Íslenskar orkurannsóknir

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 16:26:37 (3264)

2003-01-30 16:26:37# 128. lþ. 69.5 fundur 545. mál: #A Íslenskar orkurannsóknir# frv., iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[16:26]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um Íslenskar orkurannsóknir, 545. máli á þskj. 892.

Í frv. er lagt til að sett verði á fót sjálfstæð stofnun er beri heitið Íslenskar orkurannsóknir sem fari með það hlutverk sem rannsóknasvið Orkustofnunar fer með nú. Er frv. að miklu leyti byggt á skýrslu nefndar sem skipuð var af iðnrh. í júní 2001 til að yfirfara skipulag Orkustofnunar með hliðsjón af því aukna stjórnsýsluhlutverki sem stofnuninni hefur verið falið með nýjum lögum á undanförnum árum og auknu stjórnsýsluhlutverki hennar samkvæmt frv. til raforkulaga. Var nefndinni falið að koma með tillögur um framtíðarskipulag stofnunarinnar.

Frv. til laga um Orkustofnun hefur verið kynnt á þskj. 891. Í athugasemdum við það frv. er gerð grein fyrir núverandi skipulagi Orkustofnunar, þeim hagsmunaárekstrum sem kunna að verða í núverandi starfsemi Orkustofnunar og þeim breytingum á skipulagi stofnunarinnar sem lagt er til að gera svo komast megi hjá hagsmunaárekstrum. Um þessi atriði vísast að mestu leyti til þeirrar umfjöllunar.

Eins og nánari grein er gerð fyrir í frumvarpi til laga um Orkustofnun komst nefndin að þeirri niðurstöðu að hagsmunaárekstrar geti orðið í starfsemi Orkustofnunar vegna verkefna sem henni eru falin í gildandi lögum. Þeir felist í því að rannsóknasvið stofnunarinnar veiti á ákveðnu stigi þjónustu og komi að mótun verkefnis sem orkumálasvið stofnunarinnar geti á seinni stigum þurft að veita stjórnvöldum umsögn um. Nefndin telur að í þessu sambandi geti vaknað spurning um hvort starfsmenn orkumálasviðs geti talist óhlutdrægir til þess að veita umsögn um störf samstarfsmanna sinna á rannsóknasviði.

Í frv. til raforkulaga sem mælt hefur verið fyrir hér í dag er Orkustofnun ætlað víðtækt eftirlitshlutverk sem sala á þjónustu, rannsóknum og ráðgjöf til orkufyrirtækja fer illa eða alls ekki saman með. En með frv. þessu og frv. til laga um Orkustofnun er brugðist við þessum hagsmunaárekstrum. Lagt er til að rannsóknasvið Orkustofnunar flytjist í sjálfstæða stofnun, Íslenskar orkurannsóknir. Eins og nánar er rakið í frv. til laga um Orkustofnun er ekki lagt til að vatnamælingar tilheyri Íslenskum orkurannsóknum og við það miðað að sem fyrst verði mótuð heildarstefna í vatnafarsrannsóknum.

Mér finnst rétt að það komi fram að ekkert er því til fyrirstöðu að hýsa hinar stofnanirnar áfram á sama stað og nýta sameiginlega þjónustu sem ekki fer í bága við meginmarkmið aðskilnaðarins og er í samræmi við samkeppnissjónarmið. Af því ætti að vera hagræði, að stofnanir ríkisins geti sem mest sameinast um þjónustu.

Herra forseti. Við undirbúning að frv. þessu kom til skoðunar hvort stofna ætti hlutafélög um rannsóknasjóð Orkustofnunar, eða hvort setja ætti á fót stofnun um starfsemina sem væri fjárhagslega sjálfstæð að öllu leyti. Þriðji möguleikinn væri að setja á fót stofnun sem fengi hluta tekna sinna af fjárlögum. Það var niðurstaða nefndarinnar að eðlilegt væri að rannsóknahlutinn yrði a.m.k. fyrst um sinn rekinn sem B-hluta stofnun en ekki hlutafélag. Þróun á þeim markaði sem stofnunin starfar á verður svo að leiða í ljós hvort rétt sé að breyta stofnuninni í hlutafélag. Í því sambandi verður að hafa í huga að stofnunin getur þróast og eflst eftir því sem markaðsaðstæður krefjast.

Afar mikilvægt er að Íslenskar orkurannsóknir verði fjárhagslega sjálfstæð stofnun þar sem hún muni starfa á samkeppnismarkaði. Að öðrum kosti er líklegt að þeir hagsmunaárekstrar sem þegar eru fyrir hendi í starfsemi rannsóknasviðs Orkustofnunar verði áfram að einhverju marki fyrir hendi í starfi Íslenskra orkurannsókna.

Ákvörðun um til hvaða orkurannsókna opinberu fé skuli varið verður tekin hjá hinni nýju stjórnsýslustofnun, Orkustofnun, í samræmi við stefnu stjórnvalda um hlutverk ríkisins í orkurannsóknum. Íslenskar orkurannsóknir munu væntanlega eigi að síður áfram sinna opinberum eða samfélagslegum verkefnum á grundvelli langtímaverksamninga við Orkustofnun, að uppfylltum samkeppnislegum skilyrðum auk margháttaðra annarra rannsóknaverkefna sem byggjast á sérhæfðri þekkingu hinnar nýju stofnunar á sviði jarðhitarannsókna.

Hæstv. forseti. Ég hirði ekki um að fjalla um einstakar greinar og breytingar sem lagt er til að gerðar verði. Ég bendi þó á að í ákv. til brb. er mælt fyrir um að öllum þeim sem starfa á rannsóknasviði Orkustofnunar við gildistöku laganna skuli boðið starf hjá Íslenskum orkurannsóknum þegar rannsóknasvið Orkustofnunar verður lagt niður með nýjum lögum um Orkustofnun. Benda má á að nýlokið er við að endurskipuleggja innra starf rannsóknasviðsins með tilliti til þess að það verði að sjálfstæðri stofnun þannig að breyting sviðsins í stofnunina Íslenskar orkurannsóknir kallar ekki á innri skipulagsbreytingar á starfseminni, m.a. af þeim sökum er unnt að bjóða öllum starfsmönnum sviðsins sambærilegt starf áfram.

Hæstv. forseti. Ég mælist til þess að þessu máli verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. iðnn.