Heilsugæslumál á Suðurnesjum

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 15:07:09 (3486)

2003-02-05 15:07:09# 128. lþ. 73.6 fundur 502. mál: #A heilsugæslumál á Suðurnesjum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[15:07]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir svörin. Ekki má gleyma því að liðnir eru þrír mánuðir síðan þessi vandamál leiddu til þess að allir læknar gengu út af heilsugæslunni. Þrír mánuðir, þetta er ótrúlega langur tími. Það heyrist ótrúlega lítið um þetta núna miðað við hvað þetta er mikil breyting.

Auðvitað er hægt að bjarga svona málum í stórri stofnun í dálítinn tíma því að það er mikill fjöldi vel menntaðra starfsmanna á þessum stofnunum sem betur fer. Þannig er hægt að hlaða á fólkið um einhvern tíma miklu fleiri störfum og fjölþættari en það hefur gegnt áður. En þetta getur ekki gengið endalaust fyrir sig með þessum hætti.

Ég man eftir fundi sem hæstv. heilbrrh. átti með Suðurnesjamönnum fyrir rúmum tveimur mánuðum. Þar var mikið fjölmenni og hæstv. ráðherra tók þá mjög vel í að reyna að leysa málin og átti fund með læknum þá strax daginn eftir. Samt gerist óskaplega lítið. Ég velti því fyrir mér að þó að góð orð hafi t.d. verið höfð um að ef vel gangi með nýtt rekstrarform í Salahverfi í Kópavogi megi reyna að gera það einhvers staðar annars staðar þá tekur þetta of langan tíma. Ég velti því fyrir mér hvort ráðherra hafi ekki einhver úrræði til þess að grípa inn í með áhrifaríkari hætti þannig að málið megi leysast fyrr en manni sýnist það gera í dag.