Heilsugæslumál á Suðurnesjum

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 15:01:16 (3483)

2003-02-05 15:01:16# 128. lþ. 73.6 fundur 502. mál: #A heilsugæslumál á Suðurnesjum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[15:01]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. þm. Kristján Pálsson hefur beint til mín spurningum um uppbyggingu heilsugæslunnar á Suðurnesjum. Eins og Alþingi og hv. þingmönnum er kunnugt sögðu heilsugæslulæknar við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja upp störfum sínum á síðasta ári. Tengdist þetta víðtækri deilu eða umræðum um stöðu heilsugæslulækna sem leiddi til þess að ég gaf út yfirlýsingu í lok nóvember þar sem fram kom að ég mundi beita mér fyrir því að kjaraumhverfi heilsugæslulækna yrði flutt frá kjaranefnd og hefðbundinn samningsréttur þess fólks yrði tekinn upp að nýju ef um það kæmi ósk frá heilsugæslulæknum.

Því miður lyktaði þeim málum á þann veg, þrátt fyrir þessa yfirlýsingu, að læknar við heilsugæsluna á Suðurnesjum sóttu ekki um störf sín að nýju þótt þeim byðust kjör þau sem kjaranefnd úrskurðar heilsugæslulæknum um land allt. Í framhaldi af þessu hefur verið leitað ýmissa ráða við að ráða heilsugæslulækna að nýju til Suðurnesja. Hlutverk stofnunarinnar í heild sinni hefur einnig verið til skoðunar en í mínum huga er ekki nokkur vafi á því að almenn heilsugæsla verður grunnþjónusta á Suðurnesjum líkt og annars staðar á landinu en önnur þjónusta stofnunarinnar svo sem almennar skurðlækningar, lyflækningar, barnalækningar og kvensjúkdómar og fæðingarhjálp verður einnig að standa á sterkum stoðum. Uppbygging öldrunar- og hjúkrunarþjónustu er einnig óaðskiljanlegur þáttur í þjónustu stofnunar af þessum toga.

Sem svar við síðustu spurningunni þá hef ég stutt hugmyndir um það að breytilegt rekstrarform gæti komið til greina innan heilsugæslunnar og minni á í því sambandi að nýlega var boðin út á vegum heilbrrn. rekstur nýrrar heilsugæslustöðvar í Salahverfi í Kópavogi. Leiði þetta af sér jákvæða niðurstöðu, sem ég er mjög bjartsýnn á, tel ég alla möguleika opna fyrir því að þetta verði gert víðar um landið, þar með talið á Suðurnesjum. Á sama hátt tel ég aðra rekstrarmöguleika sem samningar nást um vera opna til að bjóða Suðurnesjabúum upp á heilsugæsluþjónustu í anda heilbrigðislaga.

Það er einlæg von mín að nú sem allra fyrst takist að bæta úr núverandi ástandi með ráðningu eða samningum við fleiri heilsugæslulækna og ég tel fulla þörf á því.

Herra forseti. Mér er ljóst að erfitt ástand hefur ríkt á Suðurnesjum um nokkurra vikna skeið vegna uppsagna heilsugæslulækna. Ég tek undir það með hv. fyrirspyrjanda og vil þakka því fólki sem þar hefur unnið í þessum erfiðleikum fyrir þess ágætu störf. Mér er ljóst að álag á það fólk hefur verið mikið. En það er einnig einlæg von mín að úr þessu rætist hið fyrsta og við getum komið heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum í ásættanlegt horf.