Heilsugæslumál á Suðurnesjum

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 15:05:53 (3485)

2003-02-05 15:05:53# 128. lþ. 73.6 fundur 502. mál: #A heilsugæslumál á Suðurnesjum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., DrH
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[15:05]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda Kristjáni Pálssyni fyrir að vekja máls á þessu máli og hæstv. heilbrrh. fyrir svör hans. Þetta er mjög erfið staða og grunnþjónustan verður veik þegar upp koma svona kjaradeilur. Það er nauðsynlegt að heilsugæslan hafi styrkar stoðir og sem grunnþjónusta er hún afar mikilvæg. Eins eru öll þau störf sem fara fram á sjúkrahúsinu mjög mikilvæg og mikilvægt að þau störf haldist í heimabyggð og vonandi næst að halda áfram að manna þessar stöður.

Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans varðandi það að leyfa rekstur stofnana með öðru fyrirkomulagi. Ég held að það skipti líka máli að hafa fjölbreytni í þessum málum. Eins og fram kom hjá honum hefur það verið að gerast annars staðar og ég veit að þessi mál eru í styrkri hendi hæstv. ráðherra.