Gerð neyslustaðals

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 13:38:59 (3445)

2003-02-05 13:38:59# 128. lþ. 73.1 fundur 500. mál: #A gerð neyslustaðals# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[13:38]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Vegna þessarar fyrstu fyrirspurnar vil ég nefna að í framhaldi af viðræðum ríkisstjórnarinnar við fulltrúa Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins vorið 2001 um forsendur kjarasamninga var m.a. ákveðið að fjmrh. mundi skipa nefnd með aðild Alþýðusambandsins, ráðuneytisins og Þjóðhagsstofnunar og hinn 3. ágúst það ár skipaði fjmrh. nefnd undir forustu Bolla Þórs Bollasonar skrifstofustjóra. Hlutverk hennar var að kanna kosti og galla þess að taka upp fjölþrepatekjuskatt hjá einstaklingum og einnig var nefndinni falið að kanna forsendur þess að vinna upplýsingar um viðmiðunarreglur fyrir mismunandi fjölskyldur sem nota má m.a. við útreikning á greiðslubyrði og félagslegum bótum og við mat á breytingum á skatt- og bótakerfi. Þar sem efni framangreindrar ályktunar og hlutverk ofangreindrar nefndar um fjölþrepaskatt og viðmiðunarneyslu skarast svo mjög var ekki talin nauðsyn á því að stofna sérstaka nefnd á vegum forsrn. um neyslustaðal. Nefndin um fjölþrepaskatt er að leggja lokahönd á vinnuna og er skýrsla hennar væntanleg á næstu mánuðum. Nefndinni er þannig ekki ætlað að gera beinar tillögur um hvernig slíkar reglur geta litið út, heldur kanna þörfina, kortleggja hvar slíkar viðmiðanir er helst að finna og skoða hvernig þessu er háttað í helstu nágrannalöndum okkar.

Það er óumdeilt að víða er þörf á viðmiðunarreglum um hvað telja beri viðunandi neyslu eða lífskjör. Hér má einkum nefna Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, Lánasjóð íslenskra námsmanna, Íbúðalánasjóð, félagsþjónustu sveitarfélaga og ýmsar fjármálastofnanir sem veita einstaklingum lán og ráðgjöf. Dómstólar hafa einnig leitað eftir slíkum viðmiðunum, t.d. við úrskurði um meðlagsgreiðslur. Loks má nefna mikilvægi almennrar neytendafræðslu. Allir þessir aðilar hafa notað ákveðin en reyndar mismunandi viðmið. Um þau hefur ekki ríkt sátt og þessar stofnanir hafa því leitað eftir skýrari aðferðum. Enn fremur hefur iðulega verið kallað eftir mati á einhvers konar lágmarksframfærslu í opinberri umræðu eins og menn kannast við. En þótt eftirspurn eftir viðmiðunarreglum um mismunandi neyslu sé mikil er framboð til muna minna sem m.a. má rekja til þeirrar erfiðu skilgreiningarvandamála sem við er að fást og blasa við. Ljóst er að hægt er að setja fram áætlanir um lágmarksneyslu matvæla sem uppfyllir öll skilyrði manneldisráðs um sem lægstan kostnað. Það leysir þó ekki þennan vanda nema að litlu leyti því að bæði er það að í samfélagi okkar er viðunandi matarneysla langt umfram lágmarksþörf og eins er erfitt að beita sömu aðferð við mat á annarri neyslu. Neyslukannanir Hagstofunnar gefa hér takmarkaða leiðsögn enda til þeirra stofnað í allt öðrum tilgangi. Hagstofan mælir þannig meðalneyslu heimila sem hlýtur að taka fyrst og fremst mið af meðaltekjum þeirra en segir lítið um hvaða neysla megi teljast viðunandi og því enn minna um lágmarksneyslu. Samsetning neyslu í könnun Hagstofu er heldur ekki vísbending um samsetningu viðmiðunarneyslu þar sem aukinn kaupmáttur leiðir ekki til aukinna kaupa á öllum vörum heldur beinist kaupmáttarauki samhljóða auknum tekjum gjarnan að neyslu lúxusvara.

Þá má geta þess að beinar neysluviðmiðanir eru ekki til staðar við ákvörðun námsaðstoðar annars staðar á Norðurlöndunum. Þar eins og hér á landi er aðstoðinni fyrst og fremst ætlað að tryggja fjárhagsgrundvöll námsmanna. Ef nauðsyn krefur þurfa þeir að ná endum saman með sjálfsaflafé. Í Danmörku, Finnlandi og Noregi eru t.d. grunnfjárhæðir óháðar verðlagi og mismunandi framfærslukostnaði í þeim löndum sem nám er stundað í. Í Svíþjóð eins og á Íslandi er námsaðstoðin á hinn bóginn háð framfærslukostnaði í hvoru námslandi fyrir sig.

Í Danmörku og Finnlandi eru hámarksfjárhæðir ákveðnar í lögum án nokkurra viðmiðana. Í norskum lögum er markmið aðstoðarinnar að menntunin geti átt sér stað óháð búsetu, aldri, kyni, fjárhagslegum eða félagslegum aðstæðum. Menntmrn. ákveður á þessum grunni fjárhæðir sem veittar eru til framfærslu. Tekið er tillit til helstu kostnaðarþátta og þróunar verðlags. Um beinar neysluviðmiðanir er þó ekki að ræða. Í Svíþjóð taka grunnfjárhæðir árlegum breytingum í samráði við tilgreindar fjárhæðir í sænsku almannatryggingalögunum.

Varðandi 2. spurningu er ástæða til að bíða eftir niðurstöðu nefndarinnar sem ég áðan gat um áður en ákvörðun er tekin um samræmingu á neysluviðmiðunum. Vafalaust kann slík samræming að auðvelda þeim starf sem útdeila fé á félagslegum grundvelli en jafnljóst er að slíkar viðmiðanir gefa aldrei einhlíta niðurstöðu.

Varðandi 3. spurninguna hef ég farið yfir nokkra þá agnúa sem við blasa þegar skilgreina á lágmarksframfærslukostnað. Jafnvel þótt sæmileg sátt takist um slíka skilgreiningu er það þrautin þyngri að tryggja að enginn hafi sér til framfærslu tekjur undir skilgreindum mörkum. Hverjum er ætlað að tryggja slíkt? Ef atvinnulífinu er ætlað það er það á verksviði aðila vinnumarkaðarins við ákvörðun á lágmarkslaunum. Sé hinu opinbera ætlað að tryggja þær tekjur hvílir framfærsluskyldan á herðum sveitarfélaga samkvæmt lögum um félagslega þjónustu sveitarfélaga. Það er því eðlilegt með tilliti til frjáls ákvörðunarréttar sveitarfélaganna að frumkvæði að skilgreiningu á lágmarksframfærslukostnaði eftir fjölskyldustærð komi frá þeim. Það er hins vegar mín skoðun að það skipti miklu að fjárhagslegur stuðningur hins opinbera við fjölskyldur og einstaklinga hafi það að meginmarkmiði að aðstoða viðkomandi til sjálfshjálpar vegna tímabundinna erfiðleika og óvæntra áfalla.