Úrskurður ráðherra um Norðlingaölduveitu

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 15:57:56 (3505)

2003-02-05 15:57:56# 128. lþ. 73.95 fundur 407#B úrskurður ráðherra um Norðlingaölduveitu# (umræður utan dagskrár), MS
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[15:57]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Úrskurður hæstv. setts umhvrh. Jóns Kristjánssonar um Norðlingaölduveitu er um margt markverður og hann er vegsauki fyrir hann og samstarfsmenn hans. Það sem stendur upp úr með þessum úrskurði er einkum þrennt:

1. Við getum nýtt þá náttúrulegu auðlind sem felst í vatnsöflun svæðisins.

2. Niðurstaðan mun væntanlega tryggja áframhaldandi uppbyggingu atvinnulífs í Hvalfirði með stækkun Norðuráls.

3. Mörk friðlands Þjórsárvera eru virt, sérstæð og viðkvæm náttúra svæðisins er vernduð og fyrirhugaðar framkvæmdir brjóta ekki gegn alþjóðlegum samningum sem svæðinu tengjast.

Með þessu er verið að sætta sjónarmið um nýtingu náttúruauðlinda og verndun náttúrufars og dýralífs. Úrskurðurinn er því um margt til fyrirmyndar.

En eftir sem áður berja vinstri grænir áfram höfðinu við steininn. Eins og í flestum öðrum málum eru þeir á móti niðurstöðunni. Þeir horfa á málið út frá þröngu sjónarhorni andstöðu og kyrrstöðu á öllum sviðum. Þeir leita logandi ljósi að hálmstráum til að hanga á til röksemda gegn málinu en eftir stendur aðeins það að þeir eru eins og fúll á móti og ætla sér sem fyrr að vera á móti. Þeir hafa lýst því yfir að úrskurðurinn valdi miklum vonbrigðum.

Afstaða þeirra í þessu máli er skýrt dæmi um að þeim flokki er ekki treystandi fyrir framförum og hagsæld þjóðarinnar. Leiðtogi Vinstri grænna hélt því fram um daginn að úrskurðurinn væri óskaplega framsóknarlegur. Ég tek undir það með stolti því að það er einmitt eitt af einkennum framsóknarmanna að hafna öfgum en leita leiða til lausna og sætta ólík sjónarmið. Þetta mál er lýsandi dæmi um slíkt og sýnir í reynd hve vel framsóknarmönnum er treystandi til þess að leiða saman ólík sjónarmið og laða fram lausnir með hagsmuni sem flestra að leiðarljósi. Það er ástæða til að þakka leiðtoganum fyrir að vekja athygli á kostum framsóknarmennskunnar.

Herra forseti. Ég lýsi yfir ánægju með þá niðurstöðu sem hér liggur fyrir og þeirri von að hún verði landi og þjóð til hagsældar og framfara í komandi framtíð.