Hugmyndir um virkjun að fjallabaki

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 10:37:22 (3208)

2003-01-30 10:37:22# 128. lþ. 69.91 fundur 391#B hugmyndir um virkjun að fjallabaki# (aths. um störf þingsins), KolH
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[10:37]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hér er alveg tilefni til þess að fjalla um þetta mál og það er satt að segja skömm að hæstv. ráðherra skuli ekki geta svarað á öllu beinskeyttari hátt en hún gerði hér áðan, að það skuli eingöngu rætt um að engar ákvarðanir hafi verði teknar.

Herra forseti. Við erum hætt að treysta hæstv. iðnrh. varðandi þetta og við erum hætt að treysta Landsvirkjun sem veður um eins og hún eigi landið, hvort sem það eru friðlönd eða ekki friðlönd. Ég spyr hæstv. ríkisstjórn: Hvers virði er friðlýsing? Ef hervirki Landsvirkjunar eiga fyrst og fremst að þurfa að vera á friðlýstum svæðum spyr ég, og ég krefst svara: Hvers virði er í hugum þessarar ríkisstjórnar friðlýsing á landi? Ég spyr hæstv. iðnrh.: Hvernig væri nú að fara að setja einhverja alvöruorku í að búa til rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, eða hafa öll hennar orð um þá áætlun verið orðin tóm og hjóm eitt? Á ekki að efna neitt af þessum loforðum sem einu sinni voru gefin hér úr þessum ræðustóli um að setja einhverja sátt á með því að búa til rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma? Landsvirkjun dregur vagn hæstv. iðnrh., og iðnrh. getur ekki svarið af sér þær gerðir Landsvirkjunar sem nú standa fyrir dyrum. (Gripið fram í: Hún stjórnar ...) Ætlar hæstv. iðnrh. að láta þessa valdníðslu viðgangast?

Herra forseti. Mér sýnist að hér stefni í eins konar Klondike, í mikið gullæði, og mér sýnist í ljósi þess frv. til raforkulaga sem við munum ræða á eftir að full ástæða sé til að draga fram í dagsljósið auðlindirnar í hafinu. Þar urðum við vitni að því að fyrstir fengu sem fyrstir komu. Nákvæmlega sama virðist vera uppi á teningnum núna í orkuauðlindunum. Fyrstir koma, fyrstir fá. Kapphlaupið er hafið. Landsvirkjun leiðir Klondike-kapphlaupið með stuðningi hæstv. iðnrh.