Flutningskostnaður

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 14:39:02 (3473)

2003-02-05 14:39:02# 128. lþ. 73.4 fundur 434. mál: #A flutningskostnaður# fsp. (til munnl.) frá samgrh., iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[14:39]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það með hæstv. samgrh. að mjög margt athyglisvert kemur fram í þessari skýrslu. Eins og komið hefur fram var hún rædd í ríkisstjórn á föstudaginn var og þar varð niðurstaðan að Byggðastofnun fengi ákveðið hlutverk við frekari vinnslu og tillögugerð.

Ég hef þegar skrifað Byggðastofnun bréf og farið fram á það við stofnunina að hún fari í fyrsta lagi yfir skýrsluna og þær tillögur sem þar eru kynntar með tilliti til aðgerða í byggðamálum. Í öðru lagi hef ég farið fram á að hún meti umfang flutninga atvinnugreina sem talið er að eigi undir högg að sækja. Í þriðja lagi er mælst til að metið verði hver styrkjaþörf gæti verið.

Við erum að vinna hratt að þessu máli og fleiri skýrslugerðir eru í gangi, bæði hvað varðar búsetuskilyrði fólks og eins starfsskilyrði fyrirtækja á landsbyggðinni miðað við höfuðborgarsvæðið. Þær skýrslur eru um það bil að líta dagsins ljós þannig að að ýmsu er að hyggja. En að þessu er unnið í samræmi við byggðaáætlun.