Flutningskostnaður

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 14:30:20 (3471)

2003-02-05 14:30:20# 128. lþ. 73.4 fundur 434. mál: #A flutningskostnaður# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi EKG
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[14:30]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Á undanförnum missirum og jafnvel árum hefur talsvert verið rætt um flutningskostnað þeirra sem búa utan höfuðborgarsvæðisins. Þetta hefur verið rætt að gefnu tilefni. Aðstæður hafa verið að breytast í flutningsmynstri okkar. Við þekkjum að flutningurinn fer ekki lengur fram á sjó heldur á landi. Fyrir því eru margar ástæður. Krafa nútímans er hraði og sveigjanleiki. Þess vegna hefur flutningur smám saman verið að færast frá sjóflutningum til landflutninga. Jafnframt hafa flutningafyrirtækin verið að breyta verðlagningu sinni. Þau hafa lagt á kostnað vegna svokallaðs framhaldsflutnings og allt hefur þetta haft heilmiklar breytingar í för með sér.

Enginn vafi leikur á því að þjónusta við almenning á landsbyggðinni hefur batnað mjög mikið. Ferðir eru tíðari en þær voru áður og við sem búum utan höfuðborgarsvæðisins þekkjum að möguleikarnir á að nýta sér þessa þjónustu eru margfalt meiri en þeir voru áður. Engu að síður er það staðreynd sem allir þekkja að kostnaður við þessa flutninga er oft mjög mikill. Við sjáum að vísu að það er afar mismunandi. Kostnaður við flutning á fiski hefur sennilega lækkað að því leyti að kílóverð hefur verið að lækka vegna mikillar samkeppni. En framhaldsflutningurinn hefur hins vegar gert það að verkum að kostnaðurinn leggst mjög þungt á útgerðir og fiskvinnslufyrirtæki. Við vitum líka, það kemur raunar fram í skýrslu sem kynnt var í gær, að þessi flutningskostnaður er ærið misjafnt. Menn hafa mismunandi möguleika á samningum við flutningafyrirtækin um afslætti og þar fram eftir götunum.

Haustið 2001 fjallaði ríkisstjórnin um þetta mál og í framhaldi af því var ákveðið að hæstv. samgrh. skipaði starfshóp sem skyldi fjalla um almennan flutningskostnað miðað við þarfir atvinnulífsins. Skýrsla þessarar nefndar hefur nú verið kynnt. Hún var kynnt í gær og hefur að mörgu leyti varpað ljósi á það málið sem liggur til grundvallar þessum fyrirspurnum. Engu að síður er ljóst að við þurfum að hyggja ítarlega að þessum málum. Við þurfum fyrst og fremst að velta fyrir okkur hvaða tæki hið opinbera hefur til að stuðla að því að lækka flutningskostnað í landinu. Við vitum að þau hljóta að liggja m.a. í þeim opinberu álögum sem eru á atvinnugreinina, opinberum álögum sem kunna að hafa áhrif á atvinnustarfsemina. Við getum líka hugsað okkur aðferðir sem hvetja til aukinnar samkeppni sem leiðir síðan væntanlega til lækkunar á flutningskostnaði.

Allt eru þetta atriði sem við þurfum að hyggja að og þess vegna hef ég sérstaklega beint sjónum mínum að atriði sem snýr að þungaskattinum og hlut hans sé í flutningskostnaði við landflutninga. Ég hef lagt fyrir hæstv. samgrh. þrjár spurningar sem lúta að þessu máli sem eru á sérstöku þingskjali þar að lútandi.