Efling fjarnáms

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 15:35:49 (3498)

2003-02-05 15:35:49# 128. lþ. 73.9 fundur 534. mál: #A efling fjarnáms# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[15:35]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Ég vil geta þess að umkvartanir hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar um að námstilboð séu ekki til fyrir atvinnulausa er byggt á misskilningi. Hann tekur ekki tillit til þess að búið er að vera að byggja fjarnámið upp af miklum krafti á undanförnum árum þannig að akkúrat það sem hann er að biðja um að verði gert hefur þegar verið gert. Námstilboð fyrir einmitt atvinnulausa hefur aldrei verið eins mikið og núna og það eru skólarnir sjálfir og símenntunarmiðstöðvarnar sem hafa tekið þetta að sér og gera það með miklum sóma. Aldrei fyrr í sögu íslenska skólakerfisins hefur annað eins framboð af námi verið til eins og nú. Það er tilgangslaust að vera að kvarta undan því sem hefur þegar verið gert. Menn eiga miklu frekar að viðurkenna það eins og raunar hv. þm. Karl V. Matthíasson viðurkenndi hér áðan og það var heiðarlegt af hans hálfu.

Að því er varðar kostnaðinn, þá er hægt að fara yfir stöðuna um hann en ég verð að benda á að í fyrirspurn hv. þm. var ekki minnst á þann lið. Það markar því nokkra sérstöðu að þegar hann reifar mál sitt hér talar hann aðallega um kostnaðinn en hann gleymdi því í fyrirspurninni. Það er sjálfgert, ef hv. þm. vill spyrjast fyrir um þann lið málsins, þá er hægt að svara honum.