirði skipa sem verið er að selja í landinu.

Ef við horfum á þetta út frá sjónarhóli hafnanna taka þessi skip mjög dýrmæt viðlegupláss. Við sem þekkjum til hafna landsins vitum að þessum skipum er komið fyrir þar sem kyrrðin er mest í viðlegunni og það er eðlilegt. Þessi skip eru oft og tíðum þannig að þeim er ekki sinnt daglega og þess vegna er mikilvægt að staðsetja þau þannig að þau þurfi ekki mikið eftirlit. Hins vegar taka þau oft og tíðum dýrmætt og þægilegt viðlegupláss. Kostnaðurinn við slíkar fjárfestingar í höfnunum er yfirleitt heilmikill. Talið er að kostnaður við gerð viðlegukanta sé á bilinu 1,2--1,3 millj kr. hver metri. Ef þau 158 skip sem hér um ræðir frá árinu 2000 lægju hvert fram af öðru tækju þau upp 5 km viðlegurými eða 2--3 km ef þau lægju hvert utan á öðru. Þetta eru auðvitað dálítið ónákvæmar tölur en, svo ég haldi aðeins áfram að leika mér með tölur, miðað við að þau lægju þarna hvert utan á öðru væri fjárfestingin við það pláss upp á 2--2,5 milljarða kr. í höfnunum, sem er fjárbindingin.

Það er ljóst að þetta ástand getur ekki varað lengi. Það hafa komið upp erfið atvik þar sem menn hafa lent í að skip hafi sokkið. Í Hafnarfjarðarhöfn tek ég dæmi af bát sem sökk þar í júní árið 1999 og hafði þá legið 6 ár í höfninni án þess að af honum væri borgaður fimmeyringur til hafnarinnar. Kostnaðurinn við að ná honum á þurrt var 2--3 millj. kr. Þetta er auðvitað óviðunandi ástand og þess vegna hafa verið uppi ýmsar hugmyndir um hvernig ætti að leysa þetta. Allar þær hugmyndir stranda hins vegar á því að einhver þarf að borga kostnaðinn að lokum. Það hafa verið nefnd alls konar skilagjöld sem mundu leggjast á útgerðina. Á það er örugglega ekki bætandi. Þess vegna er langsamlega eðlilegast, virðulegi forseti, að reyna að taka þennan kúf af, þennan vanda sem er til staðar, reyna að minnka hann áður en menn fara inn í það ástand sem OSPAR-samkomulagið kveður á um og hefst í lok ársins 2004. Ég tel að það væri eðlilegt að þetta þing afgreiddi mál þetta þannig að við gætum dregið úr þessum vanda og búið okkur undir það ástand sem skapast árið 2005.

Þess vegna er mjög mikilvægt, virðulegi forseti, að mínu mati að þetta mál verði afgreitt og lögfest á þessu þingi og hafnirnar og eigendur skipanna geti farið að vinna eftir þessum lögum og minnkað þennan kúf, þetta vandamál sem er til staðar í landinu.