Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 20:50:18 (3422)

2003-02-04 20:50:18# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[20:50]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Þetta svar er með miklum ólíkindum. Hér kemur alveg ótrúlega ábyrgðarlaust svar frá hæstv. ráðherra.

Í þessari þáltill. er sundurliðað fjármagn til jarðganga sérstaklega: 1,2 milljarðar 2003, 1,5 á árinu 2004, 2,2 2005 og 1,5 árið 2006, alls 6,4 milljarðar. Síðan er gert ráð fyrir 5 milljörðum á árabilinu 2007--2010 og 2 milljörðum 2011--2014. Þarna er horft langt fram í tímann.

En hæstv. ráðherra horfir ekki langt fram í tímann fyrir hönd ríkisstjórnarinnar eða þjóðarinnar. Hann segir einfaldlega: Við ætlum bara að selja eitthvað, selja einhverjar ríkiseignir til að eiga peninga til að standa straum af þessum kostnaði. Með öðrum orðum er hann að bjóða okkur upp á þá almennu pólitísku stefnu að ráðstafa eignum þjóðarinnar upp í þetta framlag. Hann sagði áðan, hæstv. ráðherrann, að þetta yrði fjármagnað með sölu ríkiseigna.

Nú verður hæstv. ráðherra að skýra út fyrir okkur: Hvaða ríkiseignir ætlar hann að selja? Hann kemst ekki upp með svo ódýran málflutning, herra forseti. (Gripið fram í.) Ég er að tala um yfirlýsingar hæstv. ráðherra. Ég kref hann svara um hvaða eignir hann ætlar að selja til þess að standa straum af þessum framkvæmdum.