Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 17:18:20 (3278)

2003-01-30 17:18:20# 128. lþ. 69.14 fundur 54. mál: #A almenn hegningarlög# (reynslulausn) frv., Flm. EKG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[17:18]

Flm. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940 sem fjallar um reynslulausn.

Frumvarp þetta var flutt á 127. löggjafarþingi, hlaut ekki afgreiðslu og er þess vegna endurflutt.

Ákvæði um reynslulausn fanga getur að líta í 40. gr. almennu hegningarlaganna en þar segir m.a. að Fangelsismálastofnun ríkisins geti þegar fangi hefur afplánað 2/3 hluta refsitímans ákveðið að hann skuli látinn laus til reynslu. Ef sérstaklega stendur á má þó veita reynslulausn þegar liðinn er helmingur refsitímans. Reynslulausn verður hins vegar ekki veitt ef slíkt þykir óráðlegt vegna haga fangans, enda skal honum vís hentugur samastaður og vinna eða önnur kjör sem nægja honum til framfærslu. Þegar hluti fangelsisrefsingar er óskilorðsbundinn en hluti skilorðsbundinn eða þegar fangi afplánar vararefsingu fésektar verður reynslulausn hins vegar ekki veitt.

Af þessu má ráða að löggjafinn veitir allrúmar heimildir til þess að fangi geti fengið reynslulausn en auk þess hefur myndast sú venjuhelgaða framkvæmd að refsifangar fái nær undantekningarlaust reynslulausn eftir helming eða 2/3 hluta refsitímans svo framarlega sem skilyrðum laganna um reynslulausn er fullnægt. Reynslulausn verður þó ekki veitt þegar hluti fangelsisrefsingar er óskilorðsbundinn en hluti skilorðsbundinn og þegar fangi afplánar vararefsingu fésektar. Að öðru leyti hefur Fangelsismálastofnun rúmar heimildir til þess að veita fanga reynslulausn.

Umboðsmaður Alþingis hefur fjallað um þessi mál og kemst m.a. að þeirri niðurstöðu í máli nr. 2424/1998 að réttarstaða þeirra sem afpláni vararefsingu fésekta sé að öllu jöfnu sú sama og annarra fanga sem sviptir hafa verið frelsi sínu með refsivist. Tilgangur reynslulausnar sé að takmarka andfélagsleg áhrif frelsisskerðingar til lengri tíma og aðstoða fanga í þeim miklu aðlögunarerfiðleikum sem þeirra bíða við lok refsivistar og það geti jafnt átt við um þá menn sem afplána óskilorðsbundinn fangelsisdóm og þá sem sviptir eru frelsi sínu vegna ógreiddra fésekta. Þá telur umboðsmaður óeðlilegt að dómur, úrskurður eða sátt um greiðslu fésektar að viðlagðri vararefsingu reynist dómþolum þungbærari ákvörðun en óskilorðsbundin fangelsisrefsing þar sem fésektir séu vægasta tegund refsinga samkvæmt lögunum. Loks telur umboðsmaður verulegan vafa leika á því að fært sé að útiloka fanga sem afplánaði vararefsingu fésekta og fullnægði að öðru leyti skilyrðum laganna frá möguleika á reynslulausn sökum þess að hann gæti stytt afplánunartíma sinn ef hann hefði til þess fjárhagslegt bolmagn.

Af þessu má sjá, virðulegi forseti, að klárlega er verið að mismuna föngum eftir efnahag þeirra. Einfaldlega er um það að ræða að ef maður er dæmdur til refsingar sem í fyrsta lagi er férefsing og hann getur ekki staðið straum af henni og verður þess vegna að fara í fangelsi þá hefur hann ekki möguleika á því að fá reynslulausn. Maður sem hins vegar er dæmdur beint í fangelsi hefur þann möguleika. Svo kann þess vegna að fara ef maður sem hefur verið dæmdur upphaflega í fésekt og síðan til vararefsingar í fangelsi til þriggja mánaða, en annar sem dæmdur er fyrir alvarlegra brot til fimm mánaða fangelsisvistar, að sá sem vegna bágs efnahags getur ekki greitt fésekt sína og verður þess vegna að afplána fangelsi þurfi að sitja inni í þrjá mánuði, en sá sem hefur fengið dóm vegna alvarlegra brots til fimm mánaða situr inni í tvo og hálfan mánuð.

Þetta er náttúrlega hróplegt óréttlæti og með þessari framkvæmd er greinilega verið að mismuna mönnum gagnvart lögunum á grundvelli efnahags þeirra. Fátæki maðurinn verður að sæta afplánun refsingar, sá sem hefur rýmri fjárhag borgar fyrir það að vera utan fangelsis. Og það er auðvitað augljóst mál að frelsi manna er ómetanlegt. Allir þeir sem eru í þessari stöðu hljóta auðvitað að kjósa frelsið umfram ófrelsið og leggja sig fram um það að greiða þar af leiðandi sektir sínar. En eins og við höfum verið að þróa löggjöfina hér á hinu háa Alþingi hafa sektir til að mynda verið að hækka, ég tek sem dæmi efnahagslagabrot eða vangreiðslu á ýmsum opinberum gjöldum, að sú staða getur mjög auðveldlega komið upp hjá aðilum sem eru í þeirri aðstöðu að þurfa að sæta fangelsisvist, að þeir hafi ekki möguleika á því að fá reynslulausn. En sá sem til að mynda er sekur um alvarlegan ofbeldisglæp, nauðgun, morð, líkamsárás, hann hefur þann möguleika umfram hinn friðsama mann sem hefur hins vegar orðið á að brjóta af sér á grundvelli efnahagslagabrots og hefur fengið alvarlega fésekt og ekki getað staðið straum af því. Það er einungis sá sem hefur meira á milli handanna sem hefur þetta val, hinn ekki.

Virðulegi forseti. Þetta er að mínu mati algjörlega óviðunandi ástand og Alþingi getur ekki horft upp á það að svona óréttlæti á grundvelli efnahags sé við lýði. Þess vegna, virðulegi forseti, hvet ég til þess að þetta mál verði afgreitt nú fyrir vordaga þannig að hætt verði að mismuna mönnum svona gagnvart lögum að þessu leytinu á grundvelli efnahags.