Lífeyrisgreiðslur til Íslendinga erlendis

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 15:12:18 (3488)

2003-02-05 15:12:18# 128. lþ. 73.7 fundur 553. mál: #A lífeyrisgreiðslur til Íslendinga erlendis# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[15:12]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn til heilbrrh. um lífeyrisgreiðslur til Íslendinga sem búsettir eru erlendis. Nú er það svo að samkvæmt almannatryggingalögum öðlast menn rétt til ellilífeyris með því að eiga lögheimili á Íslandi ákveðinn árafjölda, fullan ef þeir uppfylla árafjöldann en hlutfallslegan rétt ef þeir flytja héðan áður en þeir eru búnir að uppfylla þennan tíma eða flytja héðan fyrir ellilífeyristöku.

Íslendingar sem búsettir eru erlendis hafa í gegnum tíðina fengið þessar greiðslur ef þeir hafa sótt um þær. Breytingar voru gerðar á lögum um almannatryggingar 1993 þar sem sett var inn ákvæði í lögin, með leyfi forseta:

,,Greiða skal bótaþegum, búsettum í þeim ríkjum sem ríkisstjórn gerir samninga við eða ráðherra hefur samið við með stoð í 64. gr., sömu bætur og viðkomandi hefði átt rétt á hefði hann verið búsettur hér á landi.`` --- Það er sem sagt vísað í samninga til þess að menn eigi rétt á þeim greiðslum.

Nú þegar eru samningar við Bandaríkin, við ríki Evrópska efnahagssvæðisins og Kanada og ef til vill fleiri lönd en Íslendingar sem eru búsettir utan þessara ríkja sem samningar eru við hafa ekki fengið undanfarið þessi áunnu réttindi. Þó virðist vera mismunur á framkvæmdinni. Það gætir þarna ákveðins ójafnræðis. Það er auðvitað verið að mismuna fólki eftir því hvort það býr í ríkjum þar sem samningur hefur verið gerður um greiðslurnar eða ekki. Einnig virðist það vera þannig að sumir í þeim ríkjum sem ekki eru samningar við fá greiðslurnar og aðrir ekki. Ég er með nokkur dæmi um það. Einn Íslendingur sem búsettur er í Ástralíu sótti um ellilífeyrisgreiðslur sínar í sumar, fékk greiðslur í tvo mánuði. Síðan var honum uppálagt af Tryggingastofnun ríkisins að endurgreiða það sem hann hafði fengið greitt þrátt fyrir að ýmsir sem búa þar nálægt honum og eru komnir á ellilífeyrisaldur fái áfram slíkar greiðslur. Ég spyr hæstv. ráðherra vegna þessa:

Eru áform um að gera samninga eða samkomulag við ríki um lífeyrisgreiðslur til Íslendinga búsettra erlendis sem ekki eru samningar við nú?